Færslur: 2017 Ágúst

25.08.2017 22:58

Konukvöld

Í gær var haldið konukvöld á æfingasvæði félagsins þar sem öllum áhugasömum var boðið að fræðast um skotvopn og skotfimi og einnig boðið að prófa að skjóta úr rifflum, haglabyssum og skammbyssum.  Þetta er í annað skipti sem Skotfélag Snæfellsness skipuleggur slíkt konukvöld, en það var svo mikil ánægja með konukvöldið á síðasta ári að ákveðið var að halda slíkt aftur á þessu ári.

Mætingin var mjög góð og var ekki annað að sjá en að allir hafi verið sáttir eftir kvöldið, bæði þátttakendur og leiðbeinendur.  Nú þegar er farið að ræða um að halda annað konukvöld að ári og er þessi viðburður því líklega kominn til að vera.  Við þökkum öllum þeim sem mættu kærlega fyrir samveruna.

 
 

 

22.08.2017 21:29

Konukvöld

Næstkomandi fimmtudag verður konukvöld á æfingasvæði Skotfélags Snæfellsness kl. 19:00. Þá ætlum við að bjóða öllum konum og stelpum sem náð hafa 15 ára aldri að prófa að skjóta og kynna sér þessa skemmtilegu íþrótt sem skotfimin er.

 

Þetta tókst alveg rosalega vel á síðasta ári og því var ákveðið að halda annað konukvöld í ár. Við viljum endilega sjá ykkur sem flestar, bæði vanar og algjöra byrjendur. Enginn aðgangseyrir og engar skuldbindingar. Bara hafa gaman. Hér er hægt að skoða myndir frá síðasta konukvöldi hér.

 
 

15.08.2017 09:28

Skotvopna- og veiðikortanámskeið

Skotvopna- og veiðikortanámskeið verður haldið í Grundarfirði dagana 11. september og 15.-16. september.  Skráning fer fram á www.veidikort.is.

 

Námskeiðinu er skipt upp í tvo hluta.  Annars vegar veiðikortanámskeið og hisvegar skotvopnanámskeið.  Hægt er að taka bæði námskeiðin eða bara annað hvort.  Veiðikortanámskeiðið kostar 14.900 kr. og skotvopnanámskeiðið kostar 27.000 kr.   Við bendum áhugasömum á að sum verkalýðsfélög veita námskeiðsstyrki.

 

Hægt er að fá nánari upplýsingar á www.veidikort.is eða senda fyrirspurn á skotgrund@gmail.com.  Einnig er hægt að hafa samband við Jón Pétur í síma 863 1718.

 

13.08.2017 16:21

Refamót 2017

Árlegt Refamót Skotfélags Snæfellsness fór fram í gær á æfingasvæði félagsins. 16 keppendur voru skráðir til leiks og það var sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu margir gestakeppendur mættu, en 9 keppendur af 16 voru utanfélagsmenn. Við þökkum þeim öllum kærlega fyrir komuna og vonumst til að hittast fljótt aftur.

 

Úrslit mótsins fóru á þann veg að Jens Jónsson varð í fyrsta sæti, annað sætið tók Stefán Eggert Jónsson og í þriðja sæti var Guðmundur Andri Kjartansson.

Við stefnum að sjálfsögðu á að halda annað refamót á næsta ári og þá verðum við vonandi búin að taka í notkun nýja aðstöðu til að skjóta úr liggjandi stöðu og nýja riffilbraut.

Hægt er að skoða myndir frá mótinu hér.

Frá vinstri: Stefán Eggert Jónsson, Jens Jónsson og Guðmundur Andri Kjartansson.

Þátttakendur og gestir mótsins. Á myndina vantar Heiðu Láru og Heimi Jóns.
 

12.08.2017 10:38

Refamót í dag

Árlegt Refamót Skotfélags Snæfellsness verður haldið í dag laugardag og hefst mótið kl. 12:00.  Veðurspáin er fín og öllum er velkomið að koma og fylgjast með. Settar verða inn fréttir af mótinu að móti loknu.

Mynd frá Refamóti Skotfélags Snæfellsness árið 2015.

12.08.2017 10:25

Dagný Rut fékk bronsverðlaun á Akureyri

Síðastliðinn fimmtudag fór fram Akureyrarmeistaramót í BR 50 á skotæfingasvæði Skotfélags Akureyrar.  11 keppendur voru mættir til leiks og þar af 3 frá Skotfélagi Snæfellsness, en það voru þau Dagný Rut Kjartansdóttir, Eymar Eyjólfsson og Eyjólfur Sigurðsson.  Dagný Rut gerði sér lítið fyrir náði í bronsverðlaun, en hér fyrir neðan má sjá mynd af verðlaunahöfunum.

Myndin er tekin af facebooksíðu Skotfélags Akureyrar.  Frá vinstri: Wimol Sudee, Kristbjörn Tryggvason og Dagný Rut Kjartansdóttir.

08.08.2017 15:27

Refamót Skotfélags Snæfellsness - opið mót

Refamót Skotfélags Snæfellsness verður haldið á æfingasvæði félagsins næstkomandi laugardag kl. 12:00.  Mótið er orðið að árlegum viðburði hjá Skotfélagi Snæfellsness, en hugmyndin að mótinu er fengin frá Skotfélagi Austurlands.  Mótið hefst kl. 12:00 en ætlast er til þess að keppendur séu mættir um kl. 11:30 svo mótið geti hafist á réttum tíma.

 

Keppt verður eftir sama fyrirkomulagi og á síðasta ári þar sem skotin eru 10 skot af mismunandi færum allt frá 100m að 500m.  Mótsgjaldið verður 2.000 kr. og innifalið í verðinu verða léttar veitingar.  Skráning í mótið  er hjá Heiðu Láru í síma 848 4250.

 

Hægt er að skoða myndir frá síðasta refamóti hér.

 

 
  • 1