Færslur: 2018 Apríl

30.04.2018 03:40

Mikið um að vera

Þá má segja að það sé í mörg horn að líta þessa dagana.  Kúlugildrurnar sem smíðaðar voru fyrir innanhúss skammbyssuaðstöðuna eru tilbúnar og næsta verk er að setja þær upp og prófa.  Unnið er að því að steypa  borðplötur í nýja skothúsið og nú eru tvær borðplötur tilbúnar af sex.  Þá er búið að panta skotlúgur og útihurð í skothúsið og er sú sending væntanlegt á næstunni.

 

Unnsteinn og Steini hafa undanfarna daga unnið að því að gera æfingasvæðið klárt fyrir sumarið og hafa þeir fengið gott fólk með sér í lið til þess.  Búið er að fara með vatnstanka inn á svæði og græja vatnsdæluna o.fl.  Þá er einnig búið að fara yfir leirdúfukastvélarnar og kaupa fullt af leirdúfum.

 

Verið er að ganga frá kaupum á byggingarefni í skothúsið og vonandi verður hægt að byrja að reisa það fljótlega.  Þá er búið að fá tilboð í nýjar leirdúfukastvélar og ef allt gengur upp verður vonandi hægt að festa kaup á nýjum kastvélum í sumar.  Við  erum að vinna í að klára að fjármagna þær. 

 

Rukkun fyrir félagsgjöldum verður send út á næstu dögum og við vonum að sem flestir sjái sér fært að greiða félagsgjöldin fúslega og á réttum tíma.  Þá ætti okkur að takast að klára að setja upp innanhúss skammbyssuaðstöðu á þessu ári, ljúka við skothúsið við riffilbrautina og kaupa nýjar leirdúfukastvélar.

 

Annað sem er á döfinni er konumót í leirdúfuskotfimi næstu helgi, aðalfundur verður haldinn í byrjun maí og svo verður árlegt Sjómannadagsmót í byrjun júní.   Meira síðar....

20.04.2018 01:59

Borðplötur í skothúsið

Nú erum við byrjuð að steypa borðplötur í nýja skothúsið.  Steypa þarf 6 borðplötur og ætlum við að reyna að vera búin að koma þeim fyrir inni í húsinu áður en við reisum húsið.  Meira síðar.....

 

12.04.2018 00:19

Skotlúgur og útihurð í skothúsið

Í gær var gengið frá kaupum á 11 skotlúgum í skothúsið og útihurð.  Útihurðin verður af breiðari gerðinni til að gera ráð fyrir hjólastólaaðgengi í húsið.  Meira síðar.......

 

09.04.2018 10:11

Æfingasvæðið mikið notað um helgina

Það var vægast sagt alveg frábært veður hér á Snæfellsnesinu um nýliðna helgi og notaði fólk góða veðrið fyrir hina ýmsu útivist.  Mjög mikið var skotið á æfingasvæðinu okkar enda voru aðstæður hinar bestu miðað við árstíma.   Þegar undirritaður átti leið um æfingasvæðið síðastliðinn laugardag hitti hann tvo heiðursmenn sem komnir voru úr Borgarnesi til að skjóta.  Alltaf gaman að hitta þá.

 

Nú er spáð rigningu næstu daga og þá ætti að taka upp snjóinn og við ættum því að geta farið að einbeita okkur að skothúsinu aftur.

Mynd frá æfingasvæðinu 7. apríl 2018.

08.04.2018 08:52

Frestun á steypu vegna tíðarfars

Við höfum enn ekki náð að steypa gólfplötuna í skothúsinu vegna tíðarfars, en fljótlega eftir að búið var að gera klárt fyrir steypu kyngdi niður snjó.  Við gerðum klárt fyrir steypu á skírdag og á páskadag var kominn ca. 20-25 cm djúpur snjór.

Þessar myndir voru teknar í gær 7. apríl.
 

Þetta er svipað og gerðist á síðasta ári þegar við tókum fyrstu skóflustunguna að nýja skothúsinu, þá var búið að vera fínasta veður svo vikum skipti, en rétt á meðan við tókum fyrstu skóflustunguna byrjaði að snjóa og allt fór á kaf í snjó.

Það er þó útlit fyrir að snjóinn taki upp núna eftir helgi og vonandi getum við steypt gólfplötuna fljótlega.

Þessi mynd var tekin 22. febrúar á síðasta ári.  Það byrjaði að snjóa á meðan fyrsta skóflustungan var tekin.

05.04.2018 17:10

Kynning

Síðastliðinn þriðjudag var fulltrúa Skotfélags Snæfellsness boðið að sitja fund hjá Lionsklúbbi Nesþinga og flytja þar erindi um Skotfélag Snæfellsess.  Flutti hann þar glærukynningu um skotfélagið okkar sem er að stækka og stækka. 

                            
 

 

Fyrst var farið lauslega yfir sögu Skotfélags Snæfellsness og hvenær félagið var stofnað.  Síðan var farið yfir starfsemi félagsins í dag og að lokum var farið yfir þá spennandi tíma sem eru framundan hjá okkur og framtíðaráform félagsins.  Markmið kynningarinnar var aðallega að menn gætu fengið innsýn inn í það frábæra starf sem á sér stað hjá félaginu okkar og þá miklu uppbyggingu sem er framundan og síðast en ekki síst að eiga skemmtilega kvöldstund með þessum flotta hópi. 

 

Okkar fulltrúi fékk frábærar móttökur og sendir hann Lionsklúbbi Nesþinga bestu þakkir fyrir frábært kvöld.  Að lokum var rætt um það að Lionskúbbur Nesþinga muni heimsækja okkur í vor og reyna fyrir sér í skotfimi.

Hér er hægt að skoða facebook síðu Lionsklúbbs Nesþinga.

 

 

01.04.2018 03:12

Skothúsið - fyllt í grunninn

Síðastliðinn fimmtudag kom hópur sjálfboðaliða saman á skotæfingasvæðinu til þess að vinna í sökklinum fyrir skothúsið.  Mætingin var alveg ótrúlega góð og veðrið var líka alveg hrikalega gott, alveg logn og sól.   Vignir kom á gröfu frá Almennu umhverfisþjónustunni ehf. og mokaði efni í grunninn.  Hinir sáu um að leggja lagnir, moka til efni og þjappa, einangra og járnabinda svo eitthvað sé nefnt. 

 

Þetta var alveg frábær dagur og á nokkrum klukkutímum náðist að gera klárt fyrir steypu og nú bíðum við bara eftir hagstæðum veðurskilyrðum til að geta steypt gólfplötuna.  Við erum alveg ótrúlega heppin með það hvað félagsmenn eru tilbúnir að leggja á sig mikla og óeigingjarna vinnu fyrir félagið. 

 

Búið er að setja inn myndir í myndabankann hér á heimasíðunni.

 
 
  • 1