Ársskýrslur

 

 

Hér er að finna ársskýrslur félagsins sem varðveist hafa frá því að félagið var stofnað.  Eldri skýrslur eru neðar á síðunni og er hægt að sjá þær með því að fletta niður.

 


 

 

ÁRSSKÝRLSA SKOTGRUNDAR 2016

 

Árið 2016 var eitt besta ár félagins frá upphafi með mörgum skemmtilegum viðburðum og uppákomum.  Við fengum marga góða gesti í heimsókn á árinu, bæði leiðbeinendur, keppendur úr öðrum skotfélögum og fjöldi fólks mætti til að taka þátt í viðburðum eða til að kynna sér starfsemi félagsins.

 

Aðalfundur félagsins var að venju haldinn á vordögum og fljótlega voru haldnir nokkrir vinnudagar þar sem gerðar voru miklar endurbætur á æfingasvæðinu.  Árlegt sjómannadagsmót í leirdúfuskotfimi var haldið í byrjun júní þar sem sjómenn kepptu við landsliðið.  Þetta mót hefur farið stækkandi með hverju árinu og í ár var brugðið á það ráð að setja upp keppni í riffilskotfimi samhliða leirdúfuskotfiminni til að dreifa þátttakendum.  Allir fengu að taka þátt í báðum greinum og voru stigin lögð saman úr báðum greinum.  Eftir spennandi keppni sigraði lið sjómanna og er staðan í einvíginu nú jöfn.

Frá Sjómannadagsmóti Skotfélags Snæfellsness

 

Um miðjan júní fengum við til okkar leiðbeinanda í bogfimi í samstarfi við Bogveiðifélag Íslands og var öllum boðið að koma og taka þátt.  Bogfimi er íþróttagrein sem hefur farið mikið vaxandi á Íslandi undanfarin ár og hafa mörg skotfélög tekið þessa grein inn í sitt félagsstarf.  Við fengum frábært veður og var þetta hin mesta skemmtun. 

  
Frá bogfimikynningunni
 
 

Í sömu viku var svo komið að árlegu 17. júnímóti félagsins í riffilskotfimi.  Þar var eins og alltaf keppt í tveimur flokkum sem er 22.cal á 50 metra færi og svo stærri veiðirifflum á 100 metra færi.  Í þessu móti gátu keppendur valið í hvorum flokknum þeir vildu keppa eða keppt í þeim báðum.

  
Frá riffilmóti Skotfélags Snæfellsness 17. júní 2016
 

 

Um mitt sumar var svo haldið sumarsólstöðukvöld þar sem skotmenn fundu til allskonar dót úr byssukápunum og hittust um kl. 22:00 um kvöldið til að skjóta saman.  Markmiðið var bara að hittast og hafa gaman og skjóta saman, en oft eru bestu aðstæður til skotæfinga á æfingasvæðinu okkar einmitt seint á kvöldin því þá er oft dúnalogn.  Mætingin var mjög góð og var skotið langt fram eftir nóttu.

Frá sumarsólstöðuskemmtuninni

 

Í ágúst var haldið konukvöld þar sem öllum konum og stelpum var boðið að mæta og reyna fyrir sér í skotfimi.  Margar voru að skjóta í fyrsta skipti á meðan aðrar voru vanar.  Við vorum ótrúlega ánægð með aðsóknina og áhuginn var svo mikill meðal kvenna að ákveðið var að halda sérstakt konumót í riffilskotfimi nokkrum vikum síðar og var það fyrsta konumót í sögu félagsins þar sem aðeins konum var boðið að taka þátt.

 

  
Frá konukvöldi Skotfélags Snæfellsness
 
 
 

Refamót félagsins var einnig haldið í ágúst en þetta mót er mjög vinsælt meðal félagsmanna.  Þá er skotið á skotmörk sem staðsett eru í ýmsum fjarlægðum sem valdar eru af  handahófi.  Þar reynir töluvert á þekkingu skotmanna á því skotvopni og kúlum sem skotmenn hafa í höndunum því þá þarf að reikna með falli eða risi á kúlunum því skotmörkin eru öll á mismunandi færum.

Frá Refamóti Skotfélags Snæfellsness 2016

 

 

Í haust fengum við svo til okkar leiðbeinendur í leirdúfuskotfimi til að koma og leiðbeina okkar fólki.  Stefnt er að því að fá aftur til okkar leiðbeinendur á þessu ári þar sem öllum verður boðið að skrá sig og fá tilsögn hvort sem menn eru vanir eða algjörir byrjendur.

 

Heilt á litið var þetta alveg frábært ár og vonandi verður árið 2017 jafn gott eða jafnvel ennþá betra.  Á þessu ári fagnar félagið 30 ára starfsafmæli og stefnum við að því að vera með mikið af uppákomum af því tilefni.  Viðburðirnir verða auglýstir með góðum fyrirvara og bjóðum við ný andlit sérstaklega velkomin.  Skotfimi er ekki eins og margir halda aðeins fyrir veiðimenn heldur er þetta skemmtileg íþróttagrein sem allir geta stundað á sínum forsendum.  Margir eru bara að stunda íþróttaskotfimi aðrir sækja í þetta vegna útiveru í náttúrunni og enn aðrir hafa fundið sameiginlegt fjölskyldusport. 

 

 

 

Skotgrund

Skotfélag Snæfellsness

 

 


 

 

ÁRSSKÝRLSA SKOTGRUNDAR 2015

 

Um leið og við sendum okkar félagsmönnum og nærsveitungum öllum bestu nýarskveðjur ætlum við aðeins að líta um öxl og fara yfir það helsta sem gerðist á árinu hjá Skotfélagi Snæfellsness.

 

 

 

Hugað að framkvæmdum

Veturinn var eins og svo oft áður notaður í að huga að vorverkunum og framkvæmdum á æfingasvæðinu. Fyrsta verkefnið var að skipta um hurð í markinu, en það var löngu orðið tímabært að skipta um hana því gamla hurðin var orðin mjög léleg og allt í kringum hana var orðið fúgið.  Keypt var ný hurð og svo var markmið sumarsins að endurnýja húsin alveg og klæða þau að utan þegar voraði.

 

 

Þrátt fyrir mikinn snjó og kulda var æfingasvæðið ótrúlega mikið notað yfir köldustu mánuðina og voru menn greinilega ekki að setja kuldann fyrir sig, heldur klæddu menn sig bara upp og grófu upp riffilborðin ef þess þurfti.

 

Um leið og snjórinn var farinn var haldinn árlegur tiltektardagur á æfingasvæðinu þar sem lauslegt rusl var fjarlægt og svæðið snyrt.  Þá voru einnig settir upp nýir garðbekkir við félagshúsnæðið o.fl.

 

Þá voru leirdúfukastvélarnar voru yfirfarnar fyrir sumarið, en skipta þurfti um spólur og slitna hluti í turninum og þá kom í ljós að mótorinn í kastvélinni í markinu var orðinn frekar dapur og var því ákveðið að panta nýjan mótor.

 

 

 

Skotíþróttamaður HSH

Þann 16. maí var Unnsteinn Guðmundsson útnefndur skotíþróttamaður HSH annað árið í röð, en Unnsteinn hafði verið útnefndur Skotíþróttamaður Grundarfjarðar í lok árs 2014.  Unnsteinn sigraði flest þau mót sem hann tók þátt í árið 2014 með töluverðum yfirburðum auk þess sem hann hefur verið mjög virkur í starfi félagsins.

 

                          
 

 

 

Aðalfundur

Aðalfundur var haldinn í félagsnúsnæði félagsins í Hrafnkelsstaðabotni fimmtudaginn 28. maí 2015 kl. 20:00. Fundurinn var vel sóttur og byrjað var á því að fara hefðbundin aðalfundarstörf.  Ákveðið var að félagsgjaldið yrði áfram óbreytt, en það hefur verið 5.000 kr. á ári síðastliðin 18 ár. 

 

 

Því næst fór fram kosning formanns og stjórnar og var sama stjórn kosin til áframhaldandi starfa og var stjórnin því óbreytt fyrir næsta starfsár.

 

Undir liðnum önnur mál var ýmislegt rætt s.s. framtíðaráform félagsins, framkvæmdir og æfingasvæðið í heildsinni.  Sett var upp framkvæmdaáætlun fyrir sumarið og það var ljóst að það væru næg verkefni framundan.  Markmið félagsins er að geta boðið upp á sem allra besta aðstöðu til skotæfinga með öryggi allra í fyrirrúmi.

 

Fyrsta verkefni sumarsins var að endurbyggja turninn og markið og klæða að utan, en stærsta verkefnið var undirbúningsvinna fyrir byggingu skothúss við riffilborðin.  Annað forgangsatriði var að tengja vatn í félagshúsið svo hægt verði að fá rennandi vatn í salernið og í vaska.

 

Svo var ýmislegt annað rætt, en hægt er að sjá fundargerðina á heimasíðu félagsins.  Fundinum var slitið kl. 22:50 en þá var að sjálfsögðu skotið aðeins áður en haldið var heimleiðis.

 

 

 

Sjómannadagsmót

Árlegt Sjómannadagsmót Skotgrundar fór fram fimmtudaginn fyrir sjómannadag í blíðskaparveðri á æfingasvæði félagsins.  Þetta er í þriðja skipti sem mótið er haldið og var met þátttaka að þessu sinni.  Landsliðið sigraði naumlega í ár, en aðeins hálft stig skildi liðin af. 

 

 

Unnsteinn Guðmundsson náði bestum árangri einstaklinga, Eymar Eyjólfsson varð í öðru sæti og Gústav Alex Gústavsson í því þriðja.  Skipuleggjendur mótsins eru mjög ánægðir með hversu vel tókst til og stefnt er að því að gera enn meira úr mótinu á næsta ári.

 

 

 

 

Vel heppnað riffilmót

Árlegt Riffilmót Skotgrundar fór fram þann 17. júní.  Mætingin var mjög góð og ágætis veður.  Keppt var í tveimur flokkum og í minni flokkinum náði Guðmundur Andri bestum árangri, Pétur varð í öðru sæti og Gunnar í því þriðja. 

 

 

Í stærri flokkinum náði Gunnar bestum árangri, Guðmundur Andri varð í öðru sæti og Steini Gun í þriðja sæti.  Þorgrímur Kolbeinsson listamaður frá Grundarfirði smíðaði verðlaunagripina.

 

 

 

 

Skotvopnanámskeið

Skotvopnanámskeið sem Skotfélag Snæfellsness stóð fyrir í samstarfi við Umhverfisstofnun var haldið dagana 23.-25. júní.  Einar Guðmann frá Umhverfisstofnun sá um bóknámið og skrifleg próf, en Skotfélag Snæfellsness sá um verklega kennslu.

Í verklega hlutanum var farið yfir helstu þætti og eiginleika skotvopna, auk þess sem nemendur fengu að spreyta sig á hinum ýmsu skotvopnum.

 

   
 
   
 
 

 

 

Vinnudagar

Í byrjun júlí var hafist handa við að endurbyggja turninn og markið á æfingasvæði félagsins.  Húsin voru byggð árið 1988 og var farið að sjá töluvert á þeim.  Voru þau endurbyggð alveg frá grunni og klædd að utan.  Gengu endurbæturnar mjög vel og fjöldi félagsmanna mættu til að leggja hönd á plóg.  Þá var einnig tengt vatn í félagsnúsnæðið á árinu og erum við því komin með rennandi vatn í salernið og í handlaugarnar.

 

   
 

 

 

Stórskemmtilegt refamót

Refamót Skotfélags Snæfellsness var haldið í fyrsta skipti í byrjun ágúst og var þetta í fyrsta skipti sem Skotfélag Snæfellsness heldur þetta mót.   Hugmyndin að mótinu er fengin frá Skotfélagi Austurlands og heppnaðist mótið mjög vel.  Mætingin var fram úr öllum væntingum og mættu 19 skotmenn víðsvegar að af landinu til að taka þátt og fjöldi áhorfenda mættu einnig til að fylgjast með mótinu og þiggja pylsur af grillinu og léttar veitingar. 

 
   
 

Mótið fór þannig fram að hver og einn skotmaður átti að skjóta 10 útskorna refi í mismunandi fjarlægðum úr liggjandi stöðu.  Aftan á hvert dýr var teiknað afmarkað svæði, sem dugði til að "fella dýrið" og fengu keppendur stig fyrir að hitta innan þess svæðis. Ekki voru gefin stig fyrir að hitta í skott eða fætur.

 

 

Leikar fóru þannig að Finnur Steingrímsson frá Skotfélagi Akureyrar sigraði mótið með 128 stig, Hilmir Valsson frá Skotfélagi Vesturlands (Borgarnesi) varð í öðru sæti með 126 stig og Gunnar Ásgeirsson fra Skotfélagi Snæfellsness varð í þriðja sæti einnig með 126 stig, en þar sem Hilmir var með einu skoti meira í miðjuna fékk hann silfrið. 

 

Verðlaunagripina smíðaði Þorgrímur Kolbeinsson listamaður frá Grundarfirði og Hjálmar í Hlað gaf sigurvegara mótsins inneignarkort í versluninni Hlað að verðmæti 10.000 kr.

 

 

Strax að móti loknu var farið að ræða um að halda annað mót á næsta ári enda var þetta frábær skemmtun og góð æfing. Sérstaklega gaman var að fá heimsókn frá strákunum frá Akureyri og Borgarnesi.

 

 

 

Nýir rifflar, fánar, borð, stólar o.fl.

Félagið festi kaup á ýmsum varningi á nýliðnu ári og ber helst að nefna tvo 22.cal riffla sem félagið keypti.  Rifflarnir verða notaðir við verklega kennslu og til útláns til félagsmanna sem ekki eiga skotvopn en hafa áhuga á að taka þátt í mótum og æfa sig.  Fyrir hafði félagið keypt eina haglabyssu, en félagið vill að allir sem vilja geti tekið þátt í starfsemi félagsins.

 

Þá keypti félagið nýja fána merkta "Skotfélag Snæfellsness" eins og félagið heitir í dag eftir nanfabreytinguna.  Að þessu sinni voru pantaðir bæði hefðbundnir láréttir fánar(100x150cm) og einnig lóðréttir fánar (150x100cm), þar sem merki félagsins nær að njóta sín betur þannig.

 

Vegna fjölgunar í félaginu var ákveðið að kaupa nýja stóla og borð í félagshúsnæðið svo að það nýtist betur.  Keyptir voru fleiri stólar og borð til viðbótar við það sem keypt var í fyrra til að rúma alla í sæti þegar haldnir eru viðburðir á vegum félagsins. 

 

Þessi fjölgun í félaginu er svo sannarlega ánægjuleg þróun og ef heldur áfram sem horfir þá þurfum við að byggja nýtt og stærra félagshúsnæði.  En það er þó ekki á dagskrá alveg strax, því næsta verkefni er að byggja skothús við riffilborðin og er stefnt að því að byrja á því í sumar.

 
 
 
Skothús

Unnið er að því að ljúka við hönnun og teikningar að skothúsi sem Skotgrund er með áform um byggja við riffilbrautina, takist að fjármagna verkefnið.  Um er að ræða 75m2 hús með 6 inniborðum auk rými fyrir mótsstjórn og dómara.  

Húsið á að byggja við hlið þeirra 6 riffilborða sem eru til staðar nú þegar, en þá getur félagið boðið upp á 6 útiborð og 6 inniborð.  Fyrir framan húsið verður svo 46,5 m2 tyrft svæði þar sem hægt verður að skjóta úr liggjandi stöðu, m.a. með hreindýraskotpróf í huga.

 

Félagið stefnir á að steypa upp sökkla og plötu og reisa húsið á þessu ári og ljúka við frágangsvinnu og taka húsið formlega í notkun á afmælisári félagsins árið 2017, en þá verður félagið 30 ára.  Vonandi mun þessi áætlun ganga eftir, en allt fer þetta eftir því hvernig gengur að fjármagna verkefnið.  Flest önnur skotfélög hérlendis hafa komið upp skothúsi og myndi það bæta aðstöðu skotmanna hér á svæðinu til muna ef okkur tækist að reisa slíkt hús og lengja þar með þann tíma sem hægt er að stunda skotæfingar.

 

 

 

 

Skotíþróttamaður ársins

Í desember var Birgir Guðmundsson útnefndur skotíþróttamaður Grundarfjarðar árið 2015 og veitti hann viðurkenningunni móttöku á árlegum Aðventu- og fjölskyldudegi í samkomuhúsi Grundarfjarðar.  Þar kom m.a. fram að:

 

"Birgir hefur tekið mjög virkan þátt í starfi Skotgrundar, stundað mjög reglulegar skotæfingar og verið öðrum skotmönnum fyrirmynd hvað það varðar.  Birgir hefur tekið virkan þátt í mótum sem haldin hafa verið á vegum félagsins og átt þátt í skipulagningu þeirra.  Þá hefur Birgir sinnt óeigingjörnu starfi fyrir félagið sem leiðbeinandi á skotvopnanámskeiðum og verið prófdómari í verklegum skotprófum fyrir hreindýraveiðimenn, sem Skotgrund hefur boðið upp á". 

 


 

 

Framkvæmdir

Í lok árs þegar daginn var farið að stytta og veður farið að versna var orðið mjög erfitt að stunda skotæfingar.  Þá var tíminn heldur nýttur í endurbætur á æfingasvæðinu og var m.a. skipt var um þakjarn á markinu, gengið frá úthornum á klæðningunni o. fl.  Færðin var ekki góð, en nánast ófært var að æfingasvæðinu og var því brugðið á það ráð að aka eftir flóðvarnargarðinum við Hrafnánna upp að æfingasvæðinu. Veðrið var hinsvegar alveg æðislegt til útiveru og að loknu góðu dagsverki var að sjálfsögðu skotið aðeins þótt töluverður snjór sé í riffilbrautinni. Þegar skothúsið verður komið þá verður hægt að nota riffilbrautina meira við slíkar snjóþungar aðstæður.

 
 

 

 

Ýmislegt unnið bakvið tjöldin

Þrátt fyrir að ekki fari mikið fyrir mótahaldi eða öðrum viðburðum yfir vetrarmánuðina er verið að vinna að mörgu bakvið tjöldin.  Fyrir utan undirbúning fyrir byggingu skothúss er t.d. verið að ljúka við það að skrásetja sögu félagsins, en til stendur að gefa hana út í bókinni "Fólkið fjöllin fjörðurinn" sem verður gefin út næsta sumar. Þá er einnig verið að lagfæra og yfirfara leirdúfukastvélar félagsins, en langt er síðan að vélarnar hafa verið yfirfarnar alveg frá a-ö og var því ákveðið að taka þær inn á verkstæði og yfirfara þær alveg ásamt stjórnborðunum. 

 

Það er í mörg horn að líta enda félagið sífellt að stækka og verða öflugra.  Fjöldi félagsmanna var nú í lok árs í sögulegu hámarki og voru félagsmenn orðnir 120. 

 

Þetta er svo sannarlega ánægjuleg þróun en öll innkoma af félagsgjöldum fer í rekstur og uppbyggingu á æfingasvæði félagsins og með fjölgun félagsmanna hefur fjárhagur félagsins batnað, sem hefur gert okkur kleift að framkvæma meira.

 

 
 
 

Þakkir til félagsmanna

Um leið og við óskum landsmönnum öllum velfarnaðar á nýju ári viljum við þakka þeim sem styrkt hafa félagið á einn eða annan hátt.  Við þökkum félagsmönnum okkar fyrir samfylgdina á árinu sem var að líða, því án tryggra félagsmanna væri félagið ekki að blómstra.

 

Við hlökkum til að ganga inn í nýtt ár með ykkur og bjóðum um leið nýja félagsmenn velkomna í félagið.  Nánari upplýsingar um félagið er að finna hér á heimasíðu félagsins www.skotgrund.123.is

 

SKOTGRUND

SKOTFÉLAG SNÆFELLSNESS

 

 


 

 

ÁRSSKÝRLSA SKOTGRUNDAR 2014

 

Árið 2014 var mjög viðburðaríkt hjá Skotfélaginu Skotgrund, með mörgum skemmtilegum uppákomum. Vegna ófærðar fer oftast mesta „púðrið“ framan af ári í að skipuleggja starfsemi félagsins og nýjar framkvæmdir, á meðan beðið er eftir vorinu.  Það á samt ekki við árið 2014 því æfingasvæðið var í stöðugri notkun allan veturinn og  hefur sjaldan eða aldrei verið skotið jafn mikið á æfingasvæðinu og á nýliðnu ári.  Þrátt fyrir mikinn snjó og ófærð framan af vetri var æfingasvæðið í stöðugri notkun og þá sérstaklega riffilbrautin.   En árið var þó bara rétt að byrja.

 

Héraðsþing HSH

Héraðsþing HSH var haldið á Hótel Hellissandi þann 3. apríl  og sat einn fulltrúi Skotgrundar þingið, en Skotgrund hefur starfað undir merkjum HSH frá árinu 2003.  Á þinginu var m.a. farið yfir starfsskýrslu HSH, en í hana hafði stjórn HSH m.a. ritað falleg orð í garð Skotgrundar. Þar segir orðrétt " Einnig er ánægjulegt að sjá þá aukningu sem er í skotíþróttum og er til fyrirmyndar starf Skotgrundar en þar eru félagar af öllu Snæfellsnesi auk víðar að.  Í ár var í fyrsta sinn veitt viðurkenning fyrir Skotíþróttamann HSH og er það til marks um það aukna starf og áhuga skotmanna." 

 

Þar er verið að vitna í það, að þann 13. febrúar 2014 var Unnsteinn Guðmundsson útnefndur skotíþróttamaður HSH fyrir árið 2013, en Unnsteinn fór með sigur af hólmi með nokkrum yfirburðum í þeim mótum sem hann tók þátt í og hefur verið mjög virkur í starfi félagsins.

 

 

Hermundur formaður HSH, Unnsteinn Guðmundsson og Garðar Svansson varaformaður HSH.

Myndin er tekin af heimasíðu HSH.

 

Skotgrund vill hrósa stjórn HSH fyrir glæsilegt og vel skipulagt þing og glæsilega ársskýrslu.  Hægt er að lesa meira um þingið á heimasíðu Héraðssambandsins.

 

 

 

Páskamót Skotgrundar

Páskamót Skotgrundar fór fram á sumardaginn fyrsta, en því hafði áður verið frestað vegna veðurs.  Nokkrir félagsmenn boðuðu forföll á síðustu stundu, en þeir sem mættu fengu flott veður og skemmtu sér vel. 

 

Skotið var í tveimur riðlum og var keppnin jöfn og spennandi.  Unnsteinn Guðmundsson seig þó fram úr hinum keppendunum þegar leið á mótið og stóð að lokum uppi sem sigurvegari, en mikil barátta var um næstu sæti.  Guðmundur Reynisson var lengi vel í verðlaunasæti, en „Steini gun" kom sterkur inn á lokasprettinum og náði að tryggja sér bráðabana um annað sætið.  Í bráðabananum öttu kappi Jón Pétur og Steini og var sú keppni mjög jöfn.  Það var ekki fyrr en á síðasta palli sem úrslitin réðust og hreppti Jón Pétur annað sætið og Steini það þriðja, en aðeins ein dúfa skildi á milli þeirra.

 
 
 
 

Verðlaunin að þessu sinni voru páskaegg og þar að auki fékk sigurvegarinn farandbikar að launum.  Þetta var fyrsta Páskamót Skotgrundar, en ætlunin er að gera þetta að árlegum viðburði og fær sigurvegarinn nafn sitt grafið í bikarinn ár hvert.

 

Eftir að hafa fengið sér smá hressingu og páskaegg var aðeins brugðið á leik, þar sem bæði páskaeggjum og leirdúfum var kastað upp í loftið sem skotmörk.  Svo var setið lengi á spjalli fram eftir kvöldi og voru fyrirhugaðar framkvæmdir skipulagðar.

 

 

 

 

 

Aðalfundur

Aðalfundur félagsins var haldinn í húsnæði félagsins í Kolgrafafirði þann 3. maí og var mætingin  góð.  Byrjað var á því að fara yfir hefðbundin aðalfundarstörf og síðan var rætt um önnur mál og framkvæmdir. 

 

Helstu tíðindin voru þau að mannabreytingar urðu í stjórn félagsins auk þess sem stjórnarmönnum var fjölgað.  Þá var ákveðið að stjórn félagsins skuli skipuð að lágmarki einum fulltrúa frá hverju af þremur stærstu sveitarfélögunum á Snæfellsnesi. (Grundarfirði, Snæfellsbæ og Stykkishólmi).  Einnig var ákveðið að nafnabreyting skuli vera gerð á félaginu og heitir félagið nú "Skotgrund skotfélag Snæfellsness".

 

Hægt er að nálgast fundargerð fundarins í heild sinni á heimasíðu félagsins.

 

 

 

 

Nafnabreyting á félaginu

Eins og fram kemur hér fyrir ofan var samþykkt á aðalfundi félagsins að nafni félagsins yrði breytt, og þá öðru sinni í sögu félagsins.  Upphaflega hét félagið "Skotgrund - Skotveiðifélag Grundarfjarðar" en var síðar breytt í "Skotgrund - Skotfélag Grundarfjarðar".   Þá hafði eðli félagsins breyst með aukinni áherslu á skotfimi og félagið var orðið viðurkennt íþróttafélag innan vébanda ÍSÍ.  

 

Nú hefur nafninu verið breytt öðru sinni og heitir félagið nú "Skotgrund - Skotfélag Snæfellsness". Margt hefur breyst á undanförnum árum og ekki síst samgöngur.  Með bættum samgöngum hefur orðið meira samstarf milli sveitarfélaga og félagsmenn Skotgrundar koma nú víða að.  Því þótti tímabært að breyta nafni félagsins og við vonum að nafnabreytingin og aukið samstarf íbúa á Snæfellsnesi komi til með að efla félagið enn frekar í framtíðinni.

 

Helga Stolzenwald, sem hannaði merki Skotgrundar hefur aðlagað merki félagsins að nýja nafninu, en merkið má sjá hér fyrir neðan. 

 

                      
 

 

 

 

Sjómannadagsmót Skotgrundar

Árlegt sjómannadagsmót Skotgrundar var haldið í annað sinn þann 29. maí og voru skipuleggjendur mótsins hæstánægðir með hvað mætingin var góð.  Mótið var þannig sett upp að keppt var um bestan árangur einstaklinga ásamt því að sjómenn lögðu sín stig saman gegn stigum landsliðsins.  Landsliðið sigraði að þessu sinni og er staðan því jöfn í einvíginu, en sjómenn unnu á síðasta ári.  

 

Einstaklingskeppnin var mjög spennandi en Unnsteinn Guðmundsson hafnaði í fyrsta sæti og tók Karl Jóhann Jóhannsson annað sætið.  Gunnar Ásgeirsson og Eymar Eyjólfsson voru svo jafnir í þriðja sæti, en þar sem Gunnar fékk fleiri stig fyrir "dobblin" fékk hann bronsið. 

 

Heilt á litið þá var þetta vel heppnað mót og hin mesta skemmtun.  Að móti loknu var svo slegið á létta strengi og brugðið á leik.  Við viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt í mótinu eða komu að því á annan hátt fyrir skemmtilegt mót.

 
 
 
 
 

Landsliðið fagnar sigrinum.

 

Hægt er að skoða fleiri myndir frá mótinu í myndabankanum hér fyrir ofan.

 

 

 

 

Framkvæmdir

Með aukinni aðsókn á æfingasvæðið hefur Skotgrund unnið markvisst að því að bæta aðstöðu skotmanna til skotæfinga og auka öryggi á svæðinu.  Á nýliðnu ári voru steyptir upp riffilbattar á 300m, 400m og 600m auk þess sem sett voru upp skotmörk úr stáli í mismunandi fjarlægðum.  Steyptar voru undirstöður fyrir skammbyssubraut, steyptir voru verðlaunapallar og hafist var handa við að endurbyggja húsin utan um leirdúfukastvélarnar.  

 

Sett voru upp fleiri leiðbeinandi skilti til að tryggja öryggi á svæðinu enn frekar og svo má ekki gleyma hefðbundnu viðhaldi s.s. málningarvinnu og snyrtingu á svæðinu almennt.  Hvað húsakostinn varðar þá var sett upp innrétting í félagshúsnæðið og garðbekkur var keyptur á sólpallinn við félagshúsnæðið.

 

Þá voru keyptir nýir stólar og borð í félagshúsnæðið, en með nýju stólunum mun félagshúsnæðið nýtast betur og verða sæti fyrir fleiri.  Núverandi innbú er búið að reynast okkur vel í gegnum tíðina, en fjölgunin í félaginu er slík að húsnæðið er að springa utan af okkur.  Með nýju borðunum og stólunum mun húsnæðið nýtast betur bæði fyrir fundi og mót.  Stefnan er svo að halda áfram að endurnýja félagshúsnæðið og bæta aðstöðu okkar félagsmanna enn frekar.

 

 

 

 

Riffilmót Skotgrundar - 17.júní

Riffilmót Skotgrundar var haldið í fyrsta skipti þann 17. júní og fengum við eins og við var að búast ekta 17. júní veður, en það var smá vindur og rigningarúði inn á milli.  Mætingin var samt mjög góð og var þetta mjög skemmtilegt mót.

 

 

Keppt var í tveimur flokkum, annars vegar 22. calibera flokki þar sem skotið var á 50m færi og hins vegar stærri caliberum að eigin vali á 100m færi.  Þátttakan var góð í báðum flokkum og kepptu sumir í þeim báðum.

 
 
 
 

Ein kona tók þátt í mótinu, en það var Mandy Nachbar og gerði hún sér lítið fyrir og sigraði 22.calibera flokkinn.  Gunnar Ásgeirsson hafnaði í öðru sæti, en Mandy og Gunnar voru jöfn að stigum, en þar sem Mandy fékk eitt X (miðju) stóð hún uppi sem sigurvegari.  Í þriðja sætinu hafnaði svo Runólfur Jóhann Kristjánsson.

 
 
 
 

Í flokki veiðicalibera sigraði Gunnar Ásgeirsson, Guðmundur Andri Kjartansson var í öðru sæti og Steinar Már Ragnarsson var í þriðja sæti.

Heilt á litið var þetta mjög skemmtilegt mót í alla staði og var ákveðið að gera þetta mót að árlegum viðburði. Myndir frá mótinu er að finna í myndabankanum hér á heimasíðu félagsins.

 

 

 

 

Skotvopnanámskeið

Skotvopna- og veiðikortanámskeið var haldið hér á Snæfellsnesi í júní í samstarfi við Umhverfisstofnun.  Það var Einar Guðmann frá Umhverfisstofnun sem sá um bóknámið og Skotgrund sá um verklega kennslu, þar sem farið var yfir helstu þætti  og eiginleika skotvopna. 

 
 
 
 

Verklega kennslan fór þannig fram að þátttakendum var skipt upp í þrjá hópa sem komu sér fyrir á þremur mismunandi stöðvum.  Á fyrstu stöðinni var farið yfir helstu atriði sem varða haglabyssu, s.s. umhirðu, umgengni og skotfimi.  Að því loknu fengu nemendur að prófa ýmist, tvíhleypur, pumpur eða hálfsjálfvirkar haglabyssur.

 
 

Á annarri stöðinni var farið yfir það helsta sem varðar umgengnisreglur og tækni við að skjóta úr minni rifflum í standandi stöðu.  Sett voru upp skotmörk sem nemendur spreyttu sig á og var ekki annað að sjá en að flestir hafi haft gaman af.

 

Á þriðju og síðustu stöðinni var farið yfir allt það helsta sem varðar riffla og sjónauka.  Fengu nemendur að spreyta sig á margskonar stærðum af rifflum allt frá 22.cal upp í þá stærstu.  Þar fengu nemendur betri innsýn í hin ýmsu caliber og riffiltegundir með ýmsum lásum.

 

Að lokum var spjallað stutta stund í félagshúsnæðinu og sagðar sögur.  Heilt á litið þá stóð hópurinn sig mjög vel og viljum við þakka öllum fyrir samveruna.

 
 
 
 
 
 
 
Verkleg skotpróf - Hreindýrapróf

Samkvæmt reglugerð sem tók gildi haustið 2012 ber hreindýraveiðimönnum að standast verklegt skotpróf áður en haldið er til hreindýraveiða og er þetta annað árið sem Skotgrund býður upp á verkleg skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn.   Hjá Skotgrund eru 4 viðurkenndir prófdómarar og voru fjölmargir veiðimenn sem nýttu sér þessa þjónustu félagsins. Á þriðja tug skotprófa voru þreytt hjá Skotgrund þetta árið og er það töluverð fjölgun frá árinu áður.

 

Skotgrund hefur reynt að þjónusta sína sveitunga eins og kostur er og eru skotprófin einn liður í því.  Við höfum fengið mikið lof frá skotmönnum héðan af Vesturlandi sem geta nú tekið skotprófið í heimabyggð  í stað þess að þurfa að keyra langar vegalengdir til að þreyta slíkt próf.  Skotgrund stefnir á að bjóða áfram upp á þessa þjónustu á komandi árum.

 
 
 
 
Heimsóknir

Skotgrund fékk marga góða gesti og hópa í heimsókn á árinu og helst ber að nefna meistaraflokk Víkings frá Ólafsvík í knattspyrnu, sem sótti okkur heim í júlí. 

Skotgrund hefur undanfarin ár boðið upp á hópeflisferðir fyrir minni hópa og fyrirtæki og leyft þeim að spreita sig í skotfimi á æfingasvæði félagsins. Stefnt er að því að halda því áfram í nánustu framtíð.

 
 
 
 
Skotgrund eignast skotvopn

Skotgrund eignaðist skotvopn á haustdögum í fyrsta skipti í sögu félagsins, en um er að ræða tvíhleypu (yfir/undir) sem ætluð er til að nota við kennslu og til skotæfinga.  Eins og fram hefur komið hefur Skotgrund verið með verklega kennslu fyrir skotvopnanámskeið auk þess sem minni hópar hafa sótt okkur heim og fengið kennslu í undirstöðuatriðum í leirdúfuskotfimi.  Nýja haglabyssan verður framvegis notuð við slíka kennslu.

 

Félagsmenn fá afnot af byssunni til skotæfinga:

Félagsmönnum Skotgrundar hefur eins og mörgum er kunnugt fjölgað mikið að undanförnu, en ekki hafa allir félagsmenn aðgang að skotvopni.  Félagsmenn Skotgrundar geta nú fengið tvílhleypuna til afnota við skotæfingar og í mót á vegum félagsins.  Með þessu viljum við koma enn frekar til móts við þá félagsmenn sem hafa áhuga á að stunda skotæfingar og taka þátt í mótum, en hafa ekki aðgang að skotvopni.

 
 
 
 
Félagsmenn orðnir fleiri en 100

Já það má með sanni segja að Skotfélagið Skotgrund sé í miklum blóma þessa dagana og ýmislegt hafi verið á döfinn þetta árið, þrátt fyrir að hér sé aðeins stikklað á stóru.  Það sem stendur kannski mest upp úr á árinu er að félagsmenn Skotgrundar eru nú orðnir 100 talsins í fyrsta sinn í sögu félagsins.  Félagsmönnum hefur verið að fjölgja jafnt og þétt undanfarin ár, okkur til mikillar ánægju og voru þeir í árslok orðinir 107.  Öll innkoma af félagsgjöldum fer í rekstur og uppbyggingu á æfingasvæði félagsins og með fjölgun félagsmanna hefur fjárhagur félagsins batnað, sem hefur gert okkur kleift að framkvæma meira.

 
 

Stefna félagsins er að byggja upp og bjóða upp á sem allra besta aðstöðu til skotæfinga, sem félagsmenn og aðrir skotáhugamenn njóta síðan góðs af.  Gríðarlega mikil vinna hefur verið lögð í framkvæmdir á æfingasvæðinu undanfarna mánuði, sérstaklega með það í huga að tryggja öryggi á svæðinu.  Öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu og hafa fyrirtæki og verktakar verið dugleg við að styrkja okkur með afnotum af tækjum og með því að gefa efni. 

 
 

Hvað framtíðina varðar þá erum við mjög stórhuga og okkur dreymir um að geta byggt yfir riffilborðin, byggt upp trap-völl og lýst upp leirdúfuvöllinn svo eitthvað sé nefnt.  Með upplýstum leirdúfuvelli og byggingu yfir riffilborðin eykst sá tími til muna sem hægt er að stunda skotæfingar, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. 

 

Trap völlur væri fín viðbót við hinn leirdúfuvöllinn sem eykur fjölbreytni í leirdúfuskotfimi og væri um leið vara völlur fyrir skeetvöllinn þegar aðsókn er mikil, eða ef eitthvað bilar.

 

 

Húsið sem okkur dreymir um að byggja yfir riffilborðin.

 

 

 

 

Þakkir til félagsmanna

Um leið og við óskum landsmönnum öllum velfarnaðar á nýju ári viljum við þakka þeim sem styrkt hafa félagið á einn eða annan hátt.  Við þökkum félagsmönnum okkar fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða, því án tryggra félagsmanna væri félagið ekki að blómstra.

 

Við hlökkum til að ganga inn í nýtt ár með ykkur og bjóðum um leið nýja félagsmenn velkomna í félagið.  Nánari upplýsingar um félagið er að finna hér á heimasíðu félagsins.

SKOTGRUND

 

 

 

 


 

 

ÁRSSKÝRLSA SKOTGRUNDAR 2013

 

Það má með sanni segja að árið 2013 hafi verið viðburðaríkt hjá Skotfélaginu Skotgrund, með mörgum skemmtilegum uppákomum.  14 nýir félagsmenn skráðu sig í félagið á árinu og mikil uppbygging hefur átt sér stað á æfingasvæðinu.  Við ætlum aðeins að líta um öxl og rifja upp það helsta sem gerðist á árinu 2013.

 

 

 

Aðalfundur

Aðalfundur félagsins var haldinn í félagshúsnæði félagsins í Kolgrafafirði og var mætingin mjög góð, en það var nánast húsfylli.  Byrjað var á því að fara yfir hefðbundin aðalfundarstörf og síðan var rætt um önnur mál og framkvæmdir.  Fram komu margar góðar hugmyndir og ljóst var að félagsmenn voru stórhuga fyrir komandi starfsár.

 

 

Aðalfundur Skotgrundar – Á myndina vantar Jón Frímann, Jón Pétur, Samúel Pétur og Þorstein Björgvinsson.

 

 

 

 

Heimsóknir

Skotgrund fékk góða gesti og hópa í heimsókn á árinu og helst ber að nefna hóp lögreglumanna af Vesturlandi sem komu um miðjan maí mánuð til að stunda skotæfingar. 

 

Skiptu þeir sér í tvo hópa og var annar hópurinn við æfingar með skammbyssu á meðan hinn æfði sig með haglabyssur á leirdúfuvellinum.  Lögreglan hefur sótt Skotgrund heim nokkrum sinnum áður, en gott samstarf er á milli félagsins og lögreglunnar og stefnir félagið á að byggja upp í samstarfi við lögregluembættið, góða og varanlega aðstöðu til skotæfinga á æfingasvæði Skotgrundar. 

 

 
 
 
 
 

Aðgengi félagsmanna að æfingasvæðinu bætt

Félagsmönnum Skotgrundar hefur fjölgað mikið undanfarna mánuði og hefur Skotgrund unnið markvisst að því að bæta aðgengi allra félagsmanna að æfingasvæðinu.  Sett  var upp lyklakerfi sem félagsmenn fá aðgang að og hefur það bætt aðgengi félagsmanna að félagshúsnæðinu og leirdúfuvellinum. 

 

Hvað riffilsvæðið varðar þá var settur upp kassi með texplötum við riffilborðin sem skotmenn geta gengið að vísum.  Texplöturnar eru notaðar í riffilbattana og skotskífur festar á þær.

 

 

 

 

„Steini Gun“ sæmdur Gullmerki ÍSÍ

75. héraðsþing HSH var haldið í Samkomuhúsi Grundarfjarðar í byrjun apríl.  Þingið var vel sótt en 26 þingfulltrúar sóttu þingið.

 

Fjórir aðilar voru heiðraðir með starfsmerki en Hallur Pálsson (UMFG), Anna María Reynisdóttir (UMFG) og Ásgeir Ragnarsson (Vestarr) fengu silfurmerki UMFÍ.  Okkar maður Þorsteinn Björgvinsson fékk gullmerki ÍSÍ fyrir óeigingjörn störf í þágu Skotfélagsins Skotgrundar. "Steini Gun" eins og hann oftast er kallaður var einn af stofnendum Skotgrundar og hefur setið í stjórn allar götur síðan, en félagið fagnaði 26 ára starfsafmæli sínu á síðasta ári.

 

 

 

 

 

Sjómannadagsmót

Sjómannadagsmót Skotgrundar var haldið í fyrsta skipti á árinu, en það var haldið í samstarfi við Sjómannadagsráð.  Mætingin var mjög góð en keppendum var skipt upp í tvö lið, sjómenn á móti landkröbbum.  Allt var þetta á léttu nótunum og til gamans gert, en jafnframt voru menn að keppa sín á milli því veitt voru verðlaun fyrir bestan árangur einstaklinga.  Skráð voru úrslit hvers og eins og stig sjómanna voru svo lögð saman gegn stigum landkrabba.

 

Keppnin var jöfn og spennandi framan af, en í seinni umferðinni fóru línurnar að skírast.  Fóru leikar þannig að Unnsteinn Guðmundsson var hlutskarpastur einstaklinga, en bráðabana þurfti til að skera úr um annað sætið. Liðakeppnin var ekki alveg eins jöfn, en lið sjómanna vann með nokkrum yfirburðum og fékk liðið að launum farandbikar sem þeir ætla að reyna að verja á næsta ári.

 

 
 
 
 

 

Framkvæmdir

Æfingasvæði félagsins hefur fengið töluverða andlitslyftingu á árinu auk þess sem lagt hefur verið ríka áherslu á að tryggja öryggi á svæðinu.  Félagshúsnæðið var tekið rækilega í gegn að utan, var það málað hátt og lágt auk þess sem þakskyggnið var merkt að utan með stöfum félagsins.  Smíðaðir voru nýir riffilbattar og æfingasvæðið almennt lagað til.  Sett hafa verið upp varúðar- og leiðbeinandi skilti sem tryggja eiga öryggi á svæðinu og einnig hefur verið keypt girðingarefni til að tryggja enn frekar öryggi á svæðinu. 

 

Byggingarefni hefur verið pantað til að endurnýja turninn og markið, en þess má geta að Ragnar og Ásgeir ehf., Almenna Umhverfisþjónustan ehf., Vélsmiðjan Berg og KB bílaverkstæði hafa reynst félaginu sérstaklega vel á árinu með því að gefa vinnu sína og efni.  Þá hefur Grundarfjarðarbær styrkt félagið með niðurfellingu fasteignagjalda.  Erum við þeim afar þakklát fyrir veittan stuðning.  

 

Æfingasvæðið er alltaf að verða betra og snyrtilegra og hefur það orðið til þess að aðsóknin að æfingasvæðinu hefur aukist mikið allt árið og gleður það okkur mikið.  Félagið vinnur markvisst að því að bæta aðstöðu skotmanna á Snæfellsnesi til skotæfinga og stefnir á að byggja upp eitt glæsilegasta æfingasvæði á landinu.

 

 

 

 

Verkleg skotpróf - hreindýrapróf

Samkvæmt reglugerð sem tók gildi haustið 2012 ber hreindýraveiðimönnum að standast verklegt skotpróf áður en haldið er til hreindýraveiða.  Geta veiðimenn nú þreytt slíkt próf hjá Skotfélaginu Skotgrund, en um miðjan júní útskrifuðust fjórir fulltrúar Skotgrundar sem prófdómarar fyrir verkleg skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn.  Sóttu þeir námskeið á vegum Umhverfisstofnunar, en Gunnar Sigurðsson hjá Skotfélagi Reykjavíkur sá um kennsluna. 

 

Með þessu vildi Skotgrund bæta enn frekar þjónustuna við sína félagsmenn og sveitunga, en nú geta skotmenn af Vesturlandi tekið skotprófið í heimabyggð  í stað þess að þurfa að keyra langar vegalengdir til að þreyta slíkt próf.  Það virðist hafa verið þörf á þessari þjónustu og luku nokkrir veiðimenn skotprófi hjá Skotgrund í sumar.

 

Varðandi skotprófið sjálft þá hefur það tvennan tilgang.  Annars vegar að kanna hvort viðkomandi búi yfir þeirri hittni sem krafist er og hins vegar að kanna hvort viðkomandi kunni að meðhöndla skotvopn á ábyrgan hátt. 

 

 

 

 

Skotvopnasýning

Hin árlega bæjarhátíða Grundfirðinga  "Á góðri stund" fór fram í Grundarfirði síðustu helgina í júlí og meðal viðburða var skotvopnasýning sem Skotfélagið Skotgrund stóð fyrir. Til sýnis voru tæplega 40 skotvopn af ýmsum gerðum ásamt öðrum búnaði tengdum skotfimi og veiði. Tilgangur sýningarinnar var að kynna starfsemi félagsins og ræða við gesti og gangandi um skotvopn á jákvæðum nótum.

 

Sýningin var mjög vel sótt og viljum við þakka þeim fjölmörgu gestum sem sóttu sýninguna fyrir komuna, en áætlað er að yfir 1.000 manns á öllum aldri hafi séð sýninguna og kynnt sér starfsemi félagsins.  Var ekki annað að sjá en að gestirnir hafi verið ánægðir með sýninguna og fékk félagið mikið lof fyrir.

 

Auk þess að geta fræðst um starfsemi félagsins og skoðað skotvopn bauðst gestum sýningarinnar að taka þátt í léttum getraunarleik, sem fólst í því að giska á hversu mörg tóm skothylki var að finna í hjólbörum félagsins.  Hjólbörurnar höfðu verið fylltar af tómum haglabyssuskotum og fékk sá sem var næstur réttri tölu Mackintosh´s dós að launum. 

 

Úrslitin úr getraunarleiknum voru svo kunngjörð á kvöldvökunni á hátíðarsvæðinu um kvöldið að viðstöddum fjölda fólks.  Alls tóku 135 manns þátt í getrauninni og var það Laufey Lilja Ágústsdóttir frá Grundarfirði sem hlaut verðlaunin og var hún kölluð upp á svið til að veita þeim viðtöku. 

 

 
 
 
 
 
 
 
 

Nýr lóðarleigusamningur – lenging á riffilsvæði

Í október var undirritaður nýr leigusamningur á milli Skotgrundar og Grundarfjarðarbæjar, sem varðar leigu á landsvæði fyrir skotæfingasvæði í Hrafnkelsstaðabotni í Kolgrafafirði.  Nýi samningurinn er til 15 ára og gildir til 30. september 2028.  Með nýja samningnum fær Skotgrund til afnota stærra landsvæði til skotæfinga þar sem æfingasvæðið var lengt úr 450 m í 1.000 m.  Það gerir Skotgrund kleift að tryggja betur öryggi á svæðinu og er forsenda fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu. 

 

Skotgrund sem er skammstöfun af "Skotfélag Grundarfjarðar og nágrennis" hefur verið með 67.500 m2 landsvæði í Hrafnkelsstaðabotni á leigu frá árinu 1988, en leigusalinn er Grundarfjarðarbær.  Mikil uppbygging hefur verið á svæðinu undanfarin ár og eins og áður hefur komið fram hefur aðsókn að æfingasvæðinu aukist mikið.  Félagsmenn eru góð blanda af vönum skotmönnum, óvönum og síðast en ekki síst byrjendum, sem njóta góðrar leiðsagnar þeirra sem vanari eru.  

 

Markmið með stofnun félagsins var "að stuðla að góðri meðferð skotvopna í víðasta skilningi þess orðs" , en forsenda þess að félagið geti vaxið og dafnað er að það búi yfir góðri aðstöðu til skotæfinga. 

 

 

Æfingasvæði Skotgrundar var á sínum tíma, í sameiningu við sveitarstjórn, bændur o.fl. valinn góður staður og er eitt það besta hér á landi frá náttúrunnar hendi. Æfingasvæðið er í rísandi landslagi og býður upp á mikla möguleika til áframhaldandi uppbyggingar. 

 

Með nýja lóðarleigusamningnum fékk Skotgrund til afnota 82.500 m2 til viðbótar við þá 67.500 m2 sem félagið hefur haft, eða samtals 150.000 m2.  Það gerir félaginu kleift að tryggja öryggi enn frekar á svæðinu og bæta aðstöðu skotáhugamanna til skotæfinga enn frekar.

 

 

Stjórn Skotgrundar er stórhuga fyrir framtíðina og sér fyrir sér að þarna verði hægt byggja upp hið glæsilegasta æfingasvæði. Því er það stjórn Skotgrundar mikil ánægja að Grundarfjarðarbær skuli standa við bakið á félaginu með undirritun þessa nýja samnings.

 

 

 

 

Afmælismót og gamlársmót

Afmælismót Skotgrundar fór fram í lok október á æfingasvæði félagsins í Kolgrafafirði.  Mætingin var góð og fengu keppendur frábært veður til útiveru.  Keppt var í þremur riðlum og fóru leikar þannig að Unnsteinn Guðmundsson hreppti sigurinn, Einar Hjörleifsson tók annað sætið og Eymar Eyjólfsson það þriðja.

 

Þetta var í annað sinn sem þetta mót er haldið, en ætlunin er að gera þetta að árlegum viðburði.  Um leið var þetta líka ágætis upphitun fyrir komandi rjúpnaveiðitímabil, en fyrsti dagur tímabilsins var einmitt daginn eftir mótið.

 

 
 
 

 

 

Árinu lauk svo með Gamlársmóti Skotgrundar sem  haldið var daginn fyrir gamlársdag.  Aðstæður voru ekki alveg eins og menn eiga að venjast, en pallarnir voru á kafi undir 30 cm djúpum snjó.  Menn létu það þó ekki stoppa sig og var mætingin góð og var góð stemmning í hópnum.

 

Nokkrir nýliðar tóku þátt í mótinu og var sérstaklega gaman að fylgjast með þeim.  Gáfu þeir þeim sem vanari eru ekkert eftir og eiga án efa eftir að veita þeim harða samkeppni í framtíðinni.

 

Að lokum var áramótunum fagnað eins og hefð er fyrir, eða með því að "skjóta" upp "RISA-bombum".  Menn voru sammála um það að vel hefði tekist til og stefnt er að því að gera þetta að árlegum viðburði um áramótin.

 

 

 

 

 

Þakkir til félagsmanna

Um leið og við óskum landsmönnum öllum velfarnaðar á nýju ári viljum við þakka félagsmönnum okkar fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og ekki síst þakka fyrir þeirra framlag til félagsins, því án tryggra félagsmanna væri félagið ekki að blómstra.

 

Við hlökkum til að ganga inn í nýtt ár með ykkur og bjóðum um leið nýja félagsmenn velkomna í félagið.  Nánari upplýsingar um félagið er að finna hér á heimasíðu félagsins www.skotgrund.123.is.

SKOTGRUND

 

 


 

 

 

ÁRSSKÝRLSA SKOTGRUNDAR 2012

 

Í lokaorðum ársskýrslu félagsins frá árinu 2011 er talað um að vonandi muni framkvæmdir ganga vel á nýju ári (2012) og með bættri aðstöðu muni aðsókn á æfingasvæðið aukast.  Það má með sanni segja að þetta hafi gengið eftir því að mikið var um framkvæmdir á árinu og félagsmönnum fjölgaði töluvert.

 

Framan af vetri var aðallega unnið að því að uppfæra og bæta heimasíðu félagsins auk þess að skipuleggja framkvæmdir sumarsins.  Í lok mars var auglýstur aðalfundur félagsins sem síðan var haldinn í félagshúsnæði Skotgrundar þann 3. maí kl. 20:00.  Fundurinn var vel sóttur og sáust nokkur ný andlit á fundinum.  Farið var yfir hefðbundin aðalfundarstörf og svo sátu menn á spjalli langt fram í myrkur þar sem rætt var um allt milli himins og jarðar og sagðar veiðisögur.

03.05.2012 - Frá aðalfundi félagsins - Á myndina vantar Guðna Má og Tómas Frey.

 

Það helsta sem fram kom á fundinum var að mannaskipti urðu í stjórn félagsins þar sem tveir fyrrum stjórnarmenn óskuðu eftir því að stíga til hliðar til að hleypa fersku blóði að.  Einnig var farið yfir framkvæmdaáætlun félagsins og framkvæmdum forgangsraðað, svo eitthvað sé nefnt.

 

 

Þegar búið var að fara yfir framkvæmdaáætlunina skiptu menn með sér verkum og voru menn greinilega fullir af áhuga því aðeins tveimur dögum síðar var hafist handa við að grafa fyrir nýjum riffilborðum og gangstétt umhverfis þau.  Á árinu voru steypt niður 2 ný riffilborð til viðbótar við þau 4 sem fyrir voru, svo nú eru þau 6 talsins.  Einnig voru smíðaðir stólar úr rekaviði, við riffilborðin sem brennimerktir eru félaginu.

 

                        6. maí 2012                                                      22. júní 2012
 

 

 

                      4. október 2012                                               20. október 2012
 
 

 

 

Unnsteinn tók að sér að smíða járnramma fyrir stór skilti með merki félagsins og texta sem gefur til kynna að um skotæfingasvæði sé að ræða.  Þau prýða nú aðkomuna að æfingasvæðinu, en rammarnir voru steyptir niður á sama tíma og stéttin fyrir riffilborðin.  Þess má geta að Almenna umhverfisþjónustan ehf.  gaf félaginu steypuna og alla vinnu við hana.

 

                      10. maí 2012                                                        22. júní 2012
 
 

 

                      26. ágúst 2012                                                   26. ágúst 2012
 
 

 

 

Ekki er allt upp talið ennþá, því einnig voru steyptar niður undistöður fyrir riffilskotmörk á 25m, 50m, og 75m.  Fyrir voru skotmörk á 100m og 200m færi, en ákveðið hafði verið að bæta við skotmörkum í styttri fjarlægðum.  Það var svo Vélsmiðjan Berg sem smíðaði færanlegar grindur fyrir félagið, sem teknar voru formlega í notkun á afmælisfögnuði félagsins, en félagið fagnaði 25 ára starfsafmæli sínu á árinu.

 
                       21. júní 2012                                                    21. júní 2012
 

 

                       22. júní 2012                                                  19. október 2012
 
 

 

 

Félagið fjárfesti á haustdögum í 3 fánum með áletruðu merki félagsins sem dregnir voru að húni í blíðskapar veðri þegar félagið hélt upp á 25 ára starfsafmæli sitt.  Auglýst hafði verið opið hús á æfingasvæði félagsins þar sem félagsmenn buðu gestum og gangandi að prófa að skjóta og kynna sér starfssemi félagsins.  Einnig voru til sýnis valin skotvopn úr einkasafni félagsmanna  og boðið var upp á léttar veitingar.  Haldin var grillveisla í boði Samkaupa Úrvals, en Gunni verslunarstjóri gaf allt hráefni til veislunnar.  Voru margir að skjóta úr byssu í fyrsta skipti og var ekki annað að sjá en að mikil ánægja hafi ríkt á meðal gesta.

 

                   20. október 2012                                               20. október 2012
 
 

Að grillveislunni lokinni var haldið afmælismót í leirdúfuskotfimi.  Þátttakan í mótinu var góð og keppt var í tveimur riðlum.  Mótið fór á þann veg að Steinar Þór Alfreðsson hafnaði í fyrsta sæti, Snorri Rafnsson í öðru sæti og Guðmundur Reynisson í því þriðja. 

 

                   20. október 2012                                                20. október 2012
 
 

 

 

Skotgrund tók þátt í Dúfnaveislunni líkt og í fyrra, en Dúfnaveislan er samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar (UST), Skotveiðifélags Íslands (SKOTVÍS), ýmissa félaga sem reka skotvelli auk styrktaraðila. Tilgangur dúfnaveislunnar er að hvetja veiðimenn um land allt til að kynna sér þá aðstöðu sem skotvellirnir hafa uppá að bjóða og stunda reglulegar skotæfingar áður en veiðitímabilið hefst og undirbúa sig eins og best verður á kosið.

 

Annað sem vert er að minnast á er að knattspyrnumenn frá Grundarfirði heimsóttu félagið á árinu og reyndu fyrir sér í skotfimi auk þess sem félagið eignaðist viðskiptakort til olíukaupa.  Félagið fékk styrk frá Grundarfjarðarbæ sem fólginn er í niðurfellingu á fasteignagjöldum til bæjarins auk þess sem Ragnar og Ásgeir ehf. hefur styrkt félagið með flutningum á efni án endurgjalds.  Einnig fékk Skotgrund lánaða gröfu án endurgjalds hjá Vélaleigu Finnboga og Sigmundar ehf. til að hífa riffilborðplöturnar á sinn stað og til að keyra efni í bílastæðið.

 

                           8. september 2012 - Knattspyrnumenn í heimsókn
 
 

 

Það má segja að það hafi verið í nógu að snúast á liðnu ári, en hægt er að lesa nánar um allar framkvæmdir á bloggsíðu/fréttasíðu félagsins.  Gaman getur verið fletta í gegnum fréttir frá árinu og rifja upp það sem liðið er, því margur er fljótari að gleyma en hann heldur.  Einnig er hægt að skoða myndir af öllum framkvæmdum í myndaalbúminu hér á síðunni.

 

Vonandi verður ekki slöku slegið við á nýju ári, en á meðan beðið er eftir vorinu er tíminn nýttur í að undirbúa fyrir væntanlegar framkvæmdir sumarsins, ljúka við að skrásetja sögu félagsins og bæta heimasíðu félagsins.  Við hana bættist t.d. nýlega nýr tengill sem heitir "æfingasvæðið" auk þess sem tekin var saman tölfræði yfir fjölda félagsmanna gegnum tíðina.  Það er gleðilegt að sjá hversu mikil fjölgun hefur  orðið í félaginu á undanförnum árum og mun sú þróun vonandi halda áfram með bættri aðstöðu.  Að lokum viljum við þakka félagsmönnum fyrir samfylgdina á liðnu ári og hvetja þá til að vera duglega að mæta á æfingasvæðið á nýju ári.  Jafnfram viljum við bjóða alla áhugasama velkomna í félagið.

 

 

SKOTGRUND

 

 


 

 

 

ÁRSSKÝRSLA SKOTGRUNDAR 2011

 

Það er búið að vera mikið líf á skotæfingasvæði Skotgrundar síðastliðna mánuði og mörg ný andlit hafa látið sjá sig.  Starfssemi síðasta árs hófst með aðalfundi Skotfélagsins  sem haldinn var í félagshúsnæði Skotgrundar.  Farið var yfir helstu mál og sett var upp fjögurra ára framkvæmdaáætlun fyrir æfingasvæðið okkar. Þá voru tveir eldri stjórnarmenn sem óskuðu eftir því að láta af störfum auk þess sem það urðu formannsskipti og tók ný stjórn  til starfa þann 5 . maí 2011.  Upplýsingar um nýja stjórn er hægt að nálgast hér á heimasíðu Skotgrundar. Nýskipuð stjórn Skotgrundar vill koma fram þakklæti til fráfarandi stjórnarmanna fyrir þeirra starf í þágu félagsins.


Fyrstu verkefni nýrrar stjórnar var að koma upp samskiptasíðu á internetinu (Facebook) til þess að auðvelda félagsmönnum og öðrum samskipti, auk þess að gera upplýsingaflæði betra.  Þá var heimasíða félagsins uppfærð og gerðar smávægilegar breytingar á henni. 


 

Það fyrsta sem snýr að æfingasvæðinu sjálfu var að yfirfara allar vélarnar eftir veturinn svo hægt væri að auglýsa opnunartíma.  Æfingasvæðið var opið öll miðvikudagskvöld í sumar auk þess sem það var opið laugardaga og sunnudaga.  Heilt yfir þá var ágætis mæting á þessum opnunartímum, en einnig voru menn duglegir við að hópa sig saman, einmitt í gegnum nýju samskiptasíðuna og skipuleggja æfingar utan við auglýstan opnunartíma.


    


Þá barst Skotgrund kaffivél að gjöf ásamt öllu tilheyrandi frá einum félagsmanni félagsins. Það var Þorsteinn Bergmann sem færði félaginu hana þann 13. júlí 2011 á einni æfingunni og vakti það mikla lukku meðal annarra skotmanna. Það var því orðin ærin ástæða til þess að mæta oftar inn á svæði, þó það væri ekki nema til þess að fylgjast með öðrum og fá sér kaffisopa.

 

                                     


Skotgrund tók þátt í "Dúfnaveislunni 2011", sem haldin var í fyrsta skipti í ár. Dúfnaveislan er samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar (UST), Skotveiðifélags Íslands (SKOTVÍS), auk ýmissa félaga sem reka skotvelli auk styrktaraðila. Tilgangur dúfnaveislunnar var að hvetja veiðimenn um land allt til að kynna sér þá aðstöðu sem skotvellirnir hafa upp á að bjóða og stunda reglulegar skotæfingar áður en veiðitímabilið hefst og undirbúa sig eins og best verður á kosið.  Þetta átaksverkefni tókst nokkuð vel til og stefnir Skotgrund á að taka þátt í þessu verkefni aftur á næsta ári.  Vonandi verður þá búið að fara í einhverjar endurbætur á svæðinu okkar, eins og stefnt er að. Það mun gera svæðið okkar skemmtilegra fyrir félagsmenn okkar og enn meira aðlaðandi fyrir aðkomumenn að sækja okkur heim.


  

Á þessu ári var farið í smávægilegar endurbætur á húsnæði félagsins sem og öðrum eignum þess og keypt hafa verið ný upplýsinga- og aðvörunarskilti til þess að setja upp á svæðinu.  Stjórnin hefur einnig verið í því að safna peningum til þess að framkvæma fyrir, en til stendur að fara í mikið viðhald og endurbætur á svæðinu í heild sinni á næstu vikum og mánuðum.
 

  


Vonandi mun þessi vinna takast vel og skila sér í enn meiri aðsókn á völlinn, meiri gleði og betri árangri.  Við höfum átt margar góðar stundir saman á æfingasvæðinu okkar á síðastliðnu ári og við vonumst til þess að enn fleiri fái að njóta þessarar frábæru skemmtunar sem skotíþróttin hefur upp á að bjóða í ókominni framtíð.


  


  

 


 

 

 

ÁRSSKÝRSLA SKOTGRUNDAR 2010

 

Aðalfundur félagsins var haldinn þann 14. maí 2010 en fyrr í þeim mánuði var haldinn hreinsunardagur félagsins á félagssvæði þess. Félagið hefur á árinu haldið utan um verklegan þátt skotvopnanámskeiða á vegum Umhverfisstofnunar. Mikið var skotið á svæðinu á árinu en þó hafa bilanir á haglabyssusvæðinu verið að hrella félagsmenn. Sú nýlunda var síðastliðið sumar að haldið var námskeið í umhirðu skotvopna en þá var Arnfinnur Jónsson fenginn til að kenna mönnum umhirðu og hreinsun skotvopna og þá einkum riffla. Skráðir félagar í árslok 2010 voru 50 talsins.

 

 


 

 

ÁRSSKÝRSLA SKOTGRUNDAR 2007

Haldnir voru 2 formlegir stjórnarfundir á árinu auk vinnu- og símafunda.  Á fyrsta fundi skipti stjórn með sér verkum, Freyr Jónsson formaður, Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir gjaldkeri, Bjarni Sigurbjörnsson ritari, Þorsteinn B. Sveinsson og Atli Már Gunnarsson meðstjórnendur.

 

Stjórnin hittist fyrst á óformlegum fundi strax að loknum aðalfundi 2006.  Lagðar voru línurnar hvað brýnast væri að vinna að og ákveðið að hittast sem fyrst til að skipuleggja starfið framundan.  Ákveðið var að leggja áhersluna fyrst og fremst á að koma riffilsvæðinu í viðunandi horf með því að setja niður fleiri borð, byggja yfir þau sem og að laga riffilbatta.

 

Starfið fór heldur hægt af stað, eða mun hægar en ætlunin var en í maí var haft samband við formann Skotgrundar varðandi þátttöku félagsins í Landsmóti UMFÍ sem haldið var í Kópavogi í júlí.  Á mótinu kepptu 4 félagsmenn Skotgrundar og tókst mótið í alla staði vel.  Í kjölfar þessarar heimsóknar höfðu félagsmenn Skotíþróttafélags Hafnarfjarðar samband vegna fyrirhugaðrar heimsóknar í Grundarfjörð.  Þann 11. ágúst mættu sjö félagar SÍH á skotsvæði okkar í Hrafnelsstaðabotni og sex félagsmenn Skotgrundar.  Ákveðið var að efna til skotkeppni og það er skemmst frá því að segja að heimamenn þyrftu að æfa sig aðeins betur.  Gestirnir létu í ljós mikla ánægju með heimsóknina og höfðu á orði að þetta væri vonandi bara byrjunin á enn frekara samstarfi.  Það er von stjórnar Skotgrundar að slík heimsókn geti orðið að árlegum viðburði á milli þessara félaga.

 

Ekkert varð af því að ráðist yrði í gerð félagsskírteina og helgaðist það einna helst af því að reynt var að semja við verslanir um afslætti en þrátt fyrir að gengið væri þó nokkuð á eftir því varð ekkert úr slíku samstarfi.

Lítil aðsókn var að leirdúfuvelli félagsins í fyrrasumar en fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á leirdúfuvellinum með tilkomu nýrrar ljósavélar sem fest var kaup á nú á vordögum.  Þannig er að eins og sagt var frá á síðasta aðalfundi fengust vilyrði fyrir styrkjum bæði frá Grundarfjarðarbæ og íþróttasjóði Menntamálaráðuneytisins og hefur styrkurinn frá Grundarfjarðarbæ þegar fengist greiddur.  Styrkurinn frá íþróttasjóðnum fæst hins vegar ekki greiddur fyrr en staðfesting hefur borist með reikninsskilum þess efnis að verkefnið sem sótt var um styrk til hafi veirð unnið í samræmi við umsókn.  Upphaflega var sótt um styrk til byggingar skýlis yfir riffilborð en stjórnin ákvað hins vegar að óska eftir því í vetur að fá að breyta umsókninni á þá leið að styrkurinn fengist til að fjármagna vélarkaup fyrir leirdúfuvöllinn.  Að mati stjórnar var það orðið tímabært að ráðast í slík kaup til að forsvaranlegt væri að ráða vallarstjóra sem séð gæti um leirdúfuvöllinn en að mati stjórnar hafa öryggismál við ljósavél staðið í vegi fyrir því.

 

Félagið varð 20 ára á árinu en ekki varð úr hátíðarhöldum í tilefni þess og er það tillaga stjórnarinnar að við vígslu nýrrar vélar verði haldin afmælisveisla í húsnæði félagsins í Hrafnkelsstaðabotni.

 

Skráðir félagar í árslok voru 19 talsins.

 

Nýjustu fréttir af svæði félagsins eru síðan þær að komið er GSM samband í gegnum kerfi Vodafone.

 


 

 

 

ÁRSSKÝRSLA SKOTGRUNDAR 2007 (SKÝRSLA TIL HSH)

 

Pistill frá Skotgrund

Upphaf ársins 2007 fór að mestu í áframhaldandi uppbygginu á svæði félagsins í Hrafnkelsstaðabotni. Fjórir keppendur frá Skotgrund tóku þátt í Landsmóti UMFÍ sem haldið var dagana 5.-8. Júlí. Kepptu þeir allir í leirdúfuskotfimi en keppt var á velli Skotíþróttafélags Hafnarfjarðar (SÍH) á Iðavöllum. Í ágúst komu svo góðir gestir í Hrafnkelsstaðabotn þegar félagar úr SÍH heimsóttu okkur og var tekin létt keppni. Heppnaðist dagurinn í alla staði vel og ekki spillti veðrið fyrir þrátt fyrir þoku framan af degi. Fyrirhugaðar eru frekari heimsóknir milli félaganna á komandi ári. Við viljum að lokum minna á heimasíðu félagsins en veffangið er www.123.is/skotgrund. Skráðir félagar í árslok 2007 voru 20 talsins. Það er von stjórnarinnar að unnt verði að halda úti öflugra félagsstarfi á árinu 2008 og að sem flestir mæti á svæði félagsins næsta sumar.

 

4 við vegg

 

 


 

 

ÁRSSKÝRSLA SKOTGRUNDAR 2006

Haldnir voru 3 formlegir stjórnarfundir á árinu auk vinnu- og símafunda.  Á fyrsta fundi skitpi stjórn með sér verkum, Freyr Jónsson formaur, Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir gjaldkeri, Bjarni Sigurbjörnsson ritari, Þorsteinn Björgvinsson, Hafsteinn Þór Magnússon og Sigurður Hallgrímsson meðstjórnendur.

 

Stjórnin hittist fyrst á óformlegum fundi strax að loknum aðalfundi 2005.  Lagðar voru línurnar hvað brýnast væri að vinna að og ákveðið að hittast í febrúar til að skipuleggja starfið framundan.  Ákveðið var að leggja áhersluna fyrst og fremst á að klára félagsheimili og koma leirdúfuvelli í viðunandi horf.

 

Félaginu var komið á skrá hjá HSH að nýju eins og sést á því að félagið fékk lottótekjur á árinu upp á rúmar 23 þúsund krónur.  Ennfremur komst félagið aftur á skrá hjá Skotíþróttasambandi Íslands.  Sendir voru fulltrúar félagsins bæði á héraðsþing HSH og aðalfund STÍ.

Á vormánuðum var unnið að því að klára félagsheimili, klárað að leggja í gólf, veggir klæddir, skipt um glugga og húsið málað að innan.  Þann 13. maí var félagsmönnum sem og öðrum velunnurum boðið til formlegrar opnunar vallarins.

Þegar átti að fara að ganga frá leyfi fyrir völlinn frá sýslumannsembættinu kom í ljós að enginn þinglýstur leigusamningur var til fyrir svæðið.  Gengið var frá leigusamningi um svæðið til 20 ára og hann undirritaður þann 9. júní 2006.

 

Reynt var að halda úti opnun á leirdúfuvelli en vegna lítillar aðsóknar var ákveðið að nota gömlu leiðina þ.e. að fara frameftir þegar hringt væri eftir  því.  Hins vegar þykir stjórn félgasins það nauðsynlegt að halda úti opnun og ráða vallarstjóra en var jafnframt sammála um að ekki væri forsvaranlegt að ráða mann til að sjá um völlinn fyrr en öryggismál við ljósavél væri komin í lag.

 

Í haust var síðan hafist handa við að undirbúa lagfæringu á riffilsvæði og hafa nú þegar verið steypt fjögur ný riffilborð sem ætlunin er að setja upp.  Ljóst var að til að ljúka uppbyggingu á svæðinu þyrfti talsvert fjármagn og var því leitað eftir styrkjum bæði úr íþróttasjóði Menntamálaráðuneytisins og frá Grundarfjarðarbæ.  Vilyrði hafa fengist fyrir 100 þúsund króna styrk frá Grundarfjarðarbæ og 200 þúsund króna styrk frá Íþróttasjóði sem þó verður ekki greiddur fyrr en staðfesting hefur borist með reikningsskilum að verkefnið sem sótt var um styrk ti lhafi veirð unnið í samræmi við umsókn.

Unnið er að því að útvega félagsmönnum afslátt í verslunum gegn framvísun félagsskírteinis í Skotgrund og er svars að vænta á næstu dögum frá fyrstu versluninni.

 

Eins og fram kom á síðasta aðalfundi var vilji manna fyrir því að taka heimasíðumál félagsins í gegn.  Skoðaðir voru möguleikar þess að setja upp nýja heimasíðu en það reyndist ansi dýrt.  Leitað var eftir styrkjum en hafðist ekki erindi sem erfiði upp úr því utan 20.000 kr. styrks frá Landsbankanum.  Síðla árs fannst hinsvegar ódýr og góð lausn sem kynnt verður hér á eftir.

Eins og margir vita þá verður félagið 20 ára í ár og þykir stjórn við hæfi að haldið yrði upp á það með einhverjum hætti

 

Skráðir félagar í árslok voru 29 talsins.

 


 

 

 

ÁRSSKÝRSLA SKOTGRUNDAR 2006  (SKÝRSLA TIL HSH)

 

Stjórn Skotgrund:

Freyr Jónsson, formaður

Bjarni Sigurbjörnsson, ritari

Jarðþrúður Hanna Jóhannsdóttir, gjaldkeri

Þorsteinn Björgvinsson, meðstj.

Sigurður Hallgrímsson, meðstj.

Hafsteinn Þór Magnússon, meðstj.

 

Skotveiðifélag Grundarfjarðar var stofnað þann 10. Október 1987 og verður félagið því 20 ára á árinu.  Síðan breyttist nafn þess í Skotfélag Grundarfjarðar og nágrennis, skammstafað Skotgrund og varð félagið aðili að HSH í október 2003.

Árið 2006 fór að mestu í uppbyggingu á svæði félagsins í Hrafnkelsstaðabotni.  Gengið var til samninga við Grundarfjarðarbæ um áframhaldandi leigu á landsvæðinu  í Hrafnkelsstaðabotni og þann 9. Júní 2006 var undirritaður áframhaldandi leigusamningur um svæðið til 20 ára.

Unnið var að því að klára félagsheimili félagsins og æfingarsvæði fyrir leirdúfuskotfimi var komið i viðunandi horf.   Ennfremur voru steypt fjögur ý riffilborð og er ætlunin að klára riffilsvæðið á árinu 2007.

Félagið hefur komið sér upp nýrri heimasíðu og er veffang félagsins nú www.123.is/skotgrund en þar verður að finna upplýsingar um það sem er á döfinni hjá félaginu ásamt fréttum af félagsmönnum og myndum.  Skráðir félagar árslok 2006 voru 30 talsins.

Það er von stjórnarinnar að unnt verði að halda úti öflugu félagsstarfi á árinu 2007 og að sem flestir mæti á svæði félagsins næsta sumar.  Opnunartímar verða auglýstir síðar á heimasíðu félagsins.

 

 


 

 

 

ÁRSSKÝRSLA SKOTGRUNDAR 2005

 

Starfsemi félagsins hefur að mestu legið niðri síðan árið 2003.  Á aðalfundi félagsins í janúar 2006 var kosin ný stjórn en hana skipa:

 

Freyr Jónsson, formaður

Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, gjaldkeri

Bjarni Sigurbjörnsson, ritari

Þorsteinn Björgvinsson , meðstjórnandi

Sigurður Hallgrímsson, meðstjórnandi

Hafsteinn Þór Magnússon, meðstjórnandi

 

Helstu verkefni sem framundan eru hjá félaginu er að klára félagsheimili og lagfæra aðstöðu félagsins á Hrafnkelsstöðum.  Fyrirhugað er að hafa fastan opnunartíma í sumar sem verður auglýstur þegar nær dregur þar sem félagsmenn geta gengið að því vísu að komast á skotsvæðið á föstum tímum.

Það er því mikið verk framundan að rífa félagið af stað aftur og er það okkar von að félagsmenn sem og aðrir verði virkir við uppbyggingu félagsins.

 

 

Með félagskveðju

Stjórn Skotfélagsins Skotgrundar