Færslur: 2016 Júní

29.06.2016 11:55

Skotpróf

Síðasta skotpróf í bili verður í kvöld miðvikudag kl. 19:00. Skráning í síma 897 6830 (Unnsteinn) eða 863 1718 ( Jón Pétur).

24.06.2016 22:12

Skotpróf

Næsta skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn verður á morgun laugardag milli kl. 13:00 og 14:00.  Skráning í prófið hjá Birgi í síma 859 9455.

 

21.06.2016 18:38

Skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn

Næsta skotpróf verður miðvikudaginn 22. júní frá kl. 20:00 til 22:00.  Skráning í próf er síma 863 1718. (Jón Pétur)

20.06.2016 12:39

Sumarsólstöðu hittingur

Við ætlum að hittast á æfingasvæðinu næstkomandi miðvikudagskvöld og skjóta fram á nótt.  Við ætlum að hittast um kl. 22:00 og það verður engin skipulögð dagskrá heldur ætlum við bara að taka með fullt af dóti og skjóta. Hver og einn tekur bara með það sem þeir vilja. Það er fátt skemmtilegra en að vera úti í sumarnóttinni, í fallegu veðri og góðum félagsskap og skjóta.  Ný andlit eru sérstaklega velkomin.

 

 

18.06.2016 09:52

Riffilmót 17. júní

Í gær fór fram árlegt riffilmót Skotfélags Snæfellsness á æfingasvæði félagsins.  Keppt var í tveimur flokkum eftir hunter class fyrirkomulagi og gátu skotmenn keppt í báðum flokkum eða bara öðrum hvorum.  Við fengum nokkra góða gesti að norðan og var virkilega gaman að hitta þau.  Tólf keppendur tóku þátt í stærri flokkinum á 100m og 18 keppendur reyndur fyrir sér í minni flokkinum á 50m.  Norðanmennirnir voru mjög sterkir og unnu til flestra verðlauna, en svo komu aðrir keppendur skammt þar á eftir.

 

 
 

Efstu menn voru mjög jafnir í báðum flokkum, en í 22.cal flokkinum var Bubbi í fyrsta sæti, Arnar í öðru og Júlli í því þriðja.  Í stóra flokkinum var Finnur í fyrsta sæti og Arnar og Bubbi jafnir í 2-3 sæti, en þar sem að Arnar náði X á undan Bubba tók hann annað sætið.

 

 

Við þökkum mótanefndinni fyrir skemmtilegt mót og öllum þeim sem að mættu á mótið  og sérstakar þakkir fá Finnur, Erla, Arnar og Bubbi fyrir að leggja á sig langt ferðalag til að vera með okkur.  Búið er að setja inn nokkrar myndir frá mótinu í myndaalbúmið efst á síðunni.  Fleiri myndir eru væntanlegar.

 

17.06.2016 00:10

Skemmtileg bogfimikynning

Síðastliðinn mánudag stóð Skotfélag Snæfellsness fyrir bogfimikynningu á æfingasvæði félagsins í samvinnu við Bogveiðifélag Íslands. Þessi íþróttagrein hefur farið mikið vaxandi á Íslandi og hafa mörg skotfélög tekið þessa grein inn í sitt félagsstarf.

 

Indriði R. Grétarsson var leiðbeinandi á kynningunni, en Indriði er bogfimikennari og var sá sem að kom bogfimi inn sem keppnisgrein á Unglingalandsmót UMFÍ. Á þriðja tug einstaklinga mættu á kynninguna og fengu allir að reyna fyrir sér í þessari skemmtilegu íþrótt og viljum við þakka Indriða fyrir flotta kynningu. Mikill áhugi er fyrir því að fá frekari kennslu í greininni og nú er til umræðu hjá Skotfélagi Snæfellsness hvort félagið ætti að stofna bogfimideild innan félagsins.

 
 
 

15.06.2016 21:11

Riffilmót 17. júní

Árlegt riffilmót Skotfélags Snæfellsness verður haldið föstudaginn 17. júní kl. 16:00.  Mótsgjaldið verður 2.000 kr. og keppt verður í tveimur flokkum.  Í minni flokkinum verður keppt í 22.cal á 50m en í stærri flokkinum verður skotið á 100m færi og verða öll caliber leyfileg þar.

Skráning í mótið fer fram á skotgrund@gmail.com eða í síma 848 4250 (Heiða Lára) og 863 0741 (Eymar).

 

 

12.06.2016 12:18

Nýr félagsmaður

Nýlega fjölgaði enn frekar í félaginu, en þá gerðist Aðalsteinn Þorvaldsson félagsmaður í Skotfélagi Snæfellsness.  Bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið.  

10.06.2016 17:52

Bogfimikynning

Skotfélag Snæfellsness verður með bogfimikynningu í samstarfi við Bogveiðifélag Íslands á skotæfingasvæði Skotgrundar í Hrafnkelsstaðabotni næstkomandi mánudag.  Indriði R. Grétarsson mun koma og kynna bogfimi , en Indriði kom bogfimi inn sem keppnisgrein á Unglingalandsmóti UMFÍ.  Kynningin hefst kl. 18:00 og mun standa fram eftir kvöldi, en fólk getur komið og farið.

Allur búnaður verður á svæðinu og Indriði ætlar að hafa veiðiboga meðferðis þannig að áhugasamir geta kynnt sér slík verkfæri líka.

 

Bogfimi er vaxandi grein á Íslandi og hvetjum við alla áhugasama til að kíkja við og kynna sér þessa skemmtilegu íþrótt nánar.  Allar nánari upplýsingar í síma 863 1718

 

Myndin er tekin af  http://www.roslistonforestrycentre.co.uk

10.06.2016 13:14

Nýr félagsmaður

Nýlega gerðist Ólöf Rún Ásgeirsdóttir félagsmaður í Skotfélagi Snæfellsness og bjóðum við hana hjartanlega velkomna í félagið. 

08.06.2016 07:51

Myndir frá sjómannadagsmótinu

Búið er að setja mikið af myndum frá Sjómannadagsmóti Skotfélags Snæfellsness í myndaalbúmið  hér efst á síðunni.  Hægt er að skoða myndirnar hér.

 

06.06.2016 22:51

Nóg um að vera á næstunni

17. júní mót

Við stefnum á að halda árlegt riffilmót þann 17. júní.  Keppt verður í tveimur flokkum, 22. cal lr á 50m og stærri caliberum á 100m.  Við hvetjum sem flesta til að fara að kaupa/hlaða skot og æfa sig.  Viðburðurinn verður auglýstur síðar.

 

Jónsmessu hittingur 24. júní

Við stefum að því að hafa Jónsmessu hitting á Jónsmessunótt þann 24. júní næstkomandi ef veður leyfir. Þá ætlum við að hittast á æfingasvæðinu og hleypa af nokkrum skotum.  Hver og einn mætir með það sem þeir vilja.  Oft er besta veðrið til skotæfinga seint á kvöldin og fátt skemmtilegra en að vera úti að skjóta í sumarnóttinni í góðu veðri.  Viðburðurinn verður auglýstur síðar.

04.06.2016 06:47

Vel heppnað Sjómannadagsmót

Árlegt Sjómannadagsmót Skotfélags Snæfellsness fór fram síðastliðinn fimmtudag á æfingasvæði félagsins.  Hann blés aðeins úr suðri þegar mótið hófst, en um leið og fyrsti riðillinn af fimm hafði lokið sér af datt hann alveg niður.

 

Þetta var í fjórða skipti sem þetta mót er haldið og var met þátttaka í ár. 26 keppendur tóku þátt og þar af 6 konur sem flestar voru að keppa í fyrsta skipti, en það er mjög ánægjulegt að sjá hvað stelpurnar eru að koma sterkar inn.

 
 
 
 

Mótið var með sama sniði og undanfarin ár þar sem sjómenn leggja sín stig saman á móti stigum landsliðsins, en einnig voru veitt verðlaun fyrir bestan árangur einstaklinga.  Þetta mót er alltaf að stækka og verða vinsælla og vegna mikillar fjölgunar þátttakanda var ákveðið að keppa einnig í einvígi í "járnfrúnni".  Járnfrúin er heimasmíðað skotmark fyrir 22.cal riffla, þar sem keppendur kepptust við að loka 5 götum í járnfrúnni á sem skemmstum tíma.  Tveir einstaklingar úr sitthvoru liðinu áttu að skjóta samtímis og sá sem var fyrri til að hitta í öll götin fékk stig fyrir sitt lið.  Félagið keypti á síðasta ári tvo 22.cal riffla til að nota við kennslu og voru þeir notaðir við keppnina.

 

Leirdúfukeppnin var afar skemmtileg og fór hún þannig að þrír efstu keppendurnir voru allir jafnir og því þurfti að fara í bráðabana til að skera úr um hver sigurvegarinn væri.  Eftir bráðabanann voru þeir allir ennþá jafnir og því þurfti að fara í annan bráðabana.  Að honum loknum voru tveir efstu menn ennþá jafnir og fóru þeir því í þriðja bráðabanann.  Þeir enduðu aftur jafnir og var það því ekki fyrr en að loknum 4 bráðabönum að hægt var að krýna sigurvegara mótsins.  Það var Unnsteinn Guðmundsson sem sigraði, Gústav Alex Gústavsson var í öðru sæti og Júlíus Freysson í því þriðja.  Lið sjómanna sigraði liðakeppnina og er staðan því jöfn í einvíginu tvö tvö.

 

Fjöldi fólks mætti til að horfa á mótið en um 60 manns sáu keppnina í það heila.  Grillaður voru pylsur ofan í gesti og keppendur í boði Samkaupa Úrvals, en Gunni í sjoppunni styrkti félagið með hráefni í grillveisluna. 

 
 

Eftir mótið var spjallað lengi og skotið mikið á riffilsvæðinu.  Síðustu menn fóru heim nokkrum klukkutímum eftir að mótinu lauk, en um kvöldið var komið alveg dúna logn og frábært veður til skotæfinga. Nú þegar er farið að ræða um það hvernig hægt verður að gera mótið enn stærra á næsta ári og hugmyndir eru að gera fjölskyldudag með afrþeyingu fyrir alla aldurshópa.

 

Við viljum þakka öllum þeim sem aðstoðuðu við undirbúning fyrir mótið, Gunna í Samkaup fyrir grillveisluna og öllum þeim sem lögðu leið sína í Kolgrafafjörðinn til að taka þátt eða horfa á.

 
 
 
 

 

03.06.2016 20:46

Tveir nýir félagsmenn

Í dag gerðust þær Hólmfríður Hildimundardóttir og Rósa Guðmundsdóttir félagsmenn í Skotfélagi Snæfellsness og bjóðum við þær hjartanlega velkomnar í félagið.

Hobba og Rósa.

03.06.2016 00:38

Frábæru Sjómannadagsmóti lokið

Í kvöld fór fram árlegt Sjómannadagsmót Skotfélgs Snæfellsness.  Það var met þátttaka í ár og heppnaðist mótið mjög vel.  Sjómenn unnu naumlega í ár og þurfti fjórfaldan bráðabana til að knýja fram úrslit í einstaklingskeppninni þar sem þrír efstu menn voru jafnir.  Nánar verður fjallað um mótið síðar.

 
 
  • 1