Færslur: 2012 Febrúar

16.02.2012 20:31

Árið 2011 gert upp

Það er búið að vera mikið líf á skotæfingasvæði Skotgrundar síðastliðna mánuði og mörg ný andlit hafa látið sjá sig.  Starfssemi síðasta árs hófst með aðalfundi Skotfélagsins  sem haldinn var í félagshúsnæði Skotgrundar.  Farið var yfir helstu mál og sett var upp fjögurra ára framkvæmdaáætlun fyrir æfingasvæðið okkar. Þá voru tveir eldri stjórnarmenn sem óskuðu eftir því að láta af störfum auk þess sem það urðu formannsskipti og tók ný stjórn  til starfa þann 5 . maí 2011.  Upplýsingar um nýja stjórn er hægt að nálgast hér á heimasíðu Skotgrundar. Nýskipuð stjórn Skotgrundar vill koma fram þakklæti til fráfarandi stjórnarmanna fyrir þeirra starf í þágu félagsins.


Fyrstu verkefni nýrrar stjórnar var að koma upp samskiptasíðu á internetinu (Facebook) til þess að auðvelda félagsmönnum og öðrum samskipti, auk þess að gera upplýsingaflæði betra.  Þá var heimasíða félagsins uppfærð og gerðar smávægilegar breytingar á henni.
 
Það fyrsta sem snýr að æfingasvæðinu sjálfu var að yfirfara allar vélarnar eftir veturinn svo hægt væri að auglýsa opnunartíma.  Æfingasvæðið var opið öll miðvikudagskvöld í sumar auk þess sem það var opið laugardaga og sunnudaga.  Heilt yfir þá var ágætis mæting á þessum opnunartímum, en einnig voru menn duglegir við að hópa sig saman, einmitt í gegnum nýju samskiptasíðuna og skipuleggja æfingar utan við auglýstan opnunartíma.


     


Þá barst Skotgrund kaffivél að gjöf ásamt öllu tilheyrandi frá einum félagsmanni félagsins. Það var Þorsteinn Bergmann sem færði félaginu hana þann 13. Júlí 2011 á einni æfingunni og vakti það mikla lukku meðal annarra skotmanna. Það var því orðin ærin ástæða til þess að mæta oftar inn á svæði, þó það væri ekki nema til þess að fylgjast með öðrum og fá sér kaffisopa.

Skotgrund tók þátt í "Dúfnaveislunni 2011", sem haldin var í fyrsta skipti í ár. Dúfnaveislan er samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar (UST), Skotveiðifélags Íslands (SKOTVÍS), auk ýmissa félaga sem reka skotvelli auk styrktaraðila. Tilgangur dúfnaveislunnar var að hvetja veiðimenn um land allt til að kynna sér þá aðstöðu sem skotvellirnir hafa upp á að bjóða og stunda reglulegar skotæfingar áður en veiðitímabilið hefst og undirbúa sig eins og best verður á kosið.  Þetta átaksverkefni tókst nokkuð vel til og stefnir Skotgrund á að taka þátt í þessu verkefni aftur á næsta ári.  Vonandi verður þá búið að fara í einhverjar endurbætur á svæðinu okkar, eins og stefnt er að. Það mun gera svæðið okkar skemmtilegra fyrir félagsmenn okkar og enn meira aðlaðandi fyrir aðkomumenn að sækja okkur heim.  Á þessu ári var farið í smávægilegar endurbætur á húsnæði félagsins sem og öðrum eignum þess og keypt hafa verið ný upplýsinga- og aðvörunarskilti til þess að setja upp á svæðinu.  Stjórnin hefur einnig verið í því að safna peningum til þess að framkvæma fyrir, en til stendur að fara í mikið viðhald og endurbætur á svæðinu í heild sinni á næstu vikum og mánuðum.

  


Vonandi mun þessi vinna takast vel og skila sér í enn meiri aðsókn á völlinn, meiri gleði og betri árangri.  Við höfum átt margar góðar stundir saman á æfingasvæðinu okkar á síðastliðnu ári og við vonumst til þess að enn fleiri fái að njóta þessarar frábæru skemmtunar sem skotíþróttin hefur upp á að bjóða í ókominni framtíð.


  


  

16.02.2012 18:39

TIL KYNNINGAR - Hugmynd Umhverfisstofnunar um verkleg skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn

Fyrirhugað er að leggja verklegt skotpróf fyrir alla sem fá úthlutað
hreindýraveiðileyfi og einnig alla leiðsögumenn með hreindýraveiðum. Ætlunin er að leita samstarfs við sem flest skotfélög um framkvæmd þessara prófa.

Í grófum dráttum er hugmyndin sú að hvert og eitt skotfélag tilnefni
prófdómara. Æskilegt er að þeir séu ekki mjög margir, en hugsanlega 2 - 3 í
hverju meðalstóru félagi. Einn aðili hjá hverju félagi myndi síðan vera
tengiliður við Umhverfisstofnun og skila þangað niðurstöðum í gegnum
tölvukerfi.

Haft verður samband við skotfélögin þegar nær dregur. Eins og staðan
er í dag er ekki gert ráð fyrir að aðrir en aðilar á vegum skotfélagana eða
Umhverfisstofnunar gerist prófdómarar. Prófin þarf að taka á viðurkenndum
skotsvæðum og því eðlilegt að skotfélögin séu í góðu samstarfi við
prófdómara. Umhverfisstofnun mun gefa út nákvæmar verklagsreglur fyrir
prófdómarana þegar endanlega er búið að samþykkja reglugerðina sem fylgir
lagabreytingunni.

Vonin er sú að framkvæmd þessara prófa muni efla starfsemi félaga og auka notkun á skotvöllum. Gjaldið sem greitt er fyrir hvert próf rennur að mestu leiti til skotfélaga/framkvæmdaraðila en því er ætlað að standa straum af kostnaði vegna framkvæmdarinnar. Ekki liggur fyrir á þessum tímapunkti hvert það er, en leitast verður við að stilla því í hóf. Í þeim prófunum sem gerðar hafa
verið má ætla að hvert próf taki um 15-20 mínútur á mann í heildina og reiknað er með að Umhverfisstofnun útbúi og prenti skotmörk sem eru raðnúmeruð.

Birt verður lýsing á drögum að framkvæmd prófsins á heimasíðu
Umhverfisstofnunar á næstunni. Þar verður hægt að lesa nánar um
framkvæmdina. Stutta útgáfan er sú að skotið er 5 skotum í 18 sm hring á 100
m færi með riffli sem ætlunin er að fara með á veiðar og með veiðikúlum,
ekki markkúlum. Nota má flest þau hjálpartæki sem eðlilegt er að hafa með
sér á veiðar, s.s. tvífætur, bakpoka o.s.frv, en ekki má leggja riffilinn
við fast undirlag né láta afturskeftið snerta annað en skyttuna.

Nánari lýsing verður send út þegar reglugerðin liggur fyrir. 

Skotfélagið Skotgrund vill þó benda skotveiðimönnum á að þetta er ekki gengið í gegn ennþá, en hægt verður að fylgjast með umræðunni hér á heimasíðu Skotgrundar og einnig á heimasíðu Umhverfisstofnunar (www.ust.is) þegar þar að kemur.

16.02.2012 07:08

Gamlar myndir

Átt þú eða þekkir þú einhvern sem að á gamlar myndir eða annað sem tengist Skotfélaginu Skotgrund?

Ef svo er þá væri gaman að heyra frá þér því við erum að leita af myndum og öðru til að birta á heimasíðunni okkar og til að skreyta félagshúsið. 

Hægt er að hafa samband við Jón Pétur í síma 863 1718 eða senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com

Með fyrirfram þökk

11.02.2012 00:02

Reglur um keppnisfatnað

ISSF hefur sent frá sér túlkun á reglum um klæðnað í alþjóðlegum skotmótum ( ISSF rule 6.4.2.1 ).  Í framhaldi af þeirri túlkun hefur stjórn STÍ ákveðið að setja reglur um klæðnað í skotmótum á Íslandi en vekur um leið athygli á því að reglur ISSF ganga mun lengra og er m.a. skv þeim bannað að klæðast gallabuxum á alþjóðlegum mótum.

Öllum íþróttagreinum er annt um þá ímynd sem íþróttin hefur í augum almennings og fjölmiðla og á þetta ekki hvað síst við um skotíþróttina.  Klæðnaður hefur veruleg áhrif á það hvort áhorfandi fær þá tilfinningu að keppendur séu íþróttamenn og starfsmenn móta fagmenn.  Leiðtogar innan alþjóða skotsambandsins hafa haft verulegar áhyggur af þeirri ásýnd sem hefur verið að birtast á skotmótum og við verðlaunaathafnir þar sem keppendur hafa m.a. mætt í rifnum / slitnum gallabuxum og bolum með óviðeigandi áletrunum.Reglur um klæðnað:

Keppendum í skotfimi og starfsmönnum við skotmót er skylt að vera hreinir og snyrtilegir til fara.  Í klæðnaði sem hæfir opinberum viðburði og íþróttamóti og gefur til kynna að um íþróttaviðburð sé að ræða.

Eindregið er mælst til þess að  keppendur klæðist íþróttafatnaðiEftirfarandi fatnaður er bannaður á mótum viðurkenndum af STÍ:

A: Rifinn, götóttur eða slitinn fatnaður

B: Fatnaður með áberandi bótum

C: Ermalausir bolir ( ekki átt við venjulega stuttermaboli )og hlýrabolir

D: Fatnaður í felulitum ( camouflage )
E: Fatnaður með óviðeigandi / óíþróttamannslegum áletrunum, myndum eða merkjum.      
F: Stuttbuxur eða stutt pils
G: Opnir skór svosem sandalar, klossar o.þ.h.


Dómarar bera ábyrgð á því að þessu sé farið eftir. 

·Skulu þeir veita áminningu við fyrsta brot á reglum þessum og tilkynna STÍ um áminninguna. 

· Mæti sami keppandi aftur til móts brotlegur við reglur þessar, skal veita honum áminningu og skora á hann að lagfæra klæðnað.  Verði hann ekki við því skal honum vísað úr keppni. 

·Við þriðja brot skal tafarlaust vísa þeim sem brotlegur er úr keppni.

 
Dómari skal grípa til þessara aðgerða áður en mót hefst og er óheimilt að veita áminningu vegna þessa eftir að keppni er hafin hjá viðkomandi keppanda.

Hér ber og að hafa í huga að reglurnar gilda um þann fatnað sem íþróttamaðurinn keppir eða tekur við verðlaunum  í og telst keppni hafin þegar undirbúningur byrjar.  Dómara er heimilt að benda keppanda á misbresti og gefa honum kost á að færa til betri vegar áður en til áminningar eða brottvikningar kemur ( t.d. við byssuskoðun )Skotíþróttasamband Íslands, 23.nóv.2011

Hægt verður að nálgast þessar reglur á heimasíður Skotgrundar í komandi framtíð undir "Tenglar" vinstra megin á síðunni.

10.02.2012 02:41

Gestabókin verður brandarabók

Gestabók síðunnar hefur verið breytt í brandarabók. Í hana geta menn skrifað góða eða lélega brandara, sjálfum sér og öðrum til skemmtunar.

Ekki láta þitt eftir liggja og skelltu inn einum eða tveimur góðum og fáðu um leið útrás fyrir brandarakarlinum sem býr í þér!


Þú finnur tengil inn á brandarabókina ofarlega til hægri á heimasíðu Skotgrundar!

09.02.2012 23:26

Skilafrestur veiðiskýrslna

Skilafrestur veiðiskýrslna er 1. apríl 2012

Ef skilað er eftir 1. apríl hækkar gjald fyrir veiðkortið í 5.110 kr.

Öllum veiðikorthöfum er skylt að skila inn veiðiskýrslu undangengins
veiðiárs hvort sem hann veiddi eitthvað eða ekki. Eins þarf
veiðikorthafi að skila inn skýrslu hvort sem hann hyggst endurnýja
veiðikort eða ekki.

Til að skerpa á skilaskyldunni hækkar veiðikortagjaldið hjá þeim sem
skila inn veiðiskýrslu sinni eftir 1. apríl úr 3.500 kr. í 5.000 kr.
Athugið að þetta hækkunar ákvæði gildir eingöngu um þá sem voru með
veiðikort 2008 og/eða síðar.
Sendikostnaður er 110 kr

Sjá nánar á http://www.ust.is/einstaklingar/veidi/


Skilahappdrætti
Dregið verður um verðlaun úr þeim veiðiskýrslum sem berast fyrir 15.
febrúar.

08.02.2012 22:30

Nýjung á heimasíðu Skotgrundar

Búið er að bæta við tengli á heimasíðu Skotfélagsins Skotgrundar sem inniheldur styrktaraðila félagsins.  Þar verða nöfn þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem styrkja Skotgrund birt.  Styrktaraðilarnir eru ekki margir eins og er en þeim mun vonandi fjölga í framtíðinni, því stjórn félagsins er stórhuga og stefnir á að bæta aðstöðuna okkar mikið á næstu vikum og mánuðum.  Frekari uppfærslur og endurbætur á heimasíðunni verða á næstu dögum.

06.02.2012 20:26

Gamlar myndir

Átt þú eða þekkir þú einhvern sem að á gamlar myndir eða annað sem tengist Skotfélaginu Skotgrund?

Ef svo er þá væri gaman að heyra frá þér því við erum að leita af myndum og öðru til að birta á heimasíðunni okkar og skreyta félagshúsið. 

Hægt er að hafa samband við Jón Pétur í síma 863 1718 eða senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com

Með fyrirfram þökk
  • 1