Færslur: 2017 Desember

31.12.2017 01:05

Gamlársmót

Í dag lauk starfsári Skotfélags Snæfellsness árið 2017 með skemmtilegu "Gamlársmóti" í leirdúfuskotfimi.  Árið 2017 er búið að vera alveg frábært ár og sennilega það besta í sögu félagsins með mörgum skemmtilegum uppákomum og viðburðum.

 
 

Við fengum alveg frábært veður í dag en það var alveg logn og frost..... svolítið mikið frost, en það er ekki eitthvað sem heitt súkkulaði og kökur geta ekki lagað.  Þetta var alveg svakalega skemmtilegt mót sem  Unnsteinn Guðmundsson sigraði með miklum yfirburðum en bráðabana þurfti til að skera úr um annað og þriðja sæti.  Jón Pétur endaði að lokum í öðru sæti og Guðmundur Andri í því þriðja.  Settar verða inn myndir frá mótinu fljótlega.

 

27.12.2017 22:52

Gamlársmót í skeet

Laugardaginn 30. desember ætlum við að vera með innanfélagsmót í leirdúfuskotfimi á æfingasvæði félagsins.  Um er að ræða skemmtimót og hefst mótið kl. 11:30.  Mótsgjald verður 1.500 kr. og að móti loknu ætlum að við að fá okkur heitt súkkulaði og "skjóta" upp gamla árinu.  Skráning í mótið er hjá Jóni Pétri í síma 863 1718 eða á skotgrund@gmail.com.

Mynd frá síðasta gamlársmóti.

Mynd frá síðasta gamlársmóti.
 

27.12.2017 21:36

Æfingasvæðið mikið notað um jólin

Gríðalega mikil aðstókn hefur verið á æfingasvæði félagsins yfir jólahátíðina.  Þegar undirritaður átti ferð um æfingasvæðið í dag var bæði verið að skjóta á riffilsvæðinu og á leirdúfuvellinum. 

 

Þrátt fyrir mikinn kulda hafa skotmenn verið duglegir að mæta á svæðið í allan vetur til að stunda skotæfingar.  Það er því ljóst að nýja skothúsið sem við stefnum á að klára næsta sumar verður mikil bót fyrir félagsmenn og mun gera alla aðstöðu til skotæfinga betri.

Skotæfingar í kuldanum í dag.

20.12.2017 07:50

Skothúsið

Eins og mörgum er kunnugt hófumst við í Skotfélagi Snæfellsness handa við að byggja 75 m2 skothús á æfingasvæði félagsins síðastliðið vor.  Sökkuluppsteypan gekk vonum framar og voru félagsmenn ótrúlega viljugir að mæta og leggja hönd á plóg og hjálpa til.

 

Vegna stífrar dagskrár í allt sumar og haust gafst ekki tími til að ljúka við húsið í sumar og því var ákveðið að fresta húsbyggingunni sjálfri fram á næsta vor.  Strax í vor verður hafist handa á nýju við að reisa húsið og vonandi verður hægt að taka það í notkun strax í sumar.

 

Skothúsið verður af fullkomnustu gerð með 6 steyptum borðum fyrir riffilskotfimi og þar að auki verða 5 lúgur fyrir skammbyssuskotfimi eða riffilskotfimi úr standandi stöðu.  Þá verður húsið einnig útbúið 9 m2 dómaraherbergi og fyrir framan húsið verður 45 m2 uppbyggður skotpallur til að skjóta úr liggjandi stöðu.  Steyptu borðin sem eru á skotsvæðinu nú þegar fá að halda sér og því verðum við með 6 útiborð og 6 inniborð.

 

Gert verður ráð fyrir góðu aðgengi hreyfihamlaðra að húsinu og að húsbyggingunni lokinni verða steyptar stéttir og plön fyrir utan.  Hægt er að skoða tölvugerðar myndir af húsinu í myndaalbúminu hér á heimasíðu félagsins.

 

18.12.2017 22:33

Aðstaða fyrir innanhúss skotæfingar

Nú fer vonandi að styttast í það að við getum hafið skotæfingar innandyra, en félagið ætlar að vera með skipulagðar skammbyssuæfingar í vetur.  Æfingaaðstaðan verður til að byrja með í samkomuhúsi Grundarfjarðar til bráðabirgða, en við vonumst til að komast í varanlegt húsnæði sem fyrst.  

 

Undanfarna daga og vikur hafa verið gerðar ýmsar prófanir með mismunandi efni í kúlugildrur og bakstopp og er hönnunin á kúlugildrunum komin langt á veg.  Í dag voru gerðar prófanir með mismunandi efni og efnisþykktir í kúlugildrurnar áður en hafist verður handa við að smíða kúlugildrurnar.  Við erum að stefna að því að geta haldið fyrstu formlegu æfinguna í kringum jólahátíðina. 

13.12.2017 16:34

Skotíþróttamaður HSH

Síðastliðinn mánudag var Guðmundur Andri Kjartansson útnefndur skotíþróttamaður HSH árið 2017.  Guðmundur Andri var heiðraður á 77. Hérðasþingi HSH og óskum við honum innilega til hamingju, en hann hafði áður verið tilnefndur sem íþróttamaður Grundarfjarðar.

 

Á vef Skessuhorns má sjá nöfn þeirra sem fengu viðurkenningar á þinginu.

Hér má sjá Guðmund Andra (uppi í fyrir miðju) taka við verðlaunum í sumar ásamt liði sjómanna.

12.12.2017 01:44

Héraðsþing HSH

Í gær fór fram 77. Héraðsþing HSH og átti Skotfélag Snæfellsness 3 fulltrúa á þinginu, en Skotfélag Snæfellsness fékk inngöngu í HSH árið 2002 og hefur starfað undir merkjum þess frá árinu 2003.

 

Þingið var mjög vel sótt og var flott þing í alla staði.  Farið var yfir hefðbundin þingstörf, ný stjórn var kosin og veittar voru viðurkenningar fyrir vel unnin störf svo eitthvað sé nefnt.

 
 

 

02.12.2017 12:34

Guðmundur Andri tilnefndur sem íþróttamaður ársins

Guðmundur Andri Kjartansson félagsmaður í Skotfélagi Snæfellsness hefur verið tilnefdur sem íþróttamaður Grundarfjarðar árið 2017.  Fimm einstaklingar eru tilnefndir en auk Guðmdundar eru það Rúnar Þór Ragnarsson (körfuknattleikur), Helga Ingibjörg Reynisdóttir (Golf), Svana Björk Steinarsdóttir (blak) og Þorsteinn Már Ragnarsson (knattspyrna).

Úrslitin verða gerð kunn á aðventudegi kvenfélagsins Gleym mér ei sunnudaginn 3. desember í samkomuhúsi Grundarfjarðar.

 

Umsögn um Guðmund Andra:

"Guðmundur Andri er mjög virkur skotmaður og stundar reglulegar skotæfingar og hefur verið að ná mjög góðum árangri.  Hann hefur tekið þátt í öllum þeim mótum sem haldin voru af félaginu á árinu að einu móti undanskildu og vann hann til verðlauna á þeim öllum.
 
Guðmundur Andri situr í stjórn Skotfélas Snæfellsness og gegnir þar starfi ritara.  Hann er mjög virkur í starfi félagsins og hefur komið að skipulagningu og tekið þátt í flestum þeim viðburðum sem skipulagðir voru af félaginu á árinu, hvort sem það eru mót, skotvopnasýning, námskeið eða annað.  Þá hefur hann lagt til ómælda sjálfboðaliðavinnu við uppbyggingu á æfingasvæði félagsins.  Guðmundur Andri hefur vaxið mikið sem skotíþróttamaður undanfarin ár og er öðrum yngri skotmönnum fyrirmynd hvað það varðar."
 
 
  • 1