Færslur: 2019 Nóvember

14.11.2019 15:43

Skotæfingasvæðið endurskipulagt

Þessa dagana er verið að vinna í því að hanna og móta framtíðarskipulag skotæfingasvæðisins.  Nýtt skothús verður tekið í notkun fljótlega á næsta ári og stefnt er að því að byggja nýtt og stærra félagsheimili við hlið nýja skothússins.  Þá verður aðkoman að húsunum löguð og bílastæðið stækkað.

 

Nýlega keypti félagið nýjar leirdúfukastvélar og ákveðið hefur verið að endurbyggja leirdúfuvöllinn alveg frá grunni og snúa honum um leið um 90 gráður til austurs svo að skotstefnan verði í norður.  Það verður því nóg að gera hjá okkar félagsmönnum næstu mánuðina, en eins og flestum er kunnugt er öll uppbygging á svæðinu unnin í sjálfboðavinnu. 

 

12.11.2019 00:29

Ný heimasíða í vinnslu

Nú er unnið við að móta nýja heimasíðu fyrir starfsemi félagsins þar sem helstu upplýsingar um félagið munu koma fram og fréttir af starfsemi félagsins verða birtar.  Heimasíðan hefur verið í mótun um nokkurt skeið og nú er farið að styttast í að hún verði tekin í notkun.

 

Núverandi heimasíða hefur þjónað okkur í tæp 13 ár og er komin til ára sinna, en hún er þó að fá um 50 - 80 heimsóknir daglega og flettingar eru um 250 - 700.  Við vonum að með nýrri heimasíðu verði enn áhugaverðara að kíkja á síðuna okkar og upplýsingar til félagsmanna komist enn betur til skila.

 

04.11.2019 09:01

Skotíþróttamaður ársins

Við óskum eftir tilnefningum að skotíþróttamanni HSH fyrir árið 2019.  Tilnefningar er hægt að senda á skotgrund@gmail.com.

 

Einnig óskar Grundarfjarðarbær eftir tilnefningum til íþróttamanns Grundarfjarðar 2019 (skotíþróttamaður).   Viðkomandi aðili þarf að hafa lögheimili í Grundarfirði.  Tilnefningar sendast einnig á skotgrund@gmail.com.

 

 

02.11.2019 22:14

Búseta félagsmanna

Það er gleðilegt að sjá hvað félagsmönnum hefur fjölgað mikið undanfarna mánuði.  Stjórn félagsins hefur markvisst unnið að því að bæta aðstöðu félagsmanna til skotæfinga og með bættri aðstöðu er félagsmönnum alltaf að fjölga. 

 

Hingað koma skotmenn af landinu öllu til þess að stunda skotæfingar og er búseta félgagsmanna ekki bara bundin við Snæfellsnesið.  Hér fyrri neðan má sjá skemmtilega tölfræði yfir búsetu félagsmanna.

 

 

 

01.11.2019 00:47

Rjúpnaveiðitímabilið hafið

Rjúpnaveiðitímabilið hefst í dag.  Árin 2019 - 2021 er heimilt að veiða rjúpu frá og með 1. nóvember til og með 30. nóvember.  Veiði verður heimiluð alla daga vikunnar nema miðvikudaga og fimmtudaga.  Áfram er í gildi sölubann á rjúpum.  Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

 

SKOTFÉLAG SNÆFELLSNESS ÓSKAR RJÚPNAVEIÐIMÖNNUM GÓÐRAR FERÐAR OG BIÐUR MENN UM AÐ FARA ÖLLU MEÐ GÁT.  HÉR ERU NOKKUR ATRIÐI SEM GOTT ER AÐ HAFA Í HUGA ÁÐUR EN HALDIÐ ER TIL VEIÐA:

 

#  Fylgist með veðurspá

#  Gerið ferðaáætlun og skiljið hana eftir hjá aðstandendum

#  Kynnið ykkur vel það svæði sem ferðast á um

#  Hafið með góðan hlífðarfatnað

#  Takið með sjúkragögn og neyðarfæði

#  Fjarskipti þurfa að vera í lagi, s.s. gps, kort, áttaviti eða annað og kunnátta verður að vera til staðar til að nota þau

#  Verið viss um að farartækið sé í góðu ásigkomulagi áður en lagt er af stað ef það á við

#  Betra er að snúa við í tíma heldur en að koma sér í ógöngur

 

 

Rjúpnaskyttur eru hvattar til að stunda hófsamar og ábyrgar veiðar og ganga vel um náttúruna.

Myndin er tekin á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
  • 1