Færslur: 2007 Maí

22.05.2007 13:41

Leiðsögumönnum heimilt að sækja felld hreindýr á vélknúnum ökutækjum

Samkvæmt reglugerð um takmarkanir á umferð um náttúru Íslands sem sett var í júní 2005 hefur verið óheimilt að aka vélknúnum ökutækjum utan vega nema á snævi þakinni og frosinni jörð svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum. Að auki hefur verið heimilt að aka utan vega við ákveðin störf, t.d. landgræðslu, heftingu landbrots, vegalagnir, björgun og landbúnað. Síðan að þessi reglugerð var sett hafa komið fram athugasemdir þess efnis að leiðsögumenn með hreindýraveiðum þyrftu að njóta sams konar undantekningar. Því til stuðnings hefur verið vísað til mikilvægis þess að koma bráð óskemmdri til byggða en víða hagar því þannig til að veiðislóð hreindýra er fjarri akstursleiðum. Því hefur í sumum tilvikum reynst ógjörningur að koma skrokkum felldra dýra tímanlega í viðunandi kælingu og vinnsluaðstöðu.

Til þess að bregðast við þessu hefur umhverfisráðuneytið ákveðið að veita leiðsögumönnum með hreindýraveiðum heimild til að sækja bráðina á léttum vélknúnum ökutækjum að lágmarki með sex hjólum, ef leiðsögumaður metur það svo að ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Heimildin gildir þó eingöngu þar sem dýr hafa verið felld fjarri vegum og óheimilt er að nýta ökutækið til að elta dýrið uppi. Umhverfisráðherra undirritaði breytingu á reglugerðinni í dag.

Leiðsögn með hreindýraveiðum er starfsréttindi sem leiðsögumenn afla sér með námskeiðum og staðþekkingu á veiðisvæðum.

Sótt af vef Umhverfisráðuneytisins, http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1060 

03.05.2007 23:27

Fundur um nýtingu íslenska hreindýrastofnsins

Á fundi á vegum Skotvís sem haldinn var á Grand Hótel þann 3. maí var rætt um nýtingu íslenska hreindýrastofnsins.
Skarphéðinn G. Þórisson fór yfir sögu hreindýra á Íslandi, innflutning þeirra, aðlögun að aðstæðum, stöðu stofnsins í dag og möguleika á aðlögum stofnsins í öðrum landshlutum, s.s. Barðaströnd, Hornströndum og Arnarvatnsheiði. Að sögn Skarphéðins hafa allar tillögur um bæði innflutning og flutning á dýrum stoppað hjá yfirdýralækni þar sem að umræða hefur alltaf orðið hávær um sýkingar í dýrunum. Komið hefur í ljós að stofninn hérlendis er líklega einn sá heilbrigðasti í heimi.
Áki Ármann Jónsson, forstöðumaður veiðistjórnunarsviðs UST fór yfir úthlutunarreglur og vildi meina að ef að menn vildu endurskoða úthlutunarreglurnar yrði að gera það frá grunni. Á máli Áka mátti greina að reglurnar hafa verið skoðaðar mjög ítarlega og menn hafa virkilega lagst yfir það hvernig þessu væri best háttað. Enn hefur ekki fundist nein góð leið sem bæti úr þeim göllum sem eru á kerfinu nema tapa einhverju af þeim kostum sem á því eru. Þessu til viðbótar fjallaði Áki m.a. um reglur varðandi þá sem vilja verða leiðsögumenn. Fram kom að það er samdóma álit Umhverfisstofnunar, Hreindýraráðs og FLMH að láta þá sem sækjast eftir að gerast leiðsögumenn gangast undir próf, bæði skrifleg og verkleg. Einnig gerðar séu miklar forkröfur fyrir námskeiðin. Ekki er lagastoð fyrir próftöku eða forkröfum og ekki hefur lagabreyting í þá veru verið lögð fyrir Alþingi, þannig að ekkert leiðsögumannanámskeið hefur verið haldið frá árinu 2001. Áki var spurður út í það hvort til stæði að gjald sem leiðsögumenn innheimta yrði samræmt og innheimt í gegnum Umhverfisstofnun og kvað hann svo ekki vera. Ennfremur var spurt út í notkun fjórhjóla við veiðarnar og kom fram í tali Umhverfisráðherra að um slíkt yrði að vera víðtæk sátt. 
Ýmislegt fleira athyglisvert var rætt á fundinum en ljóst er að ekki er mikilla breytinga að vænta á stjórn hreindýraveiða á næstunni.

03.05.2007 16:43

Fundur um nýtingu íslenska hreindýrastofnsins fimmtudaginn 3. maí á Grand Hótel kl. 20:00

Ræðumenn fundarins verða:

Ávarp:  Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra.
    

Fortíð og framtíð hreindýra á Íslandi:  Skarphéðinn G. Þórisson, líffræðingur

Stjórnun hreindýraveiða:  Áki Ármann Jónsson, forstöðumaður veiðistjórnunarsviðs UST

Vinsældir hreindýraveiða hafa aukist ár frá ári, skiptar skoðanir eru um stjórnun veiðanna og ýmislegt annað er þeim við kemur. Af því tilefni efnir Skotveiðifélag Íslands til fundar um íslensku hreindýrin fimmtudaginn 3. maí kl. 20.

Fundurinn er öllum opinn og fundarstjóri verður Rúnar Backmann.

Skotvís
Landssamtök um skynsamlega skotveiði


Tekið af vef Skotvís, www.skotvis.is

  • 1