Færslur: 2016 Febrúar

29.02.2016 13:09

Umsóknarfrestur um hreindýraveiðileyfi rennur út í dag

Frestur til að sækja um hreindýraveiðileyfi er til og með 29. febrúar. Þetta er lengri frestur en hefur verið hingað til vegna breytinga sem gerðar voru á umsóknarvefnum.

Til að sækja um hreindýraveiðileyfi þarf að fara inn á Þjónustugáttina-Mínar síður á heimasíðu Umhverfisstofnunar, en til að komast inn á Þjónustugáttina-Mínar síður þarf að nota annaðhvort rafrænt skilríki eða Íslykil.

 

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

 

Myndin er tekin af heimasíðu Umhverfisstofnunar.

19.02.2016 22:04

Þungfært að æfingasvæðinu

Frekar þungfært er að æfingasvæðinu þessa dagana og aðeins fært fyrir stærri jeppa.  Engu að síður hefur verið töluverð umferð um svæðið og hafa skotmenn haft með sér skóflur til að grafa upp riffilborðin.  Við hvetjum menn því til að vera vel búna ef farið er inn að svæði.

07.02.2016 10:05

Gluggar í skothúsið

Skotgrund fékk nýlega veglega gjöf frá fyrirtæki héðan af Snæfellsnesi, en gjöfin er fólgin í kaupum á gluggum í skothúsið sem félagið hyggst byggja í sumar.  Um er að ræða nýja tréálglugga með gleri, tilbúna til ísetningar.  

 

Þessi styrkur kemur sér afar vel fyrir félagið og erum við nú ennþá bjartsýnni um að okkur takist að reisa húsið í sumar.  Það mun þó ráðast endanlega af því hvernig gangi að fjármagna bygginguna.

 

01.02.2016 21:12

Nýtt skotíþróttahús á Ísafirði

Eins og fram kom í íþróttafréttum RÚV í gær tók Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar nýlega í notkun skotíþróttahús á Ísafirði.  Fyrri aðstaða var utandyra og þangað var oft ófært stóran hluta úr ári.  Nýja aðstaðan er undir áhorfendastúku við fótboltavöllinn á Ísafirði, sem félagið byggði í samstarfi við knattspyrnudeild bæjarins. 

 

Skotfélag Snæfellsness óskar félaginu til innilega til hamingju með þessa flottu aðstöðu.  Hægt er að sjá umfjöllun Rúv hér.

 

Myndin er skjáskot úr fréttum RÚV.
  • 1