11.02.2020 21:12

Skotíþróttamaður HSH

Í lok síðasta mánaðar heiðraði Héraðssamband Snæfells og Hnappadalssýslu íþróttamenn sem höfðu staðið sig vel á nýliðnu ári og um leið var íþróttamaður HSH valinn. 

 

Okkar kona, Aðalheiður Lára Guðmundsdóttir var valin skotíþróttamaður ársins 2019 og er hún svo sannarlega vel að því komin.  Heiða Lára eins og hún oftast er kölluð var ótrúlega virk í starfi félagsins og náði frábærum árangri í sínum keppnisgreinum.  Hún keppti í nafni félagsins á fjölda móta um allt land og einnig á erlendri grundu.  Á nýliðnu ári tók hún þátt í 50 keppnum (á 50 vikum) og vann til 31 verðlauna.  Þessi mót sótti Heiða Lára um land allt og má þar nefna Keflavík, Kópavog, Snæfellsnes, Akureyri, Ólafsfjörð, Egilsstaði svo eitthvað sé nefnt og af þessum 31 verðlaunum vann hún 19 verðlaun á opnum mótum.

 
Heiða Lára tók þátt í öllum mótum sem skipulögð voru af Skotfélagi Snæfellsness á árinu 2019 nema einu, en á því móti sá hún um mótsstjórn, en Heiða Lára er formaður mótanefndar hjá Skotfélagi Snæfellsness og hefur komið að skipulgningu og framkvæmd allra móta og annarra viðburða á vegum félagsins undanfarin ár, þrátt fyrir að vera búsett á Suðurnesi. Þá gegnir hún einnig óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi sem gjaldkeri félagsins.
 
Eins og fyrr segir varHeiða Lára ótrúlega virk á líðandi starfsári og er óhætt að fullyrða að fáir eða engir íþróttamenn hafi keppt á eins mörgum mótum á einu ári. Heiða Lára keppti bæði í karla- og kvennaflokki og má nefna að hún varð t.d. vesturlandsmeistari  í loftskammbyssu kvenna á árinu.  Einnig tók hún þátt í móti sem haldið var í Hamminklen í Þýskalandi í október þar sem hún gerði sér lítið fyrir og vann til silfurverðlauna í BR50 flokki kvenna.  Í kjölfar góðs árangurs í Þýskalandi var henni boðið að keppa á tveimur mótum í Frakklandi og Luxemborg á næsta ári.
 
Það má með sanni segja að Heiða Lára hafi slegið í gegn á nýliðnu ári og hafi náð árangri sem erfitt er að toppa.  Heiða Lára hefur með þessum árangri sýnt að hún á mikla framtíð fyrir sér í skotíþróttinni og er öðrum íþróttamönnum góð fyrirmynd þar sem hún hefur stundað sína íþrótt af miklum áhuga og ástríðu.
 
Við óskum Heiðu Láru innilega til hamingju.