Færslur: 2013 Febrúar

19.02.2013 23:35

Könnun varðandi riffilsvæði Skotgrundar

Riffilsvæði Skotgrundar fékk töluverða andlitslyftingu síðastliðið sumar og stefnt er að því að bæta það enn frekar í sumar.  Svæðið hefur nú upp á að bjóða riffilbatta á 25m, 50m, 75m, 100m og 200m, en stefnt er að því að fjölga böttunum enn frekar til að auka fjölbreytni svæðisins og til að koma til móts við mismunandi þarfir skotmanna.  En hverjar eru þarfir og óskir okkar félagsmanna?

Til að komast að því höfum við ákveðið að birta könnun hér á heimasíðu félagsins til að kanna viðhorf manna til riffilsvæðisins.  Könnunina er að finna á vinstri spássíu heimasíðunnar og er það ósk okkar að sem flestir taki þátt í henni.  Þannig getur þú um leið haft áhrif á ákvörðunartöku varðandi frekari uppbyggingu á svæðinu.  Athugið að hægt er að velja fleiri en einn valmöguleika. 

13.02.2013 15:05

Nýr félagsmaður

Í dag gerðist Jón Frímann Eiríksson félagsmaður í Skotfélaginu Skotgrund  og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið. Um leið bendum við þeim sem hafa áhuga á að skrá sig í félagið að félagið er opið öllum áhugasömum. Hægt er að skrá sig í félagið með því að hafa samband við Jón Pétur í síma 863 1718 eða senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com

 

Hér sést Jón Frímann Eiríksson munda riffilinn.


Félagsgjaldið eru litlar 5.000 kónur á ári og hefur það verið óbreytt síðastliðin 15 ár.  Öll innkoma af félagsgjöldum fer í rekstur og uppbyggingu á æfingasvæði félagsins.  Eftir því sem félagsmönnum fjölgar eykst framkvæmdafé félagsins og þá er hægt að bæta aðstöðuna enn frekar. Markmið félagsins er að geta boðið skotáhugamönnum upp á sem besta og fjölbreyttasta aðstöðu til skotæfinga.


13.02.2013 05:26

Eldhúsinnrétting

Skotfélaginu Skotgrund áskotnaðist nýlega eldhúsinnrétting með vaski og öllu tilheyrandi.  Hugmyndin er að setja hana upp í félagshúsnæði Skotgrundar.  Með nýju innréttingunni fæst gott geymslupláss í skápum og skúffum og vonandi verður hægt að tengja vatn að innréttingunni með tíð og tíma.


 
                   Nýja innréttingin                                               Núverandi eldhúsaðstaða

08.02.2013 03:26

Bætt æfingaaðstaða

Eins og mörgum er kunnugt hefur verið mikið um framkvæmdir á æfingasvæði félagsins undanfarna mánuði.  Unnið er markvisst að því að bæta æfingaaðstöðu félagsins og auka fjölbreytni svæðisins.  Markmið félagsins er að geta boðið upp á sem allra besta aðstöðu til skotæfinga, með mismunandi þarfir skotmanna í huga.

 

Þessa dagana er verið að leggja drög að þeim framkvæmdum sem ráðist verður í með vorinu.  Öllum hugmyndum að framkvæmdum verður safnað saman og tekin verður ákvörðun um mikilvægi þeirra á aðalfundi félagsins sem haldinn verður í vor.  Því óskum við eftir ábendingum frá þeim sem svæðið nota um það hvað betur mætti fara og hvaða framkvæmdum þeir telja þörf á.

 

Hafir þú einhverjar hugmyndir að nýjungum eða óskir um bætta aðstöðu er hægt að hafa samband á skotgrund@gmail.com .  Allar ábendingar eru vel þegnar.

03.02.2013 05:33

Gamlar myndir

Búið er að bæta við albúmi með gömlum myndum í myndaalbúmið hér á heimasíðu félagsins.  Eru þetta myndir frá mismunandi tímum allt frá því að félagið var stofnað og fram til dagsins í dag.Unnið er að því að skrásetja sögu félagsins og eru meðal annars notaðar til þess gamlar ljósmyndir.  Þær segja meira en mörg orð og geta þær oft komið að gagni við að skrá atburði í rétta tímaröð. 

Því óskum við eftir að fá sendar myndir frá okkar félagsmönnum, hvort sem þær séu af einstaklingum, byggingum, landslagi eða öðru tengdu félaginu. 

Ef að einhver á gamlar myndir sem Skotgrund getur fengið afnot af er hægt að senda þær á skotgrund@gmail.com eða hafa samband við Jón Pétur í síma 863 1718.

 

 

 

  • 1