Færslur: 2013 Janúar

29.01.2013 00:30

Veiðiskýrsla - Skilahappdrætti

Öllum veiðikorthöfum er skylt að skila inn veiðiskýrslu undangengins veiðiárs hvort sem viðkomandi veiddi eitthvað eða ekki.  Eins þarf veiðikorthafi að skila inn veiðiskýrslu hvort sem hann hyggst endurnýja veiðikort sitt eða ekki.  Skilafrestur veiðiskýrslna er 1. apríl 2013.  Ef veiðiskýrslu sé skilað eftir 1. apríl hækkar gjaldið fyrir veiðikort úr 3.620 kr. í 5.120 kr.

 

Þeir sem skila inn veiðiskýrslum fyrir 15. febrúar 2013 verða sjálfkrafa með í skilahappdrætti, en dregið verður um verðlaun úr þeim veiðiskýrslum sem berast fyrir þann tíma.  Veitt verða 10 verðlaun og eru vinningarnir eftirfarandi:

 

1. verðlaun - Garmin Dakota 10 staðsetningartæki með Íslandskorti

2. - 10. verðlaun - Stóra bókin um villibráð eftir Úlfar Finnbjörnsson

 

Skilafrestur vegna happdrættis er til og með 15. febrúar 2013.  Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

 

Hægt er að skila veiðiskýrslu með því að smella hér, en einnig er að finna tengil inn á skilavefinn á heimasíðu Skotgrundar.

28.01.2013 00:03

Mótaskrá STÍ

Mótaskrá STÍ (Skotíþróttasambands Íslands) í skeet fyrir árið 2013 er komin út og er hún svona útlítandi:

 

Dagsetning: Vikudagur: Tími: Mót: Grein: Stærð: Staður: Félag:
27.-28. apríl Lau - Sun 10:00 Landsmót STÍ Skeet 125+final Hafnarfjörður SÍH
18.- 19. maí  Lau - Sun 10:00 Landsmót STÍ Skeet 125+final Höfnum SK
1.-2. júní Lau - Sun 10:00 Landsmót STÍ Skeet 125+final Reykjavík SR
22.-23. júní Lau - Sun 10:00 Landsmót STÍ Skeet 125+final Blönduós MAV
6.-7. júlí Lau - Sun 10:00 SÍH Open Skeet 125+final Hafnarfjörður SÍH
13.-14. júlí Lau - Sun 10:00 Landsmót STÍ Skeet 125+final Akureyri SA
27.-28. júlí Lau - Sun 10:00 Íslandsmót STÍ Skeet 125+final Þorlákshöfn SFS
10.-11. ágúst Lau - Sun 10:00 Landsmót STÍ Skeet 125+final Húsavík SKH
31.ágú-1.sept Lau - Sun 10:00 SR Open/Bikarmót Skeet 125+final Reykjavík SR

Hægt er að nálgast mótaskrána til útprentunar á pdf formi hér.

 

Einnig er hægt að sjá mótaskrá STÍ fyrir kúlugreinar hér.


27.01.2013 02:13

Hreindýrakvóti ársins 2013 ákveðinn

Umhverfisráðherra hefur ákveðið hreindýrakvóta þessa árs að fengnum tillögum frá Umhverfisstofnun. Heimilt verður að veiða allt að 1229 dýr á árinu sem er fjölgun um 220 dýr frá fyrra ári.

 

Umhverfisstofnun auglýsir og sér um sölu allra veiðiheimilda.  Nánari upplýsingar er að finna hér.

Myndin er tekin af vef Umhverfisstofnunar.

19.01.2013 19:55

Nýr félagsmaður

Í dag gerðist Þórður Björgvinsson félagsmaður í Skotfélaginu Skotgrund  og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið. Um leið bendum við þeim sem hafa áhuga á að skrá sig í félagið að félagið er opið öllum áhugasömum. Hægt er að skrá sig í félagið með því að hafa samband við Jón Pétur í síma 863 1718 eða senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com

 

Félagsgjaldið eru litlar 5.000 kónur á ári og hefur það verið óbreytt síðastliðin 15 ár.  Öll innkoma af félagsgjöldum fer í rekstur og uppbyggingu á æfingasvæði félagsins.  Eftir því sem félagsmönnum fjölgar eykst framkvæmdafé félagsins og þá er hægt að bæta aðstöðuna enn frekar. Markmið félagsins er að geta boðið skotáhugamönnum upp á sem besta og fjölbreyttasta aðstöðu til skotæfinga.

18.01.2013 01:18

Reglur um keppnisfatnað

Öllum íþróttagreinum er annt um þá ímynd sem íþróttin hefur í augum almennings og fjölmiðla og á þetta ekki hvað síst við um skotíþróttina. 

 

Leiðtogar innan alþjóða skotsambandsins (ISSF) hafa haft verulegar áhyggjur af þeirri ásýnd sem hefur verið að birtast á skotmótum og við verðlaunaathafnir þar sem keppendur hafa m.a. mætt í rifnum/slitnum gallabuxum og bolum með óviðeigandi áletrunum.

Keppendur á heimsmeistaramóti kvenna í leirdúfuskotfimi árið 2012.

 

ISSF (alþjóða skotsambandið) hefur sent frá sér túlkun á reglum um klæðnað í alþjóðlegum skotmótum (ISSF rule 6.4.2.1) og í framhaldi af þeirri túlkun ákvað stjórn STÍ (Skotíþróttasambands Íslands) að setja reglur um klæðnað á skotmótum á Íslandi.

 

Þar kemur meðal annars fram að "keppendum í skotfimi og starfsmönnum við skotmót er skylt að vera hreinir og snyrtilegir til fara.  Í klæðnaði sem hæfir opinberum viðburði og íþróttamóti og gefur til kynna að um íþróttaviðburð sé að ræða.  Eindregið er mælst til þess að keppendur klæðist íþróttafatnaði".

 

Eftirfarandi fatnaður er bannaður á mótum viðurkenndum af STÍ:

A)  Rifinn, götóttur eða slitinn fatnaður

B)  Fatnaður með áberandi bótum

C)  Ermalausir bolir (ekki átt við venjulega stuttermaboli) og hlýrabolir

D)  Fatnaður í felulitum (camouflage)

E)  Fatnaður með óviðeigandi áletrunum, myndum eða merkjum

F)  Skálmalausar stuttbuxur eða stutt pils

G)  Opnir skór svo sem sandalar, klossar o.þ.h.

 

Reglur STÍ um keppnisfatnað er hægt að nálgast í heildsinni hér.

 

Á heimasíðu STÍ var á dögunum birt ábending um að reglur STÍ séu rétthærri á Landsmótum STÍ en reglur ISSF, sem í mörgum tilvikum ganga lengra.  Hægt er að lesa nánar um það hér.

 

16.01.2013 12:47

Hefur þú áhuga á bogfimi?

Undanfarið hefur oðrið mikil aukning í ástundun á bogfimi hér á landi.  Má þar nefna að stofnað hefur verið nýtt bogfimifélag á höfuðborgarsvæðinu sem heitir Boginn og er staðsett í Kópavogi.  Einnig eru mörg skotfélög að íhuga að koma upp bogfimiaðstöðu hjá sér, þar sem bogfimin er af mörgum talin eiga góða samleið með skotvopnum og getur aukið starfsemi skotfélaga og fjölbreytni.

 

Nú þegar eru nokkur skotfélög sem stunda eða styðja við bogfimi í einhverju formi eru þau eftirfarandi: 

 
Íþróttafélag fatlaðra Reykjavík
Íþróttafélag Fatlaðra Akureyri.
Skotfélagið Ósmann.
UMF Efling Laugum.
Bogfimifélagið Boginn.
Víkinagfélagið Hringhorni.
Víkingafélagið Rymmugígur
Bogveiðifélag Íslands.
 
 
Einnig eru nokkur félög sem hafa hug á að koma upp bogfimiaðstöðu eða eru byrjuð í einhverju ferli með aðstöðu.  Þau eru:
 
Skotfélag Austurlands / Bogfimi á Austurlandi  
Skotfélagið Skyttur.
Skotfélagið Markviss.
Skotfélagið Markmið. 

 

Því viljum við hjá Skotgrund kanna það hvort að okkar félagsmenn eða sveitungar hafi áhuga á að koma upp aðstöðu fyrir bogfimi hér á svæðinu.  Hafir þú áhuga að taka þátt í því að koma upp bogfimiaðstöðu er hægt að senda okkur tölvupóst á skotgrund@gmail.com.

 

 

Bogveiðifélag Íslands er í dag skráð sem íþróttafélag og viðurkennt af yfirvöldum sem hagsmunasamtök sem stuðla að bogveiðum og einnig sem hagsmunaðilar bogaeigenda. Eitt af markmiðum félagsins er að berjast fyrir því að bogaeign verði almennari í samræmi við nágrannalöndin, óháð hvort ætlunin sé að iðka bogfimi eða bogveiði og jafnframt styðja við uppgang bogfimi í sem fjölbreytasta formi í samstarfi við aðra aðila.

Hér má sjá kynningarbækling frá Bogveiðifélagi Íslands.

 

Hér eru gagnlegir tenglar tengdir bogfimi.

 http://bogveidi.net/
 

Bogfimisetrið á og rekur æfingaastöðu fyrir boga og ör fyrsta sinnar tegundar hér á landi, staðsett í Kópavogi.

 
Bogfiminefnd ÍSÍ sér um umhverfi bogfiminnar, reglur í keppnum, kynningu á bogfimi sem íþrótt á landsvísu o.s.frv.
 
Bogfimi á Íslandi.  Heimasíða um málefni bogfimi.
 
Hugall er innlend verslun fyrir boga og örvar.
 
Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Indriða R. Grétarssyni formanni Bogveiðifélags Íslands.
 

Indriði R. Grétarsson

Formaður

Sími: 825-4627
 
Bogveiðifélag Íslands/The Icelandic Bowhunting Association.
http://bogveidi.net/

 

11.01.2013 00:13

Breytingar á reglum ISSF

Breytingar á reglum ISSF (alþjóða skotíþróttasambandið) hafa nú tekið gildi.  Nokkrar breytingar eru á reglugerðinni og má þar t.d. nefna að í skeet (leirdúfuskotfimi) breytist röðin á hringnum þannig að á palli 4 eru stöku dúfurnar skotnar en "dobblin" geymd.  Eftir að hafa lokið við 7. pall er svo farið aftur á 4. pall og "dobblin" kláruð áður en farið er á pall 8.

 

Skotíþróttafélag Íslands hefur tekið saman nokkur lykilatriði úr reglugerðinni og má nálgast þau hér:

 

                                                                                            

 

 

 

 

 

 

 

09.01.2013 01:10

Árið 2012 gert upp

Í lokaorðum ársskýrslu félagsins frá árinu 2011 er talað um að vonandi muni framkvæmdir ganga vel á nýju ári (2012) og með bættri aðstöðu muni aðsókn á æfingasvæðið aukast.  Það má með sanni segja að þetta hafi gengið eftir því að mikið var um framkvæmdir á árinu og félagsmönnum fjölgaði töluvert.

 

Framan af vetri var aðallega unnið að því að uppfæra og bæta heimasíðu félagsins auk þess að skipuleggja framkvæmdir sumarsins.  Í lok mars var auglýstur aðalfundur félagsins sem síðan var haldinn í félagshúsnæði Skotgrundar þann 3. maí kl. 20:00.  Fundurinn var vel sóttur og sáust nokkur ný andlit á fundinum.  Farið var yfir hefðbundin aðalfundarstörf og svo sátu menn á spjalli langt fram í myrkur þar sem rætt var um allt milli himins og jarðar og sagðar veiðisögur.

03.05.2012 - Frá aðalfundi félagsins - Á myndina vantar Guðna Má og Tómas Frey.

 

Það helsta sem fram kom á fundinum var að mannaskipti urðu í stjórn félagsins þar sem tveir fyrrum stjórnarmenn óskuðu eftir því að stíga til hliðar til að hleypa fersku blóði að.  Einnig var farið yfir framkvæmdaáætlun félagsins og framkvæmdum forgangsraðað, svo eitthvað sé nefnt.

 

 

Þegar búið var að fara yfir framkvæmdaáætlunina skiptu menn með sér verkum og voru menn greinilega fullir af áhuga því aðeins tveimur dögum síðar var hafist handa við að grafa fyrir nýjum riffilborðum og gangstétt umhverfis þau.  Á árinu voru steypt niður 2 ný riffilborð til viðbótar við þau 4 sem fyrir voru, svo nú eru þau 6 talsins.  Einnig voru smíðaðir stólar úr rekaviði, við riffilborðin sem brennimerktir eru félaginu.

 
                        6. maí 2012                                                      22. júní 2012
 

 

 
                      4. október 2012                                               20. október 2012
 
 

 

 

Unnsteinn tók að sér að smíða járnramma fyrir stór skilti með merki félagsins og texta sem gefur til kynna að um skotæfingasvæði sé að ræða.  Þau prýða nú aðkomuna að æfingasvæðinu, en rammarnir voru steyptir niður á sama tíma og stéttin fyrir riffilborðin.  Þess má geta að Almenna umhverfisþjónustan ehf.  gaf félaginu steypuna og alla vinnu við hana.

 
                      10. maí 2012                                                        22. júní 2012
 
 
 
                      26. ágúst 2012                                                   26. ágúst 2012
 
 

 

 

Ekki er allt upp talið ennþá, því einnig voru steyptar niður undistöður fyrir riffilskotmörk á 25m, 50m, og 75m.  Fyrir voru skotmörk á 100m og 200m færi, en ákveðið hafði verið að bæta við skotmörkum í styttri fjarlægðum.  Það var svo Vélsmiðjan Berg sem smíðaði færanlegar grindur fyrir félagið, sem teknar voru formlega í notkun á afmælisfögnuði félagsins, en félagið fagnaði 25 ára starfsafmæli sínu á árinu.

 
                       21. júní 2012                                                    21. júní 2012
 
 
                       22. júní 2012                                                  19. október 2012
 
 

 

 

Félagið fjárfesti á haustdögum í 3 fánum með áletruðu merki félagsins sem dregnir voru að húni í blíðskapar veðri þegar félagið hélt upp á 25 ára starfsafmæli sitt.  Auglýst hafði verið opið hús á æfingasvæði félagsins þar sem félagsmenn buðu gestum og gangandi að prófa að skjóta og kynna sér starfssemi félagsins.  Einnig voru til sýnis valin skotvopn úr einkasafni félagsmanna  og boðið var upp á léttar veitingar.  Haldin var grillveisla í boði Samkaupa Úrvals, en Gunni verslunarstjóri gaf allt hráefni til veislunnar.  Voru margir að skjóta úr byssu í fyrsta skipti og var ekki annað að sjá en að mikil ánægja hafi ríkt á meðal gesta.

 
                   20. október 2012                                               20. október 2012
 
 

Að grillveislunni lokinni var haldið afmælismót í leirdúfuskotfimi.  Þátttakan í mótinu var góð og keppt var í tveimur riðlum.  Mótið fór á þann veg að Steinar Þór Alfreðsson hafnaði í fyrsta sæti, Snorri Rafnsson í öðru sæti og Guðmundur Reynisson í því þriðja. 

 
                   20. október 2012                                                20. október 2012
 
 

 

 

Skotgrund tók þátt í Dúfnaveislunni líkt og í fyrra, en Dúfnaveislan er samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar (UST), Skotveiðifélags Íslands (SKOTVÍS), ýmissa félaga sem reka skotvelli auk styrktaraðila. Tilgangur dúfnaveislunnar er að hvetja veiðimenn um land allt til að kynna sér þá aðstöðu sem skotvellirnir hafa uppá að bjóða og stunda reglulegar skotæfingar áður en veiðitímabilið hefst og undirbúa sig eins og best verður á kosið.

 

Annað sem vert er að minnast á er að knattspyrnumenn frá Grundarfirði heimsóttu félagið á árinu og reyndu fyrir sér í skotfimi auk þess sem félagið eignaðist viðskiptakort til olíukaupa.  Félagið fékk styrk frá Grundarfjarðarbæ sem fólginn er í niðurfellingu á fasteignagjöldum til bæjarins auk þess sem Ragnar og Ásgeir ehf. hefur styrkt félagið með flutningum á efni án endurgjalds.  Einnig fékk Skotgrund lánaða gröfu án endurgjalds hjá Vélaleigu Finnboga og Sigmundar ehf. til að hífa riffilborðplöturnar á sinn stað og til að keyra efni í bílastæðið.

 
                           8. september 2012 - Knattspyrnumenn í heimsókn
 
 

 

Það má segja að það hafi verið í nógu að snúast á liðnu ári, en hægt er að lesa nánar um allar framkvæmdir á bloggsíðu/fréttasíðu félagsins.  Gaman getur verið fletta í gegnum fréttir frá árinu og rifja upp það sem liðið er, því margur er fljótari að gleyma en hann heldur.  Einnig er hægt að skoða myndir af öllum framkvæmdum í myndaalbúminu hér á síðunni.

 

Vonandi verður ekki slöku slegið við á nýju ári, en á meðan beðið er eftir vorinu er tíminn nýttur í að undirbúa fyrir væntanlegar framkvæmdir sumarsins, ljúka við að skrásetja sögu félagsins og bæta heimasíðu félagsins.  Við hana bættist t.d. nýlega nýr tengill sem heitir „æfingasvæðið“ auk þess sem tekin var saman tölfræði yfir fjölda félagsmanna gegnum tíðina.  Það er gleðilegt að sjá hversu mikil fjölgun hefur  orðið í félaginu á undanförnum árum og mun sú þróun vonandi halda áfram með bættri aðstöðu.  Að lokum viljum við þakka félagsmönnum fyrir samfylgdina á liðnu ári og hvetja þá til að vera duglega að mæta á æfingasvæðið á nýju ári.  Jafnfram viljum við bjóða alla áhugasama velkomna í félagið.

 
 

SKOTGRUND

06.01.2013 03:11

Saga félagsins

Þessa dagana er verið að vinna í því að safna heimildum um sögu félagsins.  Eins og margir vita þá fagnaði Skotgrund 25 ára starfsafmæli sínu á síðasta ári og af því tilefni var hafist handa við að skrásetja sögu félagsins.  Nú er verið að fara yfir ljósmyndir og gömul skjöl til að bæta inn í heildarmyndina. Sögu félagsins verður hægt að kynna sér á heimasíðu Skotgrundar von bráðar og vonandi verður hægt að gefa hana út þegar fram líða stundir.

 

Eigir þú gamlar ljósmyndir eða annað sem tengist félaginu viljum við gjarnan heyra frá þér á skotgrund@gmail.com eða í síma 863 1718.

  

02.01.2013 08:48

Félagsmönnum Skotgrundar fjölgar

Félagsmönnum Skotgrundar hefur verið að fjölga jafnt og þétt undanfarin ár og er fjöldi félagsmanna nú í sögulegu hámarki, samkvæmt þeim skrám sem til eru.  Félagsmönnum fjölgaði töluvert á árinu 2012 og eru skráðir félagsmenn nú 62.

 

 
 

 

Þetta er mjög jákvæð þróun fyrir félagið og eins og margir vita þá rennur öll innkoma af félagsgjöldum í rekstur og uppbyggingu á skotæfingasvæðinu. Um leið og félagsmönnum fjölgar verður meira fjármagn til að byggja upp æfingaaðstöðuna, sem okkar félagsmenn njóta síðan góðs af.

 

 

 

Á síðasta ári var ráðist í töluverðar framkvæmdir á svæðinu og þá aðallega riffilbrautunum.  Markmið næsta árs er að halda áfram að bæta riffilaðstöðuna og um leið koma upp lyklakerfi fyrir leirdúfuvöllinn svo að hann verði aðgengilegri öllum félagsmönnum.

 

Óskin er sú að geta boðið upp á sem besta æfingaaðstöðu fyrir okkar félagsmenn og að hún verði eins aðgengileg og mögulegt er.  Við vonumst því til að sem flestir sjái hag sinn í að nýta æfingasvæðið sem verið er að byggja upp og að við sjáum sem flesta á svæðinu  á nýju ári.

 

Hægt er að sjá alla skráða félagsmenn hér á heimasíðu félagsins undir „Félagatal“ efst á síðunni.

  • 1