18.01.2020 14:18

Dagný tilnefnd sem íþróttamaður Grundarfjarðar

Í lok síðasta árs var Dagný Rut Kjartansdóttir tilnefnd sem íþróttamaður Grundarfjarðar fyrir árið 2019.  Grundarfjarðarbær velur íþróttamann ársins í lok hvers árs og tilnefna íþróttafélögin í sveitarfélaginu/deildunum einn fulltrúa sem kemur til greina sem íþróttamaður ársins, en viðkomandi fulltrúi skal hafa lögheimili í Grundarfirði þegar kosningin fer fram.

 

Dagný Rut hefur verið virkur þáttakandi í mótum á vegum Skotfélags Snæfellsness og náð ótrúlega góðum árangri á skömmum tíma. Hún keppti á öllum þeim mótum sem félagið stóð fyrir á nýliðnu starfsári, bæði í riffilskotfimi og í haglabyssuskotfimi og vann hún til verðlauna á þeim öllum. 

Dagný Rut hefur náð eftirtektaverðum árangri í kúlugreinum þar sem hún hefur keppt bæði í flokki kvenna og í blönduðum flokki.  Undanfarin ár hefur Dagný keppt á Íslandsmeistaramótinu í Br50 og það var engin undantekning í ár og lauk hún keppni á Íslandsmeistaramótinu á Akureyri í júlí í sumar með góðum árangri.

Þá hefur Dagný Rut einnig gegnt óeigingjörnu starfi í mótanefnd Skotfélags Snæfellsness þar sem hún kom að skipulagningu- og framkvæmd þeirra móta sem félagið stóð fyrir.  

Dagný Rut á mikla framtíð fyrir sér í skotíþróttinni og getur náð flottum árangri á landsvísu eða á alþjóðavísu ef hún heldur áfram á sömu braut.

 

Í ár voru 7 íþróttamenn tilnefndir frá mismunandi íþróttafélögum og lenti Dagný Rut í öðru sæti í kosningunni með minnsta mögulega mun.