Færslur: 2014 Júní

30.06.2014 11:50

Mikið líf

Það er búið að vera mikið um að vera á æfingasvæðinu um helgina.  Nokkrir hópar hafa komið til að skjóta leirdúfur, mikil aðsókn hefur verið í riffilbrautina auk þess sem nokkrir hafa lokið skotprófi fyrir hreindýraveiðimenn.

 

Í gær var svo unnið við það að snyrta svæðið og hreinsa til.  Unnsteinn tók málin í sínar hendur og tók niður steypumótin og stífur frá steypuframkvæmdunum, hreinsaði allt rusl á svæðinu og hreinsaði torf og grjót umhverfis riffilborðin.  Til þess notaði hann m.a. vinnuvél sem hann fékk að láni.

 

Vinnuvélin var einnig notuð til þess að snyrta í kringum bílastæðin og búa til lokun við riffilsvæðið, til að hindra óviðkomandi umferð um riffilbrautina.  Hugmyndir eru uppi um að taka bílastæðið og aðkomuna að svæðinu enn frekar í gegn á næstunni og byggja upp manir umhverfis bílastæðin.

 

 

26.06.2014 21:03

Tapað/fundið - sólgleraugu

Sólgleraugu fundust við riffilborðin á æfingasvæðinu.  Eigandinn getur nálgast þau með því að senda mail á skotgrund@gmail.com eða haft samband í síma 863 1718.

25.06.2014 22:49

11 nýir félagsmenn - félagsmenn orðnir 100

Það má með sanni segja að Skotfélagið Skotgrund sé í miklum blóma þessa dagana, en félagsmenn Skotgrundar eru nú orðnir 100 talsins í fyrsta sinn í sögu félagsins.  Félagsmönnum hefur verið að fjölgja jafnt og þétt undanfarin ár, okkur til mikillar ánægju og eru nú 106.  Öll innkoma af félagsgjöldum fer í rekstur og uppbyggingu á æfingasvæði félagsins og með fjölgun félagsmanna hefur fjárhagur félagsins batnað, sem hefur gert okkur kleift að framkvæma meira.

Fyrir 3 dögum síðan tilkynntum við hér á heimasíðu félagsins að félagsmönnum hefði fjölgað um 7 á fáum dögum.  Síðan þá hafa bæst við 11 félagsmenn til vibótar, en þeir eru: Emil Emilsson, Sigríður Erla Jónsdóttir, Berghildur Pálmadóttir, Hafsteinn Mar Sigurbjörnsson, Daði Hjálmarsson, Bjarni Júlísson, Svanur Guðmundsson, Trausti Björgvinsson, Kristberg Jónsson, Kristinn Kristófersson og Júlíus Sigmar Konráðsson. Bjóðum við þau öll hjartanlega velkomin í féalgið.  Þess má geta að Sigríður Erla Jónsdóttir var félagsmaður nr. 100.

 

Stefna félagsins er að byggja upp og bjóða upp á sem allra besta aðstöðu til skotæfinga, sem félagsmenn og aðrir skotáhugamenn njóta síðan góðs af.  Gríðarlega mikil vinna hefur verið lögð í framkvæmdir á æfingasvæðinu undanfarna mánuði, sérstaklega með það í huga að tryggja öryggi á svæðinu.  Öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu og hafa fyrirtæki og verktakar verið dugleg við að styrkja okkur með afnotum af tækjum og með því að gefa efni. 

 

Hvað framtíðina varðar þá erum við mjög stórhuga og okkur dreymir um að geta byggt yfir riffilborðin, byggt upp trap-völl og lýst upp leirdúfuvöllinn svo eitthvað sé nefnt.  Með upplýstum leirdúfuvelli og byggingu yfir riffilborðin eykst sá tími til muna sem hægt er að stunda skotæfingar, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. 

Trap völlur væri fín viðbót við hinn leirdúfuvöllinn sem eykur fjölbreytni í leirdúfuskotfimi og væri um leið vara völlur fyrir skeetvöllinn þegar áðsókn er mikil, eða ef eitthvað bilar.

Húsið sem okkur dreymir um að byggja yfir riffilborðin.

 

Vonandi mun þessi jákvæða þróun halda áfram en eitt er víst að án tryggra félagsmanna væri þessi uppbygging ekki möguleg.  Því viljum við þakka öllum þeim sem greitt hafa félagsgjöldin undanfarin ár og bjóðum jafnframt nýja félagsmenn velkomna í félagið.

 

Kveðja Skotgrund

 

25.06.2014 20:10

Hreindýrapróf í fullum gangi

Verkleg skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn eru í fullum gangi hjá Skotgrund.  Einn veiðimaður lauk prófi í morgun, annar núna síðdegis og tveir eru að fara í próf núna í kvöld.  Við reynum að vera eins liðlegir og við getum og koma til móts við þá sem ætla sér að fara í próf.  Næsta próf verður líklega á föstudaginn.

Hægt er að lesa allt um hreindýraprófin hér, en við minnum veiðimenn á að síðasti dagur til að ljúka skotprófi er 30. júní.

 

22.06.2014 13:15

Sjö nýir félagsmenn

Í gær gengu sjö nýir félagsmenn í Skotfélagið Skotgrund.  Það eru þau Aðalheiður Lára Guðmundsdóttir, Guðlaugur Magnússon, Halldór Kjartansson, Jón Þór Magnússon, Loftur Árni Björgvinsson, Markús Ingi Karlsson og Óttar Guðlaugsson. Þau sátu öll skotvopnanámskeiðið í vikunni sem leið og bjóðum við þau hjartanlega velkomin í félagið. 

 

Aðalheður Lára                                        Guðlaugur Magnússon
 
 
Halldór Kjartansson                                                    Jón Þór Magnússon
 
 

 

Loftur Árni Björgvinsson                                            Markús Ingi Karlsson
 
 
Óttar Guðlaugsson

 

21.06.2014 19:24

Skotvopnanámskeið

Umhverfisstofnun var með skotvopna- og veiðikortanámskeið hér á Snæfellsnesi í vikunni sem leið og lauk skotvopnanámskeiðinu í dag með verklegum æfingum.  Skotfélagið Skotgrund sá um verklega kennslu þar sem farið var yfir helstu þætti  og eiginleika skotvopna. 

 

Hópnum var skipt upp í þrjá hópa sem komu sér fyrir á þremur mismunandi stöðvum.  Á fyrstu stöðinni var farið yfir helstu atriði sem varða haglabyssu, s.s. umhirðu, umgengni og skotfimi.  Að því loknu fengu nemendur að prófa ýmist, tvíhleypur, pumpur eða hálfsjálfvirkar haglabyssur.

 

Á annarri stöðinni var farið yfir það helsta sem varðar umgengnisreglur og tækni við að skjóta úr minni rifflum í standandi stöðu.  Sett voru upp skotmörk sem nemendur spreyttu sig á og var ekki annað að sjá en að flestir hafi haft gaman af.

 

Á þriðju og síðustu stöðinni var farið yfir allt það helsta sem varðar riffla og sjónauka.  Fengu nemendur að spreyta sig á margskonar stærðum af rifflum allt frá 22.cal upp í þá stærstu.  Þar fengu nemendur betri innsýn í hin ýmsu caliber og riffiltegundir með ýmsum lásum.

 

Að lokum var spjallað stutta stund í félagshúsnæðinu og sagðar sögur.  Heilt á litið þá stóð hópurinn sig mjög vel í dag og viljum við þakka þeim fyrir ánægjulegan dag.

 

Búið er að setja inn myndir frá námskeiðinu og er hægt að skoða þær hér.

21.06.2014 08:03

Nýr félagsmaður

Nýlega gerðist Mandy Nachbar félagsmaður í Skotfélaginu Skotgrund og bjóðum við hana hjartanlega velkomna í félagið.


Hér má sjá Mandy á verðlaunapalli eftir að hafa sigrað 22.cal flokkinn á riffilmóti Skotgrundar þann 17. júní síðastliðinn.

20.06.2014 11:35

Hreindýrapróf - næsta próf á mánudag

Verkleg skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn eru í fullum gangi hjá okkur.  Þeir sem ætla að fara á hreindýraveiðar á þessu ári verða að ljúka verklegu prófi fyrir mánaðarmótin.  Næsta próf hjá okkur veður á mánudaginn kl. 18:00.  Þeir sem hafa áhuga á að taka próf hjá Skotgrund geta sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com eða haft samband við einhvern af eftirtöldum aðilum:  

 

Birgir Guðmundsson           859 9455        Grundarfirði

Jón Einar Rafnsson            862 2721        Snæfellsbæ

Jón Pétur Pétursson           863 1718        Grundarfirði

Unnsteinn Guðmundsson     897 6830         Grundarfirði

 

Einnig viljum við benda skotmönnum á að vera búnir æfa sig og mæta vel undirbúnir í prófið.  Töluvert hefur verið um fall á landsvísu og því er ekki sjálfgefið að allt gangi upp í fyrstu tilraun.  Nánari upplýsingar um prófin eru að finna hér:

 

19.06.2014 19:20

Skotvopnanámskeið

Skotvopnanámskeið er í fullum gangi í þessum töluðu orðum í Grundarfirði.  Það er Einar Guðmann frá Umhverfisstofnun sem sér um bóknámið, en Skotgrund sér um verklega kennslu.  Það eru 18 einstaklingar víðsvegar að sem sitja námskeiðið, en því lýkur í kvöld með skriflegu prófi.  Verkleg kennsla fer svo fram á skotæfingasvæði Skotgrundar á laugardaginn kl. 10:00.

 
 
 
 

Á morgun hefst svo veiðikortanámskeiðið og lýkur því einnig með skriflegu prófi.  Við vonum að öllum gangi sem allra best og sérstakar þakkir fær Einar Guðmann fyrir að koma hingað og halda námskeiðin.

17.06.2014 23:56

Riffilmót Skotgrundar - 17. júní

Riffilmót Skotgrundar fór fram í kvöld á skotæfingasvæði félagsins í Kolgrafafirði.  Við fengum eins og við var að búast ekta 17. júní veður, en það var smá vindur og rigningarúði inn á milli.  Mætingin var samt mjög góð og var þetta mjög skemmtilegt mót.

 

Keppt var í tveimur flokkum, annars vegar 22. caliber flokki þar sem skotið var á 50m færi og hins vegar stærri caliberum að eigin vali á 100m færi.  Þátttakan var góð í báðum flokkum og kepptu sumir í þeim báðum.

  
 
 
 

Ein kona tók þátt í mótinu, en það var Mandy Nachbar og gerði hún sér lítið fyrir og sigraði 22.caliber flokkinn.  Gunnar Ásgeirsson hafnaði í öðru sæti, en Mandy og Gunnar voru jöfn að stigum, en þar sem Mandy fékk eitt X (miðju) stóð hún uppi sem sigurvegari.  Í þriðja sætinu hafnaði svo Runólfur Jóhann Kristjánsson.

 

Í flokki veiðicalibera sigraði Gunnar Ásgeirsson, Guðmundur Andri Kjartansson var í öðru sæti og Steinar Már Ragnarsson var í þriðja sæti.

 

Heilt á litið var þetta mjög skemmtilegt mót í alla staði og eru menn ákveðnir í að halda annað mót fljótlega.  Fleiri myndir frá mótinu er að finna í myndabankanum hér á heimasíðu félagsins.

 
 
 

16.06.2014 21:02

Riffilmót - 17. júní

Riffilmót Skotgrundar verður haldið á morgun 17. júní kl. 17:00.   Búið er að leggja mikla vinnu í undirbúning fyrir mótið og það stefnir í fína mætingu, en keppt verður í tveimur flokkum, 22.cal á 50m og stærri caliber á 100m.  Vonandi sjáum við sem flesta, en öllum er velkomið að mæta og fylgjast með þó þeir ætli sér ekki að keppa.  Tilgangur mótsins er ekki síður sá að hittast og spjalla.  Heitt kaffi á könnunni.

 

16.06.2014 01:52

Nóg um að vera

Það er búið að vera nóg um að vera um helgina.  Á föstudagskvöldið voru steypuframkvæmdir og á laugardagskvöldið var hafist handa við að setja upp eldhúsinnréttingu.  Á sunnudeginum var svo unnið frá morgni og langt fram eftir degi.  Klárað var að setja upp eldhúsinnréttinguna og sett voru upp skilti við riffilsvæðið.  Byrjað var að rífa utan af steypumótunum og félagshúsnæðið var tekið í gegn og rusli hent.

 
 
 
 
 

Töluverð aðsókn hefur verið að æfingasvæðinu um helgina, en búið er að skjóta slatta af dúfum og nokkrir hafa komið til að stilla rifflana. 

 

Undirbúningur fyrir riffilmótið er í fullum gangi, en það verður haldið þann 17. júní.  Það stefnir í fína mætingu, en góður hópur manna hefur boðað komu sína.  Keppt verður í tveimur flokkum, 22.cal á 50m og stærri caliberum á 100m.

 

Svo er skotvopna- og veiðikortanámskeið að hefjast á miðvikudaginn, svo það er í nógu að snúast þessa dagana.

14.06.2014 09:23

Steypuframkvæmdir

Í gær voru steypuframkvæmdir á æfingasvæði Skotgrundar.  Það var Almenna Umhverfisþjónustan í Grundarfirði sem útvegaði okkur steypu, en félagsmenn Skotgrundar voru búnir að undirbúa fyrir steypuna og sáu um að steypa í mótin.

 
 

Byrjað var á því að steypa nýjan sökkul/gólf í markið, en fótstykkin á markinu voru orðin svo fúin að húsið hefði getað fokið hvenær sem er.  Sagað var neðan af húsinu og steyptur sökkull í staðinn.

 

Því næst voru steyptir verðlaunapallar fyrir framan félagshúsnæðið.  Þeir voru steyptir í olíutunnur sem síðan verða fjarlægðar og eftir standa þá steinsteyptir verðlaunapallarnir.

 

Við aðkomuna að riffilsvæðinu var steyptur rammi fyrir skilti og staur fyrir skilti, en síðan verður sett keðja á milli skiltanna til að loka vegslóðanum upp með riffilbrautinni.  Þetta er liður í því að tryggja öryggi á svæðinu.

 

Í riffilbrautinni sjálfri voru steyptir niður riffilbattar á 300m og 400m ásamt staurum til að afmarka riffilbrautina.  Staurarnir eru með jöfnu millibili meðfram allri brautinni og eru ætlaðir til að afmarka brautina og tryggja öryggi á svæðinu.

 

Að lokum voru steyptar undirstöður fyrir skammbyssubrautina.  Ætlunin er að byggja upp svæði fyrir skammbyssur, en smíðaðir hafa verið battar til að stilla upp á undirstöðunum sem nú var verið að steypa.  Skammbyssusvæðið er sérstaklega hannað með lögregluna í huga, en lögregluembættið sækir Skotgrund reglulega heim til að stunda skotæfingar.

 

Steypuframkvæmdirnar tókust vel til þrátt fyrir að við fengum súld og smá vind.  Vel gekk að koma steypunni í mótin, en hana þurfti að flytja í bölum að mótunum til að raska sem minnst jarðveginum.  Steypan var sett í bala á kerrur sem dregnar voru af fjórhjólum og svo var hellt úr bölunum í mótin með handafli.  Gekk það mjög vel og tók framkvæmdin skemmri tíma en reiknað var með.

 

Nú þegar þessum steypuframkvæmdum er lokið er hægt að halda áfram með uppbygginguna á æfingasvæðinu, en meðal verkefna sem bíða er að endurnýja markið og turninn frá grunni.  Hægt er að skoða fleiri myndir frá steypuframkvæmdunum hér.

12.06.2014 17:44

Skotvopna- og veiðikortanámskeið

Við hvetjum þá sem enn eiga eftir að ganga frá greiðslu og pappírum fyrir skotvopnanámskeiðið til að gera það sem fyrst.  Þátttakendur á skotvopnanámskeiðum þurfa að skila inn sakavottorði, læknisvottorði og passamynd til skrifstofu sýslumanns fyrir námskeiðin.  Nánari upplýsingar er að finna á www.veidikort.is

 

 

12.06.2014 09:44

Nýir félagsmenn

Í gær gerðust þau Erla Björg Guðrúnardóttir og Sigurður Ágústsson félagsmenn í Skotfélaginu Skotgrund og bjóðum við þau hjartanlega velkomin í félagið. Skotgrund er í miklum blóma þeassa dagana, en félagsmönnum Skotgrundar hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarna mánuði og æfingasvæðið hefur fengið töluverða andlitslyftingu. 

 

Unnið er markvisst að því að bæta aðstöðu félagsins, en markmið félagsins er að bjóða upp á sem allra besta aðstöðu til skotæfinga sem kemur til móts við kröfur sem flestra.  Vonandi mun þessi jákvæða þróun halda áfram, en þessi mikla uppbygging væri þó ekki möguleg án tryggra félagsmanna.

 

Hér má sjá fjölda félagsmanna í áranna rás.