Færslur: 2011 Október

31.10.2011 12:41

Búið er að uppfæra félagatalið

Búið er að uppfæra félagatal Skotfélagsins Skotgrundar.  Þann 31.október eru skráðir 73 félagsmenn.  Hægt er að sjá nöfn félagsmanna undir tenglinum "Félagatal" á forsíðunni.  Ef einhverjir hafa athugasemd við félagatalið er viðkomandi vinsamlegast beðinn um að hafa samband á skotgrund@gmail.com eða í síma 863 1718.

28.10.2011 11:50

Rjúpnavængi má senda til Náttúrufræðistofnunar Íslands

Náttúrufræðistofnun Íslands hvetur rjúpnaskyttur til að klippa annan vænginn af rjúpunum sem veiddar eru og senda stofnuninni. Af vængjunum má ráða hvort um er að ræða fugl á fyrsta ári eða eldri fugl. Fuglum af sama veiðisvæði eða úr sömu sveit þarf að halda saman í poka þannig að hægt sé að sundurgreina sýnin eftir landshlutum.

Vængina má senda til:
Náttúrufræðistofnun Íslands
Urriðaholtsstæti 6-8
212 Garðabær

Náttúrufræðistofnun mun greiða sendingarkostnað sé þess óskað. Menn eru beðnir um að láta nafn sitt og heimilisfang fylgja með sýnunum þannig að hægt sé að senda þeim, sem það vilja, niðurstöður greininga úr þeirra sýni og heildarniðurstöðurnar í lokin.

Tekið af heimasíðu Umhverfisstofnunar  www.ust.is

28.10.2011 00:27

Rjúpnaveiðitímabilið hefst á morgun

Eins og mörgum er kunnugt hefst rjúpnaveiðitímabilið á morgun 28. október 2011. Leyfilegir veiðidagar á þessu rjúpnaveiðitímabili eru 9 og skiptast þeir niður á fjórar helgar.

Leyfilegt er að veiða eftirfarandi daga:

Föstudaginn 28.október - sunnudaginn 30.október ( 3 dagar )
Laugardaginn 5.nóvember - sunnudaginn 6.nóvember ( 2 dagar)
Laugardaginn 19.nóvember - sunnudaginn 20.nóvember ( 2 dagar)
Laugardaginn 26.nóvember - sunnudaginn 27.nóvember ( 2 dagar)

Skotfélagið Skotgrund óskar rjúpnaveiðimönnum góðrar ferðar og biður menn um að fara öllu með gát.  Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga áður en haldið er til veiða:

 • Fylgist með veðurspá
 • Gerið ferðaáætlun og skiljið hana eftir hjá aðstandendum
 • Kynnið ykkur vel það svæði sem ferðast á um
 • Hafið með góðan hlífðarfatnað
 • Takið með sjúkragögn og neyðarfæði
 • Fjarskipti þurfa að vera í lagi, s.s. gps, kort, áttaviti eða annað og kunnátta verður að vera til staðar til að nota þau
 • Verið viss um að farartækið sé í góðu ásigkomulagi áður en lagt er af stað ef það á við
 • Betra er að snúa við í tíma heldur en að koma sér í ógöngur

 • Rjúpnaskyttur eru hvattar til að stunda hófsamar og ábyrgar veiðar og ganga vel um náttúruna.

  Góðar stundir!

  27.10.2011 13:06

  Skotsvæðið verður opið í dag fimmtudag

  Við ætlum að hittast í dag upp úr kl. 16:30 og brjóta nokkrar dúfur.  Við reiknum með að vera fram í myrkur eða þangað til "nennið" er búið.    Öllum er velkomið að mæta á svæðið og  taka þátt eða bara til þess að fylgjast með.  Veðurspáin er góð og kjöraðstæður til að skjóta.  Því hvetjum við sem flesta til að láta sjá sig.

  Svo er rjúpnaveiðitímabilið að hefjast á morgun og því ekki seinna vænna að hita aðeins upp fyrir þau átök ef svo ber við.

  23.10.2011 23:18

  Æfingasvæðið opið á fimmtudaginn - upphitun fyrir rjúpuna

  Við erum að stefna að því að hittast á fimmtudaginn og brjóta nokkrar dúfur.  Smá upphitun fyrir rjúpnaveiðina (fyrir þá sem fara á rúpu).  Nánari tímasetning verður auglýst síðar en einnig verður hægt að fylgjast með umræðunni á facebook síðu félagsins.  Við vonumst til að sjá sem flesta, allir velkomnir, ÞÚ líka!

  12.10.2011 18:03

  Skotskífur

  Við minnum á að hægt er að finna skotskífur til að prenta út hér á heimasíðunni okkar undir "Tenglar".  Endilega kynnið ykkur málið! 

  12.10.2011 17:34

  Heimasíða Skotgrundar

  Hefur þú einhverjar athugasemdir, ábendingar eða nýjar hugmyndir varðandi heimasíðu Skotgrundar?  Ef svo er getur þú sent mail á skotgrund@gmail.com, kvittað í gestabókina, skrifað athugasemdir á facebook eða sent sms í síma 863 1718.  Þú ræður hvort þú komir fram undir nafni eða ekki, en allar ábendingar og nýjar hugmyndir eru vel þegnar. 

  07.10.2011 10:22

  Fyrirkomulag rjúpnaveiða

  Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur ákveðið fyrirkomulag  rjúpnaveiða árið 2011. Heimilt verður að veiða samstals níu daga eða helmingi færri en í fyrra. Auk þess verður sölubann áfram í gildi á rjúpu og rjúpnaafurðum og ákveðið svæði á Suðvesturlandi verður áfram friðað fyrir veiði.

  Veiðidögunum verður skipt niður á fjórar helgar í október og nóvember

  • Föstudagurinn 28. október - sunnudagsins 30. október - (3 dagar)
  • Laugardagurinn 5. nóvember - sunnudagsins 6. nóvember - (2 dagar)
  • Laugardagurinn 19. nóvember - sunnudagsins 20. nóvember - (2 dagar)
  • Laugardagurinn 26. nóvember - sunnudagsins 27. nóvember - (2 dagar)

  Rjúpnaskyttur eru sem fyrr hvattar til að stunda hófsamar og ábyrgar veiðar í samræmi við tillögur umhverfisráðuneytisins.

  Tekið af vef Umhverfisstofnunar

  02.10.2011 21:37

  Hamingjuóskir

  Skotfélagið Skotgrund óskar öllum vinningshöfum Dúfnaveislunnar innilega til hamingju með árangurinn!

  Alls voru dregnir út 26 vinningar og átti Skotgrund þar af einn fulltrúa. 
  • 1