Færslur: 2012 Júní

27.06.2012 10:14

Notkun á riffilsvæði

Við viljum benda mönnum sem nota riffilsvæðið á að texplötur eru aðgengilegar í rauða kassanum sem er undir riffilborðunum. 

Mikið hefur borið á því að menn séu að stilla upp skotmörkum á eða við riffilbattana sjálfa, sem gerir það að verkum að þeir verða skotnir í sundur.  Ætlast er til þess að menn noti texplöturnar og setji skotskífur á þær.  Skotskífur þurfa menn að koma með sjálfir.  Hægt er að prenta út skotskífur hér á heimsíðu félagsins.  Þær er að finna undir "Tenglar" neðarlega til vinstri á síðunni.

Jafnframt biður Skotgrund menn um að ganga frá texplötunum aftur í rauða kassann eftir notkun þannig að næsti maður geti gengið að þeim vísum.  Texplöturnar voru keyptar af félaginu og eru eign þess, en stendur mönnum til boða endurgjaldslaust.  Því vonumst við til að menn sjái sóma sinn í að skila þeim aftur í kassann, því óvíst er hvenær félagið geti keypt plötur aftur og minnkar þá framkvæmdasjóðurinn enn frekar ef keyptar verða plötur.


Hér eru útskýringamyndir fyrir notkun á riffilsvæðinu.
1)  Hér má sjá texplötur í rauða kassanum.
2)  Skotskífur eru settar á texplötuna með teiknibólum eða heftum.  Ætlast er til þess að menn komi sjálfur með skotskífur og hefti.  Skotskífur er hægt að prenta út hér á síðunni.
3)  Texplötunum er síðan rennt inn í riffilbattana.  (Munið að skila texplötunum aftur eftir notkun.)
4)  Hér má sjá til samanburðar annarsvegar hvernig ekki skal gera (til vinstri) og hinsvegar hvernig stilla skal upp skotmörkum (til hægri). 

Með því að stilla skotskífum upp eins og gert er til vinstri fara kúlurnar í gegnum battana sjálfa og skemma þá.  Ef skotskífunum er stillt upp eins og gert er til hægri, verða engar skemmdir á böttunum. 

Ef vel er að gáð er hægt að sjá hvað er búið að skjóta mikið í battana og er það aðallega vegna gáleysi manna.  Voru þeir orðnir svo illa farnir á nokkrum stöðum að skera þurfti úr brautunum svo hægt sé að setja texplöturnar í sleðana.

25.06.2012 01:23

Myndir af steypuframkvæmdum

Búið er að bæta við fleiri myndum af steypuframkvæmdunum í myndaalbúmið hér á síðunni.  Hægt er að finna þær ef valið er "myndaalbúm" og síðan "Framkvæmdir - Júní 2012".


22.06.2012 22:18

Framkvæmdir

Þá er búið að steypa fyrstu steypu sumarsins.  Steypubíllinn var mættur upp úr kl. 08:00 í morgun (föstudag) og byrjað var á því að steypa stéttina undir riffilborðin.
Þegar því var lokið voru rammarnir fyrir skiltin steyptir niður. Í rammana koma skilti með merki félagsins og texta, eins og áður hefur komið fram hér á síðu félagsins.
Þá var bara eftir að steypa niður undirstöðurnar fyrir riffilskotmörkin á 25m, 50m, og 75m.  Alls voru steyptir niður 6 sökklar, tveir á hverjum stað.  Í þá koma svo færanleg riffilskotmörk sem hægt verður að færa á milli staða með einu handtaki.


Þegar steypubíllinn var farinn tók við "fínísering" eins og maðurinn sagði.  Steypuvinnunni allri var svo lokið upp úr kl. 15:30.Steini var drjúgur í dag og héldu honum engin bönd eins og sést hér á myndinni fyrir neðan með fullar hjólbörurnar.  Hinir yngri áttu í fullu fangi með að hanga í honum.
Hér má sjá tvær skemmtilegar myndir.  Sú fyrr er líklega tekin árið 1989 en sú síðari á sama stað 23 árum síðar og er Steini enn að steypa niður riffilborð..........Jú, Tommi var fæddur þegar fyrri myndin var tekin.
 
  


Fleiri myndir verður hægt að sjá í myndaalbúminu hér á síðunni innan skamms, en það er einhver bilun í tölvukerfinu og ekki hægt að hlaða þeim inn eins og er.

21.06.2012 23:36

Lokafrágangur fyrir steypu

Þá er allt klárt fyrir steypu.  Í kvöld (fimmtudag) var lokið við að stilla upp og gera klárt fyrir steypu, en steypubíllinn er væntanlegur kl. 8:00 á morgun.  Þeir sem hafa áhuga á að leggja hönd á plóg við steypuvinnu eða bara vera viðstaddir geta kíkt inn á svæði upp úr kl. 8:00 eins og áður segir.
Til stendur að steypa stétt fyrir 2 riffilborð, steypa niður ramma fyrir skilti við aðkomuna að svæðinu og steypa undirstöður fyrir færanleg skotmörk á 25m, 50m, og 75m.  Hægt er að sjá fleiri myndir í myndaalbúminu hér á síðunni.

19.06.2012 11:51

Félagsskírteinin eru komin í dreifingu

Félagsskírteinin eru tilbúin og komin í dreifungu.  Í tilefni af 25 ára starfsafmæli félagsins fá félagsmenn nú senda límmiða með afmælisútgáfu af merki félagsins.  Annar límmiðinn er til þess að setja í bílrúður og hinn er hefðbundinn límmiði sem t.d. er hægt að setja á riffiltösku.
Reynt verður að dreifa þeim eins hratt og mögulegt er manna á milli til að spara sendingakostnað.  Þau skírteini sem ekki skila sér til rétthafa innan fárra daga verða sett í póst.

Eins og áður hefur komið fram eru félagsgjöldin aðal innkoma félagsins og er því rekstur félagsins undir því kominn, hversu vel félagsgjöldin skili sér. 

Við vonumst því til að sem flestir greiði félagsgjaldið fúslega sem allra fyrst, því þá er hægt að framkvæma meira og bæta aðstöðuna enn frekar.

13.06.2012 23:14

Framkvæmdir - Júní 2012

Í gær (þriðjudag) voru rammarnir fyrir skiltin settir upp og gerðir tilbúnir fyrir steypu.  Rammana smíðaði Unnsteinn en í þá verða sett skilti með merki félagsins og texta sem gefur til kynna að þar sé skotæfingasvæði Skotgrundar.Á mynd: Þorsteinn Björgvinsson

Að því loknu voru skotnir nokkrir hringir á leirdúfuvellinum í bliðskapar veðri.Á mynd: Guðmundur Pálsson, Unnsteinn Guðmundsson og Þorsteinn Björgvinsson


Hægt er að sjá fleiri myndir í myndaalbúminu hér á síðunni.

Vonandi verður hægt að steypa fyrir helgina en ásamt því að steypa niður rammana fyrir skiltin er ætlunin að steypa stétt fyrir tvö riffilborð til viðbótar og undirstöður fyrir riffilskotmörk á 25m, 50m og 75m.

Fréttir og myndir af frekari framkvæmdum verða birtar hér á síðunni.

06.06.2012 01:51

Félagsskírteini 2012

Félagsskírteini fyrir árið 2012 eru komin í prentun.  Þau verða send út á allra næstu dögum.  Jafnframt verður rukkun fyrir félagsgjöldum send í heimabanka félagsmanna fljótlega. 


Skotgrund treystir alfarið á innkomu félagsgjalda til rekstur félagsins og endurbótum á aðstöðu þess.  Því viljum við hvetja félagsmenn til að greiða  félagsgjaldið fúslega sem fyrst því hver króna skiptir félagið máli.  

Með góðri innheimtu félagsgjalda er hægt að framkvæma meira og gera svæðið betra og meira aðlaðandi bæði fyrir okkar félagsmenn og gesti.

Jafnframt viljum við þakka þeim sem hafa greitt félagsgjöldin undanfarin ár gagngert til að styrkja félagið fyrir þeirra framlag til félagsins.

Félagsmenn sem ekki greiddu félagsgjöldin á síðasta ári voru strikaðir út af félagaskrá eins og segir til um í reglum félagsins.  Þeir fá því ekki senda rukkun um félagsgjöld á þessu starfsári.  Hafi þeir hinsvegar áhuga á að gerast félagsmenn aftur geta þeir haft samband á skotgrund@gmail.com eða í síma 863 1718.

 

  • 1