Færslur: 2013 Maí

30.05.2013 23:43

Sjómannadagsmót Skotgrundar

Sjómannadagsmót Skotgrundar fór fram í kvöld og var mjög góð mæting.  Veðrið var ekki eins gott en menn létu það ekki stoppa sig.  Leikar fóru þannig að sjómenn fóru með sigur af hólmi og fengu að launum farandbikar.  Einnig voru veitt verðlaun fyrir bestan árangur einstaklinga, en Unnsteinn Guðmundsson var í fyrsta sæti, Gísli Valur í öðru (eftir bráðabana) og Steinar Þór Alfreðsson í því þriðja.  Nánari umfjöllun um mótið verður birt hér á heimasíðu félagsins fljótlega.

Sigurvegarar kvöldsins - lið sjómanna

 

Frá vinstri: Gísli Valur 2.sæti  -  Unnsteinn 1.sæti  -  Steinar 3.sæti

 

30.05.2013 07:23

Sjómannadagsmót Skotgrundar - Í kvöld

Þá er komið að því, Sjómannadagsmót Skotgrundar verður í kvöld á skotæfingasvæði félagsins. Skráningin hefur verið mjög góð, bæði vanir menn og óvanir hafa skráð sig til leiks, en mæting verður kl. 18:30 og byrjar mótið kl. 19:00. Mótsgjaldið er 1.000 kr. og skotnir verða 2 hringir. Þeir sem ekki eiga skot geta fengið keypt skot á staðnum á meðan birgðir endast.  Við hvetjum alla til að mæta á svæðið og styðja sína menn.  Heitt kaffi verður á könnunni.

 

Barist verður um þennan skjöld, en einnig verða veitt verðlaun fyrir bestan árangur einstaklinga.

29.05.2013 14:18

Sjómannadagsmót á morgun fimmtudag

Nú fer að styttast í sjómmannadagsmót Skotgrundar, en það verður haldið á morgun fimmtudag á æfigasvæði félagsins.  Skráningin í mótið gengur vel, en fyrirkomulagið verður þannig að allir sem vilja geta tekið þátt og skotnir verða tveir hringir.  Mótsgjaldið verður 1.000 kr. á manninn (500 kr. hringurinn) og verður skor hvers og eins skráð niður.  Stig sjómanna verða reiknuð saman á móti stigum landkrabba, en ætlunin er að gera þetta mót að árlegum viðburði í samvinnu við sjómannadagsráð og fær það lið sem vinnur farandbikar að launum.  Einnig verða veitt verðlaun fyrir þrjú bestu skor einstaklinga.

 

Veitt verða verðlaun fyrir bestan árangur einstkalinga.

Allt verður þetta á léttu nótunum og til gamans gert.  Enn er hægt að skrá sig í mótið í síma 863 1718 eða með því að senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com.  Einnig er hægt að hafa samband við Unnstein Guðmundsson (fyrirliða landkrabba) eða Steinar Alfreðsson (fyrirliða sjómanna).  Mæting verður um kl. 18:30, en móti hefst formlega kl. 19:00.  Vonandi sjáum við sem flesta.

27.05.2013 00:45

Ný könnun á heimasíðu Skotgrundar

Búið er að setja inn nýja könnun hér á heimasíðu Skotgrundar, en könnunina er að finna hér til vinstri á síðunni.  Að þessu sinni er spurt um það hvort félagið eigi að byrja að safna fyrir trap-vél.  Trap er ein af þremur helstu keppnisgreinum í haglabyssuskotfimi, en hinar tvær eru Sporting og Skeet (Skotgrund er nú þegar með skeet völl).

Leikmenn standa 16 stikur (e. yards) fyrir aftan kastvélina. Vélin getur kastað dúfunum þannig að þær lendi á milli 48 og 52 stikur frá leikmanni. Flestar dúfur eru þó skotnar þegar þær eru u.þ.b. 36 stikur frá leikmanni. Leirdúfunum er kastað í mismunandi stefnu frá leikmanni en hún getur kastað í 45° geira.

Trap völlur. Mynd og texti er fengið af skotvellir.is

 

 

Þess má geta að greidd voru 40 atkvæði í síðustu könnun hér á síðunni, en þá var spurt um það hvaða riffilbatta félagsmenn telja vera þörf á að bæta við á æfingasvæði Skotgrundar.  Niðurstaðan var sú að flestir töldu þörf á að bæta við 300m og 400m böttum, en það er nú til skoðunar.

26.05.2013 10:41

Lyklabox

Búið er að setja upp lyklabox á félagsheimili Skotgrundar.  Lyklaboxið er hugsað til þess að auka aðgengi félagsmanna að aðstöðu félagsins.  Félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöldin fá uppgefna talnaröðina til að opna boxið.  Í því er lykill af húsunum og því ættu allir að hafa greiðan aðgang að félagshúsnæðinu og kastvélunum.

 

Hér má sjá lyklaboxið sem á að auka aðgengi félagsmanna að svæðinu.

 

Þetta er tilraunaverkefni sem við bindum miklar vonir við, en tilgangurinn er eins og áður segir að bæta aðgengi félagsmanna að svæðinu.  Því hvetjum við alla til að ganga vel um svæðið og hjálpast að við að passa eignir félagsins.

25.05.2013 09:41

Sjómannadagsmót

Nú er sjómannadagurinn á næsta leiti og af því tilefni ætlar Skotgrund að standa fyrir keppni í leirdúfuskotfimi í samvinnu við sjómannadagsráð.  Er þetta í fyrsta skipti sem Skotgrund stendur fyrir slíku móti í tengslum við sjómannadaginn, en margir af félagsmönnum Skotgrundar eru einmitt sjómenn.    Því vonumst við til að þetta geti orðið góð viðbót við skemmtidagskrá sjómanna, en stefnt er að því að gera þetta að árlegum viðburði.

 

Fyrirkomulagið verður með þeim hætti að hver sem hefur áhuga á að taka þátt getur skráð sig til keppni.  Stig sjómanna verða síðan talin saman á móti stigum landkrabba.  Það lið stendur uppi sem sigurvegari sem fær fleiri stig.  Einnig verða veitt verðlaun fyrir árangur einstaklinga.

 

Stefnt er að því að byrja mótið kl. 19:00 á fimmtudeginum, en nánari upplýsingar um mótið verða birtar hér á heimasíðunni þegar nær dregur. Áhugasamir geta skráð sig til leiks með því að senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com, eða haft samand við Jón Pétur í síma 863 1718.

 

Allt verður þetta á léttu nótunum og til gamans gert og því viljum við hvetja sem flesta til að skrá sig.  Einnig viljum við hvetja sem flesta til að koma að fylgjast með og hvetja sína menn.

 

 

                                
 

23.05.2013 16:13

Riffilsvæðið fær smá andlitslyftingu

Í gær miðvikudag var frábært veður og skartaði Kolgrafjörðurinn sínu fegursta.  Því var tækifærið notað og málningarvinna hafin á æfingasvæði félagsins.  Gömlu ryðbrúnu staurarnir sem afmarka riffilsvæðið voru málaðir og eru þeir nú hvítir að lit.  Einnig fengu nýju skiltin sem sett voru upp í fyrra létta umferð af lakki, sem og ramminn utan um gamla skiltið sem stendur niðri við veg.  Gamla skiltinu verður svo skipt út fyrir nýju skilti nú á næstu dögum.

Gömlu ryðbrúnu staurarnir eru nú hvítir að lit.

 

21.05.2013 20:38

Framkvæmdafréttir

Mikið er um að vera hjá Skotgrund þessa dagana hvað framkvæmdir varðar.  Búið er að kaupa lyklabox til að setja utan á félagshúsnæðið, staura og girðingaefni, málningu o.fl.  Birgir og Steini Gun fengu  gefins stóran vatnstank sem þeir eru að smíða vagn undir, en hann á að sjá okkur fyrir vatni í félagshúsnæðið þar sem ekkert vatn er á svæðinu.

 

Búið er að hafa samband við skiltagerð um að búa til skilti fyrir okkur á svæðið, en þau eru í hönnun.  Einnig er verið að skera út stafi félagsins og er ætlunin að setja upp nafn félagsins utan á félagshúsnæðið.  Gummi er búinn að yfirfara ljósavélina, rafvirki hefur verið fenginn til að yfirfara kastvélarnar og strákarnir í Ólafsvík eru að hanna nýja riffilbatta.

 

Í dag fékk félagið gefins dekk frá KB bílaverkstæði og er ætlunin að steypa girðingastaurana fasta í dekkin, því ekki er hægt að reka niður staura á æfingasvæðinu.  Dekkin verða svo grafin niður undir yfirborðið.  Almenna umhverfisþjónustan ehf. ætlar að steypa fyrir okkur staurana í dekkin og er reiknað með því að það verði gert á morgun.  Það ætti því að vera hægt að fara að mála og girða mjög fljótlega.

 

Hægt verður að fylgjast með framgangi framkvæmda hér á heimasíðunni.

 

Staurarnir og dekkin tilbúin fyrir steypu.

20.05.2013 21:37

Tjón - Engar texplötur aðgengilegar næstu daga

Skotfélagið varð fyrir tjóni í rokinu um síðastliðna helgi, en rauði kassinn sem texplöturnar eru geymdar í fauk og laskaðist aðeins.  Sennilega hefur ekki verið gengið nægilega vel frá honum eftir notkun og því hefur hann farið af stað.  Texplöturnar sem í honum voru fuku á haf út, en settar verða nýjar plötur í hann um leið og viðgerð á kassanum er lokið.  Það verða því engar texplötur aðgengilegar á svæðinu næstu daga.

 

Hér má sjá kassann góða.  Í honum eru geymdar texplötur sem skotskífur eru festar á.

 

17.05.2013 18:46

Lögreglumenn í heimsókn

Í gær fengum við góða gesti í heimsókn á skotæfingasvæðið okkar, en þar voru á ferðinni lögreglumenn frá öllu vesturlandi sem komnir voru til að stunda skotæfingar.  Veðrið var nokkuð gott og voru þeir mættir upp úr hádegi, en Guðni Már tók á móti hópnum og aðstoðaði þá við að stilla upp tækjum og búnaði. 

 

Skiptu þeir sér í tvo hópa og var annar hópurinn við æfingar með skammbyssu á meðan hinn æfði sig með haglabyssur á leirdúfuvellinum.  Fréttaritari félagsins Tómas Freyr kíkti við og "skaut" nokkrum myndum af lögreglumönnunum á meðan á æfingunni stóð, en hægt er að skoða þær í myndaalbúminu hér á heimasíðu félagsins.

 

Lögreglan hefur komið til okkar nokkrum sinnum áður, en gott samstarf er á milli félagsins og lögreglunnar.  Skotgrund stefnir á að byggja upp í samstarfi við lögregluembættið, góða og varanlega aðstöðu til skotæfinga á æfingasvæði Skotgrundar.   

 

Var ekki annað að heyra en að æfingarnar í gær hefðu gengið vel og vonandi mun samstarf Skotgrundar og lögreglunnar verða gott og farsælt í framtíðinni. 

15.05.2013 19:23

Skotsvæðið upptekið á morgun fimmtudag

Skotæfingasvæði Skotgrundar verður lokað á morgun fimmtudaginn 16. maí frá kl. 13:00 og fram eftir degi.  Ástæðan er sú að stór hópur hefur fengið afnot af svæðinu og verður það því lokað fyrir almenningi á meðan.  Vinsamlegast sýnið þolinmæði og virðið lokunina.

10.05.2013 22:43

Aðalfundur - Fundargerð

Aðalfundur Skotgrundar fór fram síðastliðinn miðvikudag í húsnæði félagsins í Hrafneklsstaðabotni þar sem boðið var upp á léttar veitingar.  Mætingin var mjög góð og sáust nokkur ný andlit á fundinum, en fundinn sóttu:

 

Birgir Guðmundsson                         Jón Einar Rafnsson

Gísli Valur Arnarson                          Pétur Guðráð Pétursson

Guðmundur Pálsson                         Samúel Pétur Birgisson

Guðmundur Reynisson                     Sólberg Ásgeirsson

Guðni Már Þorsteinsson                   Unnsteinn Guðmundsson

Jón Frímann Eiríksson                      Þorsteinn Bergmann

Jón Ingi P. Hjaltalín                           Þorsteinn Björgvinsson

Jón Pétur Pétursson

 

Mynd frá aðalfundinum.

 

Byrjað var á því að fara yfir skýrslu stjórnarinnar frá liðnu starfsári, en skýrslu stjórnarinnar má sjá hér.  Ársreikningi félagsins voru gerð skil, en fram kom að félagið er skuldlaust sem stendur og gengur reksturinn nokkuð vel.  Aðal innkoma félagsins er félagsgjöld, sem greidd eru af félagsmönnum og ræðst uppbygging félagsins aðallega á því hversu vel þau skili sér, því öll innkoma af félagsgjöldum fer í rekstur og uppbyggingu á svæðinu. Ákveðið var að árgjald félagsins yrði óbreytt, en það eru litlar 5.000 kr. á ári og hefur það verið óbreytt síðastliðin 16 ár. 

 

Því næst fór fram kosning stjórnar, en allir starfandi stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi starfa og var stjórnin endurkjörin til eins árs.  Stjórn Skotgrundar er þannig skipuð:

 

Jón Pétur Pétursson – Formaður

Gústav Alex Gústavsson – Ritari

Tómast Freyr Kristjánsson – Gjaldkeri

Guðmundur Pálsson – Meðstjórnandi

Guðni Már Þorsteinsson – Meðstjórnandi

Þorsteinn Björgvinsson – Meðstjórnandi

 

Að hefðbundnum aðalfundarstörfum loknum var á dagskrá „önnur mál“ en þar var m.a. rætt um framtíðaráform félagsins, öryggismál, aðgengi að svæðinu, umgengni og æfingasvæðið í heildsinni.  Sett var upp framkvæmdaáætlun fyrir sumarið og fundarmenn skiptu með sér verkum.  Verkefnunum var forgangsraðað eftir mikilvægi þeirra, en ekki vantar hugmyndirnar.  Félagið er stórhuga hvað framkvæmdir varðar, en ljóst er að uppbyggingin mun taka nokkur ár.  Markmið félagsins er að geta boðið upp á sem allra besta æfingastöðu til skotæfinga með öryggi allra í fyrirrúmi. 

 

Unnsteinn Guðmundsson og Jón Ingi P. Hjaltalín

 

Að fundinum loknum var setið lengi á spjalli.  Einhverjir tóku hringi á leirdúfuvellinum á meðan að aðrir stilltu sér upp á riffilsvæðinu.  Heilt á litið þá var fundurinn mjög vel heppnaður og stemmningin góð, en frekari umræðuefni fundarins og ákvarðanatökur má sjá hér fyrir neðan. 

 

 

UMRÆÐUEFNI:

Lög félagsins:  ákveðið var að breyta liði 4.2 í 4. kafla í lögum félagins.  Þar stendur að „Aðalfund skal halda í janúar ár hvert. Til hans skal boðað með auglýsingu á áberandi stað með minnst tveggja vikna fyrirvara“.  Fellur þessi liður úr gildi og í stað hans mun liður 4.2 vera svohljóðandi: „Aðalfund skal halda í maí ár hvert. Til hans skal boðað með auglýsingu á áberandi stað með minnst tveggja vikna fyrirvara“.

 

Félagsskírteini: borin var upp sú hugmynd að leggja niður félagsskírteinin og birta þess í stað nöfn félagsmanna aðeins á heimasíðu félagsins og á upplýsingatöflunni í félagshúsnæðinu.  Niðurstaðan varð sú að áfram verði gefin út félagsskírteini einu sinni á ári, en þeir félagsmenn sem ganga í félagið á miðju starfsári, munu frá afhent skírteini þegar skírteini verða prentuð næst.

 

Heimasíða: lögð var fram tillaga að félagið myndi kaupa lénið skotgrund.is og þar með breyta slóðinni að heimasíðu félagsins í skotgrund.is í stað skotgrund.123.is.  Fundarmönnum fannst ekki þörf á þessu og því var ákveðið að hafna þessari tillögu.

 

Samstarf við lögregluembættið:  Skotgrund hefur átt farsælt samstarf við lögregluembættið á Snæfellsnesi og hefur hug á því að bæta það enn frekar.  Viðræður hafa verið í gangi um að koma upp góðri og varanlegri æfingaaðstöðu fyrir lögregluna á skotæfingasvæði Skotgrundar. Ákveðið var að fara í frekari viðræður við lögregluembættið varðandi uppbyggingu á æfingasvæðinu.

 

Mótamál:  stefnt er að því að halda nokkur mót á æfingasvæðinu á komandi starfsári.  Ákveðið var að halda sjómannadagsmót í samstarfi við sjómannadagsráð Grundarfjarðar og gera það að árlegum viðburði.

 

Einnig er á stefnuskránni að halda sveitakeppni milli byggðarlaga.  Fjöldi keppenda í hverri sveit verður ákveðinn þegar nær dregur.

 

Opinn dagur:  Skotgrund ætlar að standa fyrir opnum degi á æfingasvæðinu þar sem gestum og gangandi verður boðið að sækja félagið heim og kynna sér starfsemi félagsins.  Þá verður gestum m.a. boðið að prófa að skjóta.

 

Bogfimi:  er íþróttagrein sem er mikill uppgangur í hér á Íslandi.  Rætt var um það hvort Skotgrund ætti að koma upp aðstöðu til æfinga í bogfimi, en ákveðið var að slá því á frest.  Þó var tekið jákvætt í það að þeir sem hafa áhuga á að nýta æfingasvæðið til æfinga í bogfimi fái afnot af svæðinu.

 

Kennarapróf fyrir hreindýr: Skotgrund stefnir á að útskrifa 3-5 prófdómara fyrir hreindýrapróf og bjóða upp á skotpróf á æfingasvæði félagsins.

 

Skilti við þjóðveginn: ákveðið var að ræða við Vegagerðina og óska eftir því að sett verði upp skilti við þjóðveginn sem vísar leiðina að skotæfingasvæði félagsins.

 

Uppdráttur af æfingasvæðinu:  Félagið er með 67.500m2 landsvæði á leigu frá Grundarfjarðarbæ. Teikna þarf uppdrátt af svæðinu og semja um nákvæm hnit þess svæðis sem félagið er með á leigu.

 

Gamla ljósavélin: var nýlega seld.  Hún hefur ekki verið í notkun frá því að félagið fékk nýja ljósavél árið 2007, en gamla vélin var seld á 50.000 kr.

 

Innrétting: félaginu áskotnaðist fyrr á árinu eldhúsinnrétting.  Ætlunin er að setja hana upp í félagshúsnæðinu.

 

 

FRAMKVÆMDIR:

Lyklabox: ákveðið hefur verið að kaupa lyklabox og setja upp við hurðina á félagsheimilinu og í því verður lykill af húsunum. Félagsmenn fá svo uppgefna talnaröðina til að opna boxið og þá ættu allir að hafa jafnan aðgang að æfingavæði félagsins.  Einnig verða allir lyklar endurnýjaðir og eldri lyklar verða því ónothæfir.

 

Sökklar: verða steyptir undir markið og turninn.  Fótstykkin á húsunum eru orðin döpur og tímabært er að endurnýja þau.  Steyptir verða sökklar undir húsin um leið.

 

Klæðning: verður sett utan á turninn og markið.  Þegar búið verður að steypa sökkla undir turninn og markið verður krossviðurinn endurnýjaður utan á grindinni og húsin klædd að utan með kúlupanil.

 

Málningarvinna:  ætlunin er að mála turninn og markið að utan í sumar og félagsheimilið um leið.  Einnig stendur til að mála járnstaurana sem afmarka riffilbrautina.

 

Varnargarður:  byggja þarf upp varnargarð meðfram svæðinu til að koma í veg fyrir flóðahættu.

 

Öryggi: verður tryggt á svæðinu.  Sett verða upp skilti og girðingar til að afmarka svæðið enn frekar.  Einnig verða settir upp staurar meðfram allri riffilbrautinni til að afmarka hana.

 

Vatn:  settur verður upp vatnstankur með dælu til að sjá félagshúnsæðinu fyrir vatni svo hægt verði að koma upp eldhús- og salernisaðstöðu.

 

Nafn félagsins á þakkantinn:  nafn félagsins verður sett framan á þakkantinn á félagshúsnæðinu. (SKOTGRUND)

 

Yfirfara ljósavél:  skipta þarf um olíu og síur.  Einnig þarf að yfirfara startarann.

 

Rilliflbattar: hafin verður undirbúningsvinna fyrir lengingu á riffilbrautinni og uppsetningu á fleiri riffilböttum.

10.05.2013 21:18

Búið að yfirfara ljósavélina

Búið er að smyrja og yfirfara ljósavélina okkar.  Gummi Palla eyddi deginum í dag í að skipta um olíu á vélinni og skipta um síur.  Einnig tók hann startarann úr og yfirfór hann.  Hún ætti því að vera í góðu standi núna. (7-9-13).

Við minnum félagsmenn á að ganga vel um vélina og gæta þess að setja ekki eldsneyti á hana nema vera vissir um að um dieselolíu sé að ræða.

 

 

Ljósavélin var keypt árið 2007.

 

09.05.2013 10:54

Vel sóttur aðalfundur

Aðalfundur Skotgrundar fór fram í gær í félagshúsnæðinu í Kolgrafafirði.  Veðrið var frábært og mætingin var góð.  Byrjað var að fara yfir hefðbundin aðalfundarstörf og síðan var rætt um önnur mál og framkvæmdir.  Fram komu margar góðar hugmyndir og ljóst er að félagsmenn eru stórhuga fyrir komandi starfsár.  Fundargerðin verður birt hér á heimasíðunni fljótlega og fundinum gerð frekari skil.

 


Hér má sjá nokkra af þeim sem sátu fundinn, en mætingin var mjög góð.

05.05.2013 09:46

Aðalfundur - Dagskrá

Eins og áður hefur komið fram verður aðalfundur félagsins haldinn miðvikudaginn 8. maí kl. 20:00 í félagshúsnæði Skotgrundar.  Dagskrá fundarins verður á þennan veg:

 

a)  Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári.

b)  Ársreikningur og árgjald ákveðið.

c)  Kosning formanns, stjórnar og skoðendur reikninga.

                   d)  Önnur mál.

 

Undir liðnum önnur mál verður m.a. rætt um:

                   #  Framkvæmdir á komandi starfsári

                   #  Lyklamál

                   #  Öryggismál á svæðinu

                   #  Endurskoðun á lögum félagsins

                   #  Félagsskírteini

                   #  Samstarf við lögreglu varðandi æfingasvæði

                   #  Heimasíða

                   #  Mótamál

                   #  O.fl.

 

Við hvetjum því alla áhugasama til að láta sjá sig á fundinum og taka þátt í ákvörðunartöku varðandi starfssemi félagsins.  Hafir þú óskir um að eitthvað sérstakt verði tekið fyrir á fundinum getur þú sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com.