Færslur: 2015 Maí

30.05.2015 13:55

Aðalfundur - Fundargerð

Aðalfundur Skotgrundar var haldinn í félagsnúsnæði Skotgrundar í Hrafnkelsstaðabotni fimmtudaginn 28. maí 2015 kl. 20:00. Fundinn sátu þeir Bergvin Sævar Guðmundsson, Birgir Guðmundsson, Einar Guðmundsson, Eymar Eyjólfsson, Jón Pétur Pétursson, Loftur Árni Björgvinsson,  Samúel Birgisson, Sigmar Logi Hinriksson, Sólberg Ásgeirsson, Steinar Már Ragnarsson, Unnsteinn Guðmundsson og Þorsteinn Björgvinsson.

 

Byrjað var á því að fara yfir skýrslu stjórnarinnar um starfsemi félagsins á liðnu ári.  Því næst voru ársreikningar samþykktir og árgjald samþykkt.  Fram kom að félagið sé skuldlaust og að rekstur félagsins hafi verið jákvæður á síðasta starfsári.  Ákveðið var að félagsgjaldið yrði áfram óbreytt, en það hefur verið 5.000 kr. á ári (416 kr/á mánuði) síðastliðin 18 ár.   

 

Því næst fór fram kosning formanns og stjórnar, en stjórnin verður óbreytt fyrir næsta starfsár.  Stjórn Skotgrundar er því skipuð eftirfarandi mönnum:

 

Jón Pétur Pétursson                    Formaður                    Grundarfirði

Guðmundur Pálsson                   Ritari                           Grundarfirði

Tómas Freyr Kristjánsson           Gjaldkeri                      Grundarfirði

Birgir Guðmundsson                  Meðstjórnandi              Grundarfirði

Jón Einar Rafnsson                   Meðstjórnandi              Snæfellsbæ

Guðni Már Þorsteinsson            Meðstjórnandi              Snæfellsbæ

Sigmar Logi Hinriksson              Meðstjórnandi              Stykkishólmi

Þorsteinn Björgvinsson              Meðstjórnandi              Grundarfirði

 

Undir liðnum önnur mál var ýmislegt rætt s.s. framtíðaráform félagsins, framkvæmdir og æfingasvæðið í heildsinni.  Sett var upp framkvæmdaáætlun fyrir sumarið og það verður nóg að gera í sumar.  Markmið félagsins er að geta boðið upp á sem allra besta aðstöðu til skotæfinga með öryggi allra í fyrirrúmi.

 

Fyrsta verkefni sumarsins verður að endurbyggja turninn og markið og klæða að utan, en stærsta verkefnið er undirbúningsvinna fyrir byggingu skothúss yfir riffilborðin.  Annað forgangsatriði er að tengja vatn í félagshúsið svo hægt verði að fá rennandi vatn í salernið og í vaska.

 

Annað sem er á stefnuskránni er m.a. málningarvinna, girðingarvinna, tyrfa að skammbyssuböttunum, byggja upp palla fyrir hreindýraskotpróf og setja upp skilti.

 

Vinnudagur:  

Stefnt er að því hafa vinnudag/helgi á æfingasvæðinu og verður viðburðurinn auglýstur síðar.

Styrkur frá Vaxtarsjóði Vesturlands:  

Rætt var um fjárstyrk frá Vaxtarsjóði Vesturlands og samstarf til fjölgunar starfa og uppbyggingu á afþreyingarmöguleikum á Snæfellsnesi.

Skothús:

Ákveðið var að hefja undirbúningsvinnu fyrir byggingu skothúss yfir riffilborðin.  Stefnt er að því að ljúka við að útvega teikningar, sækja um leyfi og steypa sökkla á þessu starfsári.  Síðan er stefnan að reisa húsið næsta sumar ef allt gengur að óskum.  Ákveðið var að steypa upp tvö útiborð fyrir framan húsið.

Vatnsból - salerni 

Ákveðið var að fresta framkvæmdum við vatnsból um óákveðinn tíma, en þess í stað að setja upp 1000 lítra tank til bráðabyrgða og tengja dælu við hann.  Ef að sú framkvæmd heppnast vel verður til skoðunar að fá annan tank og byggja utan um þá skýli. 

Bjóða fyrirtækjum og hópum í heimsókn:  

Skotgrund hefur undanfarin ár tekið á móti minni hópum sem hafa reynt fyrir sér í skotfimi.  Stefnt er að því að bjóða fleiri fyrirtækjum og hópum að sækja okkur heim.

Fánar og fánastangir:  

Ákveðið var að panta tvo nýja fána með merki félagsins.  Félagið á 3 nýja fána, en þar sem nafnabreyting var gerð á félaginu á síðasta ári var ákveðið að fylgja þeirri breytingu eftir og kaupa nýja fána merkta "Skotgrund Skotfélag Snæfellsness".  Borin var upp sú hugmynd að setja upp fánastangir fyrir fyrirtækjafána og fána félagsins og er ætlunin að kanna kostnað við uppsetningu á 5 fánastöngum til að byrja með.

Merki félagins á turninn:  

Ákveðið var að kaupa skilti með merki félagsins og festa á turninn.

Manir og gróður:  

Rætt var um að byggja upp manir og planta gróðri umhverfis bílastæðið og víðar.  Þetta er þó ekki forgangsatriði, en kanna á möguleika á því að sækja um styrk fyrir framkvæmdinni.

Skotvopnanámsekið:

Skotvopnanámskeið verður haldið hér á Snæfellsnesi dagana 18.-23. júní.  Skotgrund mun sjá um verklega kennslu þar.

Kaup á skotvopnum:  

Til upplýsinga var sagt frá því að Skotgrund hafi nýlega keypt tvo 22.cal riffla til að nota við kennslu.  Fyrir átti félagið eina tvíhleypu.

Kennari fenginn til að kenna leirdúfuskotfimi:  

Stefnt er að því að fá til okkar kennara til að leiðbeina félagsmönnum í leirdúfuskotfimi.

Mótanefnd:  

Stofnuð var mótanefd sem mun sjá um undirbúning, skipulagningu og framkvæmd skotmóta á vegum félagsins.  Mótanefnd skipa: Þorsteinn Björgvinsson, Aðalheiður Lára Guðmundsdóttir og Eymar Eyjólfsson.

STÍ þing:  

Skortur hefur verið á því að Skotgrund sendi fulltrúa frá félaginu á Skotþing Skotfélags Íslands.  Stefnt er að því að bæta úr því.

Villibráðakvöld:  

Rætt var um það að halda villibráðakvöld eins og haldin voru hér á árum áður.  Eftir mikla umræðu var ákveðið að gera það ekki, en þess í stað að halda lokahóf eða árshátíð og jafnvel halda mót sama dag.  Rætt var um að árlegu afmælismóti félagsins í október myndi ljúka með lokahófi eða veislu, en einnig kom tillaga um að halda það frekar fyrr um haustið áður en það verður orðið mjög kalt.  Mótanefnd var falið það verkefni að finna þessu tíma og skipuleggja.

Skotvopnasýning:

Áhugi er fyrir því að halda skotvopnasýningu svipaða og haldin var árið 2013.  Stefnt er að því að halda aðra sýningu síðustu helgina í júlí.

 

Meira var ekki tekið fyrir og var fundinum slitið kl. 22:50.  Mikið var þó rætt um byggingu yfir riffilborðin eftir fundinn og er hönnunarvinna á slíku húsnæði hafin.  Svo var að sjálfsögðu skotið aðeins áður en haldið var heim. 

 

Búið er að setja inn nokkrar myndir frá fundinum í myndabankann.

 

 

30.05.2015 11:40

Sjómannadagsmót

Þá er komið að því. Árlegt sjómannadagsmót Skotgrundar fer fram næstkomandi fimmtudag á æfingasvæði félagsins kl. 19:00 (mæting 18:30). Mótið var mjög vel heppnað í fyrra og var þátttakan virkilega góð.

 

Mótið verður með sama sniði og undanfarin ár þar sem sjómenn leggja stig sín saman á móti stigum landsliðsins, en einnig verða veitt verða verlaun fyrir bestan árangur einstaklinga. Hægt er að skrá sig í mótið í síma 863 1718, með því að senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com eða senda tilkynningu hér í gegnum facebook.

 

Skotgrund keypti á síðasta ári tvíhleypu Y/U sem félagsmenn geta fengið afnot af, hafi þeir ekki eigið skotvopn. Það ættu því allir að geta verið með.

 

27.05.2015 04:48

Aðalfundur - dagskrá

Eins og áður hefur komið fram verður aðalfundur félagsins haldinn fimmtudaginn 28. maí kl. 20:00 í félagshúsnæði Skotgrundar.  Dagskrá fundarins verður á þennan veg:

 

a)  Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári*.

b)  Ársreikningur og árgjald ákveðið.

c)  Kosning formanns, stjórnar og skoðendur reikninga.

                   d)  Önnur mál.

 

Óskað er eftir framboði og tilnefningum í stjórn félagsins.

 

Undir liðnum önnur mál verður m.a. rætt um:

             #  Styrkur frá Vaxtarsjóði Vesturlands

 #  Framkvæmdir á komandi starfsári

             #  Skothús

 #  Vatnsból - salerni

 #  Bjóða fyrirtækjum

 #  Verð á heimsóknir hópa

             #  Fána með nýja merkinu - Fánastangir

             #  Merki félagsins á turninn

             #  Manir - gróður

             #  Skotvopnanámskeið

             #  Kaup á skotvopnum

             #  Kennari fenginn til að kenna "skeet"

             #  Stofnun mótanefndar

             #  Mótamál – mótsgjald?

             #  STÍ þing

             #  Villibráðakvöld

             #  Annað

 

Við hvetjum því alla áhugasama til að láta sjá sig á fundinum og taka þátt í ákvörðunartöku varðandi starfssemi félagsins.  Hafir þú óskir um að eitthvað sérstakt verði tekið fyrir á fundinum getur þú sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com.

 

* Skýrslu stjórnarinnar má lesa hér.  Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér hana fyrirfram eru hvattir til að lesa hana hér á vefnum.

27.05.2015 04:42

Skotíþróttamaður HSH

Þann 16. maí síðastliðinn var Unnsteinn Guðmundsson útnefndur skotíþróttamaður HSH annað árið í röð.  Unnsteinn sigraði flest þau mót sem hann tók þátt í með töluverðum yfirburðum auk þess sem hann hefur verið mjög virkur í starfi félagsins.  Skotgrund óskar honum innilega til hamingju með útnefninguna.

                     
 

25.05.2015 23:54

Tveir nýir félagsmenn

Í dag gerðust þeir Stefán Þór Svansson og Jóhann Eiríksson félagsmenn í Skotfélaginu Skotgrund og bjóðum við þá hjartanlega velkomna í félagið.  Það gleður okkur hversu margir nýir skotmenn hafa skráð sig í félagið að undanförn og vonandi mun sú þróun halda áfram. 

Það verður nóg um að vera hjá félaginu á næstu vikum og mánuðum en því verður öllu gerð góð skil hér á heimasíðu félagsins.

22.05.2015 13:31

Sjómannadagsmót

Hið árlega Sjómannadagsmót Skotgrundar verður haldið fimmtudaginn 4. júní. Landsliðið vann í fyrra en sjómenn árið þar á undan þannig að staðan er jöfn í einvíginu. Reiknað er með að mótið byrji um kl. 19:00 en nánari upplýsingar um tímasetningu og skráningu verður auglýst á næstu dögum.

 

20.05.2015 10:59

Búið að yfirfara kastvélarnar - Grun hf. styrkir Skotgrund

Nú er búið að yfirfara og laga kastvélarnar fyrir sumarið.  Unnsteinn Guðmundsson átti frumkvæðið að því og sá alfarið um þá framkvæmd, en skipta þurfti um spólur og slitna hluti í turninum og mótor í markinu.  Þau hjá Grun hf. frá Grundarfirði voru svo rausnarleg að þau keyptu og gáfu okkur nýjan mótor í vélina í markinu og færum við þeim okkar bestu þakkir fyrir.

 

Grun hf. hefur reynst Skotgrund afar vel alveg frá stofnun félagsins og styrkt félagið á ýmsan máta og á Skotgrund Grun hf. og öðrum fyrirtækjum margt að þakka.  Ánn þeirra stuðnings væri félagið ekki að blómstra.

 

                        
 

 

 

14.05.2015 10:46

Aðalfundur

Aðalfundur Skotfélagsins Skotgrundar verður haldinn fimmtudaginn 28. maí kl. 20:00 í félagshúsi Skotgrundar í Hrafnkelsstaðabotni. Við hvetjum félagsmenn til þess að fjölmenna á fundinn.

 

Dagskrá fundarins verður auglýst síðar.  Hafir þú óskir um að eitthvað sérstakt verði tekið fyrir á fundinum er hægt að senda hugmyndir á skotgrund@gmail.com.

08.05.2015 13:31

Tiltekt

Í gær fóru nokkrir félagsmenn inn á svæði í vorhreingernigu og fóru ruslaferð.  Unnsteinn kíkti líka á kastvélarnar og yfirfór þær eftir veturinn.  Í ljós kom að mótorinn í vélinni í markinu var orðinn frekar dapur og var því ákveðið að panta nýjan mótor.

 

Við stefnum svo á að auglýsa almennilegan vinnudag á næstu dögum og gera svæðið klárt fyrir sumarið.

Myndina tók Unnsteinn Guðmundsson.

 

  • 1