Æfingasvæðið
Æfingaaðstaða Skotfélags Snæfellsness er í rólegu og fallegu umhverfi skammt frá Grundarfirði. Landið er í eigu Grundarfjarðarbæjar og hefur félagið verið með það á leigu frá árinu 1988. Framkvæmdir á svæðinu hófust sama ár og hefur uppbygging á svæðinu verið stöðug síðan þá. Í dag hefur félagið yfir að ráða félagshúsnæði, riffilbraut og leirdúfuvelli (skeet).
![]() |
Félagshúsnæðið:
Félagshúsnæði Skotfélags Snæfellsness er 20 m2 timburhús sem keypt var í desember árið 2001 og flutt inn í Hrafnkelsstaðabotn á vordögum árið 2002. Húsnæðið skiptist í alrými með litlum eldhúskróki og svo er lítil snyrting. Umhverfis húsið er stór verönd sem snýr að leirdúfuvellinum, en húsnæðið var mikið tekið í gegn að innan og utan á árunum 2006 og 2007. (Salernið er aðeins tengt yfir sumarmánuðina).
|
||||||
Riffilsvæðið:
Á æfingasvæði félagsins er að finna frábært riffilsvæði með 6 öflugum riffilborðum. Riffilsvæðið er eitt það besta hér á landi frá náttúrunnar hendi. Þar er að finna 25m, 50m, 75m, 100m, 200m, 300m, 400m og 600m riffilbrautir, en svæðið býður upp á allt að 914m langar brautir (1000 yards). Stefna félagsins er að bæta við fleiri brautum í mismunandi fjarlægðum.
|
||||||
|
Leirdúfuvöllurinn (skeet):
Leirdúfuvöllur Skotfélags Snæfellsness er eitt af fyrstu mannvirkjunum á æfingasvæði félagsins. Um er að ræða hefðbundinn leirdúfuvöll (skeet-völl) með 8 pöllum, sem byggður var á árunum 1987 - 1988. Völlurinn er af mörgum talinn með þeim erfiðustu á landinu þar sem að skotstefnan er í átt að fjallgarðinum og getur því oft verið erfitt að greina leirdúfurnar frá landslaginu.
|
||||||||||||||||