Færslur: 2018 Maí

28.05.2018 11:24

Skotlúgur í skothúsið

Þá erum við búin að fá skotlúgurnar í skothúsið afhentar og útihurðina. Um er að ræða 11 skotlúgur en við ætlum að vera með 6 lúgur við borð til að sitja við og 5 lúgur til að skjóta úr standandi stöðu með t.d. rifflum, skammbyssum eða boga.

 

Útihurðin er af breiðari gerðinni en við gerum ráð fyrir aðgengi fyrir hjólastóla í skothúsið.

 
 

25.05.2018 09:31

Sjómannadagsmót - innanfélagsmót

Árlegt Sjómannadagsmót Skotfélags Snæfellsness í leirdúfuskotfimi verður haldið fimmtudaginn 31. maí, en þetta er 6. í skipti sem þetta mót er haldið í samvinnu við Sjómannadagsráð. 

 

Mæting verður á skotæfingasvæði félagsins kl. 16:30 og mótið hefst stundvíslega kl. 17:00.  Mótsgjald verður 2.000 kr. og skráning fer fram hjá Heiðu Láru í síma 848-4250 eða Jóni Pétri í síma 863-1718.  Einnig er hægt að skrá sig með því að senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com. Skráningu lýkur miðvikudaginn 30. maí kl. 21:00.

 

Mótið verður með sama sniðið og undanfarin ár þar sem hver og einn keppir á sínum forsendum og svo verða stig sjómanna lögð saman á móti stigum landsliðsins.  Einnig verða veitt verðlaun fyrir bestan árangur einstaklinga, bæði í karlaflokki og í konuflokki.  Ekki verður heimilt að taka upphitunarhring þegar á mótsstað er komið, en æfingasvæðið er að sjálfsögðu opið næstu daga fram að móti.

 

Boðið verður upp á létt grill og svo verður áskorendakeppni í riffilskotfimi í "járnfrúnni" fólki til skemmtunar.  Öllum er velkomið að mæta og reyna fyrir sér í þeirri keppni hvort sem þeir eru þátttakendur í mótinu eða bara áhorfendur.  Svo er að sjálfsögðu öllum velkomið að mæta og fylgjast með.

 

 

 

Hér er hægt að skoða myndir frá fyrri mótum:  2017 - 2016 - 2015

 

 

 

 

25.05.2018 00:40

Aðalfundur

Aðalfundur Skotfélags Snæfellsness verður haldinn í Stykkishólmi fimmtudaginn 7. júní kl. 20:00.  Staðsetning verður auglýst síðar.

Mynd frá síðasta aðalfundi sem haldinn var í Ólafsvík.

 

17.05.2018 22:59

Íþróttafatnaður

Nú erum við að taka saman í aðra pöntun á íþróttafatnaði merktum Skotfélagi Snæfellsness. Öllum er velkomið að vera með í þeirri pöntun hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Þeir sem hafa áhuga á að panta sér fatnað geta haft samband í síma 863 1718 eða sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com

 

Nú ætlum við að bæta við svörtum hettupeysum sem merktar verða eins og bolirnir og íþróttajakkarnir. Endilega sendið okkur línu ef þið hafið áhuga.

 
 

17.05.2018 02:04

Lokaumferð Br-mótaraðar Skotfélags Vesturlands

Síðastliðinn þriðjudag fór fram lokaumferð Br-Mótaraðar Skotfélags Vesturlands í Borgarnesi.  Þar áttum við tvo keppendur en þau Heiða Lára og Pétur tóku þátt í tveimur mótaröðum hjá Skotfélagi Vesturlands í vetur. 
 
BR-MÓTARÖÐIN:
Níu keppendur voru skráðir til leiks í Br-mótaröðina og haldin voru 4 mót þar sem 3 bestu mótin töldu til úrslita.  Lokamótið sigraði Ómar Jónsson og þau Ari Ingimundarson, Eygló Sigurðardóttir og Helgi Sigurvin Kristjánsson deildu með sér öðru til fjórða sæti.
 
Veitt voru verðlaun fyrir heildarkeppnina en heildarkeppnina sigraði Ómar Jónsson, í öðru sæti var Helgi Sigurvin Kristjánsson og jöfn í þriðja sæti voru Pétur Már Ólafsson og Eygló Sigurðardóttir en Pétur hafði yfirhöndina með 27 x gegn 24 x hjá Eygló.
Verðlaunahafar í Br-mótaröðinni.
 
 
SILHOUETT-MÓTARÖÐIN:
Átta keppendur voru skráðir til leiks í silhouett-mótaröðina og haldin voru 5 mót.  4 bestu mótin töldu til úrslita.  Fyrsta sæti Ómar Jónsson í öðru sæti var Guðmundur Árni Hjartarson og í þriðja sæti var Heiða Lára Guðmundsóttir.   Hægt er að lesa nánar um úrslit mótanna á facebook síðu Skotfélags Vesturlands.
 
 

Verðlaunahafar í silhouettmótaröðinni.

 

Þessi mynd var fengin að láni af facebook síðu Skotfélags Vesturlands.

12.05.2018 11:21

Unnsteinn fékk gull á Blönduósi

Hið árlega hvítasunnumót Markviss fór fram síðastliðinn fimmtudag og átti Skotfélag Snæfellsness þar einn fulltrúa. 10 keppendur mættu til keppni og leikar fóru svo að í B-flokki hafnaði Höskuldur B. Erlingsson í 3. sæti, Jónas Rúnar Guðmundsson í 2. sæti og Unnsteinn Guðmundsson úr Skotfélagi Snæfellsness í 1 sæti.

 

í A-flokki hafnaði Snjólaug M. Jónsdóttir í 3. sæti, Brynjar Guðmundsson í 2. sæti og Guðmann Jónasson í 1. sæti. Hægt er að sjá meira um mótið á facebook síðu Markviss.

Verðlaunahafar í B-flokki.

 

Verðlaunahafar í A-flokki.
 

10.05.2018 22:31

Heimsókn

Í gær fengum við í heimsókn Lionsklúbb Nesþinga ásamt mökum þeirra.  Þar var á ferðinni fullt af skemmtilegu fólki og skemmtum við okkur vel saman.  Skotið var úr haglabyssum, rifflum, stærri veiðiriffli og skammbyssum.  Það var mikið fjör og var ekki annað að sjá en að allir hafi skemmt sér vel.  Settar verða inn myndir fljótlega.

 
 

09.05.2018 07:35

Heimsókn í dag miðvikudag

Í dag ætlar Lionsklúbbur Nesþinga að kíkja í heimsókn til okkar og ætlar hópurinn að reyna fyrir sér í skotfimi.  Æfingasvæðið verður því lokað á á milli kl. 17:00-19:00.

 

07.05.2018 21:09

Úrslit Kvennamótsins

Hér má sjá verðlaunahafa úr Kvennamótinu en eins og fram kom í fyrri umfjöllun um mótið var keppt í þremur flokkum.  Verðlaunahafar fóru heim drekkhlaðnar af vinningum en styrktaraðilar mótsins voru Veiðihúsið Sakka, Vesturröst, Hlað, Ferskar kjötvörur, Snjörnu snakk og Egil Skallagrímsson.

 

Í flokki byrjenda sigraði Dagný Rut frá Skotfélagi Snæfellsness, í öðru sæti var Jóhanna frá Skotfélagi Reykjavíkur og í þriðja sæti var Katrín sem einnig keppir fyrir Skotfélag Reykjavíkur.

Frá vinstri: Jóhanna, Dagný Rut og Katrín.

 

Í milli flokkinum þar sem keppendur voru nokkuð vanar sigraði Þórey frá Skotfélagi Reykjavíkur, Eva sem einnig er frá Skotfélagi Reykjavíkur náði næst bestum árangri og í þriðja sæti var Ingibjörg frá Skotreyn.

Frá vinstri: Ingibjörg, Þórey og Eva.

Í flokki keppenda sem eru mjög vanar voru aðeins tveir keppendur en keppnin var engu að síður mjög spennandi og fór svo að bráðabana þurfti til að skera úr um úrslitin.  Bráðabaninn fór þannig að Helga frá Skotíþróttafélagi Suðurlands sigraði og í öðru sæti var Dagný frá Skotfélagi Reykjavíkur.

Frá vinstri: Dagný og Helga.

06.05.2018 23:40

Heiða Lára og Pétur í viðtali hjá Skinfaxa

Okkar fólk Heiða Lára og Pétur hafa verið dugleg að taka þátt í mótum í vetur, en þau eru bæði félagsmenn í Skotfélagi Snæfellsness.  Heiða og Pétur hafa t.d. verið að keppa í BR50 í Borgarnesi í vetur og hafa nú sett stefnuna á Landsmótið á Sauðárkróki í sumar.  Hér má sjá viðtal sem tekið var við þau fyrir Skinfaxa*.

 

*Skinfaxi er málgagn UMFÍ sem kemur út fjórum sinnum ári. Blaðið hefur komið óslitið út frá árinu 1909.

05.05.2018 23:22

Kvennamótið Skyttan

Kvennamótið Skyttan var haldið í dag á æfingasvæði Skotfélags Snæfellsness.  Við fengum til okkar fullt af skemmtilegu fólki að sunnan og norðan og víðar að og við fengum líka fullt af skemmtilegum veðurafbrigðum, bæði úr vestri, sunnan og austan.

 

Kvennamótið Skyttan er árlegt mót í leirdúfuskotfimi sem fyrst var haldið árið 2010 og hefur verið haldið árlega frá árinu 2012 og er mótið haldið á nýjum stað á hverju ári.  Keppt er í þremur flokkum þar sem keppendum er skipt niður eftir reynslu í flokkana "vanar, nokkuð vanar eða óvanar".

 

Keppendur í ár komu frá 6 mismunandi skotfélögum eða Skotfélagi Reykjavíkur, Skotíþróttafélagi Suðurlands, Skotreyn, Skotfélagi Akraness, Skotfélaginu Markviss Blönduósi og frá Skotfélagi Snæfellsness. 

 

Fjöldi fólks mætti til að fylgjast með stelpunum keppa og áttum við alveg frábæran dag.  Við þökkum öllum þeim sem mættu fyrir komuna og vonumst til að hittast aftur að ári liðnu.  Búið er að setja inn nokkrar myndir frá mótinu í myndaalbúmið.

 

05.05.2018 07:36

Kvennamótið Skyttan í dag - æfingasvæðið lokað

Kvennamótið Skyttan fer fram á æfingasvæðinu okkar í dag og hefst mótið kl. 12:00.  Því verður æfingasvæðið lokað fram eftir degi.  Við hvetjum sem flesta til að mæta og fylgjast með.

Mynd frá síðasta móti sem haldið var á Akranesi í maí 2017. 

©Kvennamótið Skyttan

04.05.2018 16:46

Kvennamótið Skyttan á morgun laugardag

Kvennamótið Skyttan 2018 verður haldið á morgun laugardag á skotæfingasvæði Skotfélags Snæfellsness og hefst mótið um kl 12:00.   Um er að ræða árlegt leirdúfuskotmót sem haldið hefur verið víðsvegar um landið þar sem konur á öllum aldri hittast og skjóta saman. 

 

Eins og venja er verður skotið í 3 flokkum, vanar, minna vanar og byrjendur. Vanar og minna vanar skjóta hefðbundna skeet hringi en óvanar skjóta örlítið öðruvísi og mega byrja með byssu uppi. Þetta er hugsað sem skemmtimót og kynning fyrir konur á þessari íþróttagrein og það er alltaf rosa gaman.   Svo endilega komið og skjótið með okkur og höfum gaman saman.

Skráning og frekari upplýsingar í maili hinriksdottirdagny@gmail.com. Hlökkum til að sjá sem flestar.

 

Einnig er hægt að fá upplýsingar hjá Jóni Pétri í síma 863 1718.

Svo hvetjum við sem flesta til að mæta á svæðið og fylgjast með.

Frá síðasta móti sem haldið var á Akranesi í maí 2017.

04.05.2018 13:33

Félagsmenn orðnir 160

Í dag gerðist Arnar Geir Diego Ævarsson aftur félagsmaður í Skotfélagi Snæfellsness og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið aftur.  Nú eru félagsmenn orðnir 160 talsins og hafa aldrei verið fleiri.  Svo sannarlega gleðilegt.

 
 

02.05.2018 10:23

Nýr félagsmaður

Í gær gerðist Sverrir Hermann Pálmarsson félagsmaður í Skotfélagi Snæfellsness á nýjan leik eftir nokkurt hlé.  Við bjóðum Sverri velkominn í félagið.