Færslur: 2017 September

30.09.2017 09:14

Félagsmenn orðnir fleiri en 150

Það má svo sannarlega segja að það hefur gengið vel hjá Skotfélagi Snæfellsness undanfarna mánuði og það er búið að vera nóg um að vera.  Gríðarlega góð mæting hefur verið á æfingasvæðið, auglýstir viðburðir hafa verið mjög vel sóttir og félagsmönnum er sífellt að fjölga. 17 nýir félagsmenn hafa bæst við á félagaskrá hjá okkur á þessu ári og eru félagsmenn nú orðnir 152. 

 
 

Félagsmenn hafa aldrei verið fleiri og það setur enn meiri pressu á okkur um að bæta aðstöðu félagsmanna enn frekar.  Þessa dagana er einmitt unnið að því að teikna upp framtíðar skipulag svæðisins og verður það birt hér á heimasíðunni þegar það verður tilbúið.

28.09.2017 23:15

Skotvopnanámskeið

Í kvöld fór fram verkleg kennsla fyrir umsækjendur um skotvopnaleyfi á æfingasvæði félagsins.  Þetta var í þriðja skipti á síðustu fjórum árum sem Skotfélag Snæfellsness heldur skotvopnanámskeið í samvinnu við Umhverfisstofnun og að þessu sinni voru 14 þátttakendur skráðir á námskeiðið. 

 

Byrjað var á því að fara yfir umgengnisreglur um skotsvæði og örugga meðferð skotvopna og svo fengu nemendur að kynnast mismunandi gerðum af skotvopnum.  Svo fengu allir að prófa að skjóta úr haglabyssum, rifflum, stærri veiðirifflum og skammbyssum.  Við fengum alveg frábært veður og það var skotið alveg fram í myrkur.  Hópurinn stóð sig mjög vel og vonandi munum við sjá þau sem flest á æfingasvæðinu í framtíðinni.

 

28.09.2017 08:51

Skotvopnanámskeið - æfingasvæðið lokað

Æfingasvæði félagsins verður lokað í dag fimmtudag frá kl. 17:00-20:00 vegna skotvopnanámskeiðs.  Svæðið verður svo að sjálfsögðu opið aftur strax á morgun.

 

27.09.2017 23:22

Heimsókn frá fulltrúm ÍSÍ

Í gær komu hingað á Snæfellsnesið fulltrúar Íþróttasambands Íslands í stutta heimsókn og var tilgangur ferðarinnar að hitta fulltrúa Héraðssambandsins og aðildarfélaga þess.  Hópurinn hittist í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði þar sem spjallað var stutta stund og boðið upp á súpu.  Skotfélag Snæfellsess átti einn fulltrúa á fundinum og kynnti hann starfsemi félagsins og framtíðarstefnu, en tilgangur heimsóknarinnar var einmitt líka að kynna sér starfsemi aðildarfélaganna og aðstöðu þeirra til æfinga. 

 

Að fundarhöldum loknum fór hópurinn í skoðunarferð um svæðið og kynnti sér  æfingaaðstöðu félaganna.  Við þökkum þeim öllum vel fyrir komuna hingað á Snæfellsnesið.

 

 

 

21.09.2017 16:37

Ný heimasíða

Nú er hafin vinna við gerð nýrrar heimasíðu fyrir Skotfélag Snæfellsness og verður hún gerð opinber á næstu vikum. Núverandi heimasíða hefur þjónað félaginu frá árinu 2007, en til gamans má geta að fyrsta heimasíða félagsins var gerð árið 2002.

Í ár fagnar Skotfélag Snæfellsness 30 ára starfsafmæli og eru því ágætis tímamót til að endurnýja heimasíðu félagsins, en þeir Óskar Þór og Egill hjá Hugstofunni munu sjá um smíði síðunnar.  Við bíðum því spennt eftir að sjá útkomuna.

 

17.09.2017 20:29

Öflugt félagsstarf - mikið búið að vera gerast

Það má með sanni segja að það sé búið að vera nóg að gera hjá Skotfélagi Snæfellsness í sumar.  Nú eru fyrstu haustlægðirnar að minna á sig en ef við lítum um öxl þá eru undanfarnar vikur búnar að vera þétt bókaðar og mjög viðburðaríkar. 

Á síðustu 14 vikum hafa verið skipulagðir 10 viðburðir á vegum félagsins s.s. konukvöld, unglingakvöld, Jónsmessukemmtun, haglabyssumót, byssusýning, skotvopnanámskeið og ýmsar gerðir af riffilmótum svo eitthvað sé nefnt.  Allir viðburðir hafa verið mjög vel sóttir og stefnir allt í að árið 2017 verði enn betra ár en síðasta ár sem var eitt besta ár félagsins frá upphafi.  Félagið er í miklum blóma þessa dagana, félagsmönnum fjölgar stöðugt og félagið er alltaf að eflast.  Við vonum svo sannarlega að þessi jákvæða þróun muni halda áfram næstu ár og að félagið geti haldið áfram að stækka og dafna.

 

Næst á dagskrá er að halda afmælismót í leirdúfuskotfimi í byrjun næsta mánaðar, en félagið fagnar 30 ára starfsafmæli þann 10. október næstkomandi.  Þá verður einnig lögð áhersla á að halda áfram að byggja skothúsið og einnig stendur til að stofna skammbyssudeild innan félagsins og leitum við nú að hentugu húsnæði fyrir þá starfsemi.

 

Hægt er að skoða myndir frá helstu viðburðum á myndaalbúminu hér á síðunni.

16.09.2017 22:30

Skotvopna- og veiðikortanámskeið

Í dag lauk bóklega hlutanum í skotvopnanámskeiðinu sem haldið var hér á Snæfellsnesi í samstarfi við Umhverfisstofnun.  Ómar Jónsson sá um kennsluna og sátu 14 einstaklingar námskeiðið sem stóð yfir í 2 daga, föstudag og laugardag.  Verklega hlutanum sem átti að fara fram í dag var frestað um óakveðinn tíma vegna óveðurs.  Skotfélag Snæfellsness mun sjá um verklegu kennsluna. 

Þetta var í þriðja skipti á síðustu 4 árum sem skotvopnanámskeið er haldið hér á Snæfellsnesi og hafa samtals 45 einstaklingar lokið prófi í þessi þrjú skipti.

Frá skotvopnanámskeiði 2014                                     Frá skotvopnanámskeiði 2015
 
 

Þá var veiðikortanámskeið haldið síðastliðinn mánudag en Arnór Þórir Sigfússon sá um kennsluna og þar luku 11 einstaklingar prófi.

 

16.09.2017 15:08

Æfingasvæðið lokað - breyting

Verklega hluta skotvopnanámskeiðsins sem átti að vera á morgun sunnudag hefur frestað og því verður æfingasvæðið opið á morgun sunnudag.  Það er bara lokað í dag vegna smalamennsku.

16.09.2017 08:59

Æfingasvæðið lokað

Æfingasvæði félagsins verður lokað í dag laugardaginn 16. september vegna smalamennsku.  Einnig verður það lokað á morgun sunnudag frá kl. 13:00-17:00 vegna skotvopnanámskeiðs.  Við biðjumst velvirðingar á þessu.

Myndina á Tómas Freyr Kristjánsson.

12.09.2017 16:53

Pæjumót Skotfélags Snæfellsness

Síðastliðinn sunnudag fór fram árlegt "Pæjumót" Skotfélags Snæfellsness.  Þetta var í annað skipti sem þetta mót var haldið, en allt byrjaði þetta á konukvöldi árið 2016.  Þá var haldið konukvöld þar sem stelpum og konum var boðið að koma og reyna fyrir sér í riffilskotfimi.  Viðbrögðin voru vægast sagt góð og áhuginn var það mikill að stelpurnar fóru strax að heimta mót sem aðeins væri ætlað kvenfólki. 

Það var ekki annað hægt en að verða að þeirri ósk og í fyrsta skipti í sögu félasins var auglýst mót sem einungis var fyrir konur og stelpur.  Mótið fékk nafnið "Pæjumót" og viðbrögðin létu ekki á sér standa.  Mætingin var framar öllum væntingum og heppnaðist gífurlega vel.  Því var ákveðið mótið yrði haldið aftur að ári liðnu og það yrði gert að árlegum viðburði hjá félaginu.

Mætingin var ekki síðri að þessu sinni en 15 keppendur tóku þátt, bæði vanar og algjörir byrjendur.  Keppendum var skipt í tvo flokka, eftir því hvort þeir höfðu keppt áður í riffilskotfimi eða ekki og veitt voru verðlaun fyrir 3 efstu sætin í báðum flokkunum.  Í flokki þeirra sem ekki höfðu keppt áður náði Lydía Rós Unnsteinsdóttir bestum árangri og fékk fyrstu verðlaun.  Önnur verðlaun fékk Anna Karen Ingibjargardóttir og þriðju verðlaun fékk Sigríður Hjálmarsdóttir.

 

Í flokki þeirra sem keppt höfðu áður náði Aðalheiður Lára Guðmundsdóttir bestum árangri, Mandy Nachbar var í öðru sæti og Dagný Rut Kjartansdóttir var í þriðja sæti.  Heilt á litið heppnaðist mótið mjög vel og stefnt er að því að halda þetta mót aftur á næsta ári.

Hægt er að skoða myndir frá mótinu hér.

 
 
Hér er hópur keppenda, á myndina vantar þó nokkrar til viðbótar.

 

11.09.2017 00:31

Pæjumótið

Í gær fór fram árlegt "Pæjumót"  Skotfélags Snæfellsness á æfingasvæði félagsins.  Mætingin var alveg virkilega góð þrátt fyrir norðan kulda, en alls tóku 15 konur þátt. Keppendum var skipt í tvo flokka, annars vegar þær sem keppt höfðu áður og hins vegar þær sem aldrei höfðu keppt áður.  Veitt voru verðlaun í báðum flokkum.  Fjallað verður nánar um mótið.

 
 

06.09.2017 00:04

Pæjumót

Pæjumót verður haldið á æfingasvæði félagsins næstkomandi sunnudag kl. 14:00.  Mótið er hugsað fyrir allar konur og stelpur, 15 ára og eldri.  Skotið verður með 22. cal rifflum á 50m færi og verður keppendum skipt í tvo flokka, annars vegar flokkur fyrir þær sem eru vanar og hins vegar flokkur fyrir þær sem aldrei hafa keppt áður.  Þær sem eru algjörlega óvanar fá að hafa leiðbeinandi sér við hlið.

 

Þetta "Pæjumót" var haldið í fyrsta skipti í fyrra og heppnaðist gríðarlega vel.  Félagið getur útvegað þeim sem ekki hafa aðgang að skotvopni bæði riffil og skot.  Við vonumst því til að sjá sem flestar, en aðal atriðið er bara að hafa gaman.  Skráning í mótið og frekari upplýsingar er að fá hjá Heiðu Láru í síma: 848 4250.

 

......JÁ NEI NEI NEI þú þarft ekki að vera í félaginu eða hafa skotvopnaleyfi til að taka þátt.  Bara mæta.

 
  • 1