Færslur: 2013 Nóvember

30.11.2013 16:02

Skotvopnanámskeið næsta vor

Stefnt er að því að halda skotvopnanámskeið hér á Snæfellsnesi vorið 2014, ef næg þátttaka verður.  Það er Umhverfisstofnun sem sér um framkvæmd skotvopnanámskeiða hér á landi og oft í samstarfi við skotfélög.

 

Til að sækja slíkt námskeið þarf einstaklingur að hafa náð 20 ára aldri, vera andlega heilbrigður og ekki hafa verið sviptur sjálfræði svo eitthvað sé nefnt.

 

 

Síðast var skotvopnanámskeið haldið hér á Snæfellsnesi í maí árið 2010 og var það vel sótt. Bóknámið fór fram í Stykkishólmi og verklegi hlutinn á skotæfingasvæði Skotgrundar í Kolgrafafirði, undir leiðsögn tveggja fulltrúa frá Skotgrund. 

Síðan þá hafa margir einstaklingar hér á Snæfellsnesi sýnt skotfimi og skotveiði aukinn áhuga og því höfum við hug á að bjóða upp á námskeið hér á svæðinu til að koma til móts við þá einstaklinga sem vilja öðlast þau réttindi sem til þarf.

Bjarni Sigurbjörnsson leiðbeinir nemendum í maí 2010.

 

Við hjá Skotgrund höfum þegar skráð niður nokkur nöfn manna sem hyggjast sækja námskeiðið, en það verður auglýst nánar þegar nær dregur.  Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig á listann hjá okkur geta sent okkur nafn og símanúmer á skotgrund@gmail.com eða haft samband í síma 863 1718.  Listinn er ekki bindandi, en haft verður sérstaklega samband við þá aðila sem hafa skráð sig þegar komin er föst tímasetning fyrir námskeiðið.

 

Hægt er að fræðast nánar um skotvopnanámskeið á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

 

08.11.2013 03:09

Áhugasviðskönnun

Búið er að setja inn nýja könnun hér á heimasíðu Skotgrundar.  Að þessu sinni er verið að kanna hvar áhugi félagsmanna og annarra lesenda síðunnar liggur innan skotíþróttarinnar. 

Könnunin er á vinstri spássíu síðunnar og hvetjum við sem flesta til að taka þátt í þessari könnun.

  • 1