Færslur: 2014 Maí

31.05.2014 23:49

Fleiri myndir frá Sjómannadagsmóti Skotgrundar

Búið er að setja inn fleiri myndir frá Sjómannadagsmóti Skotgrundar sem Tómas Freyr Kristjánsson fréttaritari Skotgrundar tók.  Hægt er að skoða allar myndirnar hér.

 
 
 
 
 

 

 

29.05.2014 22:24

Sjómannadagsmótið fór fram í kvöld

Sjómannadagsmót Skotgrundar fór fram í kvöld á skotæfingasvæði félagsins.  Þetta er í annað skipti sem þetta mót er haldið og eru skipuleggjendur mótsins hæstánægðir með hvað mætingin var góð.  Mótið var þannig sett upp að keppt var um bestan árangur einstaklinga ásamt því að sjómenn lögðu sín stig saman gegn stigum landsliðsins.  Landsliðið sigraði að þessu sinni og er staðan því jöfn í einvíginu, en sjómenn unnu á síðasta ári.  

 

Einstaklingskeppnin var mjög spennandi en Unnsteinn Guðmundsson hafnaði í fyrsta sæti og tók Karl Jóhann Jóhannsson annað sætið.  Gunnar Ásgeirsson og Eymar Eyjólfsson voru svo jafnir í þriðja sæti, en þar sem Gunnar fékk fleiri stig fyrir "dobblin" fékk hann bronsið.  Þess má þó geta að Eymar var að skjóta með pumpu og er árangur hans undraverður ef það sé tekið til greina.

 

Heilt á litið þá var þetta vel heppnað mót og hin mesta skemmtun.  Að móti loknu var svo slegið á létta strengi og brugðið á leik.  Við viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt í mótinu eða komu að því á annan hátt fyrir skemmtilega kvöldstund.

 

Búið er að setja inn myndir frá mótinu og er hægt að sjá þær hér.

 

 
 

28.05.2014 22:58

Sjómannadagsmót á morgun

Sjómannadagsmót Skotgrundar verður haldið á morgun fimmtudag.  Skráningin í mótið gengur mjög vel og stefnir allt í þrusu mætingu.  Mæting verður á skotæfingasvæðið kl. 18:30 þar sem skipt verður í riðla og hefst mótið stundvíslega kl. 19:00.  Það verður ekkert mótsgjald, en greitt verður fyrir skotna hringi.

 

Allt verður þetta á léttu nótunum og gert til að hafa gaman af.  Einhverjir eru þó staðráðnir í því að vinna mótið og tóku því létta æfingu í dag miðvikudag.  Við hvetjum sem flesta til að mæta þó það væri ekki nema til að koma til að fylgjast með.  Það verður heitt kaffi á könnunni.

 

 

25.05.2014 11:25

Myndir frá síðasta sjómannadagsmóti

Hér eru nokkrar myndir frá sjómannadagsmóti Skotgrundar sem fór fram á síðasta ári.  Hægt er að skoða fleiri myndir hér:

 

 

 
 

 

 

 
 

23.05.2014 18:08

Sjómannadagsmót Skotgrundar

Árlegt sjómannadagsmót Skotgrundar verður haldið fimmtudaginn 29. maí á æfingasvæði félagsins.  Mótið verður með sama sniði og á síðasta ári þar sem sjómenn kepptu á móti landkröbbum, en einnig verða veitt verðlaun fyrir bestan árangur einstaklinga.  Mæting verður kl. 18:30 og mótið byrjar kl. 19:00.  Öllum er velkomið að taka þátt, en hægt er að skrá sig í mótið á facebooksíðu félagsins, í síma 863 1718 eða á skotgrund@gmail.com.

 

Sjómenn eiga titil að verja og hægt er að skrá sig í lið sjómanna hjá Gumma Palla (864 1776).  Heyrst hefur að Unnsteinn sé að safna í svakalegt lið landkrabba, en hægt er að skrá sig í lið landkrabba hjá Unnsteini (897 6830).

 

Lið sjómanna sem sigraði mótið á síðasta ári.  Þeir eiga titil að verja.

21.05.2014 02:14

Nýju skiltin eru komin í hús

Skotgrund hefur látið búa til varúðarskilti sem sett verða upp umhverfis æfingasvæðið.  Skotgrund hefur unnið markvisst að því að tryggja öryggi á æfingasvæðinu og er þetta einn liður í þeim aðgerðum.  Skiltin verða sett upp við fyrsta tækifæri, en sjá má mynd af skiltunum hér fyrir neðan.  Markmið félagsins er að bjóða upp á sem allra besta aðstöðu til skotæfinga með öryggi allra í fyrirrúmi. 

 

 

 

18.05.2014 16:03

Aðalfundur - fundargerð

Eins og áður hefur komið fram fór aðalfundur Skotgrundar fram í félagsnúsnæði Skotgrundar í Hrafnkelsstaðabotni fimmtudaginn 8. maí 2014 kl. 19:00. Fundinn sátu þeir Birgir Guðmundsson, Guðmundur Pálsson, Guðmundur Reynisson, Guðni Már Þorsteinsson, Jón Einar Rafnsson, Jón Pétur Pétursson og Þorsteinn Björgvinsson.

 

 

 

Byrjað var á því að fara yfir skýrslu stjórnarinnar um starfsemi félagsins á liðnu ári.  Því næst voru ársreikningar samþykktir og árgjald samþykkt.  Fram kom að félagið sé skuldlaust og að rekstur félagsins hafi verið jákvæður á síðasta starfsári.  Ákveðið var að félagsgjaldið yrði áfram óbreytt, en það hefur verið 5.000 kr. á ári (416 kr/á mánuði) síðastliðin 17 ár.   

 

Því næst fór fram kosning formanns og stjórnar og urðu smávægilegar breytingar á henni.  Gústav Alex Gústavsson lætur nú af störfum sem ritari og við pennanum tekur Guðmundur Pálsson sem áður var meðstjórnandi.  Viljum við þakka Gústa fyrir hans störf í þágu félagsins.  

Birgir Guðmundsson tekur sæti Guðmundar sem meðstjórnandi, en einnig var ákveðið að fjölga í stjórninni um tvo menn.  Lagt var til að stjórn Skotgrundar verði í framtíðinni skipuð 8 mönnum og þar af að lágmarki einum manni frá Grundarfirði, einum frá Snæfellsbæ og einum frá Stykkishólmi sé þess kostur. Var það samþykkt samhljóða og kemur Jón Einar Rafnsson úr Snæfellsbæ nýr inn í stjórnina og var nýskipaðri stjórn falið að finna mann úr Stykkishólmi, þar sem enginn úr Stykkishólmi var mættur á fundinn.  Ákveðið var að leita til Sigmars Loga sem búsettur er í Stykkishólmi og tekur hann sæti í stjórninni sem tengiliður við Stykkishólm.  Aðrir stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi starfa og er stjórn Skotgrundar því skipuð eftirfarandi mönnum:

 

Jón Pétur Pétursson                    Formaður                    Grundarfirði

Guðmundur Pálsson                   Ritari                           Grundarfirði

Tómas Freyr Kristjánsson           Gjaldkeri                      Grundarfirði

Birgir Guðmundsson                  Meðstjórnandi              Grundarfirði

Jón Einar Rafnsson                   Meðstjórnandi              Snæfellsbæ

Guðni Már Þorsteinsson            Meðstjórnandi              Snæfellsbæ

Sigmar Logi Hinriksson              Meðstjórnandi              Stykkishólmi

Þorsteinn Björgvinsson              Meðstjórnandi              Grundarfirði

 

Undir liðnum önnur mál var ýmislegt rætt s.s. framtíðaráform félagsins, öryggismál og æfingasvæðið í heildsinni.  Sett var upp framkvæmdaáætlun fyrir sumarið og það verður nóg að gera í sumar.  Markmið félagsins er að geta boðið upp á sem allra besta aðstöðu til skotæfinga með öryggi allra í fyrirrúmi.

 

Framkvæmdir á komandi starfsári:  

Fyrsta verkefni sumarsins verður að steypa niður nýju riffilbattana, steypa nýjan sökkul undir markið ásamt því að steypa niður skilti o.fl.  Því næst á að endurnýja turninn og markið alveg, en við ætlum að skipta um krossvið utan á húsunum og klæða þau að utan.  Einnig verða þökin endurnýjuð.  Annað forgangsatriði er að tengja vatn í félagshúsið svo hægt verði að fá rennandi vatn í salernið og í vaska.

 

Annað sem er á stefnuskránni er að mála félagsnúsnæðið og pallinn, setja upp eldhúsinnréttingu og ljúka við að girða og setja upp varúðarskilti til að auka öryggi á svæðinu.  Einnig er á verkefnalistanum að bæta við skotmörkum á riffilsvæðinu.

 

Vinnudagur:  

Stefnt er að því hafa vinnudag/helgi á æfingasvæðinu og verður hann auglýstur síðar.  Um er að ræða fimmtudag, föstudag og laugardag og geta menn mætta alla dagana eða bara útvalda daga.

 

Öryggismál á svæðinu:  

Ákveðið var að panta fleiri skilti til að auka öryggi á svæðinu og er ætlunin að setja þau upp allt í kringum svæðið.  Einnig verður vegarslóðanum sem liggur inn í Hrafnkelsstaðabotn lokað með keðju.

 

Nafnabreyting á félaginu:

Borin var upp sú tillaga að nafnabreyting yrði á félaginu og var það samþykkt samhljóða.  Heitir félagið nú "Skotgrund - Skotfélag Snæfellsness".  Vonum við að nafnabreytingin og aukið samstarf íbúa á Snæfellsnesi komi til með að efla félagið enn frekar í framtíðinni.

 

Skotvopnanámskeið:

Skotvopna- og veiðikortanámskeið verður haldið í Grundarfirði dagana 18. - 21. júní 2014.  Rætt var um námskeiðið og framkvæmd þess.

 

Kaup á skotvopnum:  

Stefna félagsins er að eignast nokkur mismunandi skotvopn til að nota við kennslu, þegar tekið er á móti hópum og til að lána félagsmönnum sem ekki eiga skotvopn.  Ákveðið var að félagið myndi festa kaup á haglabyssu (tvíhleypu y/u) fáist slík fyrir sanngjarnt verð.

 

Kennari:

Stefnt er að því að fá til okkar kennara í sumar til að kenna leirdúfuskotfimi og undirstöðuatriðin í skotfimi.  Kennslan verður hugsuð jafnt fyrir byrjendur sem og lengra komna.  

 

Mótanefnd:  Stefnt er að því að setja á laggirnar mótanefnd sem mun sjá um undirbúning og framkvæmd skotmóta á vegum félagsins.  Stjórn félagsins var falið að finna 3 einstaklinga til að gegna því hlutverki.

 

Mótamál:  

Ákveðið var að árleg mót í leirdúfuskotfimi verða fjögur talsins og haldin um áramót, páska, sjómannadagshelgina og í kringum afmæli félagsins í október. Einnig er til skoðunar að halda riffilmót sem og nýliðamót í leirdúfuskotfimi á árinu.

 

Fatnaður:  

Félagið stefnir á að finna hentugan íþróttafatnað í litum félagsins.  Félagsmenn geta þá pantað sér fatnað merktan félaginu.

 

 

Meira var ekki tekið fyrir og var fundinum slitið kl. 21:30.  Mikið var þó rætt um byggingu yfir riffilborðin eftir fundinn og er hönnunarvinna á slíku húsnæði hafin.  Svo var að sjálfsögðu skotið aðeins áður en haldið var heim.

 

 

 

 

18.05.2014 11:18

Sjómannadagsmót - skeet

Árlegt sjómannadagsmót Skotgrundar verður haldið um sjómannadagshelgina eða nánar tiltekið fimmtudaginn 29. maí.  Mótið verður með svipuðu sniði og á síðasta ári þar sem sjómenn kepptu á móti landkröbbum, en einnig verða veitt verðlaun fyrir bestan árangur einstaklinga.  Mæting verður kl. 18:30 og mótið byrjar kl. 19:00.  Takið því daginn frá.

 

Mynd frá sjómannadagsmótinu á síðasta ári.

17.05.2014 12:25

Skotvopna- og veiðikortanámskeið

Skotvopna- og veiðikortanámskeið verður haldið í Grundarfirði dagana 18. - 21. júní.  Opið er fyrir skráningu, en skráning frem fram á www.veidikort.is. Verði skráningar á námskeiðið fleiri en sætafjöldi ganga þeir fyrir sem ganga fyrstir frá greiðslu námskeiðsgjalda og skila gögnum til lögreglu.

 

 

 

10.05.2014 21:24

Nafnabreyting á félaginu

Á aðalfundi félagsins sem haldinn var síðastliðinn fimmtudag var samþykkt samhljóða að nafni félagsins yrði breytt öðru sinni í sögu félagsins. Upphaflega hét félagið "Skotgrund - Skotveiðifélag Grundarfjarðar" en var síðar breytt í "Skotgrund - Skotfélag Grundarfjarðar".   Þá hafði eðli félagsins breyst með aukinni áherslu á skotfimi og félagið var orðið viðurkennt íþróttafélag innan vébanda ÍSÍ.  

 

Nú hefur nafninu verið breytt öðru sinni og heitir félagið nú "Skotgrund - Skotfélag Snæfellsness".  Margt hefur breyst á undanförnum árum og ekki síst samgöngur.  Með bættum samgönum hefur orðið meira samstarf milli sveitarfélaga og félagsmenn Skotgrundar koma nú víða að.  Því þótti tímabært að breyta nafni félagsins og við vonum að nafnabreytingin og aukið samstarf íbúa á Snæfellsnesi komi til með að efla félagið enn frekar í framtíðinni.

 

Helga Stolzenwald, sem hannað merki Skotgrundar hefur aðlagað merki félagsins að nýja nafninu, en merkið má sjá hér fyrir neðan.

 

               
 

 

 

09.05.2014 22:18

Bætt aðstaða til skotæfinga

Nýlega voru sett upp ný skotmörk á riffilsvæðinu á 100m, 150m og 200m.  Þau eru smíðuð úr stáli, en það var Birgir Guðmundsson sem hannaði þau og smíðaði, en Vélsmiðjan Berg gaf okkur efnið.  Sendum við bæði Bigga og Vélsmiðjunni okkar bestu þakkir fyrir.  Vonandi munu þessi skotmörk reynast vel og hugsanlegt er að sett verði upp fleiri samskonar eða svipuð skotmörk í framtíðinni.

 

 

 

 

08.05.2014 23:32

Aðalfundur Skotgrundar

Aðalfundur Skotgrundar fór fram í félagshúsnæði félagsins í kvöld.  Helstu fréttir eru þær að mannabreytingar urðu í stjórn félagsins auk þess sem stjórnarmönnum var fjölgað.  Einnig var ákveðið að nafnabreyting skuli vera gerð á félaginu og heitir félagið nú "Skotgrund skotfélag Snæfellsness". 

 

Fundinum verður gerð betri skil hér á heimasíðu félagsins fljótlega.

07.05.2014 00:49

Aðalfundur - Dagskrá

Eins og áður hefur komið fram verður aðalfundur félagsins haldinn fimmtudaginn 8. maí kl. 19:00 í félagshúsnæði Skotgrundar.  Dagskrá fundarins verður á þennan veg:

 

a)  Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári*.

b)  Ársreikningur og árgjald ákveðið.

c)  Kosning formanns, stjórnar og skoðendur reikninga.

                     d)  Önnur mál.

 

Óskað er eftir framboði og tilnefningum í stjórn félagsins.

 

Undir liðnum önnur mál verður m.a. rætt um:

                   #  Framkvæmdir á komandi starfsári

                   #  Öryggismál á æfingasvæðinu

                   #  Fjölgun stjórnarmanna - einn frá hverju sveitarfélagi

                   #  Nafnabreyting á félaginu

                   #  Skotvopnanámskeið

                   #  Kaup á skotvopnum

                   #  Kennari fenginn til að kenna "skeet"

                   #  Stofnun mótanefndar

                   #  Mótamál

                   #  O.fl.

 

Við hvetjum því alla áhugasama til að láta sjá sig á fundinum og taka þátt í ákvörðunartöku varðandi starfssemi félagsins.  Hafir þú óskir um að eitthvað sérstakt verði tekið fyrir á fundinum getur þú sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com.

 

* Skýrslu stjórnarinnar má lesa hér.  Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér hana fyrirfram eru hvattir til að lesa hana hér á vefnum.

  • 1