Færslur: 2007 Mars

21.03.2007 15:36

Stuttnefja

Stuttnefja er af svartfuglaætt. Stuttnefjan er mjög lík langvíu í útliti og háttum, og er því augljóst er að tegundirnar eru náskyldar. Helsti munurinn er fólginn í því að stuttnefjan hefur styttra nef en langvían, eins og nafnið gefur til kynna, svo hefur hún hvíta munnrák. Stuttnefjan er algjör sjófugl og bjargfugl eins og frænkur hennar, langvíurnar og álkurnar. Hún er mikill sundgarpur og kafari, talin geta kafað niður á allt að 75 m dýpi. Hún er um 40 cm á lengd, 1 kíló á þyngd og vænghaf hennar er 65-73 cm. Varpheimkynni hennar eru á norðlægari slóðum en langvíu, allt í kringum pól við Íshafið, Atlantshaf og Kyrrahaf.

                                            

Stuttnefjan nærist á alls kyns fæðu úr sjónum, einkum fiski sem gengur í torfum við yfirborðið, krabbadýrum, skeldýrum og ormum. Eins og áður hefur komið fram er hún bjargfugl og verpir þar á þröngum syllum, í nábýli við álkur og langvíur. Stuttnefjan er mjög félagslynd um varptímann og fyrir varp eru eltingaleikir og fjöldaköfun algeng fyrirbrigði á sjónum. Átök eru sjaldgæf. Fátt er vitað um hana yfir vetrarmánuðina. Á vorin koma stuttnefjur á varpstöðvar sínar um mánaðamót mars og apríl. Fyrst um sinn halda þær sig á sjónum en leita svo upp í björgin.

Mikið er að gerast í tilhugalífinu, við að endurheimta hreiður og maka. Hjúskapurinn er einkvæni. Hún verpir um miðjan maí, og alltaf einu eggi, sem er ljósblágrænt með marglitum yrjum, sjaldan þó rauðum. Það tekur 4-5 vikur fyrir eggið að klekjast út. Makarnir skipta útungunar- og uppeldisstörfum á milli sín. Unginn er ófleygur þegar hann fer á sjóinn. Fyrst um sinn sér stuttnefjukarlinn um uppeldi ungans á sjónum, en sjórinn verður hans heimkynni þar til hann verður kynþroska. Nytjarnar eru, eins og af öðrum bjargfuglum, eggjataka og einnig er eitthvað af fugli skotið á sjó.

Fengið af menningarsöguvef um Vestmannaeyjar: http://www.heimaslod.is/

15.03.2007 23:13

Langvía

Langvía er af svartfuglaætt. Langvían er löng og rennileg og bolurinn er ílangur. Hálsinn teygist fram, nefið er langt og oddhvasst og fæturnir mjög aftarlega. Kviðurinn er hvítur, en að öðru leyti er langvían svört. Þegar langvían fer í vetrarbúninginn verður háls og kinnar einnig hvítt. Sérstakt litarafbrigði er algengt meðal langvíunnar, kallast það hringvía. Hringvían dregur nafn sitt af hvítum hring í kringum augun og mjóum hvítum taum aftur af. Langvían er í stærra lagi, eða um 43 cm á lengd og 800-1300 grömm. 
                                                                  

Fæðan er alls kyns fiskur, einkum uppsjávarfiskur sem gengur í torfum nálægt yfirborðinu. Einnig leggur hún sér til munns ljósátu og burstaorma.

Langvían kann best við sig í þverhníptum sjávarbjörgum og verpir þar á mjóum syllum, sem oft verða þéttsetnar. Langvían eyðir fyrri parti vetrar á hafi úti en snýr til varpstöðvanna í janúar og febrúar og þegar tekur að vora hefst baráttan um varpsvæði. Þá gengur mikið á, bæði í landaþrætum og ástarleikjum. Um miðjan maí verpir hún einu eggi á bera klöppina. Eggin eru keilulaga og kemur það í veg fyrir að þau velti auðveldlega út af syllunni. Þau eru margvísleg á lit til að auðvelda foreldrunum að rata á rétt egg. Útungunartími er u.þ.b. einn mánuður. Þegar unginn skríður úr egginu er hann vel þroskaður með þykkan dún og opin augu. Foreldrarnir gæta ungans vel en eftir aðeins 15 til 17 daga er unginn tilbúinn að stökkva í sjóinn. Unginn getur ekki flogið þó svo hann sé tilbúinn að yfirgefa sylluna. Annað foreldrið situr á sjónum og kallar til ungans og hvetur hann þannig til að stökkva fram af. Vængirnir eru lítt þroskaðir og því steypir unginn sér fram af bjarginu og er fallið í sumum tilvikum yfir 100 metrar. Í nokkrar vikur heldur annað foreldrið áfram að fæða og annast ungann á sjónum. Eftir 50 til 70 daga er unginn orðinn fleygur og óháður foreldrunum. Það eru mikil afföll hjá langvíuungunum, 30-50% eggjanna tapast og aðeins hluti unganna nær kynþroskaaldri.

Nytjar eru fyrst og fremst eggjataka, einnig er talsvert af fugli skotið á sjó og þykir langvían herramannsmatur sem og annar svartfugl.

Fengið af menningarsöguvef um Vestmannaeyjar: http://www.heimaslod.is/

13.03.2007 10:33

Álka

Álkan er af svartfuglaætt. Höfuðið er stórt, hálsinn stuttur og búkurinn frekar kubbslegur, bæði standandi og á sundi, þó er álkan afbragðssundfugl eins og flestir svartfuglar. Nefið er klumbulegt með hvítum þverrákum og hvítum taumi framan við augu. Hún er um 37-45 cm að lengd, 450-1000 grömm að þyngd og vænghafið er 60 cm.

                                                             

Fæða hennar samanstendur af fiskum og hryggleysingjum. Sandsílið er mikilvæg fæðutegund sem og loðna svo dæmi séu tekin, en af hryggleysingjum má nefna ljósátu, burstaorma og rækjur. Álkan hefst við í sjávarbjörgum í nábýli við langvíu, stuttnefju og ritu. Hana er m.a. oft að finna í grjóturðum undir björgunum. Hún heldur sig á sjó umhverfis landið yfir veturinn og hluti stofnsins leitar í Norðursjó. Þegar tekur að vora safnast álkurnar saman á sjóinn fyrir neðan bjargið þar sem þær verpa. Átök í björgunum eru fátíð, en hótanir, áminningar og nöldur þeim mun algengara.

Pörin koma sér fyrir á syllum eða í urðum og varpið hefst seinnipartinn í maí. Álkan verpir aðeins einu eggi. Eggin eru perulaga, sem minnkar líkurnar á því að þau velti fram af syllunni og þau eru margvísleg á lit, það hjálpar fuglunum að rata á sitt egg. Eftir u.þ.b. mánuð klekst eggið út og tæpum mánuði seinna skellir unginn sér í sjóinn. Unginn fer svo út á rúmsjó og heldur sig á sjónum í 2-3 ár, en þá verður hann kynþroska. Þá snýr hann aftur í björgin og í þetta sinn í hlutverki foreldris. Nytjar af álku eru eggjataka og einnig er fuglinn skotinn á sjó.

Fengið af menningarsöguvef um Vestmannaeyjar: http://www.heimaslod.is/

08.03.2007 13:52

Upplýsingar um undanþágur frá friðun fugla

1. Allt árið: Svartbakur, sílamáfur, silfurmáfur, hrafn

2. Frá 20. ágúst til 15. mars: Grágæs, heiðagæs.

3. Frá 1. september til 15. mars: Fýll, dílaskarfur, toppskarfur, helsingi, stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, duggönd, skúfönd, hávella, toppönd, hvítmáfur, hettumáfur, rita.

4. Frá 1. september til 10. maí: Álka, langvía, stuttnefja, teista, lundi

Óheimilt er að hleypa af skoti á landi nær fuglabjörgum en 200 m og á sjó nær en 500 m. Aldrei má skjóta fugl í fuglabjörgum. Óheimilt er að veiða fugla í sárum.Þar sem eggja- eða ungataka súlu, dílaskarfs, toppskarfs, fýls, skúms, hvítmáfs, ritu, álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda telst til hefðbundinna hlunninda, má nýta þau hlunnindi eftirleiðis.

Næstu daga munu verða settir inn fróðleiksmolar um svartfugla þ.e. álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda þar sem gera má ráð fyrir að menn séu farnir að hugsa sér til hreyfings að ná sér í svartfugl.

02.03.2007 14:00

Veiðimenn fari í skotpróf - Morgunblaðið 2. mars 2007

Á baksíðu Morgunblaðsins í dag er frétt sem ber fyrirsögnina "Veiðimenn fari í skotpróf". Í fréttinni er haft eftir Sævari Guðjónssyni, formanni Félags leiðsögumanna að félagið leggi til að veiðimenn, sem fá úthlutað veiðileyfi á hreindýr, gangist undir sérstakt skotpróf og er ályktun félagsins beint til þeirra sem fara með yfirstjórn þessara mála. Haft er eftir Sævari að margir hafi verið að sækja um hreindýr í fyrsta skipti undanfarið en samkvæmt gildandi reglum þurfi þeir ekki að eiga hreindýrariffil sjálfir, heldur nægir þeim að hafa B-skotvopnaleyfi. Ennfremur er haft eftir Sævari að því miður séu menn að koma á hverju ári sem kunni ekki með stóra riffla að fara og hafi ekki fengið þá þjálfun sem þurfi.
Nánar um málið á baksíðu Morgunblaðsins í dag, 2. mars 2007.
  • 1