Færslur: 2015 Apríl

11.04.2015 20:41

Nýr félagsmaður

Nýlega gerðist Pétur Guðráð Pétursson félagsmaður í Skotfélaginu Skotgrund.  Guðráð eins og hann oftast er kallaður var félagsmaður í Skotgrund fyrstu árin eftir að félagið var stofnað og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið aftur eftir nokkurra ára hlé.

 

09.04.2015 23:23

Framkvæmdir - Ný hurð í markið

Við erum byrjuð á vorverkunum, en í dag var sett ný hurð í markið. Það var löngu orðið tímabært að skipta um hurð, en gamla hurðin var orðin mjög léleg og allt í kringum hana var orðið fúgið.

 

Þrátt fyrir að vorverkin séu hafin var ekki vorlegt um að lítast þegar undirritaður mætti á æfingasvæðið snemma í morgun til að skipta um hurðina, en þar var mjög þungt yfir og kaf snjóaði. Veður var þó milt og gott og nánast logn og því var ekkert til fyrirstöðu að rífa gömlu hurðina úr. 

 

Vel gekk að ná gömlu hurðinni úr, enda karmurinn og allar festingar í kringum hana svo fúgið að hægt hefði verið að sópa því í burtu.  Stækka þurfti hurðargatið um nokkra sentimetra svo að nýja hurðin kæmist í, en hún er 10cm breiðari en sú gamla.  Eftir smávægilegar breitingar á veggnum var nýja hurðin sett í og þá var komið þetta líka fína veður. 

Nýja hurðin tekur sig bara nokkuð vel út og nú á bara eftir að skipta um krossvið og klæða húsið að utan.

 

08.04.2015 23:13

Hugað að framkvæmdum

Þessi vetur hefur verið langur og kaldur hér á Snæfellsnesi og hann er alls ekki viss hvort hann ætli að koma eða fara. Hér hefur snjóað undanfarna daga, en við hjá Skotgrund erum þó farin að huga að vorverkunum og framkvæmdum á æfingasvæðinu. 

 

Í dag var keypt ný hurð í markið ásamt nýjum læsingum o.fl. tilheyrandi, en gamla hurðin er orðin mjög léleg.  Einnig var keyptur nýr garðbekkur sem settur verður upp við félagshúsnæðið o.fl.

Það stendur til að fara í töluverðar framkvæmdir á æfingasvæðinu í sumar, en númer eitt á framkvæmdalistanum er að setja nýju hurðina í markið, skipta um krossvið í markinu og turninum og klæða húsin að utan.

Vonandi fáum við einhverja góða daga á næstunni til að byrja þessum verkefnum.

 

 

05.04.2015 12:38

Gleðilega Páska

Skotgrund óskar landsmönnum öllum gleðilegra páska!

 

01.04.2015 12:52

Skil á veiðiskýrslu

Við viljum minna veiðimenn á að frestur til að skila inn veiðiskýrslu rennur út í dag þann 1. apríl.  Skotveiðimönnum ber að skila veiðiskýrslum á skilavef Umhverfisstofnunar einu sinni á ári óháð því hvort eitthvað var veitt eða ekki. Ef veiðiskýrslu er skilað inn eftir 1.apríl hækkar gjaldið fyrir veiðikortið úr 3.645 kr. upp í 5.145 kr. Því hvetjum við veiðimenn til þess að skila veiðiskýrslunum inn sem fyrst.  Hægt er að skila inn veiðiskýrslu hér.

 

Ef þú ert ekki viss um hvort þú viljir fá nýtt veiðikort getur þú merkt við í umsókninni að þú óskir ekki eftir endurnýjun.  Ef þú skiptir um skoðun síðar á árinu er hægt að hafa samband við Umhverfisstofnun og endurnýjað kortið.

 

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á vef Umhverfisstofnunar.

  • 1