Færslur: 2012 September

29.09.2012 10:35

Afmælisfögnuður næstu helgi

Stefnt er að því að halda upp á 25 ára afmæli Skotfélagsins Skotgrundar næstkomandi laugardag (6.október) ef veður verður skaplegt.  Verið er að setja lokahönd á dagskrána en hugmyndin er að bjóða gestum og gangandi að sækja okkur heim á æfingasvæði félagsins og þiggja léttar veitingar.  Félagsmenn munu vera með eitthvað af skotvopnum til sýnis og geta gestir fengið að prófa nokkur skot.

Að því loknu verður haldið afmælismót í leirdúfuskotfimi, en skotnir verða 2-3 hringir.  Allt verður þetta á léttu nótunum og vonumst við til að sjá sem flesta.

Frekari upplýsingar verða birtar hér á heimasíðu félagsins þegar líða fer á vikuna.  Taktu því laugardaginn frá og við hlökkum til að sjá ÞIG næstu helgi.28.09.2012 19:29

Skotæfingasvæðið lokað laugardag

Skotæfingasvæði Skotgrundar verður lokað á morgun laugardaginn 29. september vegna smalamennsku.  Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda, en við biðjum menn jafnframt að sýna þessu skilning og virða lokunina.

 Myndina tók: Tómas Freyr Kristjánsson

 

28.09.2012 18:50

Viðgerð á varnargarði

Búið er að útvega nokkrar heyrúllur sem nota skal í uppbyggingu á varnargarði meðfram æfingasvæði Skotgrundar.  Árið 2008 rofnaði gamli varnargarðurinn og hlaust töluvert landbrot af.  Fengnar voru stórvirkar vinnuvélar sem ýttu upp efni úr ánni til þess að reyna að sporna við frekara landbroti, en það bar ekki árangur því efnið skolaðist fljótlega aftur í burtu.  Síðan þá hefur áin jafnt og þétt verið að éta sig nær skotæfingasvæði félagsins og getur svæðið verið í mikilli hættu ef ekkert verður viðhafst í málinu.

Því er ætlunin að gera tilraun til að grafa grunnan skurð þar sem gamli varnargarðurinn var og raða í hann heyrúllum í von um að þær nái að gróa upp og mynda þar varnargarð.  Ætlunin er að moka efni að rúllunum til að styðja við þær, en ljóst er að kostnaður við það að hlaða grjótgarð er félaginu of megn.  Búið er að útvega 15 stk. af heyrúllum og flytja þær að ánni.  Þar bíða þær nú eftir að þeim verði raðað upp.


Hér fyrir neðan má sjá hvernig búið er að fylla upp með möl í það skarð sem áin gróf í bakkann og hvar búið er að koma heyrúllunum fyrir.  Nú á bara eftir að raða þeim snyrtilega upp.  Fyrir neðan má svo sjá til samanburðar hversu langt áin var búin að grafa sig inn í átt að æfingasvæðinu.

 


September 2012September 2008


 

23.09.2012 20:05

Rjúpnaveiðin verður óbreytt í ár

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið fyrirkomulag rjúpnaveiða haustið 2012, að fengnu mati og tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Veiðar verða heimilar í níu daga líkt og haustið 2011 og dreifist veiðitímabilið á fjórar helgar með eftirfarandi hætti:

 

  • Föstudagurinn 26. október til sunnudagsins 28. október.
  • Laugardagurinn 3. nóvember og sunnudagurinn 4. nóvember.
  • Laugardagurinn 17. nóvember og sunnudagurinn 18. nóvember.
  • Laugardagurinn 24. nóvember og sunnudagurinn 25. nóvember.


Áætlaður veiðistofn nú er um 390.000 fuglar, en talið að veiðiþol sé 34.000 fuglar.


Umhverfisstofnun leggur til að veiðifyrirkomulag verði með sama hætti og 2011, þ.e. níu dagar, sem dreifist á fjórar helgar. Umhverfisstofnun leggur áherslu á að farið verði að ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar um ráðlagða veiði upp á 34.000 fugla, sem geri um sex rjúpur á veiðimann, miðað við þann fjölda veiðimanna sem að jafnaði fari til rjúpnaveiða.

Bent er á að í gildi verður sölubann á rjúpu og rjúpnaafurðum.

Nánari upplýsingar er að finná á www.ust.is


 

 

23.09.2012 19:55

Hreindýraveiðum lokið þetta árið

Síðasti dagur veiðitímabilsins var á fimmtudaginn. Heimilt var að fella hreintarfa til 15. september en hreinkýr til 20. september. Veiðkvótinn var 1009 hreindýr. Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu náðist ekki að fella 13 dýr af útgefnum veiðikvóta, sjö tarfa og sex kýr.

Nánari upplýsingar er að finna á www.ust.is 

Lokastaða veiða 20. september

Upplýsingar fengnar af www.ust.is

Svæði
            

Kvóti 2012

Fellt

Kýr

Tarfar

Kýr

Tarfar

1 og 2

291

169

290

165

3

30

45

30

45

4

10

21

8

21

5

35

28

35

28

6

30

46

30

46

7

120

67

120

67

8

47

25

45

25

9.

25

20

24

17

Samt.

588

421

582

414

Samt.

1009

996

20.09.2012 11:01

Opið hús í dag hjá Skotgrund

Í dag verður opið hús hjá Skotgrund og ætlum við að bjóða fólki að kynna sér starfsemi félagsins.  Til sýnis verða skotvopn, fólk getur fengið að prófa að skjóta leirdúfur og þeir sem hafa áhuga geta lært á kastvélarnar.  Einnig er hugsunin að gera þetta að góðum degi þar sem skotmenn hittast og skjóta.

Einnig verða nýju skotgrindurnar (battarnir) fyrir 25m, 50m, og 75m teknir í notkun í dag.  Hér fyrir neðan má sjá myndir af nýju grindunum.  Vonandi sjáum við sem flesta í dag.

11.09.2012 13:56

Hleðslunámskeið?

Hugmyndir eru um að reyna að halda námskeið í hleðslu skothylkja ef áhugi er fyrir því og næg þátttaka.  Hugmyndin er ennþá á frumstigi, en okkur langar að kanna það hversu margir hefðu áhuga á að sækja slíkt námskeið ef það yrði haldið.

Við viljum því biðja áhugasama um að senda okkur tölvupóst á skotgrund@gmail.com til að skrá sig á póstlista varðandi námskeiðið.  Þetta er þó ekki bindandi skráning, heldur aðeins til að kanna hversu margir hefðu áhuga á að sækja slíkt námskeið.

Nánari upplýsingar og tímasetning verður send síðar ef að þessu verður.


10.09.2012 14:42

Ljósmyndasamkeppni - Peningaverðlaun

photographer-5SKOTVÍS gengst fyrir ljósmyndasamkeppni meðal veiðimanna og áhugamanna um ljósmyndun, en samkeppnin er liður í því að byggja upp myndabanka sem verður aðgengilegur þeim sem þurfa að notast við myndir af veiðum eða veiðitengdum atburðum.

10.000 króna verðlaun verða veitt fyrir bestu myndina í hverjum flokki siðareglnanna*. Sérstök verðlaun verða einnig veitt þeim aðila sem nær bestu seríunni að mati dómnefndar, þ.e. einni mynd í hverjum flokki - SKOTVÍS áskilur sér rétt til að nota vinningsmyndir í kynningarefni sínu og því þurfa myndir að berast í fullri upplausn. Myndir mega vera unnar í myndvinnsluforritum, en frumeintak þarf einnig að fylgja.


SKILAFRESTUR ER TIL 31. DESEMBER 2012 - Sendist á veidimyndir@skotvis.is, merkt "SIÐAREGLURNAR Í MYND"


Frekari upplýsingar er að finna á www.skotvis.is*Siðareglurnar má sjá á www.skotvis.is

09.09.2012 00:51

Úrslit dagsins og fleiri myndir

Búið er að reikna saman stigin hjá strákunum frá því í dag og hefur verðlaunaafhendingin farið fram.  Úrslitin fóru á þann veg að eldra liðið vann nauman sigur, en þeir skoruðu hærra bæði í riffilkeppninni og í leirdúfukeppninni.  Þeir unnu því einnig samanlagt og fengu skeet-skjöldinn að launum og eru ríkjandi meistarar þetta árið.


 

 

Búið er að bæta við nokkrum myndum frá því í morgun í myndaalbúmið hér á heimasíðu Skotgrundar.

 

 

08.09.2012 14:56

Knattspyrnumenn í heimsókn

Í dag fengum við meistaraflokk Grundarfjarðar í knattspyrnu í heimsókn.  Voru menn mættir upp úr hádegi og var ekki annað að sjá en að spenna væri í loftinu.  Sumir voru að skjóta úr byssu í fyrsta skipti á meðan að aðrir voru búnir að æfa sig í laumi. 

 


 

 

 

Þegar búið var að fá sér kaffi og smá hressingu var hópnum skipt í tvö lið (ungir - gamlir) sem kepptu bæði í leirdúfu- og riffilskotfimi. 


Keppnin fór þannig fram að helmingurinn skaut leirdúfur á meðan að hinn helmingurinn skaut í mark á 50m með 22.cal riffli.  Svo skiptu hóparnir um stöðu þannig að allir fengu að skjóta bæði leirdúfur og í mark.  Skotskífurnar voru merktar hverjum keppanda og skráð voru niður úrslit úr leirdúfuskotfiminni.

Tókst þetta mjög vel til og mátti sjá mörg glæsileg tilþrif.  Í þessum töluðu orðum er hópurinn kominn til Ólafsvíkur til að fylgjast með leik Víking Ólafsvík og ÍR í knattspyrnu á meðan að dómarar úr skotkeppninni taka saman úrslitin. Unga liðið var augljóslega ánægt með sína frammistöðu, en úrslitin verða tilkynnt í kvöld á lokahófinu eftir matinn.
Áður en hópurinn hélt af stað var þó ein lokakeppni (einstaklingskeppni) þar sem hægt var að vinna sér inn Henrik og kók frá pulsuvagninum. Keppnin fór þannig fram að hver og einn fékk tvær tilraunir til að skjóta litla blöðru á 100m færi, frístandandi með gömlum Browning riffli.  Engum tókst þó að sprengja blöðruna að þessu sinni, en menn voru mjög einbeittir og lögðu sig alla fram við að reyna vinna sér inn máltíð á pulsuvagninum.
Búið er að setja nokkrar myndir frá viðburðinum í myndaalbúmið hér á síðunni, en fleiri myndir verða birtar á síðunni á næstu dögum.  Þá verða úrslitin einnig kunngjörð. 

 

06.09.2012 21:54

Gestir á laugardag

Næstkomandi laugardag fáum við gesti á skotæfingasvæði Skotgrundar, en þá ætlar meistaraflokkur Grundarfjarðar í knattspyrnu að reyna fyrir sér í leirdúfu og riffilskotfimi.  Þetta er hluti af lokahófi félagsins, en liðið lauk einmitt keppni í þriðjudeildinni síðustu helgi með fínum árangri.

Að því tillefni verður völlurinn upptekinn milli klukkan 12:00 og 14:00 á laugardaginn en að sjálfsögðu eru öllum velkomið að mæta á svæðið og líta þessa föngulegu pilta augum og kynna sér starfsemi félagsins.


05.09.2012 21:37

Ábendingar varðandi æfingasvæðið

Hefur þú einhverjar ábendingar varðandi æfingasvæði Skotgrundar eða nýjar hugmyndir?  Ef svo er þá viljum við gjarnan heyra frá þér.

Markmið félagsins er að stuðla að góðri meðferð skotvopna í víðasta skilningi þess orðs og til þess að ná því markmiði þarf félagið að hafa aðgang að góðu skotæfingasvæði.

Unnið er að því að lagfæra og bæta æfingaaðstöðu félagsins eins og hægt er og til að auðvelda okkur þá vinnu þá teljum við ákjósanlegt að leita álits þeirra sem svæðið nota.

Því viljum við gjarnan heyra hvað þér finnst um svæðið og hverju þú vilt breyta.
Hægt er að senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com eða senda bréf á:

Skotfélagið Skotgrund
Hrannarstíg 4
350 Grundarfirði


Bréfið má vera nafnlaust ef þess sé óskað.03.09.2012 10:45

Viðskiptakort fyrir olíukaup

Búið er að panta viðskiptakort til olíukaupa í nafni félagsins.  Eins og margir vita þá erum við með ljósavél til að drífa svæðið þ.e.a.s. sjá kastvélunum og húsunum fyrir rafmagni.  Hingað til hafa félagsmenn og stjórnarmenn keypt olíu í eigin reikning en það verður ekki þörf á því lengur. 

Það er snillingurinn Aron Baldursson sem ætlar að búa til kort og senda okkur, en með tilkomu kortsins verður einnig auðveldara að fylgjast með olíunotkun félagsins yfir árið.
  • 1