Færslur: 2016 Apríl

25.04.2016 22:10

Teikningarnar tilbúnar

Eins og mörgum er kunnugt erum við að stefna að því að byggja skothús við riffilbrautina í sumar og nú er búið að ljúka við að teikna húsið.  Það var Marvin Ívarsson sem á og rekur tekni- og ráðgjafastofuna Teiknir ehf. sem  teiknaði fyrir okkur húsið, en þess má geta að Marvin var formaður Skotgrundar um árabil.

 

Nú liggur fyrir að sækja um og fá byggingaleyfi, svo hægt verði að hefjast handa við að steypa upp sökkla.  Hægt verður að fylgjast með gangi mála hér á heimasíðunni.

 

 

 

17.04.2016 20:56

Aðalfundur

Nú fer að líða að því að aðalfundur Skotfélags Snæfellsness verði haldinn og óskum við því eftir framboðum til stjórnarstarfa.  Einnig óskum við eftir hugmyndum að framkvæmdum eða skemmtilegum uppákomum sem vert er að taka fyrir á fundinum.  Hægt er að koma ábendingum á framfæri með því að senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com.

 

Fundurinn verður haldinn í byrjun næsta mánaðar en nánari tímasetning verður auglýst hér á síðunni þegar nær dregur.

                         
 

11.04.2016 09:31

Styrkur frá Grundarfjarðarbæ

Nýlega barst okkur svarbréf frá Grundarfjarðarbæ varðandi styrkumsóknir sem Skotgrund sendi inn fyrir komandi starfsár.  Grundarfjarðarbær hefur samþykkt að styrkja Skotgrund með niðurfellingu á fasteignagjöldum sem félaginu ber að greiða til sveitarfélagsins. 

Einnig fáum við niðurfellda reikninga fyrir byggingarleyfisgjöldum og stjórnsýlslukostnaði þegar farið verður í að byggja skotskýlið og erum við mjög þakklát fyrir það.

 

Ekki var hægt að verða að ósk okkar um fjárstyrk til uppbyggingar á æfingasvæðinu.

  • 1