Saga félagsins

 

 

Stofnun félagsins

 

Félagið heitir Skotgrund sem er stytting af "Skotfélag Grundarfjarðar og nágrennis".  Það var stofnað af skotáhugamönnum í Grundarfirði á haustdögum árið 1987 og hét í þá daga Skotveiðifélag Grundarfjarðar.  Formlegur stofnfundur var haldinn þann 10. október, að undangengnum nokkrum undirbúningsfundum þ.á.m. kynningarfundi sem haldinn var í Grundarfirði þann 26. september kl. 14:00, þar sem 17 fundarmenn sátu kynningarfundinn.  Þeir voru: 

 

Þórður Eggert Viðarsson                                 Vilhjálmur Pétursson

Guðbjörg Elín Friðfinnsdóttir                       Geirmundur Vilhjálmsson

Bjarki Aðalsteinsson                                       Þráinn Nóason

Gísli Magnússon                                              Unnsteinn Guðmundsson

Reynir Ragnarsson                                         Árney Huld Guðmundsdóttir

Jóhannes K. Jóhannsson                               Birgir Guðmundsson

Þorsteinn H.                                                     Ómar B. Elísson

Aðalsteinn Friðfinnsson                               Hermann Gíslason

Þorsteinn Björgvinsson

      

 

 

Stofnfundurinn var haldinn í skólastofu barnaskólans í Grundarfirði þann 10.október sama ár kl. 20:00.  Fundarmenn sem sátu stofnfundinn voru:

 

Kristján Kristjánsson                                       Runólfur Guðmundsson

Geirmundur Vilhjálmsson                              Árney Huld Guðmundsdóttir

Jóhannes Jóhannesson                                  Þórður Eggert Viðarsson

Hlynur Harðarson                                           Ómar B. Elísson

Reynir Ragnarsson                                         Gísli Magnússon

Þráinn Nóason                                                Birgir Guðmundsson

Ólafur Hjálmarsson                                       Ólafur Pétursson

Páll Guðmundsson                                        Þorsteinn Björgvinsson

          

 

 

Jafnframt sátu stofnfundinn fulltrúar Skotveiðifélags Íslands, en Skotveiðifélag Grundarfjarðar var að gerast aðili að Skotveiðifélagi Íslands samhliða stofnun félagsins. 

 

 

Á stofnfundinum var fyrsta stjórn félagsins kosin.  Í stjórn félagsins voru kjörnir þeir:

 

Þorsteinn Björgvinsson              Formaður                               

Birgir Guðmundsson                  Varaformaður

Geirmundur Vilhjálmsson         Ritari

Ómar B. Elísson                           Gjaldkeri                           

Gunnar Kristjánsson                  Meðstjórnandi

Ólafur Hjálmarsson                   Varamaður

Sævar Guðmundsson                Varamaður

 

 

 

Við stofnun félagsins voru félagsmenn 46 talsins.

 

 

 


 

 

 


 

Fyrsti stjórnarfundur félagsins

 

Fyrsti stjórnarfundur félagsins var haldinn þann 25. október  1987 og rætt var um umsókn til Hreppsnefndar  Eyrarsveitar um aðstöðu til skotæfinga fyrir félagið í Hrafnkelsstaðabotni.

 

Markmið með stofnun félagsins var "að stuðla að góðri meðferð skotvopna í  víðasta skilningi þess orðs".  Til þess að ná því markmiði "þarf félagið að hafa aðgang að skotæfingasvæði", segir í bréfi stjórnarinnar til Hreppsnefndar Eyrarsveitar dagsett í október 1987.

    

              

 

Hér má sjá afrit af bréfi stjórnarinnar til Hreppsnefndarinnar frá því í október árið 1987.

 

 

 

  

             

 

Hér má sjá afrit af bréfi frá byggingarfulltrúa frá 1988 sem vottar að umsóknin hafi verið tekin fyrir og samþykkt.

 

 

 

 

Einnig var rætt um á þessum fyrsta stjórnarfundi félagsins nauðsyn þess að boða til aðalfundar fljótlega eftir áramótin til að fjalla um lög félagsins, merki, skírteini og fleiri mál.

 

    

 


 

 

 

 

 

Fyrsti aðalfundur félagsins

 

Boðað var til fyrsta aðalfundar félagsins sunnudaginn 24. apríl 1988 í Grunnskóla Eyrarsveitar kl. 13:30.  Dagskrá aðalfundarins var eftirfarandi:

 

1) Lög félagsins lögð fram

2) Ákvörðun um félagsgjöld

3) Merki félagsins og skírteini

4) Önnur mál

 

 

Sextán félagsmenn mættu á fundinn og voru lög félagsins samþykkt einróma.

 

 

                            

 

                   

 

Hér má sjá fyrstu lög félagsins sem samþykkt voru á aðalfundi þann 24. apríl 1988.  Þau eru enn í gildi en þó hafa verið gerðar nokkrar breytingar á þeim.  Hægt er að finna núgildandi lög félagsins hér á heimasíðunni.

 

 

Ákveðið var að árgjöld yrðu 1.500 kr. og þar af renni 500 kr. til Skotvís.  Þó var ákveðin sú undantekning að hjón greiði eitt og hálft gjald eða 2.250 kr. og þar af renni 1.000 kr. til Skotvís.

 

 

Lagður var fram uppdráttur af fyrirhuguðum framkvæmdum á skotsvæðinu og var hann samþykktur einróma.

 

 

 

Hér veður birt teikning með upprunalegum hugmyndum um uppbyggingu svæðisins.

 

 

 

Stjórn félagsins var síðan endurkjörin óbreytt fyrir næsta starfsár.  Félagatal Skotgrundar hafði þegar verið sent til Skotvís og voru félagsmenn þegar þarna var komið við sögu 49 talsins.

 

 

 


 

 
Leigusamningur og uppbygging á skotæfingasvæði

 

Þann 22. desember 1988 var undirritaður leigusamningur við Hreppsnefnd Eyrarsveitar um leigu á 67.500 m2 svæði  í Hrafnkelsstaðabotni til uppbyggingar á skotæfingasvæði.  Samningurinn var fyrst til eins árs í senn en var síðan framlengdur til tuttugu ára. 

 

Árið 2006 var leigusamningurinn undirritaður í þriðja sinn og aftur til 20 ára.  Sá samningur  átti að gilda til ársins 2026.

 

 

              

 

Hér má sjá afrit af bréfi frá Hreppsnefnd Eyrarsveitar sem gefur formlega leyfi fyrir notkun á svæðinu fyrir skotæfingasvæði.  Leyfið var fyrst gefið út til eins árs en hefur verið endurnýjað nokkrum sinnum.

 

 

Fljótlega hófst uppbygging á svæðinu, en öll vinna á svæðinu var unnin í sjálfboðavinnu.  Steypt voru niður fjögur riffilborð og settar voru upp grindur fyrir skotmörk á 100 m færi.  Einnig voru smíðaðar grindur til að setja upp á 200 m en uppsetning á þeim tafðist. Riffilsvæðið er eitt það besta hér á landi frá náttúrunnar hendi.

 

Hér má sjá sjá þá Birgi Guðmundsson, ??? og Pál Guðmundsson við steypuvinnu við riffilborðin, en í bakgrunninn má sjá að undirbúningsvinna fyrir leirdúfuvöllinn er hafin.

 

 

Leirdúfuvöllurinn var byggður upp norðan við riffilborðin, en keyra þurfti mikið magn af efni úr Hrafnánni til að móta völlinn.  Steyptar voru undirstöður fyrir hús utan um kastvélarnar, en félagið fest kaup á notuðum kastvélum frá Skotreyn* á vordögum árið 1990.  Þær eru af gerðinni Danlac, en fyrir þær greiddi félagið 250.000 krónur. Kaup á vélunum og útbúnaði voru m.a. fjármögnuð með sölu á svartfugli.

 

Húsin utan um vélarnar voru smíðuð að hluta til í Grundarfirði og flutt inn í Hrafnkelsstaðabotn þar sem lokið var við smíðin.  Timbur í húsin höfðu félagsmenn fengið fyrir lítið hjá versluninni Hömrum í Grundarfirði.

 

*Skotreyn = Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis.

 

 

Stórvirkar vinnuvélar voru fengnar til þess að keyra efni í leirdúfuvöllinn.

 

Hér má sjá að búið er að flytja húsin á staðinn og verið er að ljúka við að klæða turninn að utan.

 

 

Félagið fékk gefins gamla ljósavél úr Grundfirðingi SH-12 til að nota sem aflgjafa fyrir kastvélarnar. Vélin var 56hö og af gerðinni Buck, en henni átti að henda.  Steini Gun tók það að sér að laga vélina og gera hana nothæfa.

 

Gamla ljósavélin úr Grundfirðingi SH-12.

 

 

 


 

 

 

 

 

Skotvopnasýning

 

Skotveiðifélagið Skotgrund eins og það hét í þá daga stóð fyrir skotvopnasýningu þann 9. september árið 1989 þar sem gestum og gangandi var boðið að skoða og fræðast um skotvopn.  Til sýnis voru skotvopn úr einkaeigu félagsmanna og boðið var upp á léttar veitingar. 

 

Hægt er að sjá myndir frá byssusýningunni og nöfn þeirra sem rituðu nafn sitt í gestabókina í myndaalbúminu hér á heimasíðu félagsins.

 

Hér eru nokkur af þeim skotvopnum sem voru til sýnis á sýningunni.

 

 

 


 

 

 

 

 

Heiðursfélagi

 

Árið 1997 eða á 10 ára afmælisári félagsins var Þorsteinn Björgvinsson gerður að heiðursfélaga, en "Steini Gun" eins og hann oftast er kallaður var einn af stofnendum félagsins og hefur setið í stjórn þess allar götur síðan.  Þetta var ákveðið á stjórnarfundi þann 8. október 1997 með samþykki allra stjórnarmanna.

   

                           

              Þorsteinn Björvinsson (Myndin er í eigu Guðjóns Elíssonar - www.gauiella.is) 

 

 


 


Nafnabreyting á félaginu

 

Nafni félagsins var breytt í júní árið 1998, nánar tiltekið á  aðalfundi félagsins sem haldinn var á kaffistofu Sæfangs þann 21. júní.  Þá var formlega borin upp sú tillalaga að breyta eðli félagsins þ.e. að félagið heiti áfram Skotgrund, en verði Skotfélag Grundarfjarðar í stað Skotveiðifélag Grundarfjarðar.  Tillagan var samþykkt samhljóða og ber félagið því nafnið Skotgrund skotfélag Grundarfjarðar. 

 

 

 


 

 

 

 

 

Merki félagsins

 

Á þessum sama fundi og um ræðir hér fyrir ofan (21. júní 1998) var lagt fram til samþykktar nýtt merki félagsins og var það samþykkt samhljóða.  Þó átti eftir að ljúka lokafrágangi merkissins og var "Steina gun" veitt umboð til að ljúka við hönnun og framleiðslu þess. Það er merki félagsins eins og það er í dag.


                      

 

             Merki félagsins gerði og hannaði Helga Stolzenwald, eiginkona "Steina Gun".

 

 

 


 

 

 

 

 

Aðildarumsókn að HSH og STÍ

 

Vorið 2000 var undirbúningsvinna fyrir inngöngu í HSH hafin og aðildarumsókn send inn.  Í kjölfarið eða nánar tiltekið á aðalfundi félagsins þann 29. mars árið 2001 var ákveðið að send yrði inn umsókn um inngöngu í Skotsamband Íslands. Það var svo á vordögum árið 2002 sem félagið fékk inngöngu og var því orðið viðurkennt íþróttafélag innan ÍSÍ.  Skotgrund varð svo aðili að HSH í október árið 2003.

 

 

 


 

 

 

 

 

Félagshúsnæði

 

Lengi hafði verið rætt um það félagið þyrfti að koma upp félagshúsnæði á æfingasvæði félagsins. Teiknaðar höfðu verið upp hugmyndir að hentugu húsnæði og það var svo í mars árið 2000 að undirbúningsvinna fyrir byggingu félagshúsnæðis hófst af alvöru.  Farið var í það að kanna hvaða leyfi þyrfti til og hver kosnaðurinn yrði við byggingu þess. 

 

Hugmyndin var að reisa um 40 m2 húsnæði á svæðinu, en þegar betur var að gáð var það útséð að það yrði of kostnaðarsamt að byggja hús. Því var farið í það að leita af tilbúnu húsnæði sem hægt væri að flytja á svæðið.

  

 

Hér fyrir neðan má sjá upprunalegar hugmyndir að hentugu húsnæði fyrir starfssemi félagsins.

 

  

Það var svo á stjórnarfundi þann 2. október árið 2001 sem hugmynd var borin upp um að skoða 20 m2 húsnæði  frá Búlandshöfða, sem áður hafði hýst Búlandskaffi.  Ákveðið var að skoða þann möguleika en einnig var húsnæði frá Vatnabúðum skoðað sem og gamall vinnuskúr. 

 

Húsið á Búlandshöfða þótti álitlegasti kosturinn og gengið var frá kaupum á því í desember sama ár.  Það var svo í maí árið eftir sem húsið var flutt inn í Hrafnkelsstaðabotn og sett niður þar sem það er nú.  Í fundargerðum frá þessum tíma kemur fram að húsið hafi verið "ljótt en ófúið".   Verð???

 

Það þarfnaðist töluverðra endurbóta, en klæða þurfti það að innan og utan, skipta um járn á þaki, grafa að húsinu að utan og margt fleira.  Það var svo ekki fyrr en árin 2006 og 2007 sem húsið var klætt að innan og raflagnir lagðar. 

 

 

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá því þegar verið var að standsetja húsið.

 

 Bjarni Sigurbjörnsson að skipta um glugga í húsinu þann 19. apríl 2006.

 

Jarþrúðu Hanna Jóhannsdóttir við málningarvinnu þann 8. maí 2006.

 

Freyr Jónsson, Bjarni Sigurbjörnsson og Sigurbjörn Bjarnason við smíðavinnu þann 8. maí 2006.

 

 

 

 

Félagshúsnæðið var formlega tekið í notkun þann 13. maí 2006 og að því tilefni kom hópur fólks saman til að skjóta og borða léttar veitingar.

 

Eygló Jónsdóttir, Freyr Jónsson, Guðrún Lilja Arnósdóttir, Hafsteinn Þór Magnússon, Alma Jenný Arnarsdóttir, Bjarni Sigurbjörnsson og Arnar Guðlaugsson.

 

 

Hallgrímur Hallgrímsson, Þorsteinn Björgvinsson, Þorsteinn B. Sveinsson, Karl Jóhannsson, Palli danski og ???.

 

 

 


 

 

 

 

 

Heimasíða

 

Fyrsta heimasíða félagsins var sett á laggirnar í maí árið 2002 og er búið að reyna nokkrar útfærslur af henni og hýsa hana á mismunandi stöðum.  Það var svo á aðalfundi félagsins þann 22. febrúar árið 2007 sem síðan var opinberuð í fyrsta sinn í núverandi mynd undir léninu www.123.is/skotgrund þar sem hún er hýst núna. 

 

Unnið er að stöðugum endurbótum á henni og er starfssemi félagsins gerð eins góð skil og mögulegt er.  Allar helstu upplýsingar um starfssemi félagsins er hægt að nálgast á heimasíðunni.

 

 

 


 

 

 

 

 

Ný ljósavél

 

Í maí 2007 var ráðist í eina stærstu fjárfestingu félagsins þegar keypt var ný ljósavél sem leysa átti gömlu ljósavélina af hólmi sem hafði þjónað félaginu í gegnum árin. Félagið hafði fengið 200.000 kr. styrk úr íþróttasjóði Menntamálaráðuneytisins og 100.000kr. styrk frá Grundarfjarðarbæ til að byggja skýli yfir riffilborðin. Styrkumsókninni var síðar breytt í styrk til vélarkaupa og fékkst það samþykkt. 

 

Nýja vélin er dieselvél af tegundinni Kipor og er talin eins auðveld í notkun og mögulegt er. Gerir það félagsmönnum kleyft að koma rafmagni á félagshúsnæðið og kastvélarnar án mikillar fyrirhafnar. Það var svo þann 20. maí 2008 sem vélarskiptin fóru fram og má sjá myndir frá því hér fyrir neðan.

 

Bjarni Sigurbjörnsson að undirbúa það að fjarlægja gömlu ljósavélina.

 Gamla vélin fjarlægð.


Nýju vélinni komið fyrir, en hún tekur mun minna pláss en sú gamla og er mun auðveldari í notkun.  Á myndinni eru þeir Bjarni Sigurbjörnsson og Þorsteinn B. Sveinsson.


Nýja vélin komin á sinn stað og tilbúin til notkunar.

 

 

 


 

 

 

 

 

Riffilborðin endurnýjuð

 

Haustið 2005 var hafist handa við að endurnýja riffilborðin.  Upprunalegu riffilborðin sem smíðuð voru úr timbri voru voru farin að láta verulega á sjá og því var ákveðið að endurnýja borðin. 

                                    
                                Marvin Ívarsson að skjóta af gömlu riffilborðunum árið 1996.

Að þessu sinni var ákveðið að hanna steypumót og steypa borðplötur í stað þess að nota timbur.  Smíðuð voru steypumót á bænum Eiði sem borðplöturnar voru steyptar í og heppnaðist það mjög vel.

Vorið 2006 voru fyrstu tvær borðplöturnar steyptar niður á undirstöðurnar frá gömlu riffilborðunum.  Þær voru steyptar fastar í steinrör, sem steypt eru utan um gömlu stálrörin undan gömlu borðunum.  Hafa þessi borð reynst afar vel og eru þau mjög stöðug. 
 

                                 
                       Hér má sjá tvö ný riffilboog eitt gamalt.  Myndin er tekin í maí 2006.


Tveimur árum síðar eða sumarið 2008 voru steyptar niður tvær borðplötur til viðbótar og þá var búið að endurnýja öll borðin og félagið komið með 4 mjög stöðug riffilborð.

 


Það var svo árið 2012 að ákveðið var að fjölga borðunum úr 4 í 6.  Stéttin undir borðunum var lengd í báða enda og steypt voru 2 riffilborð til viðbótar.  Hafist var handa við að grafa fyrir stéttinni í maí 2012 og var hún steypt í júní.  Það var svo í október sama ár sem borðin voru steypt niður, en þau voru svo tekin formlega í notkun á 25 ára afmæli félagsins sem haldið var upp á þann 20. október.

 
                             Maí 2012                                                            Júní 2012                     
 
                         Október 2012                                     Október 2012 - 6 borð tekin í notkun

 

 


 

 

 

 

 

Riffilbattarnir endurnýjaðir og nýjum bætt við

 

Upprunalega voru smíðaðir tveir 6 metra breiðir riffilbattar fyrir 100m og 200m fjarlægð.  Þeir voru smíðaðir árið 1988 og steyptar voru niður undirstöður fyrir þá.  100 m battinn hefur verið í mikilli notkun síðan þá, en það dróst að ljúka við uppsetningu á 200 m battanum. Það var svo ekki fyrr en í maí árið 2008 að lokið var við að setja upp 200m battann, en þá var um leið 100 m battinn endurnýjaður mikið, enda var farið að sjá mikið á honum eftir rúmlega 20 ára notkun. 
 
Fjórum árum síðar var aftur farið að sjá mikið á þeim báðum og vorið 2012 var brugðið á það ráð að skera úr þeim verstu kaflana svo hægt væri að setja plötur fyrir skotskífur í þá. Aðal skemmdirnar voru eftir riffilkúlur og sýnir það að notkun á svæðinu er mikil.

 
 
Þar sem aðsóknin á riffilsvæðið hafði aukist jafnt og þétt undanfarin ár var ákveðið vorið 2012 að lagfæra og bæta riffilaðstöðuna enn frekar og þá aðallega með það í huga að bæta aðstöðu fyrir minni caliber.  Steyptar voru undirstöður fyrir færanlega riffilbatta á 25m, 50m og 75m til að auka fjölbreytnina.  Undirstöðurnar voru steyptar í júní 2012 og Vélsmiðjan Berg smíðaði fyrir félagið grindur fyrir riffilskotmörk sem teknar voru formlega í notkun á 25 ára afmælisfögnuði félagsins, í október sama ár.  Riffilbrautin hafði þegar hér var komið við sögu upp á að bjóða 6 öflug riffilborð og skotmörk á 25m, 50m, 75m, 100m og 200m.


 
        Riffilbattarnir lagfærðir - maí 2008         Færanleg skotmörk tekin í notkun - október 2012
 

 

 


 

 

 

 

 

Gamla ljósavélin seld

 

Gamla ljósavélin sem þjónað hafði Skotgrund áður en nýja vélin var keypt, var seld árið 2008 fyrir 50.000 kr.  Var vélin flutt inn í Helgafellssveit og hugðist kaupandinn nota vélina til að annast rafmagnsþörf safns.  Eitthvað tafðist það að fá greitt fyrir vélina og seinna kom í ljós að viðkomandi hafði tekið inn rafmagn og þurfti því ekki á vélinni að halda.  Félagsmenn Skotgrundar voru afar ósáttir með það að vélin hafi verið sótt án þess að greitt hafi verið fyrir hana og vorið 2013 var haft samband við kaupandann og var honum boðið að greiða fyrir vélina eða skila henni.  Ekki leið að löngu þar til vélinni var skilað og var því hægt að fara auglýsa hana til sölu á ný.

 

Það kom hinsvegar aldrei til því að athafnamaður frá Reykjavík hafði frétt af vélinni og vildi kaupa hana.  Samningar náðust um að hann fengi vélina fyrir sama verð og hún hafði verið seld áður, eða 50.000 kr.  Var vélin því seld til Reykjavíkur sumarið 2013.  Ákveðið var svo síðar að greiðslan fyrir vélina yrði ekki með peningum heldur skiptivinnu, þar sem kaupandinn lagaði fyrir okkur kastvélarnar o.fl. í staðinn og lagði til efni til viðgerðarinnar.

 
 

 


 

 

 

 

 

Prófdómarar fyrir verkleg skotpróf útskrifaðir

 

Samkvæmt reglugerð sem tók gildi árið 2012 ber hreindýraveiðimönnum að standast verklegt skotpróf áður en haldið er til hreindýraveiða.  Slík skotpróf eru þreytt hjá viðurkenndum skotfélögum víðsvegar um landið hjá viðurkenndum prófdómurum sem lokið hafa prófdómaranámskeiði.

 

Í júní árið 2013 útskrifuðust fjórir fulltrúar á vegum Skotgrund sem prófdómarar, en það voru þeir Birgir Guðmundsson, Jón Einar Rafnsson, Jón Pétur Pétursson og Unnsteinn Guðmundsson. Sóttu þeir námskeið á vegum Umhverfisstofnunar sem Gunnar Sigurðsson frá Skotfélagi Reykjavíkur sá um og að því loknu gat Skotgrund boðið upp á verkleg skotpróf í fyrsta skipti. 

 

Með þessu vildi Skotgrund koma til móts við þarfir skotmanna á Vesturlandi og sérstaklega með það í huga að auka enn frekar þjónustuna við sína félagsmenn. Er það mikill munur fyrir skotmenn að geta þreytt slíkt skotpróf hér á Snæfellsnesi, svo þeir þurfi ekki að ferðast langar vegalengdir til að sækja prófið.

 

Unnsteinn að undirbúa veiðimann fyrir próf.

 

 

 

 

Gunnar Sigurðsson ásamt strákunum okkar að stilla upp skotskífum.

 

Varðandi skotprófið sjálft þá hefur það tvennan tilgang.  Annars vegar að kanna hvort viðkomandi búi yfir þeirri hittni sem krafist er og hins vegar að kanna hvort viðkomandi kunni að meðhöndla skotvopn á ábyrgan hátt.  Skotið er á 100 m færi og skjóta skal fimm skotum á innan við fimm mínútum.  Öll skotin eiga að snerta eða hafna innan hrings á skotskífunni sem er 14 sm að þvermáli.

 

Prófdómari kannar hvort að skotvopnaleyfi sé í gildi og hvort að riffillinn og eintaksnúmer hans sé tilgreint á skotvopnaleyfinu.  Ef um lánsvopn sé að ræða þarf að framvísa lánsheimild sem er í gildi.  Prófdómari skoðar riffilinn og skotfærin sem ætlunin er að nota.  Ef veiðimaður hyggst nota hjálpartæki (bakpoka, ól, staf eða tvífót) þarf að sýna prófdómara hvað í því felst.  Riffillinn og skotfærin þurfa að uppfylla skilyrði til hreindýraveiða hvað varðar kúlugerð og slagkraft og eingöngu er heimilt að mæta í prófið með þann riffil sem viðkomandi hyggst fara með á hreindýraveiðar.

 

 

Allar nánari upplýsingar um skotprófið má nálgast hér á heimasíðu Skotgrundar undir "tenglar" eða á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

 

 

 


 

 

 

 

 

Skotvopnasýning Skotgrundar

 

Helgina 26. - 28. júlí 2013 var hin árlega bæjarhátíð " Á góðri stund" haldin í Grundarfirði og meðal viðburða var skotvopnasýning Skotgrundar, sem félagsmenn Skotgrundar sem stóðu fyrir.  Til sýnis voru tæplega 40 skotvopn af ýmsum gerðum ásamt öðrum búnaði tengdum skotfimi og veiði.  Tilgangur sýningarinnar var að kynna starfsemi félagsins og ræða við gesti og gangandi um skotvopn á jákvæðum nótum.

 

Sýningin tókst vel til í alla staði og er áætlað að yfir 1.000 manns á öllum aldri hafi séð sýninguna og kynnt sér starfsemi félagsins.  Var ekki annað að sjá en að gestirnir hafi verið ánægðir með sýninguna og fékk félagið mikið lof fyrir. 

 

 

 

 

 

Auk þess að geta fræðst um starfsemi félagsins og skoðað skotvopn bauðst gestum sýningarinnar að taka þátt í léttum getraunarleik, sem fólst í því að giska á hversu mörg tóm skothylki var að finna í hjólbörum félagsins.  Hjólbörurnar höfðu verið fylltar af tómum haglabyssuskotum og fékk sá sem var næstur réttri tölu Mackintosh´s dós að launum.

 

 

 

Úrslitin úr getraunarleiknum voru svo kunngjörð á kvöldvökunni á hátíðarsvæðinu um kvöldið að viðstöddum um 4.000 manns.  Alls tóku 135 manns þátt í getrauninni og var það Laufey Lilja Ágústsdóttir frá Grundarfirði sem hlaut verðlaunin og var hún kölluð upp á svið til að veita þeim viðtöku.

 

 

 


 

 

 

Nýr lóðarleigusamningur - lenging á rifflbraut

 

Þann 27. september 2013 var undirritaður nýr leigusamningur á milli Skotgrundar og Grundarfjarðarbæjar, sem varðar leigu á landsvæði fyrir skotæfingasvæði í Hrafnkelsstaðabotni í Kolgrafafirði.  Nýi samningurinn er til 15 ára og gildir til 30. september 2028.  Með nýja samningnum fékk Skotgrund til afnota stærra landsvæði til skotæfinga þar sem æfingasvæðið var lengt úr 450 m í 1.000 m. 

 

Riffilsvæði Skotgrundar á góðum degi.

 

 

 

Æfingasvæði Skotgrundar var á sínum tíma, í sameiningu við sveitarstjórn, bændur o.fl. valinn góður staður og er eitt það besta hér á landi frá náttúrunnar hendi. Æfingasvæðið er í rísandi landslagi og býður upp á mikla möguleika til áframhaldandi uppbygginar. 

 

Með nýja lóðarleigusamningnum fékk Skotgrund til afnota 82.500m2 til viðbótar við þá 67.500m2 sem félagið var með, eða samtals 150.000m2.  Það gerir félaginu kleift að tryggja öryggi enn frekar á svæðinu og bæta aðstöðu skotáhugamanna til skotæfinga enn frekar.

 

 

Yfirlitsmynd af æfingasvæði Skotgrundar eftir lenginu á riffilbrautinni.

 

 

 


 

 

 

 

Nafnabreyting á félaginu

 

Á aðalfundi félagsins þann 8. maí 2014 var samþykkt samhljóða að nafni félagsins yrði breytt öðru sinni í sögu félagsins.  Var nafninu að þessu sinni breytt í "Skotgrund - Skotfélag Snæfellsness".

 

Margt hefur breyst frá því að félagið var stofnað og ekki síst samgöngur.  Með bættum samgöngum hefur orðið meira samstarf milli sveitarfélaga og félgsmenn Skotgrundar koma nú víða að.  Því þótti tímabært að breyta nafni félagsins.