Færslur: 2016 Maí

31.05.2016 18:58

Æfingasvæðið að taka á sig mynd

Í gær var haldinn vinnudagur þar sem ýmsu var komið í verk.  Þakkanturinn á félagshúsnæðinu var endurnýjaður og málaður og vélarhúsið var tekið í gegn að utan.  Flestar byggingar félagsins voru málaðar og byrjað var að mæla út fyrir nýja skothúsinu.  Svæðið er sífellt að verða flottara og viljum við þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem tekið hafa þátt í þessum framkvæmdum með okkur fyrir aðstoðina. 

 

30.05.2016 07:33

Vinnudagur

Við ætlum að hittast á æfigasvæðinu í kvöld mánudag kl. 19:30 og gera svæðið fínt.  Smíða, mála o.fl.  Allir velkomnir.  Einnig ætlum við að ljúka við að skipuleggja Sjómannadagsmótið.

 

28.05.2016 01:23

Sjómannadagsmót

Þá er komið að því. Árlegt sjómannadagsmót Skotgrundar fer fram næstkomandi fimmtudag á æfingasvæði félagsins kl. 17:00 og fram eftir kvöldi (mæting kl. 16:30). Mótið var mjög vel heppnað í fyrra og landsliðið á nú titil að verja.

 

Mótið verður með sama sniði og undanfarin ár þar sem sjómenn leggja stig sín saman á móti stigum landsliðsins, en einnig verða veitt verða verlaun fyrir bestan árangur einstaklinga.  Við ætlum þó að kridda þetta aðeins upp í ár með því að láta liðin keppa einnig í riffilskotfimi með 22.cal rifflum í svokölluðu "battle tree".  Þar eiga tveir einstaklingar úr sitthvoru liðinu að keppa í einvígi um það hver er á undan að hitta í mark með 5 skotum og þar með vinna inn stig fyrir sitt lið.  Sigrar það lið sem nær flestum stigum samanlagt í leirdúfuskotfimi og riffilskotfimi.

 

Auðvitað er þetta allt til gamans gert og vonumst við til að sjá sem flesta.  Félagið verður með tvo riffla á staðnum og 22.cal skot, en keppendur geta einnig notað riffla úr einkaeigu.  Mótsgjald verður 2.000 kr. og rennur allur ágóðinn af mótinu í uppbyggingu á skothúsi, en innifalið í mótsgjaldinu eru veitingar af grillinu í boði Samkaupa Úrvals.

 

Hægt er að skrá sig í mótið í síma 863 1718, með því að senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com eða senda tilkynningu í gegnum facebook. Skráningu lýkur miðvikudaginn 1. júní kl. 21:00.

 

Skotfélag Snæfellsness ætlar að vera með opið hús og bjóða áhugasömum einstaklingum að kynna sér starfsemi félagsins á æfingasvæðinu frá kl. 15:00 sama dag og fram að móti.  Hægt verður að fá að prófa nokkur skot.

 

Kveðja mótanefndin

 

 

23.05.2016 18:40

Mikið um að vera

Þessa dagana er mikið að gerast hjá Skotgrund.  Í dag voru rafvirkjar að störfum á æfingasvæðinu að yfirfara kastvélina í turninum.  Búið er að velja fatnað fyrir félagsmenn sem merktur verður félaginu, en hann verður til sýnis á aðalfundinum sem haldinn verður næsta fimmtudag. Ætlunin er að gera pöntun eftir aðalfundinn, en þeir sem hafa áhuga á að fá fatnað merktan félaginu geta haft samband á skotgrund@gmail.com.

Þá fengum við sendingu af járni sem pantað var á dögunum til þess að smíða "battle tree" eða skotmörk fyrir skotkeppni með 22.cal rifflum.  Smíðin á því hefst á morgun. 

 

Undirbúningur fyrir aðalfundinn er í fullum gangi og sömuleiðis undirbúningur fyrir sjómannadagsmótið sem verður fimmtudaginn 2. júní.

19.05.2016 17:21

Aðalfundur

Aðalfundur Skotfélags Snæfellsness verður haldinn í félagshúsnæði félagsins í Hrafnkelsstaðabotni fimmtudaginn 26. maí kl. 21:00.  Við ætlum að hittast um kl. 20:00 og ræða húsbyggingu o.fl. áður en formlegur fundur hefst.  Allir velkomnir.

 

Við óskum eftir framboðum í stjórn, mótastjórn og í önnur störf.  Áhugasamir geta sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com.

18.05.2016 11:09

Flottur vinnudagur

Í gær fékk flottur hópur sjálfboðaliða, flott veður til vinnu á æfigasvæðinu og skiluðu heldur betur flottu dagsverki.  Byrjað var á því að ræða um og skipuleggja sjómannadagsmótið sem haldið verður þann 23. júní næstkomandi.  Svo var rætt um byggingaleyfisumsókn félagsins fyrir skothúsi , en gerð hafði verið athugasemd við fyrirhugaða staðsetningu skothússins.  Ákveðið var að leggja til að húsið yrði fært norður fyrir núverandi riffilborð og ath. hvort leyfi fengist fyrir því.

 

Eftir fundinn skiptu menn með sér verkum og m.a. var skipt um þakjárn og pappa á turninum, farið í málningavinnu, tiltekt o.fl.  Kíkt var á rafmagnið í turninum og lokið var við að klæða turninn að utan og byrjað var að mála hann.  Markið var málað og einnig staurarnir sem afmarka riffilbrautina.  Þá var einnig farið í það að endurnýja þakkantinn á félagshúsnæðinu, en unnið var langt fram á kvöld. Til stendur að fara í frekari framkvæmdir á næstu dögum.

 
 
 

Vinnudagar verða auglýstir hér á heimasíðunni.

 

 
 

14.05.2016 15:40

Vinnukvöld - Skipulagning fyrir sjómannadagsmót

Næstkomandi þriðjudagskvöld ætlum við að hittast á æfingasvæðinu kl. 19:30 og ræða sjómannadagsmótið.  Einnig ætlum við að taka aðeins til á æfingasvæðinu og gera það klárt fyrir sumarið.  Við vonumst til að sjá sem flesta.

11.05.2016 01:05

Aðalfundur 26. maí kl. 21

Aðalfundur Skotgrundar verður haldinn í félagshúsnæði félagsins í Hrafnkelsstaðabotni fimmtudaginn 26. maí kl. 21:00.  Við reiknum með að mæta um kl. 20:00 og fara lauslega yfir hluti sem snúa að skotæfingasvæðinu o.fl. og formlegur fundur hefst svo kl. 21:00.

 

Við vonumst til að sem flestir sjái sér fært að mæta því taka þarf nokkrar stórar ákvarðanir varðandi skothúsið sem fyrirhugað er að byggja og svo þarf einnig að taka ákvarðanir um félagsgjöld o.fl.

 

Dagskrá fundarins verður á þennan veg:

a)  Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári*.

b)  Ársreikningur og árgjald ákveðið.

c)  Kosning formanns, stjórnar og skoðendur reikninga.

                   d)  Kosning mótanefndar.

                   e)  Önnur mál.

 

Óskað er eftir framboði og tilnefningum í stjórn félagsins og mótanefnd.

 

 

 

Við hvetjum alla áhugasama til að láta sjá sig á fundinum og taka þátt í ákvörðunartöku varðandi starfssemi félagsins.  Hafir þú óskir um að eitthvað sérstakt verði tekið fyrir á fundinum getur þú sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com.

 

* Skýrslu stjórnarinnar má lesa hér.  Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér hana fyrirfram eru hvattir til að lesa hana hér á vefnum.

 

09.05.2016 21:08

Bið eftir byggingaleyfi

Það verður einhver bið eftir því að við getum hafist handa við að byggja skothúsið þar sem skipulag fyrir Hrafnkelsstaðaland liggur ekki fyrir, en landið er í eigu Grundarfjarðarbæjar.  Byggingaleyfisumsókn félagsins var tekin fyrir á fundi Skipulags- og bygginganefndar þann 4. maí síðastliðinn og í fundargerðinni segir orðrétt:

"Skipulags-og umhverfisnefnd leggur til að unnið verði að deliskipulagi fyrir æfingarsvæði Skotgrundar að Hrafnkelsstaðarbotni.  Að sinni verður að fresta samþykki um byggingarleyfi og athuga þarf nánar staðsetningu skothúss við árfarveg Hrafnár."

02.05.2016 21:12

Aðalfundur

Stefnt er að því að halda aðalfund Skotgrundar fimmtudaginn 12. apríl í félagshúsnæði Skotgrundar.  Nánari tímasetning og fundarefni verður auglýst á næstunni.

 

UPPFÆRT:   Aðalfundur Skotfélags Snæfellsness verður haldinn fimmtudaginn 26. maí.

01.05.2016 09:29

Skotlúgur á skothúsum

Nú er á stefnuskránni hjá okkur í Skotfélagi Snæfellsness að byggja skothús við riffilbrautina.  Búið er að teikna húsið, en við erum að velta því fyrir okkur hvernig best er að hafa skotlúgurnar.  Við höfum leitað til nokkurra félaga hérlendis sem reka slík hús og fengið þeirra álit á því hvernig best er að hafa lúgurnar.  Sums staðar opnast lúgurnar inn og til hliðar og á öðrum stöðum opnast þær út og upp svo dæmi sé nefnt.

 

Til að fá álit sem flestra þá óskum við eftir áliti frá þér lesandi góður, hafir þú reynslu af notkun slíkra skothúsa.  Okkur þætti vænt um ef þú gætir sent okkur þína skoðun á þessum málum á skotgrund@gmail.com með léttum rökstuðningi fyrir því hvaða lúgur hafa reynst þér best.

 

Með fyrirfram þökk, kveðja stjórn Skotgrundar.

 

 

  • 1