Færslur: 2020 Október

14.10.2020 19:27

Skothúsið

Um síðustu helgi voru fleiri skotlúgur settar í skothúsið.  Nú er búið að setja upp 5 lúgur til viðbótar við þær 6 sem búið var að setja upp áður. 

     

 
 

Þessar 5 lúgur sem settar voru í um helgina eru hugsaðar fyrir standandi skotfimi og einnig svo að hægt sé að skjóta sitjandi í hjólastól.  Gert var ráð fyrir því við hönnun hússins að hjólastólar passi á milli steyptu skotborðanna og settar verða upp sérsmíðaðar borðplötur á milli steyptu borðanna til þess að geta skotið úr hjólastól.

  
  
 
 
 

11.10.2020 23:11

Styrkur frá G.run hf.

Síðastliðinn föstudag voru liðin 100 ár frá fæðingu Guðmundar Runólfssonar, útgerðarmanns í Grundarfirði.  Guðmundur Runólfsson stofnaði útgerðina G.run hf. og allt hans atferli, bæði í leik og starfi miðaðist við að efla samfélagið sitt.  Fólkið, landið og hafið átti hug hans allan frá fyrsta degi til hins síðasta.

 

Afkomendur Guðmundar Runólfssonar vildu minnast hans á þessum merkis degi og færðu þau hinum ýmsu félagasamtökum og stofnunum veglegar peningagjafir og þar á meðal Skotfélagi Snæfellsness. 

 

Styrktu þau félagið okkar um 500.000 kr. til áframhaldandi uppbyggingar- og æskulýðsstarfs.  Við færum afkomendum Guðmundar Runólfssonar innilegustu þakkir fyrir þennan rausnarlega styrk sem mun án efa vera mikil lyftistöng fyrir félagið.

Runólfur Guðmundsson, sonur Guðmundar afhendir styrkinn

Afkomendur Guðmundar Runólfssonar

 

Jón Pétur Pétursson - Formaður Skotfélags Snæfellsness veitti styrknum viðtöku
 

 

 

10.10.2020 08:05

Skotfélag Snæfellsness 33 ára

Í dag fagnar Skotfélag Snæfellsness 33 ára starfsafmæli.  Félagið var stofnað af skotáhugamönnum í Grundarfirði á haustdögum árið 1987 og hét í þá daga Skotveiðifélag Grundarfjarðar.  Formlegur stofnfundur var haldinn þann 10. október sama ár, að undangengnum nokkrum undirbúningsfundum. 

 

Nafni félagsins var breytt í Skotfélag Snæfellsness þann 8. maí árið 2014 og hefur starfsemi félagsins aldrei verið öflugri en nú.  Við óskum félagsmönnum öllum og velunnurum félagsins til hamingju með daginn.

 

08.10.2020 22:35

Skothúsið klætt að utan

Það hefur ekki verið hægt að skipuleggja viðburði á þessum sérstöku tímum.  Við höfum þó ekki slegið slöku við og höfum nýtt tímann í að bæta og laga æfingasvæðið.  Allt í samræmi við sóttvarnarlög.

Í gær voru gerðar hæðarmælingar á allri riffilbrautinni því við erum að byrja að undirbúa það að steypa gangstéttir við riffilbrautina og ganga frá lóðinni umhverfis skothúsið. 

 

Þá höfum við einnig unnið við það undanfarna daga að klæða skothúsið að utan o.fl.  

 

 

 
 

  

 
 

05.10.2020 19:34

Nýr félagsmaður

Nýlega fjölgaði félagsmönnum enn frekar þegar Emil Einarsson gerðist félagsmaður í Skotfélagi Snæfellsness.  Við bjóðum Emil hjartanlega velkominn í félagið.

  • 1