Færslur: 2017 Janúar

22.01.2017 00:33

Skotvopna- og veiðikortanámskeið í haust

Stefnt er að því að halda skotvopna- og veiðikortanámskeið í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði um miðjan september.  Námskeiðin verða auglýst nánar þegar nær dregur en áhugasamir geta haft samband við Jón Pétur í síma 863 1718 eða sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com ef það eru einhverjar spurningar.

Frá skotvopnanámskeiði í júní 2015.

17.01.2017 17:42

Íþróttafatnaður

Nú erum við að taka saman í aðra pöntun á íþróttafatnaði merktum Skotfélagi Snæfellsness.  Fatnaðurinn er frá Henson og erum mjög ánægð með  vörurnar. Þeir sem hafa áhuga á að panta sér fatnað geta sent okkur póst á skotgrund@gmail.com eða haft samband við Jón Pétur í síma 863 1718.

 

Vindjakki og buxur eru í setti, en hægt er að kaupa bara annað hvort.

 

                 Vindjakki 7.000 kr.                   Buxur 4.000 kr.

                 Bolir 2.000 kr.                          Derhúfur 2.000 kr.

 
 

 

 

13.01.2017 00:49

Styrkur frá Grundarfjarðarbæ

Eins og mörgum er kunnugt stefnum við í Skotfélagi Snæfellsness að því að byggja skothús við riffilbrautina og taka það í notkun síðar á þessu ári.  Búið er að afgreiða byggingarleyfisumsóknina og flestir hlutir eru klárir nema fjármögnun. 

 

Á dögunum barst okkur svarbréf við umsókn okkar til Grundarfjarðarbæjar um fjárstyrk fyrir húsbyggingunni og ætlar sveitarfélagið að styrkja okkur um 100.000 kr. sem greiddar verða út við efniskaup.  Færum við sveitarfélaginu bestu þakkir fyrir veittan stuðning.

 

10.01.2017 21:58

Nýr félagsmaður

Enn fjölgar í félaginu hjá okkur því í dag gerðist Helga Fríða Tómasdóttir félagsmaður í Skotfélagi Snæfellsness og bjóðum við hana hjartanlega velkomna í félagið.

Helga Fríða tók þátt í konukvöldinu og Pæjumótinu síðasta sumar.

09.01.2017 01:02

Árið 2016 gert upp - eitt besta ár félagsins frá upphafi

Nú er nýtt ár að hefja sitt skeið og er það ekkert venjulegt ár, því að í ár fagnar Skotfélag Snæfellsness 30 ára starfsafmæli.  Árið 2016 var eitt besta ár félagins frá upphafi með mörgum skemmtilegum viðburðum og stefnum við á að gera enn betur á þessu afmælisári. 

 

Ef við lítum aðeins yfir farinn veg þá fengum marga góða gesti í heimsókn á nýliðu ári, bæði leiðbeinendur, keppendur úr öðrum skotfélögum og fjöldi fólks mætti til að taka þátt í viðburðum eða til að kynna sér starfsemi félagsins.

 

Aðalfundur félagsins var að venju haldinn á vordögum og fljótlega voru haldnir nokkrir vinnudagar þar sem gerðar voru miklar endurbætur á æfingasvæðinu. 

 

Árlegt sjómannadagsmót í leirdúfuskotfimi var haldið í byrjun júní þar sem sjómenn kepptu við landsliðið.  Þetta mót hefur farið stækkandi með hverju árinu og í ár var brugðið á það ráð að setja upp keppni í riffilskotfimi samhliða leirdúfuskotfiminni til að dreifa þátttakendum.  Allir fengu að taka þátt í báðum greinum og voru stigin lögð saman úr báðum greinum.  Eftir spennandi keppni sigraði lið sjómanna og er staðan í einvíginu nú jöfn.

   
Frá sjómannadagsmótinu.
 
 

Um miðjan júní fengum við til okkar leiðbeinanda í bogfimi í samstarfi við Bogveiðifélag Íslands og var öllum boðið að koma og taka þátt.  Bogfimi er íþróttagrein sem hefur farið mikið vaxandi á Íslandi undanfarin ár og hafa mörg skotfélög tekið þessa grein inn í sitt félagsstarf.  Við fengum frábært veður og var þetta hin mesta skemmtun. 

 
Frá bogfimikynningunni.
 
 

Í sömu viku var svo komið að árlegu 17. júnímóti félagsins í riffilskotfimi.  Þar var eins og alltaf keppt í tveimur flokkum sem er 22.cal á 50 metra færi og svo stærri veiðirifflum á 100 metra færi.  Í þessu móti gátu keppendur valið í hvorum flokknum þeir vildu keppa eða keppt í þeim báðum.

 
Frá riffilmótinu þann 17. júní.
 
 

Um mitt sumar var svo haldið sumarsólstöðukvöld þar sem skotmenn fundu til allskonar dót úr byssukápunum og hittust um kl. 22:00 um kvöldið til að skjóta saman.  Markmiðið var bara að hittast og hafa gaman og skjóta saman, en oft eru bestu aðstæður til skotæfinga á æfingasvæðinu okkar einmitt seint á kvöldin því þá er oft dúnalogn.  Mætingin var mjög góð og var skotið langt fram eftir nóttu.

 
Samkoma á sumarsóltöðu.
 
 

Í ágúst var haldið konukvöld þar sem öllum konum og stelpum var boðið að mæta og reyna fyrir sér í skotfimi.  Margar voru að skjóta í fyrsta skipti á meðan aðrar voru vanar.  Við vorum ótrúlega ánægð með aðsóknina og áhuginn var svo mikill meðal kvenna að ákveðið var að halda sérstakt konumót í riffilskotfimi nokkrum vikum síðar og var það fyrsta konumót í sögu félagsins þar sem aðeins konum var boðið að taka þátt.

 
Frá konukvöldinu.
 
 

Refamót félagsins var einnig haldið í ágúst en þetta mót er mjög vinsælt meðal félagsmanna.  Þá er skotið á skotmörk sem staðsett eru í ýmsum fjarlægðum sem valdar eru af  handahófi.  Þar reynir töluvert á þekkingu skotmanna á því skotvopni og kúlum sem skotmenn hafa í höndunum því þá þarf að reikna með falli eða risi á kúlunum því skotmörkin eru öll á mismunandi færum.

 
Frá refamótinu.
 
 

Í haust fengum við svo til okkar leiðbeinendur í leirdúfuskotfimi til að koma og leiðbeina okkar fólki.  Stefnt er að því að fá aftur til okkar leiðbeinendur á þessu ári þar sem öllum verður boðið að skrá sig og fá tilsögn hvort sem menn eru vanir eða algjörir byrjendur.

 

Heilt á litið var þetta alveg frábært ár og vonandi verður árið 2017 jafn gott eða jafnvel ennþá betra.  Eins og fram hefur komið fagnar félagið 30 ára starfsafmæli á þessu ári og stefnum við að því að vera með mikið af uppákomum af því tilefni.  Viðburðirnir verða auglýstir með góðum fyrirvara og bjóðum við ný andlit sérstaklega velkomin. 

Skotfimi er ekki eins og margir halda aðeins fyrir veiðimenn heldur er þetta skemmtileg íþróttagrein sem allir geta stundað á sínum forsendum.  Margir eru bara að stunda íþróttaskotfimi aðrir sækja í þetta vegna útiveru í náttúrunni og aðrir hafa fundið sameiginlegt fjölskyldusport. 

 

Allir viðburðir verða auglýstir hér á heimasíðu félagsins og þeim verður síðan gerð ítarleg skil að þeim loknum. 

08.01.2017 19:00

Skotíþróttamaður ársins

Aðalheiður Lára Guðmundsdóttir var valin skotíþróttamaður Skotfélags Snæfellsness árið 2016.  Þá var hún einnig tilnefnd sem íþróttamaður Grundarfjarðar og tók við viðurkenningu á aðventudegi Kvenfélags Grundarfjarðar um miðjan síðasta mánuð.

 

Heiða Lára eins og hún er oftast kölluð hefur verið mjög virk og drífandi í starfi félagsins. Hún situr í stjórn félagsins og gegnir starfi gjaldkera. Hún hefur tekið þátt í öllum mótum félagsins á árinu annað hvort sem keppandi eða skipuleggjandi eða hvoru tveggja samtímis. Þá átti hún hugmyndina að því að skipuleggja konuhitting innan  félagsins og þar með auka áhuga kvenna á íþróttagreininni. Þá átti hún einnig hugmyndina að fyrsta konumóti félagsins og sá um undirbúning þess, kom á og skipulagði bogfimikynningu og var andlit félagsins í sjónvarpsumfjöllun og kynningu á félaginu. Hún er mjög virkur skotmaður og stundar vel skotæfingar og er öðrum skotmönnum fyrirmynd hvað því varðar.

Við óskum Heiðu Láru innilega til hamingju.

Heiða Lára er lengst til vinstri.  Þorsteinn Már knattspyrnumaður var valinn íþróttamaður Grundarfjarðar árið 2016.
  • 1