Færslur: 2013 Júlí

29.07.2013 11:47

Skotvopnasýning Skotgrundar

Bæjarhátíðin "Á góðri stund" fór fram í Grundarfirði síðastliðna helgi og meðal viðburða var skotvopnasýning sem Skotfélagið Skotgrund stóð fyrir. Til sýnis voru tæplega 40 skotvopn af ýmsum gerðum ásamt öðrum búnaði tengdum skotfimi og veiði. Tilgangur sýningarinnar var að kynna starfsemi félagsins og ræða við gesti og gangandi um skotvopn á jákvæðum nótum.

 

Sýningin tókst vel til i alla staði og er áætlað að yfir 1.000 manns á öllum aldri hafi séð sýninguna og kynnt sér starfsemi félagsins.  Var ekki annað að sjá en að gestirnir hafi verið ánægðir með sýninguna og fékk félagið mikið lof fyrir.  Nú þegar er farið að ræða um það halda aðra sýningu að ári liðnu eða jafnvel að gera þetta að árlegum viðburði.

Áætlað er að yfir 1.000 manns hafi séð sýninguna.

 

 

Hægt var að fræðast um starfsemi félagsins auk þess sem myndasýning var sýnd á skjá.

 

 

Margar gerðir af byssum voru til sýnis, m.a. skammbyssur og kindabyssur.

 

 

Hægt var að fræðast um mismunandi skotfæri og eiginleka þeirra.

 

Auk þess að geta fræðst um starfsemi félagsins og skoðað skotvopn bauðst gestum sýningarinnar að taka þátt í léttum getraunarleik, sem fólst í því að giska á hversu mörg tóm skothylki var að finna í hjólbörum félagsins.  Hjólbörurnar höfðu verið fylltar af tómum haglabyssuskotum og fékk sá sem var næstur réttri tölu Mackintosh´s dós að launum. 

135 manns tóku þátt í getraunarleiknum.

 

Úrslitin úr getraunarleiknum voru svo kunngjörð á kvöldvökunni á hátíðarsvæðinu um kvöldið að viðstöddum fjölda fólks.  Alls tóku 135 manns þátt í getrauninni og var það Laufey Lilja Ágústsdóttir frá Grundarfirði sem hlaut verðlaunin og var hún kölluð upp á svið til að veita þeim viðtöku.  Síðar um kvöldið sást til Laufeyjar með dósina á hátíðarsvæðinu þar sem hún bauð gestum hátíðarinnar upp á mola.

 

Skotfélagið Skotgrund vill þakka öllum þeim sem sóttu sýninguna fyrir komuna og öllum þeim sem stóðu að hátíðinni á einn eða annan hátt. 

 

Búið er að setja inn myndir frá sýningunni, en þær er að finna í myndaalbúminu efst á síðunni.

27.07.2013 20:02

Skotvopnasýning

Skotgrund stóð fyrir skotvopnasýningu í dag á hafnarsvæðinu í Grundarfirði.  Sýningin var mjög vel sótt og viljum við þakka þeim fjölmörgu gestum sem sóttu sýninguna fyrir komuna.  Sýningunni verður síðar gerð frekari skil hér á heimasíðu Skotgrundar og settar verða inn myndir frá sýningunni.

 

 

 

26.07.2013 07:19

Félagsskírteini 2013

Félagsskírteinin eru komin úr prentun og verður þeim komið í dreifingu á næstu misserum.  Því hvetjum við þá sem enn eiga eftir að greiða félagsgjöldin til að gera það fúslega sem allra fyrst.

 

Annað sem er að frétta er að búið er að laga bilunina sem kom upp í kastvélinni í markinu á dögunum.  Plaststykki sem styður við og stýrir dúfunum að kastarminum hafði brotnað, en Unnsteinn smíðaði nýtt stykki fyrir okkur og búið er að setja það í vélina.  Kastvöllurinn er því orðinn nothæfur á ný.

 

Einnig minnum við á skotvopnasýninguna sem Skotgrund stendur fyrir á hafnarsvæðinu á laugardaginn frá kl. 12:30.  Þar verða til sýnis skotvopn og annar búnaður úr eigu félagsmanna.

 

Félagsskírteinin eru komin úr prentun.

25.07.2013 22:35

Skotvopn o.fl. til sýnis

Skotfélagið Skotgrund ætlar að standa fyrir sýningu næstkomandi laugardag á bæjarhátíð Grundfirðinga, "Á góðri stund".  Til sýnis verða skotvopn og annar búnaður úr einkaeigu félagsmanna.  Sýningin verður í stóra hátíðartjaldinu á hafnarsvæðinu frá kl. 12:30 á laugardaginn og eitthvað fram eftir degi. 

 

Tilgangur sýningarinnar er að kynna starfsemi félagsins og ræða við gesti og gangandi um skotvopn og meðhöndlun skotvopna á jákvæðan hátt.  Gestir sýningarinner geta einnig tekið þátt í skemmtilegum getraunaleik sem settur verður upp á staðnum.  Allir eru velkomnir og vonandi sjáum við sem flesta.

 

Kveðja Skotgrund

 

 
 
 

 

24.07.2013 20:01

Bursti úr hreinsisetti

Bursti úr hreinsisetti fannst við riffilborðin á æfingasvæðinu.  Burstann er hægt að nálgast í félagshúsnæðinu.

 

Þessi bursti fannst á æfingasvæðinu.

 

 

19.07.2013 16:58

Fréttir

Timbrið sem við pöntuðum er komið vestur svo nú er hægt að fara endurbyggja turninn og markið.  Einnig stendur til að smíða ramma fyrir skilti o.fl.

 

Undirbúningur fyrir skotvopnasýninguna gengur vel.  Búið er að finna til hóflega mikið af dóti til að sýna, en áhugasamir geta þó enn haft samband vilji þeir aðstoða okkur.  Við viljum endilega fá sem flesta til að vera með okkur.

 

Komin er upp bilun í kastvélinni í markinu.  Vonandi verður hægt að laga það fljótlega.

15.07.2013 21:42

Vélsmiðjan Berg

Í dag voru smíðaðir 18 vinklar sem notaðir verða á æfingasvæðinu.  Vélsmiðjan Berg pantaði efnið fyrir okkur og fengum við svo aðgang að vélunum þeirra til að saga stangirnar niður og bora.  Vélsmiðjan hefur reynst Skotgrund vel í gegnum árin og færum við þeim bestu þakkir fyrir afnot af verkstæðinu í dag.

 

Vinklarnir verða steyptir lóðrétt niður og eiga að styðja við rauðmáluðu staurana sem eiga að afmarka riffilsvæðið.

 

Fyrsta stöngin söguð niður.

15.07.2013 01:23

Skotvopnasýning

Skotfélagið Skotgrund ætlar að standa fyrir skotvopnasýningu á bæjarhátíð Grundfirðinga "Á góðri stund" sem haldin er eftir hálfan mánuð.  Öllum félagsmönnum Skotgrundar stendur til boða að taka þátt í sýningunni, hvort sem þeir eiga skotvopn eða ekki.  Tilgangur sýningarinnar er að kynna starfssemi félagsins og ræða við gesti og gangandi um skotvopn og meðhöndlun þeirra á jákvæðan hátt.

 

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í sýningunni eða leggja félaginu lið geta haft samband við Jón Pétur í síma 863 1718, eða sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com.

 


Frá skotvopnasýningu Skotgrundar sem haldin var 9. september 1989.

11.07.2013 18:46

Félagsskírteini 2013

Félagsskírteini fyrir árið 2013 eru komin í prentun.  Búið er að senda út rukkun til félagsmanna fyrir félagsgjöldum og verða félagsskírteinin send út um leið og greiðslan hefur borist.


Skotgrund treystir alfarið á innkomu félagsgjalda til rekstur félagsins og endurbótum á aðstöðu þess.  Því viljum við hvetja félagsmenn til að greiða  félagsgjaldið fúslega sem fyrst því hver króna skiptir félagið máli.  
 

Með góðri innheimtu félagsgjalda er hægt að framkvæma meira og gera svæðið betra og meira aðlaðandi.

Jafnframt viljum við þakka þeim sem hafa greitt félagsgjöldin undanfarin ár gagngert til að styrkja félagið fyrir þeirra framlag til félagsins.

 

Félagsmenn sem ekki greiddu félagsgjöldin á síðasta ári voru strikaðir út af félagaskrá eins og segir til um í reglum félagsins.  Þeir fá því ekki senda rukkun um félagsgjöld á þessu starfsári.  Hafi þeir hinsvegar áhuga á að gerast félagsmenn aftur geta þeir haft samband á skotgrund@gmail.com eða í síma 863 1718.

09.07.2013 21:37

Ýmislegt

Nú hefur einn veiðimaður lokið skotprófi hjá Skotgrund eftir að hafa fengið úthlutað dýr af biðlista. 

 

Skotgrund er búið að fá tilboð í byggingarefni til að endurnyja markið og turninn (skeetvöllinn).  Gert er ráð fyrir því að gengið verður frá pöntuninni á morgun og því ætti að vera hægt að byrja að smíða fljótlega.

 

Mikil aðsókn hefur verið á æfingasvæðið undanfarna daga.

 

Búið er að setja upp stafi félagsins á þakkant félagshúsnæðisins.

 

 

07.07.2013 21:24

Dúfnaveislan er hafin

Dúfnaveislan 2013 hófst á 15 skotvöllum víða um land mánudaginn 1. júlí og stendur til 31. ágúst. Dúfnaveislan er samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar (UST), Skotveiðifélags Íslands (SKOTVÍS), ýmissa félaga sem reka skotvelli auk styrktaraðila. Tilgangur dúfnaveislunnar er að hvetja veiðimenn um land allt til að kynna sér þá aðstöðu sem skotvellirnir hafa uppá að bjóða og stunda reglulegar skotæfingar áður en veiðitímabilið hefst.

 

Fyrirkomulagið er með þeim hætti að veiðimenn kynna sér opnunartíma þeirra skotvalla sem er næst þeirra heimabyggð og biðji starfsmann vallarins um skorkort. Markmiðið er að hver veiðimaður nái að skjóta 10 æfingahringi áður en haldið er til veiða og fái staðfestingu á því hjá starfsmanni vallarins. Veiðimaður getur síðan skilað inn kortinu til starfsmanns vallarins þegar 10 æfingahringjum er lokið og gildir kortið þá sem happdrættismiði í lok viðburðarins, en margir styrktaraðilar munu gefa vinninga til að gera þetta allt saman skemmtilegra.

 

Reikna má með að hátt í 10 þúsund veiðikortahafar muni ganga til veiða á næstu mánuðum, en sannir veiðimenn temja sér ákveðnar siðareglur í umgengni sinni við náttúruna og umhverfi sitt og ein af þeim siðareglum er ástundun skotæfinga. Veiðimaður sem vill hitta bráð sína þarf að vera einbeittur, í formi, fær um að meta fjarlægðir og meðvitaður um eiginleika vopna sinna og skotfæra og því eru veiðimenn hvattir til að nýta sér þennan viðburð til að kynnast því sem félög víða um land hafa uppá að bjóða. 

         
Nánari upplýsingar er að finna heimasíðu Umhverfisstofnunar www.ust.is

06.07.2013 22:28

Framkvæmdafréttir

Í dag náðum við að ljúka ágætis dagsverki á æfingavæðinu.  Byrjað var á því að setja upp skilti við skeetvöllinn og eftir hádegið kom Atli Freyr frá Almennu umhverfisþjónustunni ehf. á gröfu og aðstoðaði okkur við að grafa niður tunnur til að steypa í.  Alls voru grafnar niður 18 hálfar tunnur, sem t.d. nýju riffilbattarnir verða steyptir í. 

 

Búið er að smíða nýja riffilbatta sem settir verða upp á 300m og 400m, en einnig verða steyptir niður rauðmálaðir staurar meðfram allri riffilbrautinni, til að afmarka riffilbrautina og tryggja öryggi á svæðinu.  Stefnt er að því að steypa við fyrsta tækifæri.

Fyrsta holan. Steyptir verða niður rauðmálaðir staurar beggja megin meðfram allri riffilbrautinni.

 

Í dag voru einnig grafnar holur fyrir girðingastaurana sem steyptir hafa verið í dekk, en jarðvegurinn á æfingavæðinu er þess eðlis að ekki er hægt að reka niður staura.  Því var brugðið á það ráð að steypa staurana í dekk og grafa niður undir yfirborðið.  Girðingin á að afmarka æfingasvæði Skotgrundar og tryggja frekara öryggi á svæðinu.

Búið er að grafa fyrir girðingastaurunum.

 

Settar hafa verið inn nokkrar myndir í myndaalbúmið efst á síðunni.

 

 

05.07.2013 20:53

Vinna á morgun (laugardag)

Við ætlum að hittast á æfingasvæðinu á morgun kl. 13:00 og svitna aðeins fyrir félagið.  Til stendur að grafa niður tunnurnar sem nýju riffilbattarnir verða steyptir í og staurarnir meðfram riffilbrautinni.  Við fáum gröfu á svæðið kl. 13:30 en okkur vantar sjálfboðaliða til að moka að tunnunum.

 

Einnig stendur til að grafa niður og stilla af girðingastaurana sem steyptir voru í dekk á dögunum.  Þeir sem hafa áhuga á að leggja félaginu lið geta haft samband við okkur eða mætt á æfingasvæðið kl. 13:00 á morgun.  Allir velkomnir.

Girðingastaurarnir.

05.07.2013 01:04

Framkvæmdafréttir

Það helsta sem er að frétta af framkvæmdum er að í vikunni festi félagið kaup á vatnsdælu, sem tengja á við nýja vatnstankinn sem settur var upp á dögunum.  Dælan á að dæla vatni úr tankinum í klósettið og í vaskana.  Páfinn ætti því að geta kíkt í heimsókn fljótlega með taflborðið. 

 

Búið var að grafa niður og tengja rotþró við húsið fyrir nokkrum árum,  en hinsvegar er ekkert vatn á svæðinu og því hefur ekki verið hægt að taka klósettið í notkun ennþá.  Vatnstankurinn og dælan eiga að leysa það vandamál (tímabundið) svo hægt verði að taka salernið í notkun.  Einnig verður hægt að fá vatn í kaffið þegar búið verður að setja upp vaskinn í eldhúsið.

 

Félagið fékk nýlega gefins olíutunnur sem fluttar hafa verið á æfingasvæðið.  Í dag (fimmtudag) voru þær svo skornar til helminga, en ætlunin er að nota þær til að steypa í.  Til stendur að steypa niður nýju riffilbattana á 300m og 400m á næstu dögum.  Einnig verða steypt niður skilti, sem og rauðmálaðir staurar meðfram riffilbrautinni, en rauðmáluðu staurarnir eiga að afmarka riffilbrautina.

Steini Gun sker tunnurnar til helminga.

 

Til stendur að reyna að fá gröfu inn á svæði á laugardaginn til þess að grafa niður tunnurnar og gera klárt fyrir steypu.  Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í því geta fylgst með hér á síðunni, en nánari tímasetning verður auglýst síðar.  Einnig ætlar rafvirkinn að koma á laugardaginn og ljúka við að yfirfara kastvélarnar.

 

Í dag var einnig hafin málningarvinna á svæðinu, en félagshúsnæðið var málað að utan sem og vélaskúrinn.   Búið er að setja inn nokkrar myndir af framkvæmdum hér á síðuna, en hægt er að finna þær í myndaalbúminu efst á síðunni.

Sammi var öflugur á rúllunni.

 

Félagshúsnæðið nýmálað.  Til stendur að safna liði fljótlega til að ljúka málningarvinnu.

 

03.07.2013 02:14

Nýjar texplötur - Göngum snyrtilega um æfingasvæðið

Búið er að skera niður mikið af texplötum sem stendur skotmönnum  til boða án endurgjalds á riffilsvæðinu. Settar hafa verið texplötur í alla riffilbattana og nýjar plötur til vara eru aðgengilegar við riffilborðin.  Ætlast er til þess að skotmenn komi sjálfir með skotskífur og hefti/teiknibólur með sér til að festa skífurnar á texplöturnar.  Hægt er að prenta út skotskífur hér á heimasíðu Skotgrundar undir tenglar.

Texplötur eru aðgengilegar á riffilsvæðinu og við riffilborðin.

 

Síðastliðinn laugardag var vinnudagur á æfingasvæðinu og fór m.a. hópur sjálfboðaliða um svæðið og hreinsaði allt rusl.  Strax daginn eftir fannst töluvert af rusli sem skilið hafði verið eftir á æfingasvæðinu. 

Þetta rusl var skilið eftir á riffilsvæðinu nokkrum klukkutímum eftir að tiltekt hafði farið fram.

 

Unnið er hörðum höndum að því að bæta æfingaaðstöðuna og fegra svæðið og því viljum við biðja alla sem nota svæðið um að aðstoða okkur við að halda svæðinu hreinu og passa upp á eignir félagsins.

Göngum snyrtilega um svæðið.  Ekki láta þitt eftir liggja.
 

 

  • 1