Færslur: 2018 Júní

28.06.2018 17:02

síðasta skotpróf - síðasta skotpróf

Síðastu skotpróf verða á morgun kl. 18:00.  Þeir sem þurfa að komast í próf geta haft samband við Birgi í síma 859-9455.  Ekki verður boðið upp á fleiri skotpróf í bili.

24.06.2018 22:09

Sölusíðan

Við minnum á sölusíðuna okkar hér á heimasíðunni.  Þar getið þið auglýst vörur sem tengjast íþróttaskotfimi eða veiði.  Þar er t.d. að finna þennan Pajero.

 

 

Góður Mitsubishi Pajero til sölu.  Þetta er 2.5 díesel, árgerð 1999 og ekinn 212.000km.  Bíllinn er í topp standi.

Bíllinn er með glæsilegu merki Skotfélags Snæfellsness á varadekkshlífinni.Verð: 370.000 kr

Birgir
Sími: 859 9455

 

22.06.2018 20:45

Skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn

Nú hafa fjölmargir hreindýraveiðimenn lokið skotprófi.  Nú fer skotprófum senn að ljúka og hvetjum við veiðimenn sem enn eiga eftir að fara í próf til að ljúka því sem fyrst. 

 

Næsta próf verður á sunnudaginn kl. 18:00.  Þeir sem hafa áhuga á að mæta í próf á sunnudaginn geta haft samband við Unnstein í síma 897 6830.

Myndin er tekin af heimasíðu UST.

22.06.2018 10:51

Kynningardegi og sumarsólstöðuskemmtun frestað

Við þurfum því miður að fresta kynningardeginum sem við ætluðum að vera með á æfingasvæðinu í dag vegna veðurs.  Einnig verður sumarsólstöðuskemmtuninni sem átti að vera í kvöld frestað.  Viðburðirnir verða auglýstir síðar.

20.06.2018 01:14

Myndir frá riffilmótinu

Búið er að setja inn fullt fullt fullt af myndum frá 17. júnímótinu í myndaalbúmið.  Það er hægt að skoða þær hér.

 

18.06.2018 12:39

Riffilmót - 17. júní

Í gær fór fram árlegt 17. júnímót í riffilskotfimi á æfingasvæði félagsins.  Þetta var í 5. skipti sem þetta mót var haldið og það var alveg frábær þátttaka.  Þetta mót hefur verið að stækka með hverju árinu og í ár voru 22 keppendur skráðir til leiks og mikið af fólki kom til að fylgjast með.  Það var mikið rennerí af fólki allan daginn en þegar mest var voru um 50 manns á svæðinu.

 

Við lærðum margt af þessu móti og við erum strax farin að skipuleggja næsta mót og ætlum við að gera enn betur þá.  Þá verður vonandi búið að taka í notkun nýja skothúsið og 6 ný borð og þá verður hægt að skjóta á 12 borðum samtímis.  Við þökkum öllum þeim sem mættu fyrir frábæran dag.

22.cal KK   -     2. Jónbi   1. Kibbi    3. Eymar

22.cal KVK   -     2. Heiða Lára   1. Dagný     3. Mandy

Veiðirifflar   -     2. Mandy   1. Jónbi    3. Kári

 
 

17.06.2018 09:08

Riffilmót í dag

Árlegt 17. júnímót í riffilskotfimi verður haldið í dag.  Mótið hefst kl. 17:00.  Við minnum keppendur á að mæti tímanlega.  Hægt er að skoða myndir frá fyrri mótum hér fyrir neðan.

17. júnímót 2017

17. júní mót 2016

17. júní mót 2015

17. júní mót 2014

16.06.2018 08:07

Gólfplatan steypt

Í gærkvöldi steyptum við gólfplötuna í skothúsið og gekk það ótrúlega vel enda vorum við með 4 múrara til verksins og fullt af öðrum snillingum.  Byrjað var að steypa um kl. 21:00 og lauk steypuvinnu um miðnætti. 

 

Það er alveg ótrúlegt hvað allir eru tilbúnir að leggja okkur lið og hjálpast að við þetta verkefni sem skothúsið er.  Við erum afar þakklát fyrir allan þann stuðning sem við höfum fengið úr öllum áttum.  Sérstakar þakkir fá allir þeim sem lögðu okkur lið í gærkvöldi.  Búið er að setja inn nokkrar myndir í myndabankann.

 

15.06.2018 15:13

Steypa í kvöld - riffilsvæðið lokað

Við ætlum að hittast í kvöld og steypa gólfplötuna í skothúsið.  Æfingasvæðið verður því lokað í kvöld frá kl. 19:00.  Sjálfboðaliðar velkomnir og aðrir sem vilja fylgjast með.

 

14.06.2018 21:26

Riffilmót 17. júní (opið mót) - keppnisfyrirkomulag

Á sunnudaginn verður árlegt 17. júnímót í riffilskotfimi haldið á æfingasvæði félagsins.  Þetta er fimmta árið í röð sem þetta mót er haldið og er það alltaf að stækka.  Keppt verður í tveimur flokkum, 22.cal á 50m færi og svo með veiðirifflum á 100m færi.  Keppendur geta tekið þátt í báðum flokkunum eða bara öðrum hvorum.

 

Í hverri umferð fá keppendur eitt blað með 6 skotskífum á, númeruðum frá 1-5 og ein er merkt með S (sider).  Keppendur skjóta einu skoti í hverja skífu sem merkt er með númerum frá 1-5 og telur það til úrslita.  Skjóta má í "sider´inn"  eins oft og menn vilja á meðan á keppninni stendur.  (siderinn er notaður til að stilla sig inn)

 

Hver riðill fær 10 mínútur til að ljúka við blaðið og skotnar verða tvær umferðir.  Þetta verða því 10 skot (5 + 5  = 10 )  sem telja til úrslita hjá hverjum skotmanni.  Þetta fyrirkomulag verður notað bæði í 22.cal flokkinum og líka í flokki veiðiriffla.  Mótið hefst stundvíslega kl. 17:00.  Hlökkum til að sjá ykkur.

 

13.06.2018 21:21

Mikið líf á æfingasvæðinu

Það er búið að vera ótrúlega mikið líf á æfingasvæðinu undanfarna daga og kvöld.  Margir eru að undirbúa sig fyrir riffilmótið sem haldið verður þann 17. júní, en við minnum á að skráningu í mótið lýkur þann 16. júní kl. 21:00.

 

12.06.2018 13:07

Þaksperrurnar í skothúsið tilbúnar

Þá er búið að smíða allar sperrurnar í skothúsið.  Við ætlum að reyna að hafa sem mest tilbúið þegar við förum að reisa húsið, en við bíðum enn eftir að geta steypt gólfplötuna.

 

11.06.2018 09:34

Borðfánar

Í síðustu viku komu nýju veifurnar í hús.  Verða þær notaðar við hátíðleg tilefni og einnig til að gefa öðrum skotfélögum við skemmtileg tilefni.

 

10.06.2018 10:16

Riffilmót (opið mót)

Næstkomandi sunnudag verður árlegt 17. júnímót í riffilskotfimi haldið á æfingasvæði félagsins. Keppt verður í tveimur flokkum, 22. cal á 50m færi og svo með veiðirifflum á 100m færi.  Hægt er að keppa í báðum flokkunum eða bara öðrum hvorum.  Í 22. cal flokkinum verður bæði keppt í karlaflokki og konuflokki.

 

Hægt er að skrá sig í mótið hjá Heiðu Láru í síma 848-4250 eða með því að senda tölvupóst á skotgrund@gmail.com, en skráningu lýkur laugardaginn 16. júní kl. 21:00.  Mótið hefst kl. 17:00 og mótsgjaldið verður 2.000 kr.

 

09.06.2018 12:33

BR50 mót á Hellu

Síðastliðinn fimmtudag tóku fjórir félagsmenn frá Skotfélagi Snæfellsness þátt í BR50 móti hjá skotfélaginu Skyttur, sem er með skotsvæði á Geitasandi á milli Hellu og Hvolsvallar.  7 keppendur voru skráðir til leiks og skotið var á eitt spjald á mann.  Leikar fóru þannig að Heiða Lára sigraði mótið með 224 stig,  Eyjólfur Sigurðsson var í öðru sæti með 213 stig og Pétur Már var í þriðja sæti með 190 stig.

 

Okkar fólk fékk mjög góðar móttökur og höfðu mjög gaman af heimsókninni.  Að lokum var Magnúsi Ragnarssyni formanni Skyttanna færð veifa með merki Skotfélags Snæfellsness sem þakklæti fyrir góðar móttökur.

 

Búið er að setja inn myndir í myndaalbúmið.