Færslur: 2012 Maí

25.05.2012 23:11

Saga félagsins - stjórnir

Þessa dagana er verið að vinna í því að skrásetja sögu félagsins.  Fyrsti liður í þeirri vinnu er að skrásetja nöfn þeirra manna sem setið hafa í stjórn félagsins. Verið er að fara yfir gömul skjöl og bækur og afla upplýsinga um það hverjir hafa setið í stjórn, á hvaða tímabili og hvaða embætti þeir hafa gegnt.

Skrásetningin er langt á veg komin, en ennþá vantar okkur nokkur nöfn og titla til þess að ljúka skráningunni.  Ef þú getur aðstoðað okkur við að fylla í eyðurnar viljum við biðja þig um að hafa samband við okkur á skotgrund@gmail.com eða í síma 863 1718.

Upptalninguna er hægt að sjá hér á heimasíðu félagsins undir tenglinum "stjórn félagsins".

24.05.2012 23:36

Framkvæmdir

Síðastliðinn laugardag fóru þeir Guðni Már og Jón Einar inn á svæði og löguðu riffilbattana.  Einhverjir skotmenn hafa verið svo ólánsamir að skjóta í battana sjálfa þannig að búið var að skjóta þá í sundur!  Nú er hinsvegar búið að laga battana þannig að hægt er að setja tex í þá til að hengja skotskífur á.  Texið er aðgengilegt í rauða kassanum sem er við riffilborðin.

Við viljum biðja menn um að ganga vel um svæðið og skila texplötunum aftur í rauða kassann svo að næsti maður geti gengið að þeim vísum.  Einnig viljum við árétta það við skotmenn að skjóta ekki í battana, því þá skemmast þeir.

 

Skotmenn þurfa að koma með skotskífur með sér sjálfir til að hengja á texplöturnar.

22.05.2012 01:12

Nýr félagsmaður

Nýlega gerðist Þorsteinn Hjaltason félagsmaður í Skotgrund og er hann boðinn hjartanlega velkominn í félagið!

Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig í félagið geta sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com eða haft samband við Jón Pétur í síma 863 1718.

11.05.2012 22:26

Framkvæmdir

Unnsteinn er búinn að kaupa efni og sjóða saman grind fyrir skiltin sem setja á upp á svæðinu okkar.  Grindin verður steypt niður um leið og við steypum riffilborðin.  Skiltin sjálf verða fest í stálramma sem samanstendur af vinkilprófíl og flatjárni.  Stálramminn verður svo festur í grindina.

 


Hægt er að skoða fleiri myndir í myndaalbúminu hér á síðunni.


Ragnar og Ásgeir ehf. styrkti Skotgrund
með því að flytja efnið í skiltin vestur endurgjaldslaust og sendir Skotgrund þeim bestu þakkir fyrir.  Það munar um hverja krónu hjá okkur og erum við mjög þakklát/ir fyrir þessa rausnarlegu aðstoð.

11.05.2012 01:34

Framkvæmdir - Skotmörk fyrir riffla

Í gær (fimmtudag) fóru þeir Biggi, Unnsteinn, Guðni og Jón Pétur að vinna á svæðinu.  Farið var yfir þær framkvæmdir sem eru í gangi og þær sem væntanlegar eru. 


 


Klárað var að grafa holur fyrir skotmörk sem setja á upp á riffilsvæðinu.

Ætlunin er að setja upp færanleg skotmörk á 25m, 50m og 75m.  Fyrir eru skotmörk á 100m og 200m.
Hægt er að skoða fleiri myndir í myndaalbúminu hér á heimasíðu Skotgrundar.

Unnsteinn er líka búinn að sjóða saman ramma utan um skiltin sem setja á upp á svæðinu.  Myndir frá því verða settar inn á heimasíðuna á næstunni.

09.05.2012 00:59

Framkvæmdir

Hafin er undirbúningsvinna fyrir uppsetningu á skiltum á svæði Skotgrundar.  Búið er að kaupa skiltin og verða þau sett upp við fyrsta tækifæri.  Hér má sjá mynd af einu skiltinu:Ætlunin er að setja upp skilti sitthvoru megin við veginn við aðkomuna að æfingasvæðinu.  Þau eru með texta bæði að framan og aftan.  Sett verða upp fleiri skilti þegar fram líða stundir.

Undirbúninsvinnan er eins og áður segir hafin og byrjað er að gera holur til að steypa skiltin í.


Hægt er að skoða fleiri myndir í myndaalbúminu undir "Framkvæmdir - Maí 2012"!

08.05.2012 09:52

Framkvæmdir

Síðastliðinn sunnudag (6. maí 2012) mættu Biggi, Steini Gun, Tommi og Jón Pétur til að halda áfram undirbúningsvinnu fyrir uppsetningu á 2 riffilborðum til viðbótar.   


Búið er að setja niður festingar fyrir borðin, slá upp fyrir stéttinni og járnabinda að hluta til.  Okkar vantar hinsvegar nokkra búta af bendineti/járnamottu til þess að ná að ljúka við að járnabinda.  Ef að einhver á afgang af járni sem hann má missa, má hinn sami hafa samband við okkur.  Um er að ræða ca. 6maf bendineti.


    


Ætlunin er að reyna að steypa stéttina fyrir næstu helgi ef við fáum steypu.  Síðan verða riffilborðin steypt niður fljótlega eftir það.

Gúmmíefnið sem við ætlum að setja á borðin er væntanlegt vestur í dag og verður það sett á borðin við fyrsta tækifæri.

Hægt er að skoða myndirnar í myndaalbúminu hér á síðunni!

07.05.2012 15:44

Lavaland gerist styrktaraðili Skotgrundar

Lavaland skartgripaframleiðandi er nú orðinn opinber styrktaraðili Skotgrundar.  Allir skartgripir frá LAVALAND eru handgerðir úr sterling silfri og bræddu íslensku hrauni.

Nánari upplýsingar um Lavaland er hægt að finna á www.lavaland.is eða á facebook.
Skotgrund þakkar Lavaland fyrir veittan stuðning.


07.05.2012 08:58

Nýir stólar við riffilborðin

Skotgrund hefur eignast nýja stóla við riffilborðin.  Um er að ræða 6 stóla úr rekaviði sem brennimerktir eru félaginu.  Það er því einn stóll við hvert borð (þegar búið verður að setja upp nýju borðin).  Stefnt er að því að fjölga svo stólunum með tímanum.


06.05.2012 23:37

Framkvæmdir

Í gær laugardaginn 5. maí 2012 hófu þeir Biggi, Steini Gun, Samúel og Tommi undirbúningsvinnu fyrir uppsetningu á tveimur riffilborðum til viðbótar.  Ætlunin er að steypa þau niður líkt og þau fjögur borð sem fyrir eru og steypa stétt undir/umhverfis þau.

Borðin sjálf eru tilbúin og verða þau steypt niður þegar stéttin er tilbúin.
Hægt er að sjá fleiri myndir í myndaalbúminu.

Í dag (sunnudag) var svo haldið áfram að undirbúa steypuvinnuna en frásögn og myndir frá því koma inn á síðuna á morgun!

04.05.2012 10:05

Aðalfundur Skotfélagsins Skotgrundar

Aðalfundur Skotfélagsins Skotgrundar var haldinn í gær í blíðskapar veðri í félagshúsi Skotgrundar í Hrafnelsstaðabotni.  Fundurinn var ágætlega vel sóttur og voru léttar veitingar í boði.  Farið var yfir skýrslu stjórnarinnar, ársreikning félagsins auk þess sem ný stjórn var kjörin. Einnig var farið yfir framkvæmdaáætlun félagsins og framkvæmdum var forgangsraðað.  Ekki vantar hugmyndirnar og áhugann, en þar sem fjármunir félagsins eru af skornum skammti var framkvæmdunum forgangsraðað eftir mikilvægi þeirra. Einnig voru rædd "önnur mál" og má þar t.d. nefna opnunartíma, tryggingar, varning merktan félaginu, byssusýning, lyklamál, umgengni o.fl.
Helstu fréttir eru þær að það urðu mannaskipti í stjórninni þar sem tveir stjórnarmenn óskuðu eftir því að stíga til hliðar og hleypa fersku blóði að.  Freyr Jónsson lætur nú af störfum sem gjaldkeri félagsins en Freyr og Jarþrúður Hanna hafa séð um fjármál félagsins undanfarin ár.  Við þeirra starfi tekur nú Tómas Freyr Kristjánsson og óskum við honum velfarnaðar í starfi um leið og við þökkum Frey og Jarþrúði Hönnu fyrir ómælda vinnu í gegnum árin.


Einnig lætur Bjarni Sigurbjörnsson af störfum sem ritari félagsins og við starfi hans tekur nú Gústav Alex Gústavsson.  Óskum við honum líka velfarnaðar í nýju starfi um leið og við þökkum Bjarna fyrir hans vinnu í þágu félagsins.


Aðrir stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi starfa og er stjórn Skotfélagsins Skotgrundar því skipuð eftirfarandi mönnum:

 

 • Jón Pétur Pétursson - Formaður
 • Gústav Alex Gústavsson - Ritari
 • Tómas Freyr Kristjánsson - Gjaldkeri
 • Guðmundur Pálsson - Meðstjórnandi
 • Guðni Már Þorsteinsson - Meðstjórnandi
 • Þorsteinn Björgvinsson - Meðstjórnandi
Annað sem kosið var um á fundinum er til dæmis:


  • Að félagsmenn sem eru 18 ára eða yngri greiði ekki félagsgjöld. Ekki er þó ætlast til þess að einstaklingar yngri en 15 ára gangi í félagið

  • Keypt verður Pace þakviðgerðargúmmí til þess að bera á riffilborðin.  Það kemur vonandi í veg fyrir að skotvopn og skotmenn rispist á borðunum auk þess sem þetta hlífir borðunum fyrir veðrun.  Þetta er tilraunarstarfssemi hjá okkur sem á vonandi eftir að gefa góða raun.  Hægt verður að fylgjast með framvindu mála hér á heimasíðu félagsins.
  • Gjaldkera og formanni félagsins var falið að fara yfir tryggingamál félagsins.
  • Formanni félagsins var falið það verkefni að kanna kostnað o.fl. við kaup á derhúfum með merki félagsins og límmiða í bílrúður.
    Það sem snýr að framkvæmdum á svæðinu þá er stefnt að því að:


 • #   Steypa nýja sökkla undir markið og turninn. (Jón Pétur og Gústav Alex)

  #   Klæða markið og turninn að utan. (Sjálfboðaliðar)
 • #   Mála markið, turnin og aðrar eignir félagsins. (Sjálfboðaliðar)
 • #   Setja upp 2 riffilborð til viðbótar. (Birgir og Steini Gun)
 • #   Setja Pace þakviðgerðarefni á öll rifflaborðin. (Birgir og Steini Gun)
 • #   Laga riffilskotmörkin/battana. (Guðni Már og Jón Einar)
 • #   Setja upp riffilskotmörk/batta á 50 metrana. (Sálfboðaliðar)
 • #   Sjóða ramma utan um skiltin okkar og setja þau upp. (Unnsteinn)Þetta er það helsta en það er lengi hægt að telja upp enda sátu fundarmenn fram undir myrkur á spjalli.  Að lokum var gengið um svæðið og farið yfir þau atriði sem lagfæra þarf.  
Það er von stjórnarinnar að vel takist til með þær framkvæmdir sem ráðist verður í á næstunni og að þær verði öllum til ánægju.  Ef að einhver hefur ábendingar til stjórnarinnar  varðandi svæði félagsins þá getur viðkomandi haft samband á skotgrund@gmail.com.

Stjórn Skotgrundar vill þakka þeim sem tóku þátt í fundunum í gær og vonast til að sjá sem flesta á vellinum í sumar.


    


 


 

03.05.2012 12:08

Nýir félagsmenn

Nýlega gengu í félagið sjö nýir félagsmenn.  Þeir eru:

Dagbjartur Harðarson                Grundarfjörður

Hafþór Ingi Þorgrímsson           Stykkishólmur

Hinrik Jóhannesson                  Grundarfjörður

Jón Einar Rafnsson                  Ólafsvík

Lýður Valgeir Jóhannsson        Grundarfjörður

Marvín Ívarsson                        Reykjavík/Grundarfjörður

Sólberg Ásgeirsson                  Grundarfjörður

 

Bjóðum við þá hjartanlega velkomna í félagið.  Um leið bendum við þeim sem hafa áhuga á að skrá sig í félagið að félagið er opið öllum áhugasömum.  Hægt er að skrá sig í félagið með því að hafa samband við Jón Pétur í síma 863 1718 eða senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com


 

01.05.2012 13:09

Aðalfundur

Við minnum á aðalfundinn sem haldinn verður fimmtudaginn 3. maí 2012 kl. 20:00 í húsnæði félagsins í Hrafneklsstaðabotni. Dagskrá fundarins verður á þennan veg:


Skýrsla stjórnar

Reikningar félagsins lagðir fram

Ákvörðun um félagsgjöld

Kjör formanns, stjórnar og skoðunarmanna

Önnur mál

Við hvetjum félagsmenn til að mæta á fundinn og ef það er eitthvað sem þeir vilja koma á framfæri viljum við endilega fá ábendingar um það.  Einnig er hægt að senda okkur tölvupóst á skotgrund@gmail.com, hafa samband við Jón Pétur í síma 863 1718 eða sent skilaboð á facebook síðu félagsins .

Hlökkum til að sjá sem flesta.

 • 1