Færslur: 2013 Apríl

29.04.2013 00:43

Mikil aðsókn á æfingasvæðið

Mikil aðsókn hefur verið  á æfingasvæði félagsins undanfarnar vikur.  Þegar undirritaður hefur farið í reglubundnar eftirlitsferðir hefur iðulega einhver verið að nota riffilsvæðið.  Einnig hafa nokkrir haft samband til þess að fá að nota leirdúfuvöllinn. Við hvetjum alla til að nota þetta frábæra svæði sem við eigum og ganga snyrtilega um það.

 

Að lokum viljum við minna á að aðalfundur félagsins er á næsta leiti. Þá verður farið yfir lyklamál og aðgengi félagsmanna að svæðinu.  Til stendur að bæta það svo allir hafi sem greiðastan aðgang að æfingasvæði félagsins.

 

 

26.04.2013 16:11

Aðalfundur verður 8.maí 2013

Aðalfundur Skotfélagsins Skotgrundar verður haldinn miðvikudaginn 8.maí kl. 20:00 í félagshúsi Skotgrundar í Hrafnkelsstaðabotni. Við hvetjum félagsmenn til þess að fjölmenna á fundinn.

Dagskrá fundarins verður auglýst síðar.

20.04.2013 07:16

Ábendingar varðandi æfingasvæðið

Nú fer að styttast í aðalfund Skotgrundar þar sem m.a. verða teknar ákvarðanir um framkvæmdir á æfingasvæðinu. Því óskum við eftir ábendingum um hvað betur mætti fara og hvaða óskir menn hafa varðandi æfingasvæðið. Öllum hugmyndum að framkvæmdum verður safnað saman og tekin verður ákvörðun um mikilvægi þeirra á aðalfundi félagsins sem haldinn verður í byrjun næsta mánaðar.  Aðalfundurinn verður auglýstur á næstunni.

 

Hafir þú einhverjar hugmyndir að nýjungum eða óskir um bætta aðstöðu er hægt að hafa samband á skotgrund@gmail.com .  Allar ábendingar eru vel þegnar.

16.04.2013 06:52

"Steini Gun" sæmdur gullmerki ÍSÍ

75. héraðsþing HSH var haldið í Samkomuhúsi Grundarfjarðar síðastliðinn þriðjudag. Þingið var vel sótt en 26 þingfulltrúar sóttu þingið. Þingforseti var Dagný Þórisdóttir og þingritarar voru þær María Valdimarsdóttir og Harpa Jónsdóttir. Gestir þingsins voru þau Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ og Helga G. Guðjónsdóttir formaður UMFÍ.

 

Fjórir aðilar voru heiðraðir með starfsmerki en Hallur Pálsson (UMFG), Anna María Reynisdóttir (UMFG) og Ásgeir Ragnarsson (Vestarr) fengu silfurmerki UMFÍ. Okkar maður Þorsteinn Björgvinsson fékk gullmerki ÍSÍ fyrir óeigingjörn störf í þágu Skotfélagsins Skotgrundar og óskum við honum innilega til hamingju. "Steini Gun" eins og hann oftast er kallaður var einn af stofnendum Skotgrundar og hefur setið í stjórn allar götur síðan, en félagið fagnaði 25 ára starfsafmæli sínu á síðasta ári.

 

Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ, Þórey Jónsdóttir (sem tók við starfsmerki fyrir hönd Ásgeirs) og Þorsteinn Björgvinsson. Myndin er tekin af vef HSH.is 

 

15.04.2013 08:18

Styttist í aðalfund

Stefnt er að því að halda aðalfund Skotgrundar í byrjun maí mánaðar.  Fundurinn verður auglýstur þegar komin er föst tímasetning á fundinn, sem og dagskrá fundarins. Ef það er eitthvað sem þú vilt að tekið verður fyrir á fundinum er hægt að senda okkur tölvupóst á skotgrund@gmail.com, eða hafa samband við Jón Pétur í síma 863 1718.  Einnig er hægt að senda okkur skilaboð á facebook síðu félagsins .

  • 1