Færslur: 2016 Mars

23.03.2016 21:14

Hittingur á morgun Skírdag kl. 12

Við ætlum að vera á æfingasvæðinu á morgun skírdag kl. 12:00 ef einhver vill kíkja við.  Það á að tengja leirdúfuvélina og svo ætla einhverjir að skjóta inn og stilla riffla.

21.03.2016 22:09

Vor í lofti

Það er greinilegt að það er vor í lofti, allavega í hugum manna, því mikil aðsókn hefur verið að æfingasvæðinu undanfarna daga.  Menn hafa greinilega verið að bíða eftir því að veðrið færi að batna og færðin að lagast, því æfingasvæðið er búið að vera í notkun upp á hvern einasta dag frá því að snjórinn fór.

 

Það er hinsvegar ekki eins gleðilegt að sjá að búið er að skjóta í eitt skilti sem sett var upp á æfingasvæðinu nýlega.  Það er alveg með ólíkindum hvað menn geta verið ólánsamir að lenda í slíkum voðaskotum, því ekki trúum við því að nokkur maður geri slíkt viljandi.  Vonandi hefur þetta bara verið  algjört óhapp, en það skrýtna við þetta er að skiltið er fyrir aftan riffilborðin. 

 
 

21.03.2016 22:05

Búið að sækja kastvélina

Í dag var leirdúfukastvélin úr markinu sótt og hún ferjuð inn í Hrafnkelsstaðabotn, en hún hafði eins og áður hefur komið fram verið í yfirhalningu í Ólafsvík.

Búið er að skipta um rofa, nema og ljós sem voru léleg eða í ólagi.  Ekki gafst þó tími til að prófa vélina í dag, en það verður gert mjög fljótlega.

 

20.03.2016 21:13

Snjórinn farinn - vorverkin að hefjast

Nú hefur snjóinn tekið upp á æfingasvæði félagsins og tímabært að hefjast handa við vorverkin.  Framan af ári hefur verið mikill snjór og mikil ófærð, en nú er hægt að fara af stað með kerrur, vélar og tæki.  Á morgun verður kastvélin úr markinu sótt og henni komið fyrir á sínum stað, en hún hefur verið í viðgerð á verkstæði í Ólafsvík. 

Um leið og kastvélin verður komin í notkun verður farið í hreingerningu á æfingasvæðinu og haldið lítið mót eða hittingur.  Viðburðurinn verður auglýstur hér á heimasíðunni þegar nær dregur.

  • 1