Færslur: 2013 Ágúst

27.08.2013 16:35

Þakkir til félagsmanna

Skotfélagið Skotgrund sendir þakkir til allra þeirra sem greitt hafa félagsgjöldin.  Vel hefur gengið að innheimta félagsjöldin fyrir þetta starfsár, en eins og mörgum er kunnugt treystir Skotgrund alfarið á félagsgjöld til reksturs og uppbyggingar félagsins.

 

Mikið hefur verið um endurbætur á æfingasvæðinu í sumar og til stendur að fara í frekari framkvæmdir með haustinu.  Þessar framkvæmdir væru ekki mögulegar án tryggra félagsmanna.

21.08.2013 10:01

Framkvæmdafréttir

Í gær var blíðskapaveður á æfingasvæðinu og var dagurinn notaður í að undirbúa fyrir steypu. Smíðaður var rammi fyrir skiltið sem á að setja upp við riffilsvæðið.  Einnig voru settir upp rauðmálaðir staurar sem eiga að afmarka svæðið enn frekar.  Þeir voru settir með 100 m millibili meðfram allri riffilbrautinni.

Vonandi verður hægt að steypa á allra næstu dögum.

 

Skilti með umgengnisreglum sem sett verður upp við riffilbrautina.

 

Rauðmálaðir staurar verða steyptir meðfram allri riffilbrautinni til að tryggja öryggi á svæðinu.

 

 
Hér má sjá hvar skiltið verður og í bakgrunn má sjá rauðmáluðu staurana.

20.08.2013 01:06

Framkvæmdafréttir

Í dag var byggingarefnið sem pantað hafði verið sótt á flutningamiðstöðina (Ragnar og Ásgeir ehf.)  og flutt inn í Kolgrafafjörð.  Um er að ræða efni sem á að nota til að endurbyggja turninn og markið.  Húsin eru aðeins farin að láta á sjá eftir öll þessi ár og til stendur að endurbyggja þau að hluta til og klæða að utan.

 

Einnig var hafist handa í dag við að stilla upp rauðmáluðu staurunum meðfram riffilbrautinni, en stefnt er að því að steypa þá niður ásamt öðru við fyrsta tækifæri.  Rauðmáluðu staurarnir eiga að afmarka riffilbrautina enn frekar.

 

Til stendur að gera upp turninn og markið.

19.08.2013 15:36

Nýr félagsmaður

Í gær fjölgaði enn frekar í félaginu þegar Guðmundur Andri Kjartansson gekk í félagið á ný eftir stutta fjarveru.  Bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið.

18.08.2013 13:08

Mæting kl. 20:00 í kvöld

Við ætlum að vera á æfingasvæðinu í kvöld (sunnudag) kl. 20:00 og skjóta nokkra hringi á leirdúfuvellinum.  Allir velkomnir.

 

 

17.08.2013 16:07

Tillaga að breyttu úthlutunarkerfi fyrir hreindýraleyfi - Skoðunarkönnun

Kæru hreindýraveiðimenn!

Einn liður í stefnu SKOTVÍS í málefnum skotveiðimanna er að hafa áhrif á hvernig úthlutun hreindýraleyfa verði háttað í framtíðinni. Hátt hlutfall endurúthlutunar bendir til þess að núverandi kerfi sé á margan hátt gallað og skapi óskilvirkni sem hægt væri að koma í veg fyrir. Nýjar tillögur myndu miða að því að draga úr þörfinni á endurúthlutun auk þess að ná fram sanngjarnari úthlutunarreglum.

Svæðisráð SKOTVÍS á norðvesturlandi hefur á undanförnum mánuðum unnið að tillögum til úrbóta sem áætlað er að verði sendar Umhverfsistofnun með haustinu. Áður en til þess kemur, mun SKOTVÍS senda út skoðunarkönnum meðal þeirra sem eru skráðir á póstlista félagsins og biðja um álit og ábendingar til úrbóta. Sem mun svo auðvelda og leiðbeina svæðisráði SKOTVÍS á norðvesturlandi að fullmóta sínar tillögur.

Til að fá tillögurnar og spurningarlilstann, þarf að skrá sig á póstlista SKOTVÍS (www.skotvis.is) fyrir 18. ágúst 2013, þ.a. hann berist ykkur. Ekki er gerð krafa um að þeir sem taki þátt í könnuninni séu félagsmenn, en SKOTVÍS leggur mikla áherslu á að sem flestir skotveiðimenn komi að því að móta framtíð skotveiða.

Vonumst til að sem flestir sjái sér fært að koma sínum sjónarmiðum á framfæri með þessum hætti.


 

16.08.2013 16:35

Skemmdarverk á riffilsvæðum

Nýlega var birt grein á heimasíðu Skotfélagsins Ósmanns (Sauðárkróki) þess efnis að skemmdir höfðu verið unnar á riffilsvæði félagsins.  Þar höfðu m.a. skotmörk fyrir lítil caliber verið skemmd með stórum riffilkúlum.  Einnig hafði skotmörkum verið stillt upp við viðkvæmt bakland. Nánar er hægt að lesa um skemmdarverkin hér.

Vonandi eru einhverjir sem geta lært af þessum óvitaskap og hvetjum við menn til að hugsa aðeins hvað þeir eru að gera áður en þeir hleypa af. 

  

        Rafmagnsrör sem viðkvæmt bakland.                                      Skotmark fyrir 22.cal. 

                                                  Myndirnar eru af heimasíðu Ósmanns. 

 

 

Skotfélagið Skotgrund hefur unnið markvisst að því að bæta aðstöðu félagsmanna til skotæfinga og voru t.d. nýlega smíðaðir riffilbattar fyrir minni caliber á 25m, 50m og 75m.  Þeir höfðu hinsvegar ekki verið lengi í notkun þegar búið var að skjóta þrjú göt á grindurnar með stórum kúlum.  Grindurnar voru sendar í viðgerð um leið og skemmdanna varð vart og soðið var upp í götin.  Nú er hinsvegar búið að skjóta annað gat á sömu grindina með svipað stórri kúlu, ef ekki bara kúlu af sömu gerð.

 

Búið er að skjóta gat á grindina.  Fyrir neðan má sjá ummerki eftir götin sem búið er að gera við.

 

Við viljum ekki trúa því að slíkt sé gert með ásettu ráði og því viljum við bjóða þeim sem ekki kunna að stilla rifflana sína okkar aðstoð við að stilla þá inn til að koma í veg fyrir frekari skemmdir á eigum félagsins.  Hægt er að hafa samband á skotgrund@gmail.com.

 

Um leið viljum við biðja alla um að aðstoða okkur við að ganga snyrtilega um svæðið og passa upp á eigur félagins.

 
 

 

08.08.2013 15:54

Fuglavefurinn

Fuglavefurinn er áhugaverð síða sem Námsgagnastofnun stendur fyrir.  Þar er að finna fróðleik um íslenska fugla með ljósmyndum, myndir af eggjum og ungum svo eitthvað sé nefnt. 

 

Á síðunni er hægt er að hlusta á hljóð fuglanna og þar eru einnig upplýsingar um varp- og ungatíma auk dvalartíma fuglanna hér á landi.

 

Búið er að setja inn tengil inn á Fuglavefinn hér á heimasíðu Skotgrunda, en hann er að finna undir "Tenglar" vinstra megin á síðunni.  Einnig er hægt er að skoða síðuna hér.

 

05.08.2013 02:07

Nýr tengill - Saga félagsins

Eins og glöggir lesendur síðunnar hafa tekið eftir er nýlega búið að virkja nýjan tengil sem heitir "Saga félagsins".  Þar er verið að taka saman og skrásetja sögu félagsins alveg frá stofnun þess. 

 

Undir þessum tengli verða skrásettar upplýsingar sem hafa sögulegt gildi fyrir félagið og sem gaman getur verið að kynna sér. Skrásetningu sögunnar er ekki lokið og á næstu misserum munu bætast við nýjar upplýsingar um leið og búið er að vinna úr þeim.  Tengilinn er að finna efst á síðunni.

 


Skotæfingasvæði Skotgrundar í byggingu.  Myndin er frá árinu 1989.

02.08.2013 23:47

Átt þú ljósmyndir sem tengjast Skotgrund?

Skotgrund er að safna ljósmyndum sem tengjast Skotgrund á einn eða annan hátt, bæði nýjum og gömlum.  Ef þú átt myndir sem Skotgrund getur fengið afrit af viljum við endilega heyra frá þér.  Hægt er að hafa samband í síma 863 1718 eða senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com. 

 

Tómas Freyr Kristjánsson sendi okkur þessar tvær myndir á dögunum, en þær voru teknar á skotvopnasýningunni síðastliðinn laugardag.

 

 
 

 

  • 1