Færslur: 2014 Apríl

30.04.2014 00:50

Garðbekkur

Skotgrund fjárfesti nýlega í garðbekk til að hafa við félagshúsnæðið og var hann tekinn í notkun á páskamótinu.  Bekkurinn er notaður en lítur vel út og fengum við hann á góðu verði.  Verður hann festur niður í pallinn fyrir framan húsið, en ætlunin er að reyna að kaupa 1-2 samskonar bekki til viðbótar.  Við auglýsum því hér með eftir samskonar bekk sem er til sölu.  Hægt er að hafa samband í síma 863 1718 eða skotgrund@gmail.com.

 

Nýi bekkurinn.  Við óskum eftir að kaupa fleiri slíka bekki.

 

 

28.04.2014 23:19

Enn fjölgar félagsmönnum

Nýlega gerðist Guðmundur Ragnar Guðmundsson frá Ólafsvík félagsmaður í Skotfélaginu Skotgrund og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið.  Það gleður okkur hversu margir nýir skotmenn hafa skráð sig í félagið að undanförnu og vonandi mun sú þróun halda áfram.  

28.04.2014 00:51

Aðalfundur - 8. maí kl. 19:00

Aðalfundur Skotfélagsins Skotgrundar verður haldinn fimmtudaginn 8.maí kl. 19:00 í félagshúsi Skotgrundar í Hrafnkelsstaðabotni. Við hvetjum félagsmenn til þess að fjölmenna á fundinn.

Dagskrá fundarins verður auglýst síðar.  Hafir þú óskir um að eitthvað sérstakt verði tekið fyrir á fundinum er hægt að senda hugmyndir á skotgrund@gmail.com.

 

Mynd frá  síðasta aðalfundi. 

25.04.2014 22:23

Meira um Páskamót Skotgrundar

Eins og áður hefur komið fram fór Páskamót Skotgrundar fram í gær sumardaginn fyrsta á æfingasvæði félagsins.  Nokkrir félagsmenn boðuðu forföll á síðustu stundu, en þeir sem mættu fengu flott veður og skemmtu sér vel.  Einn nýliði mætti í sitt fyrsta mót og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

 

Mótið átti upphaflega að fara fram um páskahelgina en hafði verið frestað vegna veðurs.  Skotið var í tveimur riðlum og var keppnin jöfn og spennandi.  Unnsteinn Guðmundsson seig þó fram úr hinum keppendunum þegar leið á mótið og stóð að lokum uppi sem sigurvegari, en mikil barátta var um næstu sæti.  Guðmundur Reynisson var lengi vel í verðlaunasæti, en Steini "gun" kom sterkur inn á lokasprettinum og náði að tryggja sér bráðabana um annað sætið.  Í bráðabananum áttu kappi Jón Pétur og Steini og var sú keppni mjög jöfn.  Það var ekki fyrr en á síðasta palli sem úrslitin réðust og hreppti Jón Pétur annað sætið og Steini það þriðja, en aðeins ein dúfa skildi á milli þeirra.

 

 

 

Verðlaunin að þessu sinni voru páskaegg og þar að auki fékk sigurvegarinn farandbikar að launum.  Þetta var fyrsta Páskamót Skotgrundar, en ætlunin er að gera þetta að árlegum viðburði og fær sigurvegarinn nafn sitt grafið í bikarinn ár hvert.

 

Eftir að hafa fengið sér smá hressingu og páskaegg var aðeins brugðið á leik, þar sem bæði páskaeggjum og leirdúfum var kastað upp í loftið sem skotmörk.  Svo var setið lengi á spjalli fram eftir kvöldi og voru fyrirhugaðar framkvæmdir skipulagðar.

 

 

 

Við þökkum öllum þeim sem mættu fyrir góðan dag og við sjáumst vonandi fljótlega aftur.  Búið er að setja inn myndir frá mótinu í myndaalbúmið hér á síðunni.

24.04.2014 23:46

Aðalfundur

Stefnt er að því að halda aðalfund Skotgrundar fimmtudaginn 8. maí 2014 kl. 19:00.  Fundurinn verður auglýstur síðar.  Takið daginn frá.

24.04.2014 21:48

Páskamót Skotgrundar

Páskamót Skotgrundar fór fram í dag sumardaginn fyrsta, en því hafði áður verið frestað vegna veðurs.  Veðurguðirnir léku við okkur að þessu sinni og áttum við frábæran dag saman á æfingasvæðinu.  Unnsteinn Guðmundsson sigraði mótið nokkuð örugglega en bráðabana þurfti til að skera úr um annað og þriðja sætið.  Jón Pétur hafði þar betur gegn Steina, en aðeins ein dúfa skildi þá af.  Að mótinu loknu var aðeins brugðið á leik og síðan spjallað fram á kvöld.  Nánar verður fjallað um mótið hér á heimasíðunni síðar.

 

 

23.04.2014 20:11

Hittingur á morgun fimmtudag - síðbúið páskamót

Við ætlum að hittast á æfingasvæðinu á morgun fimmtudag og gera okkur glaðan dag.  Skotnir verða nokkrir hringir á leirdúfuvellinum og keppt verður um verðlaunin sem áttu að vera á páskamótinu síðustu helgi.  Við byrjum kl. 17:00 og vonumst til að sjá sem flesta.  Ný andlit eru sérstaklega boðin velkomin og heitt kaffi verður á könnunni fyrir þá sem vilja kíkja og kynna sér starfsemi félagsins.

 

22.04.2014 23:07

Síðbúið páskamót

Við ætlum að hittast á æfingasvæðinu næstkomandi fimmtudag (sumardaginn fyrsta) kl. 17:00 og skjóta nokkra hringi saman til að hita upp fyrir sumarið.  Verður þetta allt á léttu nótunum og hvetjum við sem flesta til að mæta og þá sérstaklega nýliða sem ekki hafa mætt áður. 

 

Um leið ætlum við að keppa um páskaegg sem félagið keypti fyrir Páskamótið, en eins og mörgum er kunnugt var páskamóti félagsins sem átti að fara fram síðustu helgi frestað vegna veðurs.

 

Vonandi sjáum við sem flesta.

 

                 
 

 

22.04.2014 14:24

Nýr félagsmaður

Í dag gerðist Óskar Hjartarson félagsmaður í Skotgrund á ný eftir stutta fjarveru og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið.  Óskar hefur verið félagsmaður í Skotgrund áður og er vanur skotmaður.  Það gleður okkur að hann skuli vera orðinn félagsmaður á ný.

 

Skotgrund er opið öllum áhugasömum hvort sem þeir hafi skotvopnaleyfi eða ekki.  Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig í félagið geta haft samband í síma 863 1718 eða sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com.

16.04.2014 12:38

Páskamóti frestað

Ákveðið hefur verið að fresta páskamóti Skotgrundar sem fyrirhugað var um helgina vegna slæmrar veðurspár.  Við vonumst þó til að geta haldið mótið fljótlega eftir páska ef veður verður skaplegt.  Gleðilega páska.

12.04.2014 23:04

Nýr félagsmaður

Það gleður okkur að kynna til leiks nýjan félagsmann, en nýlega gerðist Hinrik Stefnir Ævarsson félagsmaður í Skotfélaginu Skotgrund.  Bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið. 

 

Jafnframt minnum við á að félagið er opið öllum áhugasömum og hvetjum við þá sem hafa áhuga til að hafa samband og kynna sér starfsemi félagsins betur.

04.04.2014 22:46

Héraðsþing HSH

76. hérðasþing HSH fór fram á Hótel Hellissandi í gær fimmtudaginn 3.apríl.  Mætingin var nokkuð góð og átti Skotgrund einn fulltrúa á þinginu, en Skotgrund hefur starfað undir merkjum HSH frá árinu 2003. 

 

Sæmundur Runólfsson formaður UMFÍ ávarpar þingið.  Myndin er tekin af heimasíðu HSH.

 

Ásamt hefðbundum þingstörfum voru veittar viðurkenningar fyrir góð störf í þágu íþróttahreyfingarinnar, en Harpa Jónsdóttir frá íþróttafélagi Miklaholts var sæmd starfsmerki UMFÍ og  Hermundur Pálsson fráfarandi formaður HSH var heiðraður með silfurmerki ÍSÍ.  Þá ávarpaði Sæmundur Runólfsson formaður UMFÍ þingið og flutti kveðjur frá stjórn UMFÍ og Garðar Svansson flutti kveðjur frá stjórn- og starfsfólki ÍSÍ.

 

Stjórn HSH ritaði falleg orð í garð Skotgrundar í ársskýrslu HSH, en þar segir orðrétt " Einnig er ánægjulegt að sjá þá aukningu sem er í skotíþróttum og er til fyrirmyndar starf Skotgrundar en þar eru félagar af öllu Snæfellsnesi auk víðar að.  Í ár var í fyrsta sinn veitt viðurkenning fyrir Skotþíþróttamann HSH og er það til marks um það aukna starf og áhuga skotmanna."  Þar er verið að vitna í það að þann 13. febrúar 2014 var Unnsteinn Guðmundsson útnefndur skotíþróttamaður HSH fyrir árið 2013, en Unnsteinn fór með sigur af hólmi með nokkrum yfirburðum í þeim mótum sem hann tók þátt í og hefur verið mjög virkur í starfi félagsins.

 

Myndin er tekin af heimasíðu HSH.

Hermundur formaður HSH, Unnsteinn Guðmundsson og Garðar Svansson varaformaður HSH.

 

 

Skotgrund vill hrósa stjórn HSH fyrir glæsilegt og vel skipulagt þing og glæsilega ársskýrslu.  Hægt er að lesa meira um þingið á heimasíðu Héraðssambandsins  og skoða myndir frá þinginu hér.

 
 

 

  • 1