Verklegt skotpróf fyrir hreindýrSamkvæmt reglugerð sem tók gildi árið 2012 ber hreindýraveiðimönnum að standast verklegt skotpróf áður en haldið er til hreindýraveiða.  Slík skotpróf eru þreytt hjá viðurkenndum skotfélögum víðsvegar um landið hjá viðurkenndum prófdómurum sem lokið hafa prófdómaranámskeiði.

Í júní árið 2013 útskrifuðust fjórir fulltrúar á vegum Skotgrund sem prófdómarar, en það voru þeir Birgir Guðmundsson, Jón Einar Rafnsson, Jón Pétur Pétursson og Unnsteinn Guðmundsson. Sóttu þeir námskeið á vegum Umhverfisstofnunar sem Gunnar Sigurðsson frá Skotfélagi Reykjavíkur sá um og að því loknu gat Skotgrund boðið upp á verkleg skotpróf í fyrsta skipti. 

Með þessu vildi Skotgrund koma til móts við þarfir skotmanna á vesturlandi og sérstaklega með það í huga að auka enn frekar þjónustuna við sína félagsmenn. Er það mikill munur fyrir skotmenn að geta þreytt slíkt skotpróf hér á Snæfellsnesi, svo þeir þurfi ekki að ferðast langar vegalengdir til að sækja prófið.Unnsteinn að undirbúa veiðimann fyrir próf.
 

 

 

Hafðu samband:

Þeir sem hafa áhuga á að taka próf hjá Skotgrund geta sent tölvupóst á skotgrund@gmail.com eða haft samband við einhvern af eftirtöldum aðilum:


Birgir Guðmundsson             859 9455        Grundarfirði
Jón Einar Rafnsson               862 2721        Snæfellsbæ
Jón Pétur Pétursson              863 1718        Grundarfirði
Unnsteinn Guðmundsson    897 6830        Grundarfirði

 

 

 

 

Við viljum benda skotmönnum á að vera búnir að æfa sig og mæta vel undurbúnir í prófið.  Töluvert hefur verið um fall á landsvísu undanfarin ár og því er ekki sjálfgefið að allt gangi upp í fyrstu tilraun.  Þá er mönnum oft ráðlagt að taka sér hlé og mæta aftur síðar til að reyna aftur við prófið.  Það getur því verið vont að vera á síðustu stundu með að þreyta prófið.  Hægt er að prenta út æfingaskífur hér á heimasíðu félagsins undir "Tenglar".


Framkvæmd prófsins:

Varðandi skotprófið sjálft þá hefur það tvennan tilgang.  Annars vegar að kanna hvort viðkomandi búi yfir þeirri hittni sem krafist er og hins vegar að kanna hvort viðkomandi kunni að meðhöndla skotvopn á ábyrgan hátt.  Skotið er á 100 m færi og skjóta skal fimm skotum á innan við fimm mínútum.  Öll skotin eiga að snerta eða hafna innan hrings á skotskífunni sem er 14 sm að þvermáli.

Prófdómari kannar hvort að skotvopnaleyfi sé í gildi og hvort að riffillinn og eintaksnúmer hans sé tilgreint á skotvopnaleyfinu.  Ef um lánsvopn sé að ræða þarf að framvísa lánsheimild sem er í gildi.  Prófdómari skoðar riffilinn og skotfærin sem ætlunin er að nota.  Ef veiðimaður hyggst nota hjálpartæki (bakpoka, ól, staf eða tvífót) þarf að sýna prófdómara hvað í því felst.  Riffillinn og skotfærin þurfa að uppfylla skilyrði til hreindýraveiða hvað varðar kúlugerð og slagkraft og eingöngu er heimilt að mæta í prófið með þann riffil sem viðkomandi hyggst fara með á hreindýraveiðar.

Nánari upplýsingar um skotprófið og framkvæmd þess má nálgast hér á heimasíðu Skotgrundar undir tenglar eða á heimasíðu Umhverfisstofnunar.