Færslur: 2014 Mars

30.03.2014 22:57

Leirdúfuvöllurinn upplýstur

Í kvöld voru gerðar forláta tilraunir með ljós á æfingasvæðinu, í þeim tilgangi að verða fróðari um lýsingu leirdúfuvalla.  Draumur félagsmanna er að geta fjárfest í öflugum ljóskösturum og lýst upp leirdúfuvöllinn.  Í svartasta skammdeginu er aðeins bjart í nokkrar klukkustundir og því erfitt að stunda skotæfingar, en með upplýstum velli væri hægt að stunda reglulegar skotæfingar allt árið um kring.

   
 
 
 

Eftir því sem við best vitum er enginn leirdúfuvöllur upplýstur hér á landi, en við erum búnir að lesa okkur til um slíka lýsingu erlendis frá og skoða teikningar.   Af einskærri forvitni var ákveðið að gera tilraunir með ljós frá hinum ýmsum vinklum til að verða fróðari um hvernig lýsing virkar best. 

 

Settir voru upp ljóskastarar umhverfis völlinn sem lýstu ýmist upp eða niður og frá ýmsum vinklum.  Þetta var áhugaverð tilraun og nú er búið að sannreyna hvaða útfærslur virka og hverjar ekki.  Líklega komum við til með að setja upp staura með ljóskösturum aftan við þriðja pall og fimmta pall eins og myndin hér fyrir neðan sýnir.

 

Vonandi getur draumur okkar um upplýstan völl orðið að veruleika áður en langt um líður en næst á dagskrá er að útvega staura og því næst finna hentuga kastara til að hengja á staurana.  Ef það er einhver sem hefur þekkingu eða reynslu af slíkri lýsingu eða aðrar gagnlega upplýsingar má hinn sami endilega hafa samband við okkur á skotgrund@hotmail.com.

 

 

29.03.2014 22:58

Fróðleikur um merki félagsins

Merki Skotgrundar, eða "lógó" eins og það stundum er kallað var hannað árið 1998 og lagt fram til samþykktar á aðalfundi félagsins þann 21. júní sama ár.  Merkið hannaði Helga Stolzenvald frá Grundarfirði, en Helga er eiginkona Steina "gun" sem var einn af stofnendum félagsins.  Samþykkt var samhljóða að merkið yrði tekið í notkun, en fram til þessa hafði Skotgrund notast við merki Skotvís (Skotveiðifélags Íslands).

 

                      

                           Merki félagsins sem tekið var í notkun þann 21. júní árið 1998.

 

Innblástur í merkið er sóttur úr okkar nánasta umhverfi, dýraríkinu og meginstarfsemi félagsins sem er skotfimi.  Grunnur merkisins táknar riffilsjónauka sem horft er í gegnum út friðsælan Grundarfjörðinn.  Upp úr sjónum rís Kirkjufellið sem er mikilfenglegt fjall og jafnframt staðartákn Grundarfjarðarbæjar.  Um fjörðinn flýgur lítill gæsahópur og í jaðri merkisins má sjá tvær stokkendur í aðflugi.  Neðarlega í merkinu er hreindýrshorn með áletrunina "Stofnað 10.okt 1987", en félagið var stofnað þann dag. 

 

Í þá daga hét félagið Skotveiðifélag Grundarfjarðar, en á sama aðalfundi og merkið var tekið í notkun (21. júní 1998) var eðli félagsins og nafni breytt í Skotfélag Grundarfjarðar.  Í dag starfar félagið sem viðurkennt íþróttafélag innan ÍSÍ og tengir merkið saman fyrrum starfsemi félagsins sem veiðifélag og núverandi starfsemi sem íþróttafélag með áherslu á skotfimi.

 

Helstu greinar sem stundaðar eru hjá Skotgrund eru riffilskotfimi og haglabbyssuskotfimi, en sjá má slík skotvopn neðst í merkinu.  Riffillinn sem bendir í austur er af tegundinni Remmington 700 ADL og haglabyssan sem bendir í vestur er af tegundinni Remmington 1187.

 

Merkið er í dag notað á skjöl og varning tengdum félaginu.

 

 

 

23.03.2014 22:58

Skil á veiðiskýrslu

Við viljum minna veiðimenn á að frestur til að skila inn veiðiskýrslu rennur út þann 1. apríl n.k.  Skotveiðimönnum ber að skila veiðiskýrslum á skilavef Umhverfisstofnunar einu sinni á ári óháð því hvort eitthvað var veitt eða ekki. Ef veiðiskýrslu er skilað inn eftir 1.apríl hækkar gjaldið fyrir veiðikortið úr 3.620 kr. upp í 5.120 kr. Því hvetjum við veiðimenn til þess að skila veiðiskýrslunum inn sem fyrst.  Hægt er að skila inn veiðiskýrslu hér.

 

Ef þú ert ekki viss um hvort þú viljir fá nýtt veiðikort getur þú merkt við í umsókninni að þú óskir ekki eftir endurnýjun.  Ef þú skiptir um skoðun síðar á árinu er hægt að hafa samband við Umhverfisstofnun og endurnýjað kortið.

 

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á vef Umhverfisstofnunar.

20.03.2014 14:50

Enn er verið að skemma eigur félagsins

Nýlega varð þess vart að enn er verið að skjóta í nýju riffilbattana okkar.  Búið er að senda þá í viðgerð, en þetta er í þriðja skipti á stuttum tíma sem við höfum þurft að senda þá til viðgerðar. 

Í fyrstu vildum við trúa því að um óhapp væri að ræða en það er nokkuð augljóst að um einbeittan skemmdarhug eða óvitaskap sé að ræða, því að þessu sinni töldum við 9 göt sem nýlega hafa verið skotin í þá með riffli af stærra caliberi.

Nýleg göt

 

 

Ryðblettir eftir fyrstu viðgerðina og gat sem skotið var í haust en einnig er búið er að laga. 

Nú hafa 9 göt bæst við nýlega.

 

Fyrir þá sem ekki vita, þá eru riffilbattarnir ætlaðir til þess að setja texplötur í sem skotskífur eru svo festar á.  Ekki er ætlast til þess að menn skjóti í riffilbattana sjálfa.  Texplötur eru aðgengilegar við riffilborðin og hægt er að prenta út skotskífur hér á heimasíðu félagsins (sjá undir tenglar).  Það er rétt að árétta að nýju riffilbattarnir á 25m, 50m, og 75m eru aðeins hugsaðir fyrir minni caliber.

 

Þeir sem verða þess varir að skotmenn séu að skjóta á æfingasvæðinu án þess að vera með sérstök skotmörk eru vinsamlegast beðnir um að leiðbeina þeim sem fáfróðari eru eða hafa samband við stjórn Skotgrundar.  Hægt er að hafa samband í síma 863 1718 eða senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com.

16.03.2014 23:37

Riffilsvæðið hefur mikið verið notað í vetur

Enn erum við að bíða eftir vorinu svo hægt verði að hefja framkvæmdir á æfingasvæðinu, en töluverður snjór er í Kolgrafafirðinum þessa dagana.  Menn hafa þó ekki látið snjóinn stoppa sig hvað æfingar varðar því mikil aðsókn hefur verið að æfingasvæðinu undanfarna daga og vikur og þá sérstaklega riffilsvæðinu.

 

Leirdúfuvöllurinn hefur lítið verið notaður en þó eitthvað.  Fyrir rúmri viku fengum við t.d. hressa stráka frá Reykjavík í heimsókn sem höfðu aldrei prófað völlinn okkar áður. Áttu þeir góða stund á æfingasvæðinu í logni og frosti, en þess má geta að á sama tíma var mjög slæmt veður víða á landinu, margir vegir ófærir og björgunarsveitir að aðstoða fólk.  

 

Í dag var farin eftirlitsferð um svæðið, aðeins "dittað" að vélunum og hugað að væntanlegum framkvæmdum.  Að sjálfsögðu var aðeins skotið líka en meðfylgjandi mynd var tekin í dag sunnudag.

 

 
  • 1