Færslur: 2013 September

30.09.2013 09:11

Nýr félagsmaður

Í dag gerðist Hjálmar Þór Kristjánsson félagsmaður í Skotfélaginu Skotgrund  og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið. Um leið viljum við benda þeim þeim sem hafa áhuga á að skrá sig í félagið að félagið er opið öllum áhugasömum. Hægt er að skrá sig í félagið með því að hafa samband við Jón Pétur í síma 863 1718 eða senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com.

 

Félagsgjaldið eru litlar 5.000 kónur á ári og hefur það verið óbreytt síðastliðin 16 ár.  Öll innkoma af félagsgjöldum fer í rekstur og uppbyggingu á æfingasvæði félagsins.  Eftir því sem félagsmönnum fjölgar eykst framkvæmdafé félagsins og þá er hægt að bæta aðstöðuna enn frekar. Markmið félagsins er að geta boðið skotáhugamönnum upp á sem besta og fjölbreyttasta aðstöðu til skotæfinga.

26.09.2013 14:59

Nýr kassi fyrir texplötur

Búið er að smíða nýjan kassa fyrir texplötur og hefur honum verið komið fyrir við riffilborðin á skotæfingasvæði Skotgrundar.  Kassinn hefur að geyma texplötur sem notaðar eru til að hengja skotskífur á þegar skotæfingar fara fram á riffilsvæðinu.

Einnig er búið er að saga niður nýjar texplötur og setja í kassann og ættu plöturnar því alltaf að vera aðgengilegar félagsmönnum Skotgrundar og öðrum skotmönnum sem nota æfingasvæðið.

 

Eins og mörgum er kunnugt hefur Skotgrund unnið markvisst að því að bæta aðstöðu félagsins til skotæfinga og er þetta liður í þeirri uppbyggingu.  Riffilsvæði Skotgrundar hefur fengið töluverða andlitslyftingu undanfarna mánuði og er það opið öllum án endurgjalds, bæði félagsmönnum sem og öðrum skotmönnum. 

Við viljum þó árétta að texplöturnar eru eign Skotgrundar og viljum við biðja skotmenn um að ganga frá plötunum aftur í kassann eftir notkun og loka honum tryggilega svo að næsti skotmaður geti gengið að plötunum vísum.

 

Í stóra hólfinu eru plötur fyrir stóru battana og í litla hólfinu plötur fyrir litlu battana.

 

 

Um leið viljum við þakka þeim sem greitt hafa félagsgjöldin fyrir þeirra framlag til félagsins en án þeirra væri ekki hægt að byggja upp og bæta aðstöðu félagsins.

 

Hægt er að prenta út skotskífur hér á heimasíðu Skotgrundar undir tenglar vinstra megin á síðunni. 

25.09.2013 18:57

Fyrirkomulag rjúpnaveiða 2013 - Hófsemi í fyrirrúmi

Umhverfis- og auðlindaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hefur ákveðið að veiðidagar rjúpu í ár verði tólf talsins sem skiptast á fjórar helgar á tímabilinu 25. október til 17. nóvember 2013. Leyfileg heildarveiði á rjúpum er 42.000 rjúpur og er miðað við 6-7 fugla á hvern veiðimann. Áfram verður sölubann á rjúpum og er Umhverfisstofnun falið að fylgja því eftir. Að óbreyttum forsendum er lagt til að þetta fyrirkomulag haldist a.m.k. næstu þrjú ár.

 

Fjöldi veiðidaga eru 12 sem skiptast á fjórar helgar:

    • Föstudaginn 25. október til sunnudags 27. október.   (3 dagar)
    • Föstudaginn 1. nóvember til sunnudags 3. nóvember.   (3 dagar)
    • Föstudaginn 8. n vember til sunnudags 10. nóvember.   (3 dagar)
    • Föstudaginn 15. nóvember til sunnudags 17. nóvember.    (3 dagar)

 

Nánari upplýsingar er að finna á vef Umhverfisstofnunar www.ust.is.

 

Rjúpa í vetrarbúningi

Myndin er tekin af heimasíðu Umhverfisstofnunar.

13.09.2013 10:55

Riffilsvæðið

Búið er að sjóða í skemmdirnar á litlu riffilböttunum.  Battarnir bera vissulega þess merki að skotið hafi verið í þá en vonandi verður það bara til þess að minna menn á að ganga vel um svæðið og gæta þess að skjóta ekki í battana. 

 
 
 
 

Mjög mikil aðsókn hefur verið á riffilsvæðið undanfarnar vikur þrátt fyrir að haustið sé farið að segja til sín.  Hafin er smíði á nýjum kassa fyrir texplöturnar og vonandi verður hægt að koma honum upp á næstunni.  Þá verða nýjar texplötur alltaf aðgengilegar við riffilborðin.

 

Riffilsvæðið er að verða betra og flottara með hverjum deginum og biðjum við menn um að ganga vel um svæðið og hjálpa okkur að passa upp á eigur félagsins.  Nýrra tíðinda varðandi riffilsvæðið er svo að vænta á næstu dögum.  Frekari frétt um það verður birt hér á heimasíðu Skotgrundar fljótlega.

08.09.2013 02:41

Láttu ekki þitt eftir liggja

SKOTVÍS og Umhverfisstofnun standa fyrir átakinu "Láttu ekki þitt eftir liggja" sem er hvatningarátak til veiðimanna um að taka með sér tóm skothylki af veiðislóð.  Þetta er annað ár átaksins og er markmiðið með átakinu að hvetja veiðimenn til þess að ganga vel um landið og skilja einungis eftir sporin sín á veiðislóð.

 

Með því að taka mynd af sér og tómu skothylkjunum og senda á leikur@skotvis.is ásamt nafni, kennitölu og heimilisfangi fara þátttakendur í pott sem dregið verður úr í byrjun desember þar sem veglegir vinningar eru í boði.

 

Skotfélagið Skotgrund hvetur veiðimenn til að ganga vel um landið og láta sitt ekki eftir liggja.

 

lattu ekki thitt eftir liggja 2013

 

 

 

 

  • 1