Æfingasvæðið

 

 

Æfingaaðstaða Skotfélags Snæfellsness er í rólegu og fallegu umhverfi skammt frá Grundarfirði.  Landið er í eigu Grundarfjarðarbæjar og hefur félagið verið með það á leigu frá árinu 1988.  Framkvæmdir á svæðinu hófust sama ár og hefur uppbygging á svæðinu verið stöðug síðan þá.  Í dag hefur félagið yfir að ráða félagshúsnæði, riffilbraut og leirdúfuvelli (skeet).

 

 

 


 

 

 

Félagshúsnæðið:

Félagshúsnæði Skotfélags Snæfellsness  er 20 m2 timburhús sem keypt var í desember árið 2001 og  flutt inn í Hrafnkelsstaðabotn á vordögum árið 2002.  Húsnæðið skiptist í alrými með litlum eldhúskróki og svo er lítil snyrting.  Umhverfis húsið er stór verönd sem snýr að leirdúfuvellinum, en húsnæðið var mikið tekið í gegn að innan og utan á árunum 2006 og 2007. (Salernið er aðeins tengt yfir sumarmánuðina).

 

    
 
 
 
 
 

 

 

 

Riffilsvæðið:

Á æfingasvæði félagsins er að finna frábært riffilsvæði með 6 öflugum riffilborðum.  Riffilsvæðið er eitt það besta hér á landi frá náttúrunnar hendi.  Þar er að finna 25m, 50m, 75m, 100m, 200m, 300m, 400m og 600m riffilbrautir, en svæðið býður upp á allt að 914m langar brautir (1000 yards).  Stefna félagsins er að bæta við fleiri brautum í mismunandi fjarlægðum.

 

   
 
 
 
 

 


 

 

 

Leirdúfuvöllurinn (skeet):

Leirdúfuvöllur Skotfélags Snæfellsness er eitt af fyrstu mannvirkjunum á æfingasvæði félagsins.  Um er að ræða hefðbundinn leirdúfuvöll (skeet-völl) með 8 pöllum, sem byggður var á árunum 1987 - 1988.  Völlurinn er af mörgum talinn með þeim erfiðustu á landinu þar sem að skotstefnan er í átt að fjallgarðinum og getur því oft verið erfitt að greina leirdúfurnar frá landslaginu.

 

 

 

 

 

 


 

 

 

Skothús:

Sumarið 2017  var hafist handa við að byggja 75 m2 skothús við riffilsvæðið.  Skothúsið verður af fullkomnustu gerð með 6 steyptum borðum og 11 skotlúgum.  Þar af eru 5 lúgur hugsaðar fyrir standandi skotfimi.  Í húsinu verður 15 m2 dómaraherbergi með smá kaffiaðstöðu.  Áætlað er að húsið verði tekið í notkun á árinu 2020.

 

 

 

 

 

 

 


 

 

 

Aðstaða fyrir innanhúss skotæfingar:

Vorið 2017 var stofnuð skammbyssudeild innan félagsins.  Sama ár var byrjað að leita að húsnæði fyrir innanhúss skotaðstöðu.  Í lok árs 2018 náðist samkomulag við Grundarfjarðarbæ um afnot af samkomuhúsi Grundarfjarðar til bráðabirgða þar til annað húsnæði finnst.  Unnið er að því að  er að setja upp aðstöðu til skotæfinga í samkomuhúsinu og fá öll leyfi svo hægt sé að hefja formlegar æfingar.