Færslur: 2013 Júní

30.06.2013 01:40

Mikið um að vera á æfingasvæðinu

Mjög mikil aðsókn hefur verið á æfingasvæði félagsins undanfarna daga.  Riffilsvæðið hefur verið í mikilli notkun og búið er að brjóta töluvert af leirdúfum á skeetvellinum.  Félagið hefur einnig tekið á móti hópum fólks, sem  fengið hefur svæðið á leigu til að gera sér glaðan dag.  Þessi mikla aðstókn gleður okkur mikið, enda er unnið hörðum höndum við að bæta og lagfæra æfingaaðstöðuna.

 

Í dag (laugardag) hittust nokkrir af félagsmönnum Skotgrundar á æfingasvæðinu og unnu að því að bæta og fegra æfingasvæðið.  Sett voru upp nokkur skilti, mælt var út fyrir nýju riffilböttunum og öðrum steypuframkvæmdum, unnið var í vélunum, girðingavinna var hafin, þökulagning, tiltekt o.fl.  Einnig var 1000 lítra vatnstanki komið fyrir við félagsheimilið, en hann á að sjá húsnæðinu fyrir vatni þar sem ekkert vatn er á svæðinu (ennþá).

 

Í dag náðist að ljúka góðu dagsverki og er æfingasvæðið alltaf að verða betra og snyrtilegra.  Vonandi mun það skila sér í enn betri aðsókn á æfingasvæðið, en það sást vel í dag hversu mikil aðsóknin er, því það var stöðug umferð um svæðið í allan dag á meðan menn voru að störfum.

 

Búið er að setja inn nokkrar myndir í myndaalbúm félagsins efst á síðunni.

29.06.2013 01:05

Riffilbattar fyrir 300 m og 400 m

Búið er að smíða riffilbatta sem settir verða upp á 300 m og 400 m á skotæfingasvæði félagsins.  Það eru þeir Guðni Már og Jón Einar úr Snæfellsbæ sem eiga allan heiður af nýju böttunum, en þeir útveguðu efni í battana og smíðuðu þá alveg frá grunni.  Í dag fluttu þeir battana inn á æfingasvæði og mældu út staðsetningu þeirra.  Þeir bíða nú bara eftir að verða steyptir niður.

 

Síðasta sumar voru steyptir niður battar á 25 m, 50 m og 75 m, en fyrir voru battar á 100 m og 200 m.  Nýju battarnir verða því kærkomin búbót fyrir félagið, sem stefnir að því að geta boðið upp á sem besta og fjólbreyttasta æfingaaðstöðu til skotæfinga þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi.

 
Guðni Már og Jón Einar við nýju riffilbattana.
 

 

 

 

28.06.2013 07:33

Æfingasvæðið upptekið eftir hádegið

Skotæfingasvæði Skotgrundar verður upptekið í dag föstudag frá kl. 12:00 til kl. 15:00.  Hópur skotmanna hefur fengið svæðið til afnota og því verður það lokað rétt á meðan.  Þó verður hægt að komast á riffilsvæðið sé þess óskað. Nánari upplýsingar er hægt að fá í síma 863 1718.

27.06.2013 21:51

Félagsmönnum fjölgar

Í gær fjölgaði félagsmönnum Skotgrundar um tvo til viðbótar þegar Hjalti Viðarson gerðist félagsmaður og Jón Emil Svanbergsson gekk í félagið á ný eftir stutta fjarveru.  Hjalti er búsettur í Stykkishólmi og Jón Emil í Grundarfirði.  Bjóðum við þá hjartanlega velkomna í félagið og við hlökkum til að sjá þá á æfingasvæðinu í sumar.

 

Hægt er að sjá nöfn allra félagsmanna í félagatalinu efst á síðunni.

 

Hjalti Viðarsson er hér fyrir miðri mynd.  Myndin er frá Sjómannadagsmóti Skotgrundar.

27.06.2013 21:23

SIH OPEN 2013

SIH open verður haldið í níunda sinn dagana 6. og 7. júlí. Það stefnir í frábæra þátttöku og hafa m.a. 13 útlendingar skráð sig til leiks. Þeir koma frá Ceyman island, Englandi, Grænlandi og Danmörku. Þátttakendafjöldi er takmarkaður við 36 þátttakendur þar sem félagið hefur aðeins yfir einum velli að ráða sem stendur, en fyrirhugað er að nýr völlur verði tekinn í notkun á 50 ára afmæli féalgsins 2015.

 

Nánari upplýsingar um mótið er að finna á heimasíður Skotíþróttafélags Hafnarfjarðar, www.sih.is.

26.06.2013 22:55

Nýju skiltin komin í hús

Nýju skiltin sem pöntuð voru eru komin í hús.  Um er að ræða leiðbeinandi skilti sem sett verða upp á æfingasvæðinu í þeim tilgangi að tryggja öryggi á svæðinu enn frekar.

Nýju skiltin

 

Ragnar og Ásgeir ehf. sá um flutninginn á skiltunum hingað vestur okkur að kostnaðarlausu.  Viljum við færa þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn, en Ragnar og Ásgeir ehf. hefur reynst Skotgrund mjög vel í gegnum árin og styrkt félagið með flutningum á varningi.

                     
                              Ragnar og Ásgeir ehf. hefur reynst félaginu vel

 

Aðrar fréttir eru þær að verkleg skotpróf eru í fullum gangi og hafa gengið nokkuð vel.  Aðeins var byrjað að lagfæra og mála félagshúsnæðið í vikunni, en stefnt er að því að hafa vinnudag fljótlega ef veður verður gott.  Þá verður öllum boðið að koma og leggja hönd á plóg.  Vinnudagurinn verður auglýstur síðar.

 

Málningarvinna

26.06.2013 12:41

Nýr félagsmaður

Nýlega gerðist Óskar Þór Davíðsson félagsmaður í Skotfélaginu Skotgrund og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið.

 

Annað sem er að frétta er að nú hafa nokkrir hreindýraveiðimenn lokið skotprófi hjá Skotgrund og óskum við þeim til hamingju með það.  Um leið minnum við þá sem eiga eftir að standast skotpróf að síðasti dagur til þess að þreyta skotpróf er næstkomandi sunnudag.

25.06.2013 12:32

Verklegt skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn

Nú hefur fyrsti veiðimaðurinn lokið verklegu skotprófi hjá Skotfélaginu Skotgrund og óskum við honum til hamingju með það.  Þeir sem ætla sér að fara á hreindýraveiðar á þessu ári hafa þessa viku til þess að ljúka verklegu skotprófi, en síðasti dagurinn til það þreyta skotpróf er sunnudagurinn 30. júní.  Einungis þeir sem fá úthlutað leyfi af biðlista eftir 1. júlí fá að fara í próf eftir þann tíma.

 

Samkvæmt tölum frá Umhverfisstofnun hefur rúmlega helmingur veiðimanna staðist skotpróf og þar af leiðandi á tæplega helmingur veiðimanna eftir að ljúka prófi.  Því viljum við hvetja þá sem ætla sér að fara í próf að ljúka því sem allra fyrst.

 

Einnig viljum við benda skotmönnum á að vera búnir að æfa sig og mæta vel undurbúnir í prófið.  Töluvert hefur verið um fall á landsvísu og því er ekki sjálfgefið að allt gangi upp í fyrstu tilraun.  Þá er mönnum oft ráðlagt að taka sér hlé og mæta aftur síðar til að reyna aftur við prófið.  Það getur því verið vont að vera á síðustu stundu með að þreyta prófið. 

 

Þeir sem hafa áhuga á að taka próf hjá Skotgrund geta sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com eða haft samband við einhvern af eftirtöldum aðilum:

 

Birgir Guðmundsson           859 9455        Grundarfirði

Jón Einar Rafnsson            862 2721        Snæfellsbæ

Jón Pétur Pétursson           863 1718        Grundarfirði

Unnsteinn Guðmundsson    897 6830        Grundarfirði

 

25.06.2013 12:19

Félagsgjöld

Búið er að senda út rukkun fyrir félagsgjöldum fyrir árið 2013.  Félagsgjaldið er eins og flestum er kunnugt 5.000 kr. og hefur verið óbreytt síðastliðin 16 ár.  Öll innkoma af félagsgjöldum fer í rekstur og uppbyggingu á æfingasvæði félagsins. 

 

Til stendur að fara í miklar framkvæmdir og endurbætur á æfingasvæðinu á næstu vikum og því vonumst við til að allir sjái sér fært að geiða félagsgjaldið fúslega sem allra fyrst.  Markmið félagsins er að byggja upp góða og fjölbreytta æfingaaðstöðu með mismunandi þarfir skotmanna í huga.

 

Þeir sem hafa einhverjar athugasemdir við innheimtu félagsgjalda geta sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com eða haft samband við Jón Pétur í síma 863 1718.

Einnig er nýjum félagsmönnum velkomið að skrá sig í félagið.

 

 

24.06.2013 01:55

Girðingastaurarnir tilbúnir

Girðingastaurarnir sem notaðir verða til að girða æfingasvæðið af með eru nú tilbúnir.  Strákarnir hjá Almennu umhverfisþjónustunni ehf. eru búnir að steypa þá alla í dekk sem félagið fékk gefins hjá KB bílaverkstæði.  Staurarnir voru svo málaðir í kvöld og eru því tilbúnir til flutnings og uppsetningu.

 

Tilgangur girðingarinnar verður að stýra umferðinni að æfingasvæðinu og tryggja öryggi á svæðinu.  Einnig hafa verið pöntuð leiðbeinandi skilti til að tryggja öryggi á svæðinu enn frekar.  Skiltin eru tilbúin en bíða þess að við finnum far fyrir þau frá Akranesi hingað vestur.

 

Staurarnir voru málaðir í kvöld og er nú tilbúnir til flutnings.

22.06.2013 17:12

Mikil aðsókn á æfingasvæðið

Mjög mikil aðsókn hefur verið á skotæfingasvæði Skotgrundar undanfarna daga, enda er veðrið búið að leika við okkur hér á Snæfellsnesinu.  Í gærkvöldi voru skilyrði eins og best verður á kosið til að stilla riffla og voru nokkrir að skjóta langt fram eftir kvöldi.  Sólin var komin snemma á loft í morgun og er búið að vera mikil aðsókn bæði á riffilsvæðið og skeetvöllinn.  Almennt hefur aðsókn á æfingasvæði félagsins aukist mjög mikið undanfarna mánuði, okkur til mikillar ánægju.

 

Þó urðum við varir við það nýlega að einhver skotmaður hefur verið svo ólánsamur að hitta þremur skotum af stóru caliberi, fyrir algjöra tilviljun, beint í einn af nýju riffilböttunum okkar, sem ætlaðir eru fyrir minni caliber.  Sennilega hefur viðkomandi átt mjög slæman dag eða verið svona hrikalega óheppinn þrisvar í röð. Battarnir sem félagið lét nýlega smíða skemmdust nokkuð, en búið er að gera við skemmdirnar.  Það voru feðgarnir Biggi og Sammi sem tóku sig til og gerðu við battana og erum við þeim mjög þakklátir fyrir það. 

 

Vonandi var þetta bara tilfallandi óheppni sem mun ekki endurtaka sig aftur, enda er félagið að reyna að byggja upp góða aðstöðu til skotæfinga. Við hvetjum sem flesta til að nýta sér þá aðstöðu sem verið er að byggja upp og hjálpast að við að passa upp á eigur félagsins.

 

Hér sjást skemmdirnar á böttunum sem ætlaðir eru fyrir minni caliber.

 

Búið er að sjóða í skemmdirnar.  Vonandi fara menn gætilega með stór caliber.

 

21.06.2013 19:31

Prófdómarar fyrir verkleg skotpróf

Í gær föstudag útskrifuðust fjórir fulltrúar Skotgrundar sem prófdómarar fyrir verkleg skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn.  Sóttu þeir námskeið á vegum Umhverfisstofnunar, en Gunnar Sigurðsson hjá Skotfélagi Reykjavíkur sá um kennsluna. 

Unnsteinn að undirbúa veiðimann fyrir próf.

 

Samkvæmt reglugerð sem tók gildi á síðasta ári ber hreindýraveiðimönnum að standast verklegt skotpróf áður en haldið er til hreindýraveiða og geta veiðimenn nú þreytt slíkt próf hjá Skotfélaginu Skotgrund. 

Þeir sem ætla sér að fara á hreindýraveiðar á þessu ári þurfa að skila inn til Umhverfisstofnunar staðfestingu að þeir hafi lokið verklegu skotprófi fyrir 1. júlí 2013.  Próftökugjaldið er 4.500 kr. og panta þarf tíma til að komast í slíkt próf.  Þeir sem hafa áhuga á að þreyta slíkt próf geta sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com eða haft samband við eftirtalda aðila:

 

Birgir Guðmundsson           859 9455        Grundarfirði

Jón Einar Rafnsson            862 2721        Snæfellsbæ

Jón Pétur Pétursson           863 1718        Grundarfirði

Unnsteinn Guðmundsson    897 6830        Grundarfirði

 

Gunnar Sigurðsson ásamt strákunum okkar að stilla upp skotskífum.

 

Mjög ráðlegt er að veiðimenn séu búnir að æfa sig áður en haldið er í prófið.  Hægt er að prenta út æfingaskífur hér á heimasíðu félagsins undir tenglar.  Prófdómari kannar hvort að skotvopnaleyfi sé í gildi og hvort að riffillinn og eintaksnúmer hans sé tilgreint á skotvopnaleyfinu.  Ef um lánsvopn sé að ræða þarf að framvísa lánsheimild sem er í gildi.  Prófdómari skoðar riffilinn og skotfærin sem ætlunin er að nota.  Ef veiðimaður hyggst nota hjálpartæki (bakpoka, ól, staf eða tvífót) þarf að sýna prófdómara hvað í því felst.  Riffillinn og skotfærin þurfa að uppfylla skilyrði til hreindýraveiða hvað varðar kúlugerð og slagkraft og eingöngu er heimilt að mæta í prófið með þann riffil sem viðkomandi hyggst fara með á hreindýraveiðar.

 

Varðandi skotprófið sjálft þá hefur það tvennan tilgang.  Annars vegar að kanna hvort viðkomandi búi yfir þeirri hittni sem krafist er og hins vegar að kanna hvort viðkomandi kunni að meðhöndla skotvopn á ábyrgan hátt.  Skotið er á 100 m færi og skjóta skal fimm skotum á innan við fimm mínútum.  Öll skotin eiga að snerta eða hafna innan hrings á skotskífunni sem er 14 sm að þvermáli.  

 

Allar nánari upplýsingar um skotprófið má nálgast hér á heimasíðu Skotgrundar undir tenglar eða á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

 

21.06.2013 17:35

Nýr félagsmaður

Rétt í þessu gerðist Jón Bjarki Jónatansson félagsmaður í skotfélaginu Skotgrund og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið.  Félagsmönnum hefur verið að fjölga mikið undanfarið og vinnum við hörðum höndum að því að bæta aðstöðu félagsins og bæta aðgengi allra félagsmanna að svæðinu.  Markmið félagsins er að geta boðið upp á sem allra bestu aðstöðu til skotæfinga.

 

Miklar framkvæmdir eru framundan á æfingasvæðinu og er ætlunin að hafa vinnudag næstu helgi (eftir viku) fyrir þá sem hafa áhuga á að leggja hönd á plóg.  Nánari tímasetning verður auglýst síðar.

 

 

21.06.2013 15:55

Enn fjölgar félagsmönnum

Í dag gengu þeir Bergvin Sævar Guðmundsson og Runólfur Jóhann Kristjánsson í Skotfélagið Skotgrund og bjóðum við þá hjartanlega velkomna í félagið.  Um leið bendum við þeim sem hafa áhuga á að skrá sig í félagið að félagið er opið öllum áhugasömum. Hægt er að skrá sig í félagið með því að hafa samband við Jón Pétur í síma 863 1718 eða senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com.

 

Félagsgjaldið eru litlar 5.000 kónur á ári og hefur það verið óbreytt síðastliðin 16 ár. Öll innkoma af félagsgjöldum fer í rekstur og uppbyggingu á æfingasvæði félagsins.  Eftir því sem félagsmönnum fjölgar eykst framkvæmdafé félagsins og þá er hægt að bæta aðstöðuna enn frekar. Markmið félagsins er að geta boðið skotáhugamönnum upp á sem besta og fjölbreyttasta aðstöðu til skotæfinga.

19.06.2013 06:58

Framkvæmdafréttir

Það helsta sem er að frétta af framkvæmdum hjá félaginu er að í gær voru pöntuð nokkur skilti til að setja upp á æfingasvæðinu.  Um er að ræða leiðbeinandi skilti með umgengnisreglum sem og skilti til að tryggja öryggi á svæðinu.  Við reiknum með að geta sett þau upp mjög fljótlega.

 

Almenna Umhverfisþjónustan ehf. er búin að steypa fyrir okkur alla staurana í dekkin sem við ætlum að nota til að girða svæðið af með.  Um er að ræða hefðbundna girðingastaura, en ástæðan fyrir því að þeir eru steyptir í dekk er sú að jarðvegurinn á æfingasvæðinu er þannig að ekki er hægt að reka niður staura.  Því voru þeir steyptir í dekk og verða dekkin svo grafin rétt undir yfirborð jarðvegsins. Næst á dagskrá er að sækja staurana og flytja þá inn á æfingasvæði.

 

Strákarnir í Ólafsvík, Guðni Már og co. eru að ljúka við að smíða riffilbatta sem settir verða upp á 300 m og 400 m.  Það verður því fljótlega hægt að undirbúa niðursetningu þeirra, en steypa þarf undirstöður fyrir þá. 

 

Búið er að magntaka efnið sem þarf til þess að endurnýja turninn og markið.  Ætlunin er að lyfta húsunum og steypa nýja sökkla undir þau.  Um leið verður skipt um krossvið utan á húsunum og þau klædd að utan.  Efnið verður pantað á næstu dögum.

 

Búið er að skera út stafi félagsins og mála, en ætlunin er að setja þá utan á félagshúsnæðið í Kolgrafafirði.  Hægt verður að setja upp stafina um leið málningin er þornuð.

Hér má sjá stafi félagsins sem búið er að skera út.  Verða þeir settir utan á félagshúsnæðið.

 

Stefnt er að því að auglýsa vinnudag á næstu dögum þar sem m.a. verður byrjað að grafa fyrir nýju riffilböttunum, fyrir girðingastaurunum o.fl.  Vonandi verður hægt að mála húsin og setja upp nafn félagsins líka.  Einnig eigum við von á rafvirkja inn á svæði á næstu dögum sem ætlar að taka kastvélarnar í gegn fyrir okkur og stilla.

 

Margar hendur vinna létt verk og því vonumst við til að sem flestir sjái sér fært að aðstoða okkur þegar farið verður í þessar framkvæmdir.  Nánari tímasetning verður auglýst síðar.