Færslur: 2017 Febrúar

23.02.2017 01:36

Fyrsta skóflustungan tekin að langþráðu skothúsi

Í gær var fyrsta skóflustungan tekin að langþráðu skothúsi á skotæfingasvæði Skotfélags Snæfellsness.  Um er að ræða 75m2 skothús með 6 riffilborðum og gert er ráð fyrir því að hægt verði að skjóta úr standandi stöðu á milli borðanna.  Þá verður húsið einnig búið litlu herbergi fyrir mótsstjórn og dómara. 

 

Slíkt hús hefur verið í umræðunni í um 30 ár eða allt frá stofnun félagsins, en þá var hugmyndin að reisa skýli yfir núverandi útiborð.  Svo spannst umræðan yfir í húsbyggingu þegar önnur skotfélög hér á landi fóru að byggja slík hús, og nú er slíkt hús að verða að veruleika hjá Skotfélagi Snæfellsness.

Þorsteinn Björgvinsson heiðursfélagi Skotfélags Snæfellsness tók fyrstu skóflustunguna.

Þetta er búið að vera langt og strangt ferli sem tekið hefur um 5-6 ár í undirbúning, en stefnt er að því að ljúka við húsbygginguna og taka húsið formlega í notkun síðar á þessu 30 ára afmælisári félagsins.  Það er ljóst að með tilkomu skothússins mun aðstaða til skotæfinga hér á Snæfellsnesi aukast til muna og sá tími sem hægt er að stunda skotæfingar lengjast.

 

Ekki að búið að fjármagna húsbygginguna að fullu en vonandi mun það takast. Hægt verður að fylgjast með byggingaframkvæmdum og fréttum af húsbyggingunni hér á heimasíðu félagsins.

Teikning af skothúsinu.

22.02.2017 23:44

Stjórnarfundur

Í kvöld kom stjórn Skotfélags Snæfellsness saman til fundar í félagshúsnæði félagsins í Kolgrafafirði.  Umræðuefnið var aðallega fyrirhugað skothús sem stendur til að fara að byggja, en önnur mál voru líka tekin fyrir.

 

Búið er að fá leyfi fyrir húsbyggingunni, panta efni í sökklana og fá lánuð steypumót.  Fyrsta skóflustungan að húsinu var einmitt tekin í kvöld og einnig var skapalón af nýjum riffilborðum mátað.  Tekin var ákvörðun um að spegla húsinu frá upprunalegri hugmynd þannig að dómaraherbergið verði sunnan megin í húsinu og nær eldri riffilborðunum í stað þess að vera norðanmegin.  Þá færist inngönguhurðin í húsið einnig til suðurs og nær bílastæðunum.  Einnig var rætt um útfærslur á skotlúgunum, staðsetningu vegar og klæðningu á húsið.

 
 
 
 

Annað sem tekið var fyrir á fundinum var m.a. afmælisfögnuður félgsins, en í ár fagnar félagið 30 ára starfsafmæli, rætt var um innanhússaðstöðu fyrir skammbyssuskotfimi og ákveðið var að stefna að því að halda skotvopnasýningar í Snæfellsbæ og í Stykkishólmi í sumar, mögulega í tengslum við bæjarhátíðir sveitarfélaganna fáist það samþykkt.

21.02.2017 23:58

Skotvopna- og veiðikortanámskeið

Skotvopna- og veiðikortanámskeið verður haldið í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði dagana 11.-16. september 2017. 

 

Veiðikortanámskeiðið verður haldið mánudaginn 11. september frá kl. 17:00 til kl. 23:00.  Skotvopnanámskeiðið verður svo haldið föstudaginn 15. september frá kl. 18:00-22:00 og laugardaginn 16. september frá kl. 10:00-14:00. 

 

Að skriflegu prófi loknu verður svo haldið á æfingasvæði Skotfélags Snæfellsness þar sem verkleg kennsla fer fram.  Námskeiðið verður auglýst frekar þegar nær dregur.

Mynd frá skotvopnanámskeiði í júní 2015.

21.02.2017 01:32

Vor í lofti

Það má með sanni segja að þessi vetur hefur verið óvenju góður fyrir okkur skotfólk hér á Snæfellsnesinu hingað til, en á þessum árstíma er venjulega þungfært eða ófært inn að æfingasvæðinu okkar.  Núna er hinsvegar alveg snjólaust og minnir helst á góða vordaga.

 

Notkunin á æfingasvæðinu hefur verið eftir því, en það hefur verið mjög mikið notað undanfarna daga og vikur.  Riffilsvæðið er í stöðugri notkun, töluvert hefur verið skotið af leirdúfu og þeim fer ört fjölgandi sem leggja stund á skammbyssuskotfimi.  Það hefur því verið mjög mikið líf á æfingasvæðinu undanfarið og vonandi verður veðrið okkur hagstætt áfram næstu vikurnar, því nú stendur til að hefjast handa við að steypa sökkla fyrir nýju skothúsi.  Búið er að panta efni í sökklana og vonandi verður hægt að byrja á þeim fljótlega.

16.02.2017 23:16

Nýr félagsmaður

Í gær fjölgaði enn frekar í félaginu hjá okkur, en þá gerðist Valgeir Þór Magnússon félagsmaður í Skotfélagi Snæfellsness og bjóðum við hjartanlega velkominn í félagið.

  • 1