Færslur: 2017 Júlí

31.07.2017 00:30

Refamót - opið mót

Stefnt er að því að halda árlegt refamót eftir tvær vikur eða helgina 12.-13. ágúst.  Keppt verður eftir sama fyrirkomulagi og fyrri ár en nánari tímasetning á mótinu verður auglýst síðar.  Það verður annað hvort laugardaginn 12. ágúst eða sunnudaginn 13. ágúst.

 

26.07.2017 08:40

Ungmennakvöld

Í gær fór fram "ungmennakvöld" á æfingasvæði félagsins þar sem allir gátu fengið að prófa að skjóta og það var alveg hrikalega gaman.  Upprunalega ætluðum við að vera í tvo klukkutíma, en þar sem veðrið var alveg ómótstæðilegt og þátttakan góð þá var ekki hægt að hætta.  Þetta heppnaðist alveg rosalega vel og var ekki annað að sjá en að allir hafi farið heim með bros á vör.  Settar verða inn myndir frá viðburðinum í dag.

 

22.07.2017 00:12

Ungmennakvöld - Þriðjudaginn kl. 19:00-21:00

Næstu helgi fer fram bæjarhátíðin "Á góðri stund" í Grundarfirði og að því tilefni ætlum við að vera með ungmennakvöld á æfingasvæði félagsins.  Dagskrá hátíðarinnar byrjar á mánudaginn og stigmagnast svo alla vikuna.  Skotfélag Snæfellsness vill takan virkan þátt og leggja sitt af mörkum til samfélagsins og vorum við t.d. með skotvopnasýningu í byrjun mánaðarins  þegar bæjarhátíðin "Ólafsvíkurvaka 2017" fór fram í Ólafsvík. 

 

Að þessu sinni ætlum við að vera með ungmennakvöld á æfingasvæði félagsins, þar sem ungmennum samfélagsins verður boðið að prófa að skjóta og kynna sér starfsemi félagsins. "Ungmenni" geta verið á öllum aldri en aldurstakmark miðast við 15 ára og eldri.  Það verður enginn aðgangseyrir og foreldrar mega gjarnan koma með.

 

 

16.07.2017 22:04

Vel heppnað riffilmót

Í dag fór fram riffilmót með veiðirifflum á æfingasvæði félagsins.  Það voru svolítið krefjandi aðstæður í dag með hliðarvind, en annars flott veður.  Þátttakan í mótinu var góð og skotið var bæði á 100m og 200m.

 

Í flokki kvenna sigraði Dagný Rut, í Öðru sæti var Mandy og í þriðja sæti var Heiða Lára.  Í flokki karla Sigraði Guðmundur Andri, í öðru sæti var Jón Pétur og Unnsteinn í því þriðja.  Settar verða inn myndir frá mótinu síðar.

 
 

12.07.2017 10:37

Riffilmót - Innanfélagsmót

Næstkomandi sunnudag verður haldið innanfélagsmót í riffilskotfimi.  Mótið byrjar kl. 12:00 og keppt verður eftir "hunter class" fyrirkomulagi.  Skráningu lýkur kl. 10:00 sunnudaginn 16. júlí.

 

Mótsgjald verður 1.000 kr. og skráning fer fram hjá Heiðu Láru í síma 848 4250.  Veitt verða verðlaun í bæði karla- og konuflokki.  Allar nánari upplýsingar hjá Heiðu Láru.

 

04.07.2017 00:07

Skotvopnasýningin

Skotfélag Snæfellsness var með skotvopnasýningu síðastliðna helgi í Ólafsvík, en þá fór fram bæjarhátíðin "Ólafsvíkurvaka 2017".  Þar voru til sýnis skotvopn af öllum gerðum, búnaður fyrir íþróttaskotfimi, skotveiðibúnaður o.fl. ásamt kynningu á félaginu okkar.  Sýningin var mjög vel sótt og fengum við mjög góð viðbrögð við sýningunni. 

Sýningin heppnaðist ótrúlega vel og var hin mesta skemmtun, bæði fyrir sýningargesti og ekki síður fyrir þá félagsmenn sem stóðu að sýningunni.  Hægt er að skoða myndir frá sýningunni í myndaalbúminu.

 
  • 1