Færslur: 2016 September

26.09.2016 10:05

Leiðbeinendur í leirdúfuskotfimi

Þann 2. október næstkomandi munu þau Snjólaug María Jónsdóttir og Guðmann Jónasson frá Skotfélaginu Markviss á Blönduósi koma í heimsókn og ræða við okkar félagsmenn um leirdúfuskotfimi.  Þá ætla þau einnig að vera okkar félagsmönnum innnan handar og leiðbeina í leirdúfuskotfimi, jafnt vönum sem óvönum.

 

Það verður byrjað á kvennahitting á milli kl. 12 og 14 og karlarnir mæta kl. 14:00.  Við hvetjum okkar félagsmenn til að fjölmenna og fá leiðsögn í greininni.

19.09.2016 17:13

Nýr félagsmaður

Enn er að fjölga í félaginu hjá okkur því nýlega gerðist Margeir Sigmarsson félagsmaður í Skotfélagi Snæfellsness.  Þrátt fyrir að vera aðeins 15 ára gamall þá hefur Margeir tekið þátt í ýmsum viðburðum á vegum félagsins og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið. 

Margeir tók þátt í bogfimikynningu sem Indriði var með fyrr í sumar.

16.09.2016 08:14

Æfingasvæðið lokað vegna smalamennsku

Æfingasvæði Skotfélags Snæfellsness verður lokað laugardaginn 17. september vegna smalamennsku.  Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda, en við biðjum skotmenn jafnframt að sýna þessu skilning og virða lokunina.

Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

15.09.2016 18:42

Skotvopnanámskeið á Akranesi og Hvanneyri

Fyrirhugað er að halda skotvopnanámskeið á Akranesi og Hvanneyri í september og október.  Þá verður veðikortanámskeið haldið á Akranesi. Námeskeiðin verða sem hér segir:

 

Veiðikortanámskeið

Akranes 
27. september – kl. 17:00-23:00 í Grundaskóla.
Leiðbeinandi Arnór Þórir Sigfússon 

Verð: 14.900 kr

 

Skotvopnanámskeið

Akranes
29.-30. september kl 18:00-22:00 í Grundaskóla.
Leiðbeinandi Jónas Hallgrímur Ottósson.
Verklegt eftir það.

Verð: 20.000 kr

 

Hvanneyri
5.-6. október (18-22/18-22) í Borg, Ásgarði
Leiðbeinandi: Kristvin Ómar Jónsson
Verklegt eftir það í samvinnu við Skotfélag Vesturlands

Verð: 20.000 kr

 

Allar nánari upplýsingar er að finna á www.veidikort.is

13.09.2016 22:09

Vetrarvegur

Nú er framkvæmdum lokið við varnargarðinn sem aðskilur Hrafnánna og skotæfingasvæði Skotfélags Snæfellsness.  Hrafnáin rennur samsíða æfingasvæðinu og var hún búin að grafa í burtu varnargarðinn og farin að grafa sig í átt að mannvirkjum félagsins.  Nú er búið að laga varnargarðinn og um leið var gerður vetrarvegur ofan á varnargarðinum svo hægt sé að keyra eftir garðinum að æfingasvæði félagsins. 

Hér má sjá hvað áin var komin nálægt æfingasvæðinu.

 

Varnargarðurinn hefur stundum verið notaður til að aka eftir þegar ófært hefur verið upp að æfingasvæðinu yfir vetrarmánuðina og nú er búið að gera hann breiðari og betri til að aka eftir.  Þá var um leið gerður rampur niður af varnargarðinum niður að bílastæðinu við æfingavæðið til að komast niður af varnargarðinum.  Þetta mun gera skotmönnum kleift að stunda skotæfingar yfir vetrarmánuðina með minni fyrirhöfn og nú bíða skotmenn bara eftir því að skothúsið verði byggt. Þá er hægt að æfa allan veturinn.

Eftir endurbætur á varnargarðinum.
Varnargarðurinn hefur oft verið notaður sem vetrarvegur.

12.09.2016 22:57

Nýr félagsmaður

Nýlega gerðist Pétur Már Ólafsson félagsmaður í Skotfélagi Snæfellsness og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið.  Pétur hefur tekið þátt í nokkrum mótum á vegum félagsins og  er því mörgum kunnugur.

Pétur Már í miðri mynd.

12.09.2016 17:07

Fyrirkomulag rjúpnaveiða 2016

Umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir hefur ákveðið að fyrirkomulag rjúpnaveiða í ár verði með sama sniði og verið hefur undanfarin þrjú ár. Munu því veiðidagar rjúpu í ár verða tólf talsins sem skiptast á fjórar helgar á tímabilinu 28. október til 20. nóvember 2016.

 

Leyfileg heildarveiði á rjúpum er 40.000 rjúpur og miðað við fjölda veiðimanna síðasta ár, gera það 5-6 fugla á hvern veiðimann. Áfram verður sölubann á rjúpum og er Umhverfisstofnun falið að fylgja því eftir. Að óbreyttum forsendum er lagt til að þetta fyrirkomulag haldist a.m.k. næstu þrjú ár.

Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

 

VEIÐIDAGAR VERÐA EFTIRTALDIR:

Föstudaginn 28. október til sunnudags 30. október. (3 dagar)
Föstudaginn 4. nóvember til sunnudags 6. nóvember. (3 dagar)
Föstudaginn 11. nóvember til sunnudags 13. nóvember. (3 dagar)
Föstudaginn 18. nóvember til sunnudags 20. nóvember. (3 dagar)

Myndin er tekin af www.reykjavík.is

 

 

11.09.2016 10:42

Félagsgjöld

Búið er að senda út rukkanir fyrir félagsgjöldum fyrir þetta starfsár. Félagsgjaldið í ár verða 6.000 kr. vegna byggingar skothúss við riffilbrautina, en það var ákveðið á síðasta aðalfundi félagsins þann 26. maí síðastliðinn. Félagsgjaldið var áður 5.000 kr. og hafði verið óbreytt í 19 ár, en stefna félagsins er að hafa félagsgjöld alltaf í lágmarki. 

 

Búið er að teikna skothúsið og fá byggingaleyfi og reiknað er með að fyrsta skóflustungan verði tekin núna á næstu dögum.  Þetta er mjög kostnaðarsöm framkvæmd en mun bæta aðstöðu félagsmanna til skotæfinga til muna og lengja þann tíma sem hægt er að stunda skotæfingar.  

Við vonum að okkar félagsmenn sýni þessari hækku skilning og greiði félagsgjaldið fúslega, en eins og komið hefur fram oft áður fer öll innkoma af félagsgjöldum í rekstur og uppbyggingu á æfingasvæðinu sem félagsmenn njóta síðan góðs af.

 

06.09.2016 18:58

Stórskemmtilegt pæjumót

Það er búið að vera mikið á döfinni hjá Skotfélagi Snæfellsness undanfarnar vikur og hefur félagsmönnum um leið fjölgað mikið.  Fjöldi félagsmanna er nú í sögulegu hámarki og hefur kvennfólkinu í félaginu fjölgað sérstaklega mikið. Því var ákveðið að halda sérstakt könukvöld um miðjan síðasta mánuð og var öllum konum boðið að taka þátt.  Mikil ánægja var með kvöldið og því var ákveðið að fylgja þessari góðu mætingu eftir með því að setja upp konumót í riffilskotfimi, en þetta var fyrsta mótið á vegum félagsins sem einungis er ætlað konum og stelpum.  Mótið var haldið þann 31. ágúst og var mætingin mjög góð og tóku 15 konur þátt í mótinu og þar að auki mætti fjöldi fólks til að fylgjast með. Þar á meðal var tökulið frá sjónvarpsstöðinni N4 sem var mætt til að fanga stemmninguna og taka upp sjónvarpsefni.

 


Sett voru upp skotmörk á mismunandi færum, allt frá 25m upp í 100m og skotið var með 22. cal rifflum.  Á 25 metrum var skotmarkið mús, á 50 metrum var Lóa, á 75 metrum var refur og  rjúpa og á 100 metrum var gæs.  Flestar voru að taka þátt í sínu fyrsta móti og sumar jafnvel að skjóta úr skotvopni í fyrsta skipti og stóðu sig allar mjög vel.

Þegar allir riðlarnir höfðu lokið sér af voru 4 konur jafnar í efsta sæti og því þurfti að fara í bráðabana.  Eftir bráðabanann voru þrjár efstu ennþá jafnar og þurfti því að fara í annan bráðabana til að ná fram úrslitum.  Það fór svo þannig að Dagný Rút fékk 1. verðlaun, Mandy fékk 2. verðlaun og Heiða Lára fékk 3. verðlaun.  Auk verðlaunagripa fengu þær glaðninga frá Siflur hárgreiðslu- og förðunarstofu, Krums, Lyfju og Kaffi Emil.  Nýliðaverðlaunin fékk Dagný Rut, en hún var að keppa á sínu fyrsta móti.

Búið er að setja inn myndir frá mótinu í myndabankann hér á heimasíðu félagsins.  Hægt er að skoða myndirnar hér.

01.09.2016 19:06

Pæjumót

Í gær var Pæjumót Skotfélags Snæfellsness haldið í fyrsta skipti og heppnaðist mótið mjög vel. Þátttakan frábær og í þessu fysta móti fékk Dagný Rut Kjartansdóttir 1. verðlaun, Mandy Nachbar 2. verðlaun og Heiða Lára Guðmundsdóttir 3. verðlaun.  Þar að auki voru veitt verðlaun fyrir nýliða mótsins og hreppti Dagný Rut þau verðlaun einnig, en þetta var hennar fysta mót.

 

Í heildina stóðu allar sig mjög vel og var gaman að sjá hversu margar konur mættu.  Þetta var hin mesta skemmtun og er nokkuð ljóst að þetta mót sé komið til að vera.  Nánar verður fjallað um mótið og settar inn myndir fljótlega.

 
  • 1