Færslur: 2020 Maí

30.05.2020 23:29

Skotsvæðið

Í dag var haldið áfram að brasa á skotsvæðinu.  Snemma í morgun fór Arnar rafeindarvirki að tengja kastvélarnar.  Eftir hádegi mættu svo fleiri og ýmislegt var brallað.  M.a. var byrjað að pæla í skotborðunum í riffilhúsið.  Í kvöld voru svo skorin niður stálrörin sem eiga að vera fætur undir nýju skotborðin í riffilhúsinu.

 

 

 

 

 

25.05.2020 00:39

Nýjar leirdúfukastvélar

Skotfélag Snæfellsness hefur fjárfest í nýjum leirdúfukastvélum.  Um síðustu helgi voru gömlu vélarnar teknar niður og þær nýju settar upp. Gömlu kastvélarnar höfðu þjónað okkur í 32 ár, en þær keyptum við notaðar af Skotfélagi Reykjavíkur árið 1988.

 

Nýju kastvélarnar eru af gerðinni Nasta og voru þær fluttar inn frá Finnlandi.  Í vikunni var svo hafist handa við að tengja þær og stilla og við vonum að við náum að klára lokafrágang um helgina.  Hægt er að skoða myndir frá vélaskiptunum í myndaalbúminu.

 
 

24.05.2020 22:39

Æfingasvæðið tekið í gegn

Í gærmorgun hittist hópur félagsmanna til þess að bæta æfingasvæðið og gera það klárt fyrir sumarið. Skipt var um leirdúfukastvélar, vatn- og salerni var tengt, skotbjöllur á riffilsvæðinu voru endurnýjaðar o.fl. ofl. Einnig var unnið áfram í skothúsinu.

Unnið var fram að kvöldmat og svo var að sjálfsögðu grillað að góðu verki loknu. Við þökkum öllum þeim sem mættu fyrir aðstoðina og ykkar framlag til félagsins, því án virkra félagsmanna væri þetta ekki félag.

 

 
 

24.05.2020 22:30

Skipt um ljósavél

Við urðum fyrir nettu áfalli á dögunum þegar ljósavélin okkar bilaði og varð ónothæf.  Við vorum fljót að bregðast við og keyptum notaða ljósavél til að nota þar til að hin kemst aftur í gagnið.  Nýja ljósavélin var komin hingað vestur innan við sólarhring eftir að upp komst um bilunina og við vourm ekki lengi að finna sjálfboðaliða til að aðstoða okkur við að skipta um ljósavél.  

 

Bilaða ljósavélin var fjarlægð og unnið er að viðgerðum á henni.  Þeirri nýju var komið fyrir í vélarskúrnum og mun hún sjá okkur fyrir rafmagni þar til að hin kemst í gagnið á ný.  Búið er að setja inn nokkrar myndir frá vélarskiptunum í myndaalbúmið.

 

22.05.2020 22:26

Vinnudagur á morgun

Við ætlum að hittast á skotsvæðinu á morgun og setja upp nýju leirdúfukastvélarnar o.fl.  Æfingasvæðið verður lokað á meðan en öllum er velkomið að líta við og hjálpa til eða kíkja í heimsókn.

Við ætlum að hittast um kl. 9 og byrja að gera klárt og reiknum með að vera komin inn á svæði um kl. 10.

 

13.05.2020 00:22

Sama stjórn næsta starfsár

Ákveðið var að aflýsa aðalfundi félagsins sem átti að vera í byrjun mánaðarins vegna samkomubanns vegna Covid-19 heimsfaraldursins.  Starfandi stjórn mun því fara með mál félagsins í eitt ár til viðbótar, eða þar til að ný stjórn verður kosin á næsta aðalfundi. 

 

Auglýst var eftir framboðum til stjórnarstarfa, en þar sem að engin framboð bárust og núverandi stjórnarmenn gáfu allir kost á sér áfram var ákveðið að hún yrði sjálfkjörin.  Starfandi stjórn mun svo sjá um að skipa í nefndir.  Hér er hægt að sjá hverjir skipa stjórn félagsins.

Mynd frá aðalfundi 2019

 

10.05.2020 16:52

Riffilsvæðið hreinsað

Nú er búið að hreinsa allt rusl úr riffilbrautinni sem safnast hafði yfir veturinn.  Æfingasvæðið okkar er í staðsett í einstaklega fallegu umhverfi og við viljum hafa það hreint og snyrtilegt líka.

 

Við minnum skotfólk á að skilja ekki rusl eftir á æfingasvæðinu.

 

 
 

09.05.2020 12:30

Ljósavélin biluð - önnur komin

Ljósavélin sem sér skotæfingasvæðinu fyrir rafmagni bilaði hjá okkur núna fyrir helgi.  Það var vægt sjokk því við getum ekki án hennar verið, en við vorum fljót að bregðast við og keyptum aðra ljósavél í gær til þess að nota þar til að hin kemst í lag.  Hún er komin hingað vestur og verður hún vonandi komin í notkun í vikunni. 

 

Við vonum að þetta muni ekki hafa mikil áhrif á starf félagsins, sem reyndar er í lágmarki núna vegna Covid-19.

 

 

07.05.2020 22:14

Skothúsið

Nú er verið að smíða langbönd í skothúsið.  Þau eiga að styrkja sperruvirkið og þakið.  Bitarnir verða sýnilegir inni í húsinu og eru hluti af hönnun hússins.  Við erum búin að fá listamanninn Þorgrím (Togga) hjá Lavaland.is til liðs við okkur og ætlar hann að skera út skraut í bitana.  Það verður gaman að sjá hvernig það mun takast til.  Bitarnir verða svo settir upp um leið og þeir verða tilbúnir og þá er hægt að fara fjarlægja stífur.

 

 

 

 

07.05.2020 21:57

Undirbúningur fyrir sumarið

Í gær fór hópur sjálfboðaliða inn á svæði og hreinsaði til í vélarskúrnum, félagsheimilinu og skothúsinu.  Nú er allt að fara á fullt á svæðinu og nóg verður um að vera í sumar.  Meira síðar.....

 

 

06.05.2020 15:30

Nýr félagsmaður

Í dag gerðist Stefán S. Skúlason félagsmaður í Skotfélagi Snæfellsness og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í félagið.

03.05.2020 22:47

Félagsgjöld

Nú er allt að fara af stað hjá okkur eftir langar og strangar vikur.  Ekki hefur verið hægt að skipuleggja neina viðburði útaf Covid-19 en nú fer það vonandi að vera búið í bili.

 

Búið er að senda út rukkanir fyrir félagsgjöldum og vonum við að flestir sjái sér fært að greiða þau fúslega, en öll innkoma af félagsgjöldum fer í að bæta æfingaaðstöðuna og það stendur mikið til hjá okkur í sumar.

 

Við reynum svo að skipuleggja mótahald um leið og leyfi verður til þess að halda mót en annars ætlum við að nýta tímann vel fram að því og vinna í skothúsinu. 

 
  • 1