Færslur: 2017 Júní

29.06.2017 23:39

Skotvopnasýning

Nú er undirbúningur fyrir skotvopnasýninguna á loka metrunum.  Hún verður haldin næstkomandi laugardag í Ólafsvík en þá fer fram bæjarhátíðnni "Ólafsvíkurvaka 2017".  Sýningin verður frá kl. 13:00-17:00 og eru allir velkomnir.

 
 

27.06.2017 14:45

Skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn

Nú fer hver að verða síðastur til að ljúka skotprófi.  Jón Pétur (863 1718) getur tekið menn í próf í kvöld þriðjudag um kl. 21:00 og Unnsteinn (897 6830) verður með próf annað kvöld kl. 22. Þetta verða sennileg síðustu prófin.

Myndin er tekin af heimasíðu UST.

27.06.2017 14:18

Skotvopnasýning

Nú er verið að leggja lokahönd á undirbúning fyrir skotvopnasýninguna sem haldin verður í Ólafsvík næstkomandi laugardag.  Félagsmenn sem hafa áhuga á að taka þátt í sýningunni með okkur geta haft samband við okkur á skotgrund@gmail.com eða í síma 863 1718.  Viðkomandi einstaklingar þurfa ekki endilega að leggja eitthvað til í sýninguna heldur er öllum velkomið að vera með okkur að sýna og spjalla við fólk.

Frá skotvopnasýninngu árið 2013.

25.06.2017 21:03

138 ára gamall riffill

Í gær var skemmtileg uppákoma á æfingasvæði félagsins þegar Steini gun mætti með 138 ára gamlan riffil og hleypti af einu skoti.  Um er að ræða 1879 módelið af Remington rolling block og sennilega hefur ekki verið skotið úr honum í einhver 100 ár.  Þetta er 50.calibera riffill sem Steini eignaðist sumarið 2013 og er búinn að vera að gera upp.  Hann steypti í hann kúlur og hlóð eitt skothylki til að prófa.  Það lukkaðist líka svona vel að nú er Steini farinn að hlaða fleiri skot.  Það má því búast við því að þessi riffill verði notaður á æfingasvæðin aftur mjög fljótlega.

Þessi viðburður var alveg til að toppa frábært Jónsmessukvöld.

 

25.06.2017 08:52

Jónsmessuskemmtun

Það var mikið fjör á æfingasvæðinu nýliðna nótt, en þá hittust félagsmenn til að fagna sumrinu og skjóta saman. Það var mikið stuð og síðustu menn voru að skríða heim á fjórða tímanum í nótt.  Settar verða inn myndir í albúmið mjög fljótlega.

 

22.06.2017 15:22

Jónsmessunótt

Á laugardaginn ætlum við að vera með Jónsmessuskemmtun á æfingasvæðinu.  Það verður engin formleg dagskrá heldur ætlum við hittast kl. 21:00 og viðra það sem til er í byssuskápunum.  Hver og einn kemur með það sem honum langar til og svo verður skotið langt fram á nótt.  Markmið kvöldsins er bara að hittast og skjóta og hafa gaman. 

Frá skemmtikvöldinu á síðasta ári.

20.06.2017 10:58

Skotvopnasýning

Við erum að undirbúa skotvopnasýningu sem haldin verður í Ólafsvík laugardaginn 1. júlí 2017.  Þá helgi fer fram bæjarhátíðin "Ólafsvíkurvaka" í Ólafsvík og verðum við með sýningu á hátíðarsvæðinu frá kl. 13:00-17:00.  Félagsmenn sem hafa áhuga á að taka þátt í sýningunni með okkur geta haft samband við Jón Pétur í síma 863 1718 eða sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com

Frá skotvopnasýningu sem haldin var í Grundarfirði sumarið 2013.

18.06.2017 10:11

Riffilmót - 17. júní

Í gær fór fram árlegt 17. júní mót félagsins í riffilskotfimi á æfingasvæði félagsins. Þátttakan var mjög góð og fengum við góða gesti í heimsókn frá Skotfélagin Markviss frá Blönduósi og Skotfélagi Vesturlands úr Borgarnesi.  Keppt var í tveimur flokkum, annars vegar 22. cal flokki á 50m færi og hins vegar með stærri veiðirifflum á 100m færi. 

 

Keppnin var mjög jöfn og spennandi og munaði litlu á efstu mönnum.  Hér fyrir neðan má sjá verðlaunahafa mótsins.

22.cal flokkur KK - 50m        Jón 2.sæti - Pétur 1.sæti - Guðmundur 3.sæti

 

22.cal flokkur KVK - 50m        Dagný 2.sæti - Heiða Lára 1.sæti - Mandy 3.sæti

 

Veiðirifflar - 100m        Unnsteinn 2.sæti - Guðmundur 1.sæti - Mandy 3.sæti

17.06.2017 08:24

Riffilmót í dag 17. júní

Í dag fer árlegt 17. júní mót félagsins í riffilskotfimi fram á æfingasvæði félagsins.  18 keppendur eru skráðir til leiks í 22.cal flokkinum og 10 manns í stærri flokkinum.  Mótið hefst stundvíslega kl. 17:00 og eru keppendur hvattir til að mæta tímanlega.

 

Öllum er velkomið að mæta og fylgjast með.

 

14.06.2017 12:21

Riffilmót (opið mót)

Á laugardaginn verður árlegt 17.júní mót í riffilskotfimi haldið á æfingasvæði félgasins.  Keppt verður í tveimur flokkum, 22. cal á 50m færi og svo með veiðirifflum á 100m færi.  Hægt er að keppa í báðum flokkum eða bara öðrum hvorum. 

 

Hægt er að skrá sig í mótið hjá Heiðu Láru í síma 848 4250 eða hjá Jóni Pétri í síma 863 1718.  Einnig er hægt að senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com, en skráningu lýkur föstudaginn 16. júní kl. 21:00.  Mótsgjaldið verður 2.000 kr.

 

14.06.2017 12:18

Skothúsið

Í gær var klárað að rífa frá og ganga frá mótunum. Við þökkum Gráborg ehf. fyrir afnotin af mótunum, Djúpakletti ehf. fyrir afnot af flatvagni og Grun hf. fyrir afnot af lyftara. Og svo auðvitað þakkir til allra sjálfboðaliða.

 

Næst er það bara að fylla inn í sökkulinn og steypa gólfplötuna. Almenna umhverfisþjónustan ehf. ætlar að aðstoða okkur með það, en þeir hafa verið ótrúlega liðlegir að aðstoða okkur þegar á hefur þurft að halda.

 

13.06.2017 00:34

Skothúsið

Í dag var klárað að steypa stoðvegginn fyrir framan skothúsið.  Nú á bara eftir að steypa gólfplötuna og þá er steypuvinnu lokið í bili.

 

Við ætlum að hittast á morgun þriðjudag kl. 16:30 og rífa frá og ganga frá mótunum.  Margar hendur vinna létt verk og vonandi sjáum við sem flesta. 

 

Nokkrum myndum hefur verið bætt við í myndaalbúmið.

 

11.06.2017 11:43

Sjómannadagsmótið

Árlegt sjómannadagsmót Skotfélags Snæfellsness var haldið síðastliðinn fimmtudag á æfingasvæði félagsins.  Þetta var í fimmta skipti sem þetta mót var haldið í samvinnu við sjómannadagsráð og heppnaðist mótið ótrúlega vel.  Lið sjómanna fór með sigur af hólmi þetta árið og stöðvaði þar með sigurgöngu Landsliðsins sem unnið hafði síðastliðin tvö ár.  Sjómenn leiða því keppnina núna 3-2 og fengu farandbikarinn afhentann við mikinn fögnuð.

 

Einnig voru veitt verðaun fyrir bestan árangur einstaklina og í konuflokkinum sigraði Mandy, í öðru sæti var Karen Ósk og í þriðja sæti var Aðalheiður Lára.  Í karlaflokkinum var keppnin mjög jöfn og spennandi og munaði aðeins einu stigi á milli tveggja efstu manna. Þar tók Unnsteinn fyrsta sætið, Gísli Valur annað sætið og Guðmundur Andri tók þriðja sætið eftir spennandi bráðabana um verðalaunasæti.

 
 

 

Að móti loknu var haldin grillveisla og einnig var haldin keppni í riffilskotfimi með 22.cal rifflum og voru aukaverðlaun í boði.  Öllum var boðið að taka þátt, bæði keppendum og áhorfendum en keppnin var fólgin í því að hitta skotmörk á sem skemmstum tíma.  Svo fór að Guðmundur Andri náði besta tímanum og fékk að launum gjafakort frá veitingahúsinu "59 Bistró bar" að verðmæti 10.000 kr.

 

Búið er að setja inn fullt af myndum í myndaalbúmið hér á heimasíðu félagsins.

 

 

09.06.2017 00:11

Vel heppnað Sjómannadagsmót

Árlegt Sjómannadagsmót Skotfélags Snæfellsness fór fram í kvöld á æfingasvæði félagsins.  Lið sjómanna sigraði í ár og leiðir nú keppnina 3-2.  Fjallað verður nánar um mótið.

Lið sjómanna fagnar sigrinum.  Á myndina vantar Júlíus Freysson.
 

07.06.2017 03:00

Sjómannadagsmótið - skráningu að ljúka

Árlegt sjómannadagsmót Skotfélags Snæfellsness (innanfélagsmót) fer fram eins og áður hefur komið fram fimmtudaginn 8. júní.  Það er mikilvægt að menn skrái sig í mótið fyrirfram og mæti á réttum tíma svo að riðlarnir standist.  Sjómenn leggja sín stig saman á móti liði landsliðsins.  Einnig verða veitt verða verðlaun fyrir bestan árangur einstaklinga í karla- og konuflokki.

 

Hér koma nokkrir mikilvægir punktar:

#  Skráningu lýkur miðvikudaginn 7. júní kl. 21:00

#  Mæting kl. 16:30 og mótið hefst stundvíslega kl. 17:00

#  Mótsgjald er 2.000 kr.

#  Það verður boðið upp á grillmat á staðnum.

#  Öllum er velkomið að mæta og fylgjast með og hvetja sitt lið.

 

Keppt verður í járnfrúnni sem aukagrein og verður aukavinningur í boði 59 Bistró bar.  Öllum er velkomið að taka þátt í þeirri grein, bæði keppendum og áhorfendum.

 
Þetta er "Járnfrúin".  Hún verður á sínum stað og geta allir tekið þátt í áskorendakeppni.