Færslur: 2013 Október

31.10.2013 02:29

Félagatalið uppfært

Búið er að uppfæra félagatalið hér á heimasíðu Skotgrundar.  Þar má sjá nöfn þeirra sem greitt hafa félagsgjöldin og þar með gert okkur kleift að halda uppbyggingu félagsins áfram.  Skotgrund vill þakka öllum þeim sem greitt hafa félagsgjöldin, en án tryggra félagsmanna væri félagið ekki að blómstra.

 

Öll innkoma af félagsgjöldum fer í rekstur og uppbyggingu á æfingasvæðinu, sem félagsmenn njóta síðan aftur góðs af.  Félagið stefnir á frekari uppbyggingu í nánustu framtíð og eru nokkrar hugmyndir á teikniborðinu.  Einnig er stefnt að því að halda ýmsa viðburði á næstu mánuðum eins og t.d. að fá til okkar kennara í leirdúfuskotfimi, þar sem félagsmenn geta fengið leiðsögn í leirdúfuskotfimi.  Allir viðburðir verða auglýstir síðar.

 

Hægt er að skoða félagatalið undir tenglinum "Félagatal" efst á síðunni, en hafi einhver athugasemdir við félagatalið er hægt að senda okkur tölvupóst á skotgrund@gmail.com.

 

26.10.2013 19:36

Nýr félagsmaður

Nýlega gerðist Ragnar Smári Guðmundsson félagsmaður í Skotfélaginu Skotgrund og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið.  Ragnar Smári tók þátt í afmælismóti Skotgrundar á dögunum og stóð sig með mikilli prýði.

 

Ragnar Smári Guðmundsson ásamt öðrum félagsmönnum.

 

 

25.10.2013 02:22

Rjúpnaveiðitímabilið hefst í dag föstudag

Skotfélagið Skotgrund óskar rjúpnaveiðimönnum góðrar ferðar og biður menn um að fara öllu með gát.  Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga áður en haldið er til veiða:
 

#  Fylgist með veðurspá

#  Gerið ferðaáætlun og skiljið hana eftir hjá aðstandendum

#  Kynnið ykkur vel það svæði sem ferðast á um

#  Hafið með góðan hlífðarfatnað

#  Takið með sjúkragögn og neyðarfæði

#  Fjarskipti þurfa að vera í lagi, s.s. gps, kort, áttaviti eða annað og kunnátta verður að vera til staðar til að nota þau

#  Verið viss um að farartækið sé í góðu ásigkomulagi áður en lagt er af stað ef það á við

#  Betra er að snúa við í tíma heldur en að koma sér í ógöngur

 

 

Rjúpnaskyttur eru hvattar til að stunda hófsamar og ábyrgar veiðar og ganga vel um náttúruna.

 

Rjúpa í vetrarbúningi

Myndin er tekin af heimasíðu Umhverfisstofnunar.

 

Fjöldi veiðidaga eru 12 sem skiptast á fjórar helgar:

    • Föstudaginn 25. október til sunnudags 27. október.   (3 dagar)
    • Föstudaginn 1. nóvember til sunnudags 3. nóvember.   (3 dagar)
    • Föstudaginn 8. n vember til sunnudags 10. nóvember.   (3 dagar)
    • Föstudaginn 15. nóvember til sunnudags 17. nóvember.    (3 dagar)Góðar stundir!

24.10.2013 23:02

Afmælismót Skotgrundar 2013

Afmælismót Skotgrundar fór fram í kvöld á æfingasvæði félagsins í Kolgrafafirði.  Mætingin var góð og fengu keppendur frábært veður til útiveru.  Keppt var í þremur riðlum og fóru leikar þannig að Unnsteinn Guðmundsson hreppti sigurinn, Einar Hjörleifsson tók annað sætið og Eymar Eyjólfsson það þriðja.

Einar Hjörleifsson (2. sæti) - Unnsteinn Guðmundsson (1. sæti) - Eymar Eyjólfsson (3. sæti)

Myndina tók Tómas Freyr Kristjánsson

 

Þetta var í annað sinn sem þetta mót er haldið, en ætlunin er að gera þetta að árlegum viðburði.  Um leið var þetta líka ágætis upphitun fyrir komandi rjúpnaveiðitímabil, en fyrsti dagur tímabilsins er á morgun föstudag.

 

Hægt er að skoða myndir frá mótinu í myndaalbúminu efst á síðunni.

 

 

 

23.10.2013 14:37

Völlurinn opinn og afmælismót

Leirdúfuvöllur Skotgrundar verður opinn á morgun fimmtudag frá kl. 15:30 og fram í myrkur.  Nokkrir skotmenn, bæði vanir og óvanir hafa boðað komu sína og ætlum við að hita aðeins upp fyrir komandi rjúpnaveiðitímabil.

 

Að því loknu ætlum við að slá í létt mót í leirdúfuskotfimi.  Reiknað er með að mótið byrji um kl. 16:30 og eru allir velkomnir.  Þeir sem ekki komast á þessum tíma geta mætt seinna og skotið í seinni riðli.  Það væri því mjög gott ef menn geti boðað komu sína á facebook síðu félagsins, sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com eða haft samband í síma 863 1718. 

 

Það verður ekkert mótsgjald og allir geta tekið þátt.  Allt verður þetta á léttu nótunum og vonandi sjáum við sem flesta.

 

Veitt verða verlaun fyrir 1.-3. sæti í mótinu.

 

22.10.2013 20:58

Nýr félagsmaður og nóg um að vera

NÝR FÉLAGSMAÐUR

Í dag gerðist Guðmundur Aron Guðmundsson félagsmaður í Skotfélaginu Skotgrund.  Bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið.  Jafnframt minnum við á að félagið er opið öllum áhugasömum og hvetjum við þá sem hafa áhuga til að hafa samband og kynna sér starfsemi félagsins betur.

 

FRAMKVÆMDIR

Í dag var hafist handa við að slá upp fyrir undirstöðum sem hugsaðar eru fyrir skotæfingar með skammbyssu.  Þá erum við sérstaklega með lögregluembættið í huga, en steyptar verða undirstöður fyrir trönur sem skotskífur verða festar á.  Undirstöðurnar verða steyptar samtímis og nýju riffilbattarnir á 300m og 400m, en stefnt er að því að steypa á næstu dögum.

 

AFMÆLISMÓT - UPPHITUN FYRIR RJÚPNAVEIÐITÍMABILIÐ

Við ætlum að hittast á æfingasvæðinu næstkomandi fimmtudag og hita aðeins upp fyrir rjúpnaveiðitímabilið.  Við ætlum að hittast um miðjan daginn en nánari tímasetning verður auglýst síðar.  Allir eru velkomnir.

Stefnt er að því að halda svo létt mót þar sem afmælismót Skotgrundar féll niður á dögunum.  Ekkert þátttökugjald verður og hvetjum við sem flesta til að taka þátt, enda er þetta allt til gamans gert.  Við reiknum með að mótið byrji um kl. 16:30 og skotið verður fram í myrkur. Þeir sem ekki komast kl. 16:30 geta mætt aðeins seinna og verið í seinni riðli. Vonandi sjáum við sem flesta.

20.10.2013 20:25

Nýr lóðarleigusamningur - Lenging á riffilsvæði

Nýlega var undirritaður nýr leigusamningur á milli Skotgrundar og Grundarfjarðarbæjar, sem varðar leigu á landsvæði fyrir skotæfingasvæði í Hrafnkelsstaðabotni í Kolgrafafirði.  Nýi samningurinn er til 15 ára og gildir til 30. september 2028.  Með nýja samningnum fær Skotgrund til afnota stærra landsvæði til skotæfinga þar sem æfingasvæðið verður lengt úr 450 m í 1.000 m.  Það gerir Skotgrund kleift að tryggja betur öryggi á svæðinu og er forsenda fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu.

Riffilsvæði Skotgrundar á góðum degi.

 

Skotgrund sem er skammstöfun af "Skotfélag Grundarfjarðar og nágrennis" hefur verið með 67.500 m2 landsvæði í Hrafnkelsstaðabotni á leigu frá árinu 1988, en leigusalinn er Grundarfjarðarbær.  Mikil uppbygging hefur verið á svæðinu undanfarin ár og hefur aðsókn að æfingasvæðinu aukist mikið.  Félagsmenn eru góð blanda af vönum skotmönnum, óvönum og síðast en ekki síst byrjendum, sem njóta góðrar leiðsagnar þeirra sem vanari eru.  

Markmið með stofnun félagsins var "að stuðla að góðri meðferð skotvopna í víðasta skilningi þess orðs" , en forsenda þess að félagið geti vaxið og dafnað er að það búi yfir góðri aðstöðu til skotæfinga. 

 

Æfingasvæði Skotgrundar var á sínum tíma, í sameiningu við sveitarstjórn, bændur o.fl. valinn góður staður og er eitt það besta hér á landi frá náttúrunnar hendi. Æfingasvæðið er í rísandi landslagi og býður upp á mikla möguleika til áframhaldandi uppbygginar. 

Með nýja lóðarleigusamningnum fær Skotgrund nú til afnota 82.500m2 til viðbótar við þá 67.500m2 sem félagið hefur haft, eða samtals 150.000m2.  Það gerir félaginu kleift að tryggja öryggi enn frekar á svæðinu og bæta aðstöðu skotáhugamanna til skotæfinga enn frekar.

Yfirlitsmynd af æfingasvæði Skotgrundar.

 

Stjórn Skotgrundar er stórhuga fyrir framtíðina og sér fyrir sér að þarna verði hægt byggja upp hið glæsilegasta æfingasvæði. Því er það stjórn Skotgrundar mikil ánægja að Grundarfjarðarbær skuli standa við bakið á Skotgrund með undirritun þessa nýja samnings.

 
 

19.10.2013 17:05

Nýr félagsmaður

Í dag gerðist Jónas Þorsteinsson frá Grundarfirði félagsmaður í Skotfélaginu Skotgrund og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið. 

 

Mikil uppbygging hefur átt sér stað hjá félaginu undanfarna mánuði og stefnum við á að halda þeirri uppbyggingu áfram.  Fyrirhugaðar eru miklar framkvæmdir, en markmið félagsins er að geta boðið upp á sem allra besta aðstöðu til skotæfinga á Snæfellsnesi.  

Viljum við þakka okkar félagsmönnum þá uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað, en öll innkoma af félagsgjöldum fer í rekstur og uppbyggingu á æfingasvæði félagsins.  Án tryggra félagsmanna væri frekari uppbygging ekki möguleg.

 

Það er því ósk okkar að sem flestir sjái hag sinn í að vera í félaginu svo að félagið geti blómstrað áfram.  Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig í félagið geta haft samband við Jón Pétur í síma 863 1718 eða á skotgrund@gmail.com.  Einnig eru allar ábendingar og óskir varðandi æfingasvæði félagsins vel þegnar.

18.10.2013 12:36

Ljósavélin yfirfarin fyrir veturinn

Gummi Palla er búinn að setja frostlögur á ljósavélina og yfirfara hana fyrir veturinn.  Gummi sem er vélstjóri að mennt, hefur óspurður hugsað um vélina undanfarin ár og kunnum við honum bestu þakkir fyrir það.  Einnig setti hann upp nýja krækju á hurðina á vélaskúrnum sem hann hafði smíðað sjálfur. 

 

Um leið viljum við minna félagsmenn á að hurðin á vélaskúrnum þarf alltaf að vera opin þegar ljósavélin er í gangi.

 

 

Aðrar fréttir eru m.a. að:

#  nýlega keypti félagið slökkvitæki og annan öryggisbúnað til að hafa í félagshúsnæðinu.

 

#  afmælismót Skotgrundar verður sennilega í næstu viku. (því hafði verið frestað m.a. vegna veðurs og jarðarfarar)

 

#  nýrra tíðinda af riffilsvæðinu er að vænta á næstu dögum.  Frekari fréttir af því verða birtar hér á heimasíðunni á næstunni.

01.10.2013 11:13

Afmælismót Skotgrundar

Skotgrund fagnar 26 ára starfsafmæli sínu þann 10. október næstkomandi og af því tilefni ætlum við að halda létt mót í leirdúfuskotfimi helgina 11.-13. október.  Nánari tímasetning verður auglýst síðar, en allt verður þetta á léttu nóttunum og til gamans gert. 

 

Þeir sem lítið hafa skotið í sumar hafa nú tæpar tvær vikur til að æfa sig, en við hvetjum sem flesta til að taka helgina frá.

  • 1