Færslur: 2018 Mars

29.03.2018 08:52

Skotsvæðið lokað í dag skírdag

Við þurfum því miður að loka skotsvæðinu í dag Skírdag vegna framkvæmda.  Við biðjumst velvirðingar á því.  Svæðið verður svo opnað strax aftur að framkvæmdum loknum.

28.03.2018 18:38

Vinnudagur á morgun fimmtudag

Ágætu félagsmenn og aðrir.  Á morgun fimmtudag ætlum við að hittast á skotsvæðinu og fylla í grunninn á skothúsinu. Við ætlum að byrja kl. 10:00 og verkefnin verða fjölbreytt s.s. að jafna undir, leggja frárennslisrör, þjappa, setja einangrun undir plötuna, járnabinda og hella upp á kaffi. Við vonum því að sem flestir geti mætt og aðstoðað okkur. Allir sjálfboðaliðar velkomnir, vonandi sjáum við ykkur sem flest.

 

27.03.2018 09:26

Skil á veiðiskýrslu

Við viljum minna veiðimenn á að frestur til að skila inn veiðiskýrslu rennur út þann 1. apríl n.k.  Skotveiðimönnum ber að skila veiðiskýrslum á skilavef Umhverfisstofnunar einu sinni á ári óháð því hvort eitthvað var veitt eða ekki. Ef veiðiskýrslu er skilað inn eftir 1. apríl hækkar gjaldið fyrir veiðikortið. Því hvetjum við veiðimenn til þess að skila veiðiskýrslunum inn sem fyrst.

Myndin er tekin af: http://www.offthegridnews.com/

25.03.2018 08:30

Stjórnarfundur

Í gær var haldinn stjórnarfundur þar sem farið var yfir starfsemi félagsins og næstu vikur voru skipulagðar.  Fundurinn var settur kl. 17:20 og fundinn sátu Birgir Guðmundsson, Aðalheiður Lára Guðumdsdóttir, Þorsteinn Björgvinsson, Jón Einar Rafnsson og Jón Pétur Pétursson sem ritar fundargerð.  Þar að auki sátu fundinn Unnsteinn Guðmundsson úr vallarnefnd og Samúel Pétur Birgisson úr mótanefnd.

 

FJÁRMÁL:

Byrjað var á því að fara yfir peningamál og fór Heiða Lára gjaldkeri félagsins yfir stöðu reikninga og gerði grein fyrir því sem greitt hafi verið á síðustu vikum.  Þar kom fram að stærstu útgjöldin síðustu vikurnar hafi verið kaup á stáli í kúlugildrurnar fyrir innanhúss skammbyssuaðstöðuna og einnig lóðarleiga fyrir Hrafnkelsstaðaland (æfingasvæði félagsins).

 

SKOTHÚSIÐ:

Næst var rætt um skothúsið og fór Jón Pétur yfir þau tilboð sem fengin hafa verið í byggingarefni o.fl.  Fram kom að okkur vantar ennþá smá penig uppá til að geta pantað allt byggingarefnið og því þarf að leita leiða til að fjármagna efniskaupin.  Ákveðið var að Jón Pétur panti skotlúgurnar og útihurðina hið snarasta svo það verði tilbúið fyrir vorið.  Ákveðið var að útihurðin skuli opnast inn, en okkur hafði borist nokkuð hagstætt tilboð í hurð sem opnast út en hún var ekki talin henta eins vel.

 

Næst á dagskrá er að fylla í grunninn og steypa gólfplötuna og er stefnt að því að fara í það eins fljótt og hægt er.  Jón Pétur tók að sér að tala við verktaka um fyllinguna og ganga frá kaupum á frárennslislögnum og niðurföllum í gólfið.  Einnig mun Jón Pétur vera í sambandi við byggingarfulltrúa um úttektir o.fl.  Þegar kemur að því að reisa húsið ætlum við að reyna að fá sem flesta félagsmenn og sjálfboðaliða til að aðstoða við bygginguna og reyna að fá 2-3 smiði til að stjórna framkvæmdinni.  Ætlunin er að vera búin að setja saman sperrur og annað áður en við reisum húsið til að flýta fyrir.

 

STYRKIR:

Rætt var um styrkumsóknir og fór Jón Pétur yfir það að gífurlega mikil vinna hafi verið lögð í styrkumsóknir og leitað hafi verið víða eftir fjárstyrkjum fyrir skothúsinu en við fengum lítil sem engin viðbrögð við þeim.  Fram kom að Grundarfjarðarbær hafi styrkt félagið um 100.000 kr. til efniskaupa í lok síðasta árs. 

 

Einnig kom fram að sótt hafi verið um styrki í opinbera sjóði til kaupa á nýjum leirdúfukastvélum og að Grundarfjarðarbær hafi gefið velyrði fyrir því að styrkja félagið til kaupa á nýjum leirdúfukastvélum.

 

LEIRDÚFUKASTVÉLAR:

Félagið stefnir að því að reyna að kaupa nýjar leirdúfukastvélar fyrir æfingasvæði félagsins, en núverandi kastvélar voru keyptar notaðar frá Skotfélagi Reykjavíkur árið 1988.  Unnsteinn tók að sér að kanna kostnað og leita tilboða í nýjar vélar og stefnt er að því að reyna að kaupa nýjar vélar í sumar.  Ákveðið var að gömlu vélarnar verði síðan auglýstar til sölu fyrir sanngjarnt verð.  Einnig var rætt um það hvort raunhæft sé að kaupa líka trap-vélar og var ákveðið að skoða kostnað við það, en ólíklegt er að við náum að fjármagna það í sumar.

 

LEIRDÚFUSKOTVELLIR:

Rætt var um framtíðarplön varðandi leirdúfuskotvelli og voru ýmsar hugmyndir ræddar.  T.d. var rætt um það hvort byggja ætti upp nýjan leirdúfukastvöll utan um nýju kastvélarnar og vera með tvo "skeet velli".  Einnig var rætt um það hvort snúa ætti núverandi "skeet velli" út fjörðinn og vera bara með einn "skeet völl" og byggja upp "trapvöll" með honum.

Einnig kom félagshúsnæðið til umræðu. Ljóst er að félagsmenn eru mjög stórhuga hvað framtíðina varðar en ákveðið var að bíða með frekari skipulagsvinnu og hönnun þar til búið er að ljúka við byggingu skothússins.  Að því loknu verður hægt að fara að huga að uppbyggingu nýrra leirdúfuskotvalla og byggingu nýs félagsheimilis.  Ákveðið var því að skipta út gömlu kastvélunum og nýju vélarnar verða notaðar á núverandi skotvelli.

 

SKAMMBYSSUAÐSTAÐA:

Unnið er að því að koma upp innanhúss skotaðstöðu í samkomuhúsi Grundarfjarðar.  Jón Einar hefur unnið að því að smíða kúlugildrur og gerði hann fundarmönnum grein fyrir því að tvær gildrur af þremur eru tilbúnar og að hann sé að vinna að því að setja þá síðustu saman.  Fara þarf í smá smíðavinnu og breytingarvinnu í samkomuhúsinu sjálfu til að koma gildrunum fyrir og ákveðið var að hittast á mánudagskvöld og hefja þá vinnu.  Stefnt er að því að taka aðstöðuna í notkun um páskana.

 

KONUMÓT Í LEIRDÚFUSKOTFIMI:

Jón Pétur gerði fundarmönnum grein fyrir því að Dagný frá Skotfélagi Reykjavíkur hafi haft samband og óskað eftir því að árlegt Konumót verði haldið á æfingasvæðinu okkar í byrjun maí.  Fundarmenn tóku allir mjög vel í það og lístu yfir mikilli ánægju með það.  Jóni Pétri var falið að hafa samband við Dagnýju.  Vallarnefndin ætlar að sjá til þess að völlurinn verði í lagi, Steini gun og Unnsteinn ætla að athuga með vatnsdæluna og tankinn eftir veturinn og koma salernisaðstöðunni í lag.  Heiða Lára ætlar að panta leirdúfur fyrir mótið og sumarið.  Birgir ætlar að fara með nýju gluggana og annað byggingarefni sem á að fara í skothúsið í geymslu, en það hefur hingað til verið geymt í félagshúsnæðinu.  Jón Pétur ætlar að ræða við sveitarfélagið um að fá lánaðar fánaborgir og Jón Einar ætlar að fara að huga að smíðum á eigin fánaborgum.  Jón Pétur ætlar einnig að athuga með málningu á hús félagsins, en það sér mikið á byggingum félagsins eftir veturinn.

 

FÁNAR OG BORÐFÁNAR:

Rætt var um það hvort félagið þyrfti að fara að endurnýja fána félagsins, kaupa hátíðarfána og borðfána.  Ákveðið var að Steini gun myndi kanna kostnað við kaup á borðfánum/veifum en ákveðið var að bíða með frekari kaup á fánum þar til búið er að byggja skothúsið og fjármagna það. 

 

UNGLINGANÁMSKEIÐ:

Stjórn félagsins er mjög áhugasöm um að halda námskeið fyrir unglinga í skotfimi.  Hugmyndir eru um að bjóða elstu bekkjum Grunnskólanna eða framhaldsskólanemum á reglubundin námskeið.  Ákveðið var að halda "Ungmennakvöld" í lok júlí í aðdraganda bæjarhátíðarinnar "Á góðri stund" í Grundarirði eins og við gerðum á síðasta ári.  Svo er stefnt að því að halda ítarlegri námskeið í haust í samstarfi við skóla eða félagsmiðstöðvar.

 

ÍÞRÓTTADAGUR:

Jón Pétur sagði frá því að Héraðssamband Snæfells- og Hnappadalssýslu (HSH) er að skipuleggja íþróttadaga þar sem íþréttafélög innan HSH halda kynningardag þar sem fólk getur fengið að reyna fyrir sér í hinum ýmsu íþróttum.  Lagt var til að Skotfélag Snæfellsness verði með íþróttadag þann 22. júní og ætlar Jón Pétur að bera þessa tillögu undir formann HSH.

 

ANNAÐ:

Undir liðnum önnur mál var rætt um árlegt páskamót í leirdúfuskotfimi og ákveðið var að sleppa í því í ár og reyna að leggja áherslu á að taka innanhúss skotaðstöðuna í notkun.  Einnig var rætt um pöntun á fatnaði merktum félaginu og Jón Pétur sagði fundarmönnum frá því að hann hafi rætt við Vegagerðina og bæjarstjóra Grundarfjarðarbæjar um að sett verði upp skilti við þjóðveginn sem gefi til kynna hvar skotæfingasvæðið okkar er.  Vegagerðin er búin að gefa grænt ljós á það og Grundarfjarðarbær ætlar að aðstoða okkur við kaup á skiltinu.

 

Annað var ekki tekið fyrir og var fundi slitið kl. 19:28.

 

 

 

  • 1