Færslur: 2015 Ágúst

27.08.2015 23:44

Myndir

Búið er að setja inn nokkrar áður óbirtar myndir frá Refamóti Skotgrundar.  Myndirnar eru hægt að skoða í myndaalbúminu.

27.08.2015 01:13

Fleiri nýir stólar og borð

Það er búið að vera mikið um að vera á skotæfingasvæðinu undanfarna daga og þá sérstaklega á riffilsvæðinu.  Menn hafa verið duglegir að æfa sig þar, nokkrir hafa mætt í hreindýrapróf og sömuleiðis hafa nokkrir nýir félagsmenn skráð sig í félagið.

 

Vegna fjölgunar í félaginu var ákveðið síðasta haust að kaupa nýja stóla og borð í félagshúsnæðið svo að það nýtist betur.  Nú á dögunum voru keyptir fleiri stólar og borð til viðbótar við það sem keypt var í fyrra til að rúma alla í sæti þegar haldnir eru viðburðir á vegum félagsins. 

 

Þetta er svo sannarlega ánægjuleg þróun og ef heldur áfram sem horfir þá þurfum við að byggja nýtt og stærra félagshúsnæði.  En það er þó ekki á dagskrá alveg strax, því næsta verkefni er að byggja yfir riffilborðin og er stefnt að því að byrja á því í haust.

18.08.2015 06:49

Nýju fánarnir komnir í hús

Á síðasta aðalfundi Skotgrundar var ákveðið að félagið myndi panta nýja fána merkta "Skotfélag Snæfellsness" eins og félagið heitir í dag eftir nanfabreytinguna.  Að þessu sinni voru pantaðir bæði hefðbundnir láréttir fánar (100x150cm) og einnig lóðréttir fánar (150x100cm), þar sem merki félagsins nær að njóta sín betur þannig.

 

Fánarnir verða dregnir að húni á næsta viðburði sem haldinn verður á vegum félagsins.

 

14.08.2015 01:13

Myndir frá Refamótinu

Búið er að setja fullt af myndum frá Refamóti Skotfélags Snæfellsness í myndabankann hér á heimasíðu félagsins.

 

09.08.2015 20:50

Refamót Skotfélags Snæfellsness

Í gær fór fram stórskemmtilegt Refamót Skotfélags Snæfellsness á æfingasvæði félagsins.  Þetta er í fyrsta skipti sem Skotfélag Snæfellsness heldur þetta mót, en hugmyndin að mótinu er fengin frá Skotfélagi Austurlands.  Mætingin var fram úr öllum væntingum og heppnaðist mótið mjög vel.  19 skotmenn tóku þátt í mótinu og fjöldi áhorfenda mættu til að fylgjast með mótinu og þiggja pylsur af grillinu og léttar veitingar. 

 
 

Mótið fór þannig fram að hver og einn skotmaður átti að skjóta 10 útskorna refi í mismunandi fjarlægðum úr liggjandi stöðu.  Aftan á hvert dýr var teiknað afmarkað svæði, sem dugði til að "fella dýrið" og fengu keppendur stig fyrir að hitta innan þess svæðis. Ekki voru gefin stig fyrir að hitta í skott eða fætur.

 
 

Leikar fóru þannig að Finnur Steingrímsson frá Skotfélagi Akureyrar sigraði mótið með 128 stig, Hilmir Valsson frá Skotfélagi Vesturlands (Borgarnesi) varð í öðru sæti með 126 stig og Gunnar Ásgeirsson fra Skotfélagi Snæfellsness varð í þriðja sæti einnig með 126 stig, en þar sem Hilmir var með einu skoti meira í miðjuna fékk hann silfrið. 

Verðlaunagripina smíðaði Þorgrímur Kolbeinsson listamaður frá Grundarfirði og Hjálmar í Hlað gaf sigurvegara mótsins inneignarkort í versluninni Hlað að verðmæti 10.000 kr.

 

 

Nú þegar er farið að ræða um að halda annað mót á næsta ári enda var þetta frábær skemmtun og góð æfing. Stjórn Skotgrundar vill þakka nýskipaðri mótanefnd fyrir skemmtilegt mót, þakka öllum þeim sem tóku þátt í mótinu fyrir góðan dag og ekki síst þakka strákunum frá Akureyri og Borgarnesi fyrir komuna.

09.08.2015 20:27

Stórskemmtilegt refamót

Í dag fór fram Refamót Skotfélags Snæfellsness á æfingasvæði félagsins.  Mætingin var fram úr öllum væntingum og heppnaðist mótið mjög vel.  19 skotmenn tóku þátt í mótinu og fóru leikar þannig að Finnur Steingrímsson frá Skotfélagi Akureyrar náði bestum árangri, Hilmir Valsson frá Skotfélagi Vesturlands (Borgarnesi) tók annað sætið og Gunnar Ásgeirsson frá Skotfélagi Snæfellsness það þriðja.  Nánar verður fjallað um mótið hér á heimasíðu félagsins.

 

09.08.2015 07:41

Tveir nýir félagsmenn

Nýlega gerðust þeir Kristinn Björgvinsson og Júlíus Ó. Einarsson félagsmenn í Skotfélagi Snæfellsness og eru félagsmenn því orðnir 122 talsins.  Bjóðum við þá Kristinn og Júlíus hjartanlega velkomna í félagið.

08.08.2015 21:53

Refamótið er á morgun sunnudag

Undirbúningur fyrir Refamót Skotfélags Snæfellsness er í fullum gangi.  Mótið verður haldið á æfingasvæði félagsins á morgun sunnudag og hefst það kl. 12:00.  Keppendum ber þó að mæta ekki síðar en kl. 11:00.

Unnið að undirbúningi fyrir mótið.
  • 1